Enn og aftur hafa Vestfirðingar fengið á lúðurinn frá stjórnvöldum í sambandi við vega og samgöngumál. Stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að skera niður um 10 milljarða (tíu þúsund milljónir) sem mun koma harkalega niður á landshlutanum (og ekki þeim eina), sem hefur verið afskiptur í þessu tilliti áratugum saman. Þrátt fyrir háværar kröfur um úrbætur. Svo virðist vera sem Reykjavík hlusti bara ekki á Vestfirði.
Þetta í ofanálag við þá staðreynd að hér á landi er engin alvöru byggðastefna í gangi og kvótakerfið hefur farið eins og eldur í sinu um smáar byggðir og skilið eftir sviðna jörð, meðal annars á Vestfjörðum, þar sem fólksfækkun hefur verið umtalsverð og pláss á borð við Ísafjörður, Þingeyri, Flateyri og Hnífsdalur aðeins svipur hjá sjón i atvinnulegu tilliti. Áður fyrr voru þessir staðir með mestu útgerðarplássum landsins.
Nú til Englands: Bretar eru nú að vinna úr þeirri heimskulegu ákvörðun sinni (sem byggð var á stórum hluta á lygum) að ganga út úr Evrópusambandinu, en hún mun að öllum líkindum leiða til þess að Stóra-Bretland (United Kingdom) liðast í sundur. Skotar eru þegar byrjaðir að undirbúa aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstæði og munu að öllum líkindum sækja um aðild að ESB. Enda argir yfir því að þurfa að kyngja ákvörðun sem um 62% þeirra sjálfra var á móti. Þá munu þeir sennilega sækjast eftir nánara sambandi við Norðurlöndin.
Skotar hafa löngum verið mjög fúlir með hlutskipti sitt og gagnrýnt mjög stýringu frá London á sínum málum. Þeir eru því komnir á þá skoðun núna að að þeim farnist best með því að stjórna sér sjálfir. Og að hag þeirra sé mun betur borgið innan ESB en utan þess.
Okkur hér á landi hefur hins vegar verið sagt árum saman að hag okkar sé mun betur borgið utan ESB en ella. Þau öfl sem hafa hagnast á því að við séum utan ESB hafa verið dugleg að mála upp mjög dökka mynd af Evrópu, til dæmis með því að líkja henni (og ESB) við „brennandi hús“ – að evran sé að hrynja og hvað eina. Hins vegar er Evrópa ekki brunnin upp og evran ekki hrunin. Hvers vegna? Jú, sennilega er skýringin sú að innan Evrópu eru sterkir innviðir og lýðræðislegar stofnanir, sem enn sinna skyldum sínum og hafa staðist raunirnar, þó á reyni.
Segjum sem svo að Íslendingar hefðu tekið þá skynsamlegu ákvörðun að klára viðræður við ESB um aðildarsamnings (sem allt benti til að hefði verið okkur hagfelldur) og að þjóðin hefði síðan gengið inn.
Þá hefðu Vestfirðir verið orðnir aðilar að byggðastefnu ESB, sem miðar að því að styrkja og viðhalda veikum byggðum. Þá hefði ESB að öllum líkindum sett 50% mótframlag í vegagerð í fjórðungnum. Og jafnvel hringveginn líka, til að tvöfalda hann (sem er alger nauðsyn). En í staðinn fá Vestfirðingar enn eina tuskuna í andlitið frá Reykjavík. Enn og aftur.
Í samræmi við reynslu annarra þjóða sem hafa gengið inn í ESB þá er einnig líklegt að erlenda fjárfesting myndi aukast hér á landi um allt að 10-15% á ári.
En Íslendingar láta stjórnvöld komast upp með að svíkja hvert loforðið á fætur öðru í Evrópumálum. Og þó svo að nýtt fólk komi inn á þing sem vill gera eitthvað í málinu, þá gerist ekki neitt. Mjög hagfellt fyrir þá sem maka krókinn á utanveru í Íslands í sambandi við ESB.
Niðurstaðan er þessi: Staðan í samgöngumálum á Vestfjörðum mun ekki verða löguð og stjórnvöld munu að öllum líkindum láta málið hjakka í sama farinu. Og Íslendingum verður áfram haldið skíthræddum við allt sem tengist ESB og því að leiða það mál til lykta.
Óskandi væri að Vestfirðir gætu hreinlega lýst yfir sjálfstæði og t.d. tekið þá ákvörðun um að ganga í ESB, ef þeir vildu. Þar fengju þeir þó alvöru byggðaáætlun, en ekki sífelld kjaftshögg frá höfuðborginni.
Það virðist nefnilega vera þannig að landsbyggðin skipti engu máli hjá stjórnvöldum þegar samgöngumál og annað er til umræðu og því miður eins og að rekin sé ákveðin and-byggðarstefna gegn landsbyggðinni.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og situr í stjórn Evrópusamtakanna.