Samtök sjávarútvegssveitarfélaga eru samtök sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar. Tilgangur samtakanna er m.a. að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í öllum málum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar í veiðum og vinnslu. Stjórn samtakanna fundaði 3. febrúar þar sem ályktað var eftirfarandi:
Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem komin er upp í sveitarfélögum allt í kringum landið í tengslum við verkfall sjómanna. Verkfallið hefur nú staðið í u.þ.b tvo mánuði og er farið að hafa mikil áhrif sem ekki einungis ná til samningsaðila, heldur einnig stöðu landverkafólks og þeirra sem vinna óbein störf í sjávarútvegi og eru ekki aðilar að kjarasamningi sjómanna og útgerðarmanna. Í jafn mikilvægri atvinnugrein og sjávarútvegi, er ábyrgð aðila mikil. Ljóst er að staðan er þegar orðin alvarleg í mörgum sjávarútvegssveitarfélögum og stefnir í óefni að óbreyttu.
Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga hvetur samningsaðila og ríkisstjórn Íslands til að leita allra leiða til að liðka fyrir lausn málsins, þannig að koma megi í veg fyrir frekara tekjutap þjóðarbúsins í heild sinni.
Nú er rétt vika liðin frá því ofanrituð bókun var gerð og enn eru samningsaðilar engu nær varðandi lausn deilunnar. Áhrifin eru víðtæk og alvarleg allt í kringum landið og nú er svo komið að einstök sveitarfélög þurfa á fyrirgreiðslu að halda til að standa við skuldbindingar sínar um næstu mánaðarmót
Bæði fjármálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa lýst því yfir að ekki standi til að ríkið hafi afskipti af kjaradeilu sjómanna. Fjármálaráðherra upplýsti, aðspurður um mögulegan skattaafslátt á fæðis- og dagpeninga sjómanna (Austurland 3. tbl. 6. árg. 2017 bls. 4) að: „...þorri Íslendinga myndi vilja sjá þeim varið til uppbyggingar í heilsugæslunni eða menntakerfinu heldur en að ríkisstyrkja fyrirtæki sem hafa verið að skila tugmilljarða arði á síðustu árum.“ Gott og vel.
Vandinn er hins vegar sá að öflugar útgerðir er ekki eini aðili þessa máls. Minni útgerðir og sjávarbyggðir um land allt, sem nú þegar standa margar höllum fæti, eru í hættu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur enda: „...mestar áhyggjur af hinum dreifðu byggðum landsins... það er ljóst að tjónið er að verða mikið. Bæði úti á landi og, já, á meðal minni útgerða.“ (mbl.is 10. febrúar 2017).
Í nýútkominni skýrslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að 2.600 starfsmenn í fiskvinnslu hafi orðið fyrir tekjuskerðingu, 312 milljónir hafi verið greiddar í atvinnuleysisbætur, tekjutap ríkissjóðs er 2,5 milljarðar og tekjutap sveitarfélaga er 1 milljarður.
Það er ekki í boði að stjórnvöld sitji lengur hjá.