Hugsum okkur eitt augnablik að Íslensk húsnæðispólítík sé stofnun, eða fyrirtæki. Sem var stofnað til að útvega vinnandi fólki öruggt húsaskjól á hóflegu verði. Þá má lýðnum vera ljóst að fyrirtækið er gjaldþrota. Og það fyrir löngu, Í dag má líkja fyrirtækinu við Bílasölu í Breiðholti. Með raðir af nýjum Rolls Royce bifreiðum út á plani.
Tæknilegt gjaldþrot fyrirtækisins opinberaði sig í bankahruninu. Hrunið var í fasa við hefðbundna rússíbanareið á Íslenskum fasteignamarkaði. Á Íslandi fer eignamarkaður frá ökkla í eyra með reglulegu millibili. Ástæðurnar eru innbyggðar kerfisvillur sem ýkja sveiflurnar í báðar áttir. Í niðursveiflum snúast aðgerðir stjórnvalda um að viðhalda viðskiptamódelinu, hvað sem það kostar.
Bílasalan í Breiðholti fær styrk frá stjórnvöldum, af því hún á svo stóra sendingu óselda. Viðskiptavinum eru nú boðnir bílar með eða án bílstjóra. Samgönguáætlun gengur svo út á að almenningur húkki far hjá þeim sem hafa ráð á Rolls Royce.
Made in England, by Thatcher.
Íslensk húsnæðispólítík er Ensk að uppruna, og mætti raunar kalla „Thatcherisma“.
Margaret Thatcher var forsætisráðherra Bretlands á tímabilinu 1979 til 1990. Þríeykið Thatcher, Reagan Bandaríkjaforseti og hagfræðingurinn Milton Friedman voru á þessum árum eins konar efnahagspólitískt svar við Bítlunum, eða álíka vinsælu söngtríói.
Boðskapur þríeykisins var frelsi í markaðsmálum. Frjáls markaður væri fullkomið verkfæri til að útvega alþýðu allt sem hún þarfnaðist. Heilbrigð og frjáls samkeppni sæi um að útvega öllum lífsnauðsynjar á sanngjörnu verði. Hlutverk ríkisins var helst að halda sig til hliðar. Og leyfa lögmálum fræðanna að njóta sín til fullnustu.
Þessar kenningar fengu miklar undirtektir í Englandi. Í kjölfarið hófst svo einkavæðingarferli Thatcher. Það leiddi meðal annars af sér straumhvörf í enskum húsnæðismálum. Enn fremur var járnbrautarkerfið og aðrir innviðir einkavæddir. Þessar aðgerðir kostuðu svo Enska skattgreiðendur svimandi upphæðir þegar fram liðu stundir. Lestarkerfið í Englandi, vöggu járnbrauta heimsins var stórlaskað og orðið hættulegt eftir áratuga viðhaldsleysi einkareksturs.
Fram eftir síðustu öld var rekin umfangsmikil félagsleg húsnæðispólitík á Bretlandseyjum. Leiguhúsnæði í opinberri eigu með hóflega leigu var algengt um allt landið. Þetta stökkbreyttist með stefnu Thatcher. Mikið af þessu húsnæði var selt á tombóluverði. Kaupendur voru yfirleitt efnafólk. Láglaunaðir leigjendur hröktust á vergang. Eftir það átti markaðurinn að útvega öllum ódýrt og hentugt húsnæði. Veruleikinn var allt annar. Þessi hugmyndafræði náði mikilli útbreiðslu í hægribylgjunni sem tröllreið Vesturlöndum á tímabilinu.
Hvergi á byggðu bóli féllu kenningar Thatcher tríósins þó í frjórri jarðveg en á Íslandi. Tríóið eignaðist pólitíska holdgervinga á landinu. Í háblóma Íslensku hægribylgjunnar var salan á félagslegu húsnæði einungis toppurinn á ísjakanum. Lærisveinarnir einkavæddu einnig aldagamlar bankastofnanir. Sem fóru á hausinn eftir örfá ár í einkarekstri.
Einn af hornsteinum Thatcherismans er að allir skuli kaupa og búa í eigin húsnæði. Og ríkið skuli sitja hjá í húsnæðismálum. Thatcher-hugmyndafræðin er nú komin á fertugsaldurinn. Arfleifð hennar er meðal annars húsnæðislausar kynslóðir á tveimur strjálbýlum eyjum með nægu landrými. Englandi og Íslandi. Í Englandi er þessi kynslóð kölluð leigukynslóðin eða „Generation Rent“.
Enska fasteignabólan er nú komin á það stig að níu milljónir enskra leigjenda telja útilokað að verða eigendur húsnæðis um fyrirsjáanlega framtíð.
Það vantar einungis nafnið á Íslensku kynslóðina. Tilvist hennar dylst engum. Kannski má kalla hana „WIN“? Vinnufært fólk á barneignaraldri sem tekur sitt hafurtask um borð í (W)ow, (I)celandair, eða (N)orrænu? Til að geta lifað af launum sínum og komist í húsaskjól?
Ósköpin sem gengu yfir Ísland 2008 eru bein afleiðing nýfrjálshyggjunnar, sem er samofinn Thatcher-trúboðinu í húsnæðismálum. Það er því lyginni líkast að öll hugsun og nálgun í íslenskum húsnæðismálum er byggð á sömu gömlu (góðu?) Thatcher-formúlunni. Ríkið situr hjá, húsnæðismarkaðurinn í heild sinni er færður bönkum og verktökum á silfurfati. Séreignarstefnan er keyrð á fullum „fyrirhruns“ dampi. Hefðbundið ýkt hækkunarferli á íslensku fasteignaverði er komið á fulla ferð.
Ríkisstjórn Íslands er Thatcher í jakkafötum, með alveg sömu áherslur. Holdgervingarnir eru kynslóðaskiptir í nýjum umbúðum. Að öðru leyti er þetta sami grautur í sömu skál. Í húsnæðismálum er klukkan 1980 á Íslandi. Lénsgreifadæmið tekur á sig æ skýrari mynd. Viljum við aftur til miðalda?
Ungt fólk þarf að horfast í augu við að húsnæformúla Thatcher gengur ekki upp. Þessi jafna gengur ekki upp og mun ekki leysa húsnæðisvanda unga fólksins. Ekkert frekar á Íslandi en í Englandi. Hvorki í efnahags eða húsnæðismálum. Berið löndin saman, ferlið er alveg það sama. Viðskiptamódelið er gjaldþrota. Viðurkennum það bara. Því fyrr, því betra, Eftir það er hægt að gera eitthvað í málunum.