Hallgrímur Guðmundsson hefur haft fyrir því að rýna í afbókanir og kemst að því að þær eru 1500 af þeim tveim milljónum pantana sem væntanlegar eru. Þetta eru því 0,075% og getur varla talist þjóðar vá eða tilefni til stórkarlalegra aðgerða á borð við gengisfellingar, sem leiða til launalækkana allra í landinu.
Aftur á móti kann að vera vandi á höndum. Síðastliðið sumar fór ég austur á Hornafjörður og þar sem félagi minn er mikill íslenskumaður og bókmenntaunnandi var ekki hjá því komist að stoppa á Þórbergssetri. Þar var vistlegt og veggir skreyttir með Esperanto-klausum. Enginn í þjónustuliði var þó mæltur á Íslensku og tékknesk stúlka afgreiddi okkur og vildum við fá ódýrustu máltíð á matseðlinum. Það var þá saltfiskur og kostaði 4.200 krónur máltíðin fyrir einn, en á sama tíma fékkst saltfiskur á 1.600 krónur á Umferðarmiðstöð. Gerðum við það sem Þórbergur hefði gert, fórum.
Á Hornafirði fréttum við af hóteli sem seldi kjötsúpudisk á 5.000 krónur þegar hann kostaði 1.400 krónur í Borgarnesi. Í dag, tæpu ári síðar kostar vatnsflaska 489 krónur í Olís á Selfossi þegar hún kostar 128 krónur í Bónus skammt frá og er framleiðslukostnaður vart yfir 50 kr. Vinur minn fékk tvo erlenda starfsmenn í sólarhring til landsins og tókst með eftirgangsmunum að næla í tveggja manna herbergi, en svo lítið var það að varla var hægt að smokra sér milli rúmanna, nánast gluggalaust. Nóttin kostaði 49.000 krónur í þessum tveggja manna fangaklefa. Svo heyrir maður geggjaðri sögur á hverjum degi, en það sem hér er sagt hef ég sannreynt.
Á sama tíma og þetta gerist hefur neysluverðsvísitala lítið sem ekkert breyst. Á móti þessum sjúklegu tölum vega lækkanir á öðrum, svo sem bílum og eldsneyti, þar sem US$ hefur farið úr 128 krónur niður í 110 krónur, hann hefur lækkað um sem nemur 14%-15%. Og svo tala menn um rosalega styrkingu krónunnar. Auðvitað hefur krónan rokkað eitthvað upp en það skýrir ekki dæmin sem áður eru rakin. Þau bera vott um sjúklegt okur en ekki ofris aumrar myntar.
Auðvitað kalla gjafakvótagreifar og ferðaokrarar á gengisfellingu, vilja að allir landsmenn styðji ruglið með launalækkun. Til eru menn sem líta á gengisfellingar sem kost. Ókostirnir við það meðal eru hins vegar skelfilegir þegar því er beitt æ ofan í æ í 70 ár. Vondum rekstri er haldið gangandi von úr viti, sem ætti að taka úr höndum liðleskja og fá reksturinn dugandi fólki eftir gjaldþrot. Þetta skýrir hvers vegna þjóð með mikla landsframleiðslu er með einna lökustu framleiðni á klukkustund í siðuðum löndum og þar með lágt tímakaup og vinnutíma svipaðan og var fyrir 100 árum annarstaðar.