Á þingfundi var til umræðu valdníðsla forsætis- og fyrrum fjármálaráðherra, þegar hann stakk undir stól mikilvægum skýrslum fyrir kosningar til þess að losna við óþægilegar staðreyndir. Þar kom meðal annars fram að 10% þeirra sem fengu aðréttingu (oft nefnd leiðrétting), fengu 30% fjárins í sinn hlut. Þá viðurkenndi ráðherrann að þessi stórkostlega fjármálaaðgerð hafi aldrei verið hugsuð til jöfnunar. Það var með öðrum orðum alltaf stefnt á, að þeir auðugustu fengju mest, þeir sem skulduðu mest fengu mest án tillits til eignastöðu að öðru leyti.
Lofað hafði verið í kosningum að verja 300 milljörðum til þessara atkvæðakaupa, sem taka átti af einhverjum hrægömmum, sem seinna kom í ljós að hefði allt eins getað verið fyrrverandi forsætisráðherra ásamt vinum hans á Tortóla.
Þessi upphæð varð aldrei meiri en 72 milljarðar, sem betur fer og greidd úr ríkissjóði. Kostnaðinum við þessa aðgerð var síðan dreift á banka og reikna má með að þessi atkvæðakaup hafi leitt af sér allt að 1% vaxtahækkun fyrir allan almenning í landinu. Þar kemur aðréttingin harðast niður á þeim tekjuminni, Þeir berjast í bökkum, þeir missa eignir. Af þessu botnlausa misrétti virðast þeir sem berjast gegn verðtryggingu, ekki hafa heyrt, þessari tvöföldu árás á þá efnaminni.
Raunar er vaxtastefna ríkisbankanna með þeim hætti að vaxtaokrið hefur nánast aldrei verið verra, sem stafar auðvitað af þeirri fákeppni sem landlæga er í íslensku efnahagslífi. Þeir ríku taka það sem þér vilja og enginn virðist gera neitt í málinu.
Höfundur er lektor í hagfræði.