Okrið í húsnæðismálunum færist nú í aukana með hverjum degi. Nú eru mjög mikil brögð að þyí að fólki sé sagt upp í því skyni að hægt sé að okra meira á leigunni, og munu mjög margir standa uppi húsnæðislausir um mánaðamótin al þeim sökum. Og þótt mikið sé byggt eru nýju íbúðirnar svo dýrar að þær sliga allt fólk á venjulegu kaupi.
Fyrirsögn þessa pistils birtist í Þjóðviljanum 23. september 1955. Fyrstu tvær málsgreinar hér að ofan eru úr grein sem fylgdi fyrirsögninni á forsíðu blaðsins. Sex áratugum síðar ríkir alveg sama ástand á þessum sama markaði. Úr sömu blaðagrein má einnig endurnýta þessa málsgrein: „Húsnæðisokrið í Reykjavík er beint stefnumál stjórnarflokkanna“.
Í dag er fróðlegt að velta fyrir sér hvað gerðist síðan greinin var skrifuð. Og almennt á hvaða vegferð húsnæðismál landsins eru. Húsnæðismarkaðurinn er í dag jafnvel enn braskvæddari en lýst er í umræddri grein. Og stjórnvöld eru jafn fjarverandi, í sama meðvirknismóki.
Með núverandi áframhaldi er bara tímaspursmál hvenær Walmart-væðing Íslands nær því stigi að húsnæðiskostnaður éti upp 100% af útborguðum launum kennara og annara alþýðustétta. Ísland á heimsmet í hækkunum á fasteignaverði. Sem kemur fram sem bein tekjuskerðing hjá leigjendum.
Þó textinn í upphafi greinarinnar sé yfir sextugt má vel heimfæra hann á stöðu 500 leigjenda í dag. Þeirra sem fylgdu með í kaupunum þegar Leigufélagið Gamma yfirtók eignasafn af íLS í maí 2016. Eina skilyrði ÍLS var að leigan yrði óbreytt í 12 mánuði. Það tímabil endar í maí næstkomandi. Hve margir þurfa að flytja þegar Gamma skrúfar upp leiguna, í boði stjórnvalda?
Í umfjöllun um Íslenska fátækt heyrist frá leigjendum sem eiga ekki fyrir mat upp úr miðjum mánuði. Með núverandi hækkunarhraða styttist í að 300 þúsund króna-fólkið mæti í mæðrastyrksnefnd á útborgunardegi. Þar fá fátækir Íslenskir kennarar ef til vill mjólk og brauð handa börnum sínum. Fyrir náð og miskunn mæðrastyrksnefndar.
Fyrir nokkrum misserum stóð fjölskylduhjálp íslands fyrir átaki í matarúthlutunum. Þekktasti grínleikari landsins bað um framlög til að kaupa fisk. Fyrir fátæk börn á íslandi. Það þarf að biðja um fisk fyrir börn á Íslandi. Sem á ein auðugustu fiskimið veraldar.
Með þessi öfugmæli í huga er kannski ekki svo skrýtið að kennarar lifi við hungurmörk. Á efnahagslegu undraeyjunni. Og standi í Sovéskri biðröð eftir lífsnauðsynjum. Í endalausu húsnæðishraki. Á einum mestu uppgangstíma landsins. Þó verg þjóðarframleiðsla sé á pari við lönd þar sem kennarar geta gengið uppréttir út mánuðinn.
Hvað ber framtíðin í skauti sér? Verður hægt að skrifa pistil um húsnæðismál eftir 60 ár, og nota 60 ára gamla fyrirsögn? Án þess að nokkur taki eftir því?
Af því fyrirsögnin lýsir óbreytanlegu Íslensku náttúrulögmáli?
Sem enginn mannlegur máttur ræður við?