Steingrímur J Sigfússon, einn af forystumönnum Vinstri grænna (VG) hefur nú stillt sér upp í gengisfellingarkórinn og krefst þess að ríkisvaldið stemmi stigu við ofrisi krónunnar og talar um 10% gengisfellingu til að forðast einhvern voða sem hann þykist sjá fram undan. Varla getur verið en um stefnu VG sé að ræða í þessum efnum og mikilvægt er því að skilja hvað 10% gengisfelling þýðir í reynd.
Hverjir hagnast og hverjir tapa.
Heildsala og innflytjendur munu græða fyrst í stað en það dregur úr hagnaði þeirra þegar verðbólga sem af gengisfellingunni leiðir hefur dreifst um hagkerfið. En þeir hagnast auðvitað á því að launagreiðslur þeirra munu lækka fram að næstu samningum.
Sama er að segja um útgerðina, þeir hagnast á að hafa tekjur í gjaldeyri en kostnað að mestu í krónum, sérstaklega launakostnað í vinnslu sem er fastur fram að kjarasamningum.
Þá munu ferðamenn hagnast og ferðaþjónustan, sem nýtur lækkunar launa, sem er vaxandi hluti kostnaðar þar. En sú atvinnugrein er að breytast í hálfgerða þrælakistu.
Svo mun ríkissjóður hagnast á verðbólguskattinum sem er 4% ef verðbólga er 8%, það er sú upphæð sem stolið er af launþegum eftir að þeir fá útborgað, úr þeirra eigin vasa.
Smátt og smátt mun vöruverð hækka (á bilinu 5% - 8%) í kjölfar gengisfellingarinnar með tilheyrandi verðbólgu og eini langtíma hagnaður þessara aðila verður lækkun launa. Niðurstaðan er auðvitað sú að forystumenn í VG telja þjóðar vá að almenningur hafi það of gott. Lækka verði laun hið fyrsta.
Þessir talsmenn launalækkana hafa hins vegar ekki sýnt fram á neina erfiðleika í atvinnulífi sem afsaka þessar árásir á almenning.
Þessi afstaða kemur ekki á óvart, VG hefur stutt gjafakvótakerfið og rekstur þess með ráðum og dáð frá upphafi tilveru sinnar og forystumaðurinn Steingrímur hefur verið sérstakur stuðningsmaður útgerðarinnar í stjórnmálum.
Og ekki á maður von á að ASÍ segi múkk og verkalýðsforingjar munu halda áfram að kenna húsnæðiskostnaði um verðbólgu.