Hann var látinn þegar hann fannst í kjallaranum. Það var partí uppi og stóð frekar illa á. Enginn nennti að standa í veseni. Þess vegna var honum einfaldlega stungið í kistuna. Hann var í vinnugalla. Á brjóstvasanum stóð snjáðum stöfum eitthvað um Frelsi, jafnrétti og bræðralag.
Mörgum fannst reyndar að kallinn í kistunni hafi risið upp frá dauðum. Eins og gengur. Partígestunum fannst þeir kannast við ókunnuga manninn í jakkafötunum, sléttan og strokinn. Hann minglaði mest með hinum jakkalökkunum. Á vasaklút í brjóstvasanum stóð eitthvað um frjálshyggju, forréttindi og frændhygli.
Við vitum öll af karlinum í kistunni. Við kíktum síðast á hann um árið 2011.
Þá var reiknivél velferðarráðuneytisins sett í gang. Þá kom í ljós að lágmarkslaun í landinu duga ekki fyrir sómasamlegri framfærslu. Lægstu laun í landinu eru nú um 250.000 kr brúttó á mánuði.
Samkvæmt dæmigerðum neysluviðmiðum þarf einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu um 223.000 kr á mánuði . Vel að merkja fyrir utan húsnæðiskostnað, til að lifa sómasamlegu lífi. Samkvæmt þessu duga lágmarkslaun nokkurn veginn fyrir fæði og klæðum, en ekki húsnæði.
Eftir þessa „uppgötvun“ lokuðum við einfaldlega frystikistunni.
Nú stíga málsmetandi menn á stokk, einn af öðrum. Þeir segja húsnæði orðið að munaði hinna efnameiri. Íslenska Macdonalds-væðingin er á því stigi að vel menntað fólk í fleiri en einni vinnu er ókleyft að eignast eða leigja venjulega blokkaríbúð.
Eigum við sem tuðum í fjölmiðlum um húsnæðismál etv. frekar að fara að ranta um launamál?
Á síðasta kjörtímabili var öllu snúið við út af forsendubresti þeirra sem áttu fasteign. Í núverandi og síversnandi ástandi húsnæðismála er hins vegar ekkert í orðabókinni sem heitir forsendubrestur.
Hvað er það annað en forsendubrestur þegar venjulegt fólk getur hvorki leigt eða keypt venjulegar íbúðir? Þegar húsnæðis og leigumarkaður er einfaldlega að lokast fyrir nýliðun, alveg eins og hjá „Generation rent“ í Englandi?
Hvað er það annað en forsendubrestur þegar stjórnvöld eru áhugasamari um að einkavæða hagnað af áfengissölu og flagga í myrkri, en að koma almenningi í húsaskjól?
Þegar stórmál á borð við þetta er ekki kosningamál, og ekki staf um það að finna í stjórnarsáttmála?
Nú hlýtur næsta stoppistöð hjá ASÍ og BSRB að vera Austurvöllur.
Því forsendubresturinn er fullkominn.