Fyrir kosningar hrópaði almenningur á uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfisins, menntastofnana, samgöngumannvirkja og annarra innviða. Raunar af þvílíkum krafti að allir flokkar lofuðu að ráðast í þær, næðu þeir kjöri. Það var í raun ósköp eðlilegt, því á síðustu árum, jafnvel eftir að léttast fór fyrir fæti í efnahagslífinu hafa innviðirnir haldið áfram að drabbast niður. Kallað var eftir áformum um að mæta vanda ungs fólks sem ekki á húsnæði og leigjenda. Það herðir stöðugt fastar að þessu fólki i fátæktargildru leigumarkaðarins.
10 október síðastliðin var samþykkt metnaðarfull en þörf samgönguáætlun sem var svo skotin á kaf af starfsstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem fann engar leiðir til að fjármagna hana. Þá stefnu gleyptu ríkisstjórnarflokkarnir Björt framtíð og Viðreisn hráa til að geta hreiðrað um sig í nokkrum ráðuneytum.
Við birtingu stjórnarsáttmálans kom svo í ljós að það átti að hlaupa á frá stóru orðunum sem féllu í kosningabaráttunni, því engin tilraun var gerð til að afla tekna hjá þeim sem aflögufærir voru. Millitekjuþrepið var fellt niður og aðra tekjustofna á ekki nota, s.s. hátekjuskatt, auðlegðarskatt, stigvaxandi fjármagnstekjuskatt og aukin auðlindagjöld af sjávarútvegi og raforku .
Ef það á að takast að endurreisa heilbrigðiskerfið, gera háskólana samkeppnishæfa við samanburðarskóla í nágrannalöndunum, leggja grunn að félagslegum lausnum á húsnæðismarkaði og bæta kjör aldraðra og öryrkja verður að auka tekjur. Það eina sem okkur vantar eru stjórnvöld sem sýna hugrekki og kjark.
Fjármálastefnan
Nú á næstunni fer fram atkvæðagreiðsla á þingi um eitt mikilvægasta þingmál kjörtímabilsins, fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Tvennt vekur einkum athygli við hana.Annars vegar útilokar hún að flokkarnir geti staðið við loforð sín frá því fyrir kosningar og hins vegar teikna minni flokkarnir tveir sig upp sem ósköp venjulegir hægri flokkar. 80 dagar liðnir og gríman hefur ekki aðeins verið felld, heldur hent í ruslagáminn. Það er út af fyrir sig heiðarlegt að gangast loks við sinni pólitík en það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þeir gramsa í gámnum aftur eftir þrjú ár, freista þess að ná henni upp og endurtaka leikinn.
Þessi svik birtast fólki skýrt þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður birt en rammi hennar er sniðinn að fjármálastefnunni og þar kemur í ljós hverjar fjárveitingar verða í einstaka málaflokka. Fjármálaáætlunina á að birta fyrir 1.apríl. Þá verður hulunni endanlega svipt af aprílgabbinu. Það átti aldrei að standa við kosningaloforðin.
Þó að fjármálastefnan sé almennt orðað skjal með mismunandi markmiðum birtist skýrt í henni hvers konar samfélag ríkisstjórnarflokkarnir ætla að byggja á næstu árum: Öllu má fórna svo ekki þurfa að ráðast í frekari skattheimtu.
Fjármálastefnan ætti að vera þannig úr garði gerð að hún rúmi annars vegar þær nauðsynlegu uppbyggingu sem brýnt er að ráðast í og hins vegar ætti hún að vera nægilega sveigjanleg til að gera stjórnvöldum kleift að bregðast við breytingum sem kunna að verða í þjóðarbúskapnum. Reynslan hefur nefnilega kennt okkur Íslendingum að eftir feit ár koma önnur mögur; þessar sveiflur hafa gjarnan verið á sjö til átta ára fresti.
Fjármálastefnan gerir hvorugt.
Það kemur einna skýrast fram í útgjaldareglunni.
Útgjaldareglan
Hún felur í sér að ríkisútgjöld mega ekki vera meira en tiltekið hlutfall af landsframleiðslu. Hlutfall ríkisútgjalda fyrir árið 2017 er áætlað 41% af landsframleiðslu. Við vitum úr fjárlagavinnunni fyrir árið 2017 að útgjöld þurfa að aukast. Hvað ákveður hægri ríkisstjórnin að gera? Samþykkir að útgjöld mega aðeins aukast um 0,5% af landsframleiðslu umfram það sem spár gera ráð fyrir, og þau verði ekki umfram 41,5% af landsframleiðslu á tímabilinu.Það er mjög óskynsamlegt nú þegar vel gengur að styrkja ekki innviðina eftir mögur ár. Svo er það beinlínis hættulegt að festa útgjaldareglu í fjármálastefnu þannig að niðurskurðarhnífurinn verði að fara á loft ef landsframleiðsla dregst saman.
Ekkert gert með athugasemdir fjármálaráðs
Það veldur óneitanlega óhug að ekkert er gert með alvarlegar aðfinnslur fjármálaráðs. Það er þó skipað af fjármálaráðherra, í þessu tilfelli núverandi forsætisráðherra; skipstjóranum á skútunni. Fjármálaráðið á að meta hvort stefnan sé í samræmi við mikilvæg markmið nýrra laga um opinber fjármál sem forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði þunga áherslu á að næðu í gegn. En um ráðið segir á heimasíðu fjármálaráðuneytisins: „Ráðið er sjálfstætt og er því ætlað að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun, sem ríkisstjórn leggur fyrir Alþingi, fylgi þeim grunngildum sem lögin segja að stefnumörkun í opinberum fjármálum skuli byggð á, en þau eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.“Það er skemmst frá því að þessi öryggisventill ríkisstjórnarinnar, fjármálaráðið, setur sérstaklega út á að áðurnefnd útgjaldaregla taki ekki mið af hagsveifluleiðréttingu. Væri það gert er ljóst að áætlaður afgangur af opinberum fjármálum ætti að vera meiri nú þegar vel árar en raun ber vitni. Af umsögn ráðsins er ljóst að afla þarf aukinna tekna núna og auka svigrúm fyrir ríkisútgjöld ef þrengir að. Annars verður velferðarkerfið fórnarlamb niðurskurðar þegar um hægist og stjórnvöld lenda í spennitreyju fjármálastefnunnar.
Stöðvum þessa vitleysu
Þetta er með öllu óásættanlegt og því leggur Samfylkingin það til að útgjaldareglan verði felld brott úr stefnunni þannig að stjórnvöld geti sett sér útgjaldamarkmið á hverju ári þegar fjármálaáætlun er samþykkt.Fjármálastefnan er gríðarlega mikilvægt plagg; þetta er stefna ríkisstjórnarinnar út kjörtímabilið og fjárlög verða að tak mið af henni. Ekki er heimilt að víkja frá henni nema stórkostlegar hamfarir ríða yfir samfélagið eða þjóðarbúið. Þess vegna verða þingmenn stjórnarmeirihlutans að vakna og stöðva þessa vitleysu ríkisstjórnarinnar!
Norræna módelið
Að mati Samfylkingarinnar er þörf á meiri fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfinu og sérstaklega þarf að huga að því að bæta kjör barnafjölskyldna, leigjenda, fyrstu kaupenda húsnæðis, aldraða og öryrkja. Allt of margir í þessum hópum búa við kröpp kjör og fátækt. Lífeyrir og laun þessara hópa eru að hækka minna en húsnæðiskostnaður og það eykur á vandann.Auðvelt er að fjármagna þessi brýnu verkefni með því að auka tekjur ríkisins af auðlindum þjóðarinnar og styrkja jöfnunarhlutverk skattkerfisins.
Farsæl þróun samfélagsins byggist á efnahagslegum stöðugleika. Rétt eins og félagslegum stöðugleika sem er undirstaða þess að hér þróist friðsælt og réttlátt samfélag. Því miður hjó síðasta ríkisstjórn í þann stöðugleika með því að veikja tekjustofna, lækka vaxta- og barnabætur og bregðast ekki við þeim fyrirsjáanlega vanda sem var að skapast á húsnæðismarkaðnum. Ný ríkisstjórn virðist ætla að festa þennan óstöðugleika í sessi.
Ísland er í sóknarfærum til að gera betur, nýta einstakt árferði sem er tilkomið vegna vel heppnaðrar úrvinnslu í efnahagsmálum í kjölfar hrunsins, makrílgöngu og stóraukinna heimsókna ferðamanna . Við erum að upplifa mesta hagvöxt hins vestræna heimshluta. Honum verður að skipta jafnt. Annars verður engin sátt.
Saman getum við byggt upp til framtíðar, friðsælt og kraftmikið samfélag sem væri eftirsóknarvert fyrir framtíðarkynslóðir að búa í. Skynsamlegt væri að byggja það upp á hinu norræna módeli sem kannski er það besta sem veraldarsagan hefur séð.
Það byggir á þremur stoðum; stöðugri efnahagsstjórn, þríhliða vinnumarkaðsmódeli launþega, atvinnurekenda og ríkisins og öflugu velferðarkerfi sem tryggir félagslegan stöðugleika. Því miður hafa ríkisstjórnin ekki næga framsýni til að stefna þangað.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.