Af þeirri hógværð sem jafnan einkennir forsvarsmenn útgerðar í landinu birti núverandi framkvæmdastjóri SFS grein í blaði þeirra (Morgunblaðinu) fyrir skömmu og sakar skattyfirvöld um að fara ekki að lögum. Opinberum stofnunum er óhægt að bregðast við ásökunum einkum þeim sem byggðar eru á rökleysu, rangfærslum og Trumpisma í meðferð staðreynda. Sem fyrrverandi starfsmaður þeirrar stofnunar sem í hlut á hef ég óbundnar hendur og leyfi mér því að leiðrétta framkvæmdastjórann og upplýsa hann og aðra um þær lagareglur sem um efnið gilda.
Hefði framkvæmdastjórinn leitað sér upplýsinga hjá lögfræðingi með þekkingu á skattalögum vissi hann að sú regla gildir að allar greiðslur vinnuveitanda til launþega fyrir störf eru laun í skilningi skattalaganna hvort sem þær kallast laun, fæðisfé, verkfærapeningar, fatapeningar, dagpeningar bílastyrkur eða eitthvað annað. Launagreiðandinn getur þannig ekki haft áhrif á skattstofn launþegans með því að nefna gagngjald fyrir vinnu annað en laun. Eins skiptir það engu máli hvort laun eru greidd í fé eða fríðu svo sem bílaafnotum, húsnæði, fæði o.frv.
Auk launa í framangreindum skilningi fellur á vinnuveitandann ýmis kostnaður sem tengist starfsmönnum og telst frádráttarbær rekstrarkostnaður, þ.e. kostnaður sem er nauðsynlegur til að afla tekna með starfseminni. Getur hann verið bundinn í kjarasamningi eða tilkominn að ákvörðun vinnuveitandans um hvað telst nauðsynlegt og hagkvæmt fyrir reksturinn. Á það t.d. við um aðstöðu á vinnustað svo sem rekstur mötuneytis, flutninga starfsmanna, ferðakostnað starfsmanna í erindum fyrir vinnuveitanda o.fl.
Komi til þess að launþegi með samþykki vinnuveitanda leggi út fyrir slíkum kostnaði, t.d. kaupi farmiða, gistingu eða fæði vegna vinnuferðar á hann rétt á því að vinnuveitandinn endurgreiði honum þennan kostnað gegn framvísun reiknings. Launþeginn er þannig skaðlaus og vinnuveitandinn hefur greiðsluskjöl í bókhaldi sínu. Nú kann vera að þannig hafi samist um á milli launagreiðanda og launþega að sá síðarnefndi fái sérstaka launagreiðslu gegn því að hann greiði sjálfu tiltekinn kostnað launagreiðandans og endurkræfi hann ekki. Getur t.d. verið um að ræða gistikostnað og fæði í ferðum á vegum vinnuveitanda eða afnot af bíl launþegans í þágu starfsins. Á launþeginn þá rétt á að fá hinn útlagða kostnað dreginn frá þeirri sérstöku launagreiðslu sem hann fékk af þessum ástæðum. Frádrátturinn er miðaður við sannanlegan útlagðan kostnað að hámarki til sú greiðsla sem hann fékk frá vinnuveitanda sínum í þessum tilgangi.
Skattyfirvöld leggja mikla áherslu á greiða og einfalda framkvæmd og hafa í þessu efni sett framkvæmdareglur sem einfalda skattalegt uppgjör á kostnaði við ferðir launþega á vegum vinnuveitanda, afnot af bifreiðum í starfi o.fl. Með þeim eru launþegar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, leystir undan þeirri kvöð að leggja fram reikninga fyrir útlögðum kostnaði. Þeir verða hins vegar að gera grein fyrir einstökum ferðum og fjárhæðirnar til frádráttar eru staðlaðar og miðaðar við opinbert mat á viðkomandi kostnaðarliðum. Skattyfirvöld geta krafist nánari upplýsinga frá launagreiðendum og launþegum þyki tilefni til þess.
Þessar reglur eru eins fyrir alla hvort sem um er að ræða opinbera starfsmenn eða starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Þetta eru framkvæmdareglur og skapa sem slíkar engan rétt sem ekki er til staðar á grundvelli efnisreglna laganna sem útlistaðar voru hér að framan. Á það m.a. við um það meginatriði að launþeginn verður að hafa lagt út fyrir kostnaði sem vinnuveitandanum ber að greiða. Þeir sem ekki vilja nota þessar framkvæmdareglur eiga að sjálfsögðu rétt á að fá útlagðan kostnað endurgreiddan hjá vinnuveitanda í stað þess að fá dagpeninga eða ferðafé eða leggja fram reikninga fyrir útlögðum kostnaði hjá skattyfirvöldum.
Tilefnið til þessar útlistunar á þeim einföldu og rökréttu reglum sem gilda um frádrátt hjá launþega á útlögðum kostnaði fyrir vinnuveitanda er að hún afhjúpar þann moðreyk sem framkvæmdastjóri SFS þyrlar upp til að hylja kröfur um ríkisstyrk. Engin þeirra fullyrðinga sem fram koma í grein hans stenst skoðun.
Í fyrsta lagi er fullyrt að árið 2009 hafi orðið breyting á skattlagningu fæðispeninga sjómanna. Það er rangt. Sjómannaafsláttur, áður mismunandi frádráttarliðir, kom til löngu áður en fæðispeningar voru teknir upp og voru þeir óháðir honum. Fæðispeningar eru yfirleitt greiddir launþegum þegar kjarasamningar kveða á um aðgang að mötuneyti á vinnustað en það er af einhverjum ástæðum ekki fyrir hendi. Hjá sjómönnum virðast fæðispeningar greiddir þótt mötuneyti sé til staðar en eins og áður er sagt skiptir það engu í skattalegu tilliti hvaða nafn launagreiðendur kjósa að kalla þau laun sem þeir greiða. Fæðispeningar sjómanna eins og annarra launþega eru hluti skattskyldra launa. Það sem skattalega skiptir máli um fæði er hvort og hve mikið launþeginn greiðir fyrir fæðið hjá launagreiðanda. Nái það ekki tilteknu marki, sem sett er í reglum Ríkisskattstjóra, telst það sem á vantar vera skattskyld hlunnindi. Í framhaldi af þessu fabúlerar framkvæmdastjórinn um að ríkið hirði fæðispeninga og að í skattlagningu þessa hluta launa felist “óskynsemi og ójafnræði” án þess að færa að því nokkur rök. Í þessu efni er enginn munur á starfsstéttum. Fæðispeningar eru ætíð hluti skattskyldra launa og kostnaður launþega vegna matar á vinnustað er aldrei frádráttarbær.
Í öðru lagi byggir framkvæmdastjórinn málflutning sinn á einkennilegri túlkun á tilteknu ákvæði tekjuskattslaganna þegar hann fullyrðir að heimild til að draga frá kostnað á móti dagpeningum sé ætluð til að standa undir kostnaði starfsmanns vegna fjarveru frá heimili. Hið rétta er að heimildin er vegna kostnaðar sem launagreiðanda ber að greiða en launþeginn hefur lagt út fyrir í stað þess að launagreiðandinn greiði þennan kostnað beint. Meðal raka fyrir þessu fyrirkomulagi er að á ferðalögum hafi starfsmenn ekki aðgang að umsömdum hluta kjara sinna svo sem mötuneyti á föstum vinnustað.
Í þriðja lagi gerir framkvæmdastjórinn sér lítið fyrir og þurrkar út af borðinu áratugalanga skattframkvæmd um dagpeninga og ótal úrskurði yfirskattanefndar og dómstóla um hana. Það gerir hann án þess að víkja orði að lagareglunum sjálfum og inntaki þeirra en byggir málflutning sinn eingöngu á eigin túlkun á orðinu ¨tilfallandi¨ í matsreglum Ríkisskattstjóra. Hvaða túlkun svo sem beitt er breyta matsreglur ekki lögunum auk þess sem framkvæmdastjórinn heimfærir reglur þessar ranglega upp á fæðispeninga sem eru, eins og að framan greinir, alls annars eðlis en dagpeningar.
Að lokum reynir framkvæmdastjórinn að blekkja með því að fullyrða að ríkisstarfsmenn njóti þeirra sérstöku kjara að fæðiskostnaður þeirra sé frádráttarbær frá skatti. (Þessi fullyrðing hefur síðan verið endurtekin í viðtölum í fjölmiðlum.) Hið rétta er að engar sérreglur gilda um ríkisstarfsmenn í þessum efnum. Reglur um heimild til frádráttar á móti dagpeningum eru hinar sömu hver sem í hlut á, ríkisstarfsmaður, launþegi á almennum vinnumarkaði og sjómaður. Í öllum tilvikum þarf að fara eftir þeim efnisreglum sem við eiga og þau skilyrði sem sett eru með þeim verða að vera uppfyllt.
Framkvæmdastjóranum finnst það miður og kallar það dylgjur að bent er á að þessar kröfur útgerðarinnar feli í sér niðurgreiðslu á útgerðarkostnaði. Það að kallaða hlutina hreint út sínu rétta nafni er ekki dylgjur. Skattalegar ívilnanir til einstakra hópa eða fyrirtækja eru ætíð niðurgreiðsla á kostnaði við starfsemina, skattfé almennings er þá notað til að greiða niður kostnað við atvinnurekstur. Að segja þetta umbúðalaust heitir á máli framkvæmdastjórans “að hafa allt á hornum sér gagnvart íslenskum sjávarútvegi.” Ég held að þar skjóti framkvæmdastjórinn illa yfir markið. Flestir, þar með taldir þeir sem nefna þessa hluti réttum nöfnum, meta íslenska sjávarútveg mikils. Þeir eiga hins vegar erfitt með að sætta sig við það að þeir sem hafa fengið einkaleyfi á því að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar og stinga þegar nær öllum arði af henni í eigin vasa, vilji nú einnig láta þjóðina taki þátt í að greiða kostnað við starfsemi sína.
Sem betur fer hefur sjávarútvegur á Íslandi gengið vel á síðustu árum, ekki síst vegna góðrar stjórnar á fiskveiðum, gengis krónunnar og hagfelldrar stöðu á fiskmörkuðum. Auðlindarentan þ.e. hagnaður umfram allan tilkostnað þ.m.t. fjárfestingar- og fjármagnskostnað (vexti, arð) hefur allt frá hruni verið um og yfir 40 milljarðar króna á ári. Þar af hafa jafnan yfir 80% runnið til sjávarútvegsfyrirtækja sem umframhagnaður en þjóðin sem eigandi auðlindarinnar og sá sem á réttmætt tilkall til þessarar rentu hefur fengið í sinn hlut mest um 20% hennar í formi veiðigjalda. Framkvæmdastjórinn ætti e.t.v. að benda umbjóðendum sínum á þessar staðreyndir og hvetja þá til sátta við sjómenn í stað þess að að etja þeim á aðra með rökleysum og hjáreyndum.