Skipulagning og framkvæmd ferðaþjónustu er flókin auðlindanýting af augljósum ástæðum. Atvinnugreinin grípur inn í fjölmörg svið samfélagsins og styðst við fjölþættar náttúrunytjar. Þar með verðum við að setja henni ýmsar skorður.
Við hvað er þá átt? Náttúrunytjar kalla á náttúruvernd. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum getur tekið við tilteknum fjölda á dag, mánuði eða ári, ef vel á að vera þannig að umhverfið standist álag og sveitarfélagið sem við á geti sinnt helstu þáttum daglegs lífs. Samfélagsálag vegna hraðar þróunar nýrrar, krefjandi atvinnugreinar kallar líka á viðbrögð sem við getum kallað samfélagsvernd. Lítið þorp, t.d. Vík, fær nærri milljón manns í heimsókn á ári. Þar er að mörgu að hyggja svo íbúar, gestir og aðkomufólk í vinnu njóti sín. Þróun ferðaþjónustunnar í efnahagslegu tilliti kallar á varúð og viðspyrnu svo ein, ótrygg atvinnugrein vaxi ekki öllum öðrum langt yfir höfuð og skaði afrakstur landsins í heild. Gleymum heldur ekki að ofurvöxtur einnar atvinnugreinar hefur veruleg ruðningsáhrif á samfélagið. Það má t.d. marka af húsnæðismálum víða í þéttbýli þótt þar komi líka aðrar orsakir við sögu. Gengisþróunin er annað dæmi.
Sjálfbær ferðaþjónusta?
Af þessum sökum og umhyggju fyrir næstu kynslóðum er yfirlýst stefna hins opinbera, jafnt sem annarra, að ferðaþjónustan verði ávallt sjálfbær. Í þessu sambandi merkir stefna bæði markmið og leiðir, ekki bara markmið eins og mikið af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar einkennist af. Við viljum sjálfbæra ferðaþjónustu. Gott og vel. Sjálfbærni er saman sett úr þremur þáttum: Náttúrufarslegum, félagslegum og efnahagslegum, samanber það sem fram kemur hér að framan. Sumir stjórnmálamenn og álitsgjafar, jafnvel fólk í ferðaþjónustu, gleymir þessu nokkuð oft og einblínir á sjálfbærar náttúrunytjar í umræðum um ferðaþjónustu. Nú hefur nýr ráðherra og ný ríkisstjórn tekið við málaflokknum að sínu leyti. Þá er mikilvægt að við höfum góð skil á hugtökum í umræðum um sjálfbærnina, úrbætur í ferðaþjónustunni og endurskoðun á lögum um hana - jafnframt því að móta langtímastefnu. Á það síðastnefnda legg ég þunga áherslu.
Þolmörk, aðgangsstýring og samþætting
Sjálfbærni kallar á stýringu í auðlindanotkun, í ferðaþjónustu líkt og í landbúnaði eða sjávarútvegi - ekki rétt? Atvinnugreinin ferðaþjónusta lýtur ekki öðrum meginreglum en önnur atvinnustarfsemi þar sem bæði náttúruauðlindir, menning og samfélag er undir. Stýringin snýst um að minnsta kosti þrenns konar viðbrögð:
Í fyrsta lagi:
þarf að ræða og ákvarða þolmörk staða, þolmörk landsvæða og að endingu þolmörk landsins - og horfa til allra þátta sjálfbærni. Frekari rannsókna er þörf í greininni en nógu mikið er samt vitað til þess að hefjast handa. Ákvörðun þolmarka er ferli sem opinberir aðilar, sérfræðingar og heimamenn koma að og er til reglulegrar endurskoðunar. Hingað til hefur nær algjörlega skort á umræðu um þolmörk og hugtakið að mestu fjarri allri stefnumótun. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur þolmörk, Vík í Mýrdal hefur þolmörk, Ásbyrgi hefur þolmörk, Reykjavík sömuleiðis og Súgandafjörður líka. Sums staðar er komið þolmörkum í skilningi sjálfbærni en annars staðar er enn mismikið borð fyrir báru.
Í öðru lagi:
Aðgangsstýring í þeim tilgangi að dempa álag og dreifa því fæst ekki nema að hluta með bílastæðagjöldum, gistnáttagjöldum, aðgangseyri að stöðum eða þjóðgörðum - ekki heldur með nauðsynlegum komu- eða brottfarargjöldum. Ástæðan er einföld. Gjöldin verða of lág miðað við háan ferðakostnað til landsins og innanlands. Gjaldtaka er aðeins lítill þáttur aðgangsstýringar þegar á heildina er litið. Gjaldtaka hjálpar til við að lagfæra skemmdir, stýra umferð á vegum og inni á landsvæðum með stígagerð ofl. og kosta ýmsar aðrar úrbætur en hún stýrir ekki fjölgun ferðamanna nema að litlu leyti og hægir ekki svo um munar á vexti í greininni. Fimm hundruð og þúsundkallar duga skammt frammi fyrir hundruð þúsunda króna. Aðgangsstýring felst fyrst og fremst í að framfylgja þolmörkum með ákvörðun um ítölu gesta þar sem hennar er þörf og með því að hafa nægan, menntaðan mannafla sem landverði af tvennum toga. Þá er átt við landverði sem sinna eftirliti og fræðslu og landverði sem hafa lögregluvald („rangers“).
Í þriðja lagi:
Stjórnun og samþætting margra þátta þarf að vera skilvirk. Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur. Henni er ekki ætlað að taka yfir ábyrgð og skyldur stjórnkerfisins eða hagsmunasamtaka. Henni er stjórnað af fjórum, uppteknum ráðherrum og hún mun bara starfa til 2020. Hvað tekur þá við? Það hefði átt að hefja vandaðan undirbúning að stofnun ráðuneytis ferðamála á síðasta kjörtímabili og koma því svo á laggir t.d. við stjórnarskipti. Ástandið í ferðaþjónustunni heilt yfir er ámælisvert að mati mjög margra aðila, hvort sem er í greininni eða utan hennar og gagnrýni á átroðning kemur æ oftar fram meðal ferðamanna. Nú fást 75% útflutningsteknanna úr þessari einu atvinnugrein. Dugar það ekki til víðtækra breytinga í stjórnkerfinu á sem skemmtum tíma?
Hvar eru heildarþolmörkin?
Ef ég skrifa hér og nú að hæfilegur fjöldi ferðamanna - hæfilegur í þágu langflestra - í þágu samfélagsins, fyrirtækja, stofnana og ferðamannanna sjálfra sé 3 til 4 milljónir á ári væri það hrein ágiskun. Viljum við vinna þannig? Treysta á ágiskanir og á óljósa sjálfstýringu eða gríðarlega samkeppni? Viljum við áfram rekast á hindranir, vandamál og öfugþróun þegar stærsta atvinnugreinin er í húfi af því að við stundum ekki ábyrg vinnubrögð við náttúru- og samfélagsnytjar? Sjálfbær ferðaþjónusta í sátt við landsmenn byggir varla á 8-10 milljón ferðamönnum á ári. Eða er það ef til vill ósk okkar? Nefnum við í alvöru enn hærri tölu? Samfélag með örfá hundruð þúsund einstaklingum, allmörgum atvinnugreinum og óviðbúnum innviðum undir milljónaskriðu ferðamanna farnast trúlega ekki vel nema með hóflegum vexti og skynsamlegum, sjálfbærum landsnytjum. Þess vegna er löngu kominn tími til að flýtirinn, óhófið og skortur á lágmarksstýringu víki fyrir sjálfbærum nytjum og hóflegri vernd. Í alvöru á borði; ekki aðeins í orði.
Höfundur er þingmaður VG.