Ein ástæða þess að umræðan um áfengisfrumvarpið hefur orðið jafn tilfinningaheit og raun ber vitni er að deilan snertir á tveim grundvallarhugmyndum um tengsl mannsins við umheiminn. Er maðurinn að mestu aðskilinn umhverfi sínu og áhrifum frá því, best til fallinn að hugsa um og taka ábyrgð á eigin skinni og láta aðra um vandamál sem koma upp fyrir utan hann, í heimi sem er aðskilinn eigin hagsmunum og líkama? Eða, eins og ég ætla að halda fram með þessari grein, er maðurinn afleiðing og hluti af flóknum víxlsamböndum þar sem ómögulegt er að segja hvar einstaklingurinn byrjar og umhverfið endar og því ekkert til sem heitir raunverulegt frelsi einstaklingsins því við erum í grunninn ekki aðskilinn umhverfi okkar?
Mér finnst nefnilega að í umræðunni um þetta mikilvæga mál hafi borið á skorti á skilningi á þætti umhverfisins í að móta mannlega hegðun. Sérstaklega hefur vakið athygli mína hversu mikið stuðningsmenn áfengisfrumvarpsins vanmeta áhrif umhverfisins. Að halda á lofti fána frelsisins í þessu máli felur nefnilega óhjákvæmilega í sér ákveðna fullyrðingu um eðli tengsla mannsins við umhverfi sitt, þ.e.a.s. að maðurinn sé tiltölulega óháður umhverfi sínu. En stenst það skoðun?
Boðberar frelsisins, að þessu sinni þeir sem vilja leyfa sölu áfengis í matvörubúðum og grænt ljós á áfengisauglýsingar, vilja meina að slík breyting á áfengislöggjöfinni hefði nú engin veruleg áhrif og þannig eru þeir með öðrum orðum að segja að umhverfið hafi ekki svo mikil áhrif. Alkóhólistar verða áfram ánetjaðir efninu hvort sem það er selt í Vínbúð ríkisins eða í Bónus. Fylgismenn frumvarpsins þakka svo kaldhæðnislega fyrir umhyggjuna í andstæðingum frumvarpsins (til dæmis öll heilbrigðisstéttin) og minnir það óneitanlega á hunsun unglings (sjáið augun ranghvolfast) á umhyggju móður sinnar sem segir barni sínu að áfengi eða nammi sé óhollt. En sennilega er meira til í fortölum mömmu gömlu en unglingurinn vill sjá en helstu rannsóknarstofnanir í heiminum telja að áfengi hafi áhrif á yfir 200 sjúkdóma og heilsutjón og þar fremst í flokki eru áfengisánetjun, skorpulifur, og krabbamein. Að auki má rekja 5,9% dauðsfalla um allan heim til áfengisneyslu (tölur frá 2012). Ótalin eru svo þau neikvæðu áhrif sem slíkt heilsutjón og dauði hefur á nánustu fjölskyldu og vini og samfélagið í heild sinni. Þannig er drykkja ekki eitthvað sem gerist bara fyrir innan húðina á hverjum og einum. Mamma gamla er með vísindin á bak við sig og skilur að frelsi eins er ánauð annars. Tölurnar um skaðsemi áfengis tala sínu máli.
En skiptir meira aðgengi einhverju máli? Þar eru tölurnar líka nokkuð óyggjandi og sýna að því meiri aðgangur sem er að áfengi því meiri verður neyslan og því meiri verður skaðinn fyrir samfélagið. Bæði landlæknir og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafa bent á rannsóknir sem sýna þetta svart á hvítu. Allt hefur áhrif.
Það sem syrgir mig mest í málflutningi stuðningsmanna frumvarpsins er hversu ótengdan þeir skynja heiminn. Eins og að umhverfi okkar hafi nú bara eiginlega engin áhrif á okkur. Alkóhólistar verða bara alkóhólistar. Ábyrgðin liggur hjá einstaklingnum og hvernig við ákveðum að meðhöndla áfengi í samfélaginu hefur engin sérstök áhrif. Þetta viðhorf er mjög í hag þeirra fyrirtækja sem selja og markaðssetja vörur sem búið er að sýna fram á að eru skaðlegar heilsu fólks eins og tóbak, áfengi, sykur og unnar kjötvörur. Þessi „hugmyndahernaður” er nýttur óspart af matvælaiðnaðinum eins og þegar formaður Coca Cola mótmælir sykurskatti með því að segja: „Fólk þarf að hreyfa sig meira og taka meiri ábyrgð á mataræði sínu”. Offitufaraldurinn er með öðrum orðum lötu og ábyrgðarlausu fólki að kenna. Látum einstaklingana bera ábyrgðina svo fyrirtækin geti haldið áfram að hagnast.
Þetta viðhorf um að það sé einungis einstaklingurinn sjálfur sem beri ábyrgð á hegðun sinni er gott dæmi um það sem í félagssálfræði er kallað Fundemental Attribution Error þar sem fólk hefur tilhneigingu til að skýra hegðun annara frekar með vísun í einstaklingsbundna þætti („hann er alkóhólisti”) heldur en að vísa í þætti í umhverfinu (aðgengi að áfengi, normalísering á áfengisneyslu). Rannsóknir sýna að þessi skekkja í skýringum á hegðun eru algengari í hinum vestræna heimi en þar er meiri áhersla lögð á sjálfstæði einstaklingsins. Fólk frá Asíu er hins vegar almennt líklegra til að vísa í umhverfið þegar það útskýrir hegðun fólks. Þannig sjáum við til dæmis hvernig menning hefur meira að segja áhrif á hvernig við skynjum heiminn.
Þau eru óteljandi dæmin um hvernig umhverfið ýtir undir ákveðna hegðun eða útkomu, til að mynda þegar kemur að heilsu. Einmanaleiki hefur til dæmis aukist mjög á undanförnum árum og er farið að tala um öld okkar sem „öld einmanaleikans”. Talið er að einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum upplifi stöðugan einmanaleika. Samantekt á rannsóknum sem athuga tengsl milli einmanaleika og dauðsfalla sýndi að félagsleg einangrun eykur líkur á ótímabærum dauða um 26% til 32%. Konur sem fá brjóstakrabbamein eru líklegri til að vera við betri heilsu eftir fjögur ár frá greiningu eftir því hversu marga nána vini þær eiga. Því meiri félagslegur og tilfinningalegur stuðningur, því betri heilsa. Þannig hefur það umhverfi sem skapast hefur með breyttum lifnaðarháttum, til dæmis meiri notkun á samfélagsmiðlum, áhrif á heilsu okkar. Ljóst er að rannsóknir sem þessar eru að gefa til kynna að sjúkdómar snúast ekki bara um sjálfvirk lífeðlisleg ferli sem gerast í afmörkuðum líkömum heldur eru sjúkdómar líka í því umhverfi sem við sköpum.
En þar sem umræðan snýst núna um neyslu á skaðlegum efnum og hvernig umhverfið spilar hlutverk þá skulum við einbeita okkur að neyslumynstrum. Ljóst er til dæmis að umhverfið spilar mikinn þátt í offitufaraldrinum sem nú geisar en margir fræðimenn hafa bent á þátt hins svokallaða „offitu-umhverfis” (e. obesogenic environment) sem felst meðal annars í umhverfi sem ýtir undir kyrrsetu og miklu framboði og aðgengi að ódýrum orkuríkum mat. Algengi offitu í heiminum hefur nánast tvöfaldast á árunum 1980 – 2008 (Alþjóðaheilbrigðisstofnunin) og er ekki lengur vandamál hins vestræna heims því tveir þriðju fólks sem glímir við offitu býr í hinum þróandi heimi. Aukin hnattvæðing og fólksflutningur í borgir með breytingu á lífsstíl og mataræði sem líkist því sem sést í hinum vestræna heimi hafa verið settar fram sem mögulegar skýringar á aukini tíðni offitu í þróunarlöndum sem áður voru með lága tíðni. Á Íslandi er mikil sykurmenning og alls staðar þar sem fólk kemur saman eru sykraðar vörur í boði, hvort sem það eru bensínstöðvar, sundlaugar, kvikmyndahús eða íþróttamiðstöðvar. Við höfum sérstakan nammidag þar sem „æskilegt” er að borða mikið af sælgæti og slíkt boðið á 50% afslætti. Hvaða skilaboð er umhverfið að senda ungu fólki? Einn fimmti Íslendingaer í ofþyngd (BMI≥30) og tíðni áunninnar sykursýki hefur tvöfaldast hjá körlum og aukist um 50% hjá konum á árunum 1967-2007. Þetta er ágætis dæmi um umhverfi sem eykur líkur á ákveðnu neyslumynstri sem hefur skaðleg áhrif á einstaklinginn og samfélagið. Greinilegt er að ekki er hægt að gera lítið úr tengslum á því umhverfi sem við lifum í og hvernig neyslu er háttað.
Félagslegi þátturinn hefur einnig mikið að segja („það eru allir að fá sér”) en rannsókn frá 2007 sýnir að ef þú átt vin sem glímir við offitu ertu 57% líklegri til að vera of feitur, ef það eru systkini eru líkurnar 40% og ef það er maki eru líkurnar 37%. Allt eru þetta dæmi um hversu mikinn þátt umhverfið spilar í neyslu okkar. Það er ekkert til sem heitir hinn einangraði neytandi. Ef vilji er til að ýta undir heilsuaukandi hegðun, sem hefur klárlega ábata fyrir alla, þá þarf að skoða hvernig umhverfi við getum búið til sem eykur líkur á að fólk velji hollari kostinn. Að auka aðgengi að áfengi hefði áhrif í öfuga átt.
En eigum við að taka eitthvað mark á þeim sem starfa innan heilbrigðisgeirans (m.a. þeir sem hjálpa fólki með áfengisfíkn) og vegna starfs síns verða að vera á móti auknu aðgengi vegna neikvæðra heilsufarsáhrifa og þar af leiðandi aukins álags í vinnu? Það má alveg gefa sér að flestir muni ekki veikjast alvarlega þó þeir drekki meira. Það er líka augljóst að ákveðnir hópar eru viðkvæmari en aðrir fyrir breytingum á aðgengi. Þar er til dæmis fólk með áfengisvandamál og fjölskyldur þeirra og fólk sem er óheilbrigt fyrir. En af hverju á að stoppa partýið því að sumir höndla ekki sopann?
Skoðum aðeins í því sambandi hlýnun jarðar sem búið er að sýna fram á að er af mannavöldum. Auðvitað er fólk á Maldíveyjum alveg brjálað yfir áframhaldandi kolefnislosun því jú það er áætlað að eyjan sökkvi í sæ um næstu öld. Og auðvitað vill fólk í Afríku sem býr á þeim svæðum sem viðkvæmust eru fyrir hnatthlýnun stoppa brennslu á jarðefnaeldsneyti. En eigum við nokkuð að taka mark á þeim? Við mannfólkið eigum auðvelt með að leiða hjá okkur atburði sem hafa ekki sjáanleg áhrif á okkar nánasta umhverfi. Þannig getum við látið sem svo að hlutir sem gerast í ákveðinni fjarlægð séu aðskyldir okkur. Þannig minnkum við vanlíðan og látum lífið halda áfram sársaukalaust þó innst inni vitum við að þetta muni koma okkur í koll síðar meir. Maldíveyjar hafa barist fyrir því að þjóðir heimsins dragi verulega úr kolefnislosun til að hægja á hlýnun jarðar en eins og við vitum þá gengur hægt að venja jarðarbúa af olíunni. Ekki hraðar það neitt á ferlinu að flestir jarðarbúar sjá engin áhrif á sitt eigið líf og margir hagnast gríðarlega á áframhaldandi olíu- og kolnotkun. Vandamálið er hins vegar, eins og ég er búinn að vera að reyna að sýna með þessari grein, að umhverfi okkar er ekki aðskilið okkur og það er með hlýnun jarðar eins og margt annað að hún stoppar ekki við landamæraeftirlit. Það verður ef til vill ekki fyrr en Maldíveyjar og Afríka koma til okkar að við teljum tíma á að fara að gera eitthvað. En þá verður of seint að biðja mömmu um hjálp.