Hér var brautin rudd
Þótt velferðarkerfið íslenska hafi á mörgum sviðum aldrei náð sambærilegum þroska og á hinum Norðurlöndunum, einkum Skandinavísku löndunum, og við oftast fremur elt þróunina en rutt brautina, eru þó undantekningar þar á. Þar kemur fæðingarorlofið upp í hugann. Það var framsækin jafnréttishugsun í því á sínum tíma þegar báðum foreldrum var tryggður sjálfstæður og óframseljanlegur réttur til töku fæðingarorlofs. Á mannamáli þýddi þetta að réttindi og skyldur beggja foreldra til að annast um og njóta samvista við barnið voru lagðar til grundvallar og kölluðust á við rétt barnsins til hins sama.
Með þessu móti voru feður kallaðir til þátttöku og dregnir inn í ábyrgð á umönnun ungbarna með kraftmiklum hætti og áhrifin létu ekki á sér standa. Auðvitað skiptu viðhorf hér einnig máli og vaxandi þungi umræðu um jafnréttismál, en til samans leiddi þetta til þess að feður hófu töku fæðingarorlofs í stórauknum mæli. Þegar best lét tóku yfir 90% feðra fæðingarorlof og flestir nýttu sér til fulls a.m.k. sinn sjálfstæða þriggja mánaða rétt. Margir tóku einnig hluta af sameiginlegum eða yfirfæranlegum rétti beggja foreldra.
Hröð þróun fæðingarorlofs hér á árunum um og eftir aldamótin vakti athygli á alþjóðavísu og Ísland varð fyrirmynd. Um jákvæð áhrif þess að jafna aðstöðumun kynjanna á vinnumarkaði þarf ekki að deila, réttur barnsins til samneytis við báða foreldra raungerðist í ríkum mæli og réttindi og skyldur beggja foreldra voru undirstrikuð eins og áður sagði.
En, það sem á vantaði og vantar því miður enn, er að fæðingarorlof hér var aldrei lengt umfram níu mánuði. Þar stóðum við og stöndum enn okkar helstu samanburðarlöndum að baki, þar sem orlofsrétturinn er eitt ár eða meira.
Svo kom Hrunið
En svo kom eitt stykki efnahagshrun og grípa varð til víðtækra og um margt sársaukafullra ráðstafana. Það þurfti jú að slökkva elda, bjarga úr rústunum og endurheimta efnahagslegt sjálfstæði landsins en samtímis halda gangvirki samfélagsins á hreyfingu eins og mögulegt var. Óhjákvæmilegt var að draga úr útgjöldum, einnig ýmsum velferðartengdum, þó almennt væri þeim geira hlíft umfram allt annað. Hér undir fellur fæðingarorlofið. Grunngerð þess var varin, þ.e. orlofið var áfram níu mánuðir sem skiptust í þrjá mánuði móður, þrjá mánuði föðurs og þriggja mánaða sameiginlegan/millifæranlegan rétt. Hámarksgreiðsla eða „þak“, sem áður hafði verið innleitt var hins vegar lækkað verulega til að draga úr kostnaði.
Og þá færumst við nær núinu og því sem við blasir í dag. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem hlaut þetta öfundsverða hlutskipti að taka til í rústum hrunsins og koma Íslandi aftur á lappirnar, ber vissulega fulla ábyrgð á því að hámarksgreiðslurnar voru lækkaðar. En, í því tilviki eins og fleirum, var um hreina og tímabundna neyðarráðstöfun að ræða. Þau fyrirheit voru gefin að um leið og úr rættist og betur áraði yrði skerðingum skilað til baka og gott betur en það. Þá yrði haldið áfram að bæta kerfið, les lengja rétt til fæðingarorlofs, uns það stæðist fyllilega samanburð við það sem best gerðist á norræna/evrópska vísu. Tímasett áætlun þar um var lögfest undir lok kjörtímabilsins 2009-2013, enda Ísland þá þegar að komast út úr mestu erfiðleikunum, ríkisfjármálin komin í jöfnuð, hagvöxtur á þriðja ári og horfur orðnar ágætar.
Nýir herrar skera
En rétt fyrir mitt ár 2013 komu nýir menn, ungir og galvaskir, til forustu í ríkisstjórn. Sem sagt þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson og eitt þeirra fyrsta verk var að slá af fyrirhugaða og lögfesta endureisn og styrkingu fæðingarorlofskerfisins. Og því miður létu þeir ekki þar við sitja því í framhaldinu var tekjustofn fæðingarorlofssjóðs því sem næst helmingaður. Hlutdeild sjóðsins af tryggingagjaldsstofninum, sem hafði verið 1,2%, var færð niður í núverandi 0,65%. Mismuninn hirti ríkissjóður því tryggingagjald í heild var tæpast merkjanlega lækkað þrátt fyrir fallandi atvinnuleysi. Þessi atlaga að fæðingarorlofskerfinu var ekki síður alvarleg en sú að fella lög um lengingu þess úr gildi. Hefði fæðingarorlofssjóður fengið að halda sinni hlutdeild af tryggingargjaldi að mestu eða öllu leyti væri hann fullfær um að mæta útgjöldum í dag bæði vegna hækkunar hámarksgreiðslna, þaksins, og lengingar í eitt ár. Að sama skapi er staðan þannig nú vegna lækkunarinnar að sjóðurinn gengur á eigið fé eftir að þakinu var lyft í 500 þúsund krónur korteri fyrir síðustu kosningar.
Að sjálfsögðu var mikilvægt að lyfta þakinu og þó fyrr hefði verið. Lækkandi hlutfall feðra sem tekur fæðingarorlof og sú staðreynd að hækkandi hlutfall þeirra sem það þó gera fullnýta ekki sinn rétt eru sterk skilaboð í þá átt að greiðsluþakið hafi verið of lágt. En þar með er ekki sagt að einblína eigi á þann þátt einan og ýta öllum áformum um lengingu fæðingarorlofs til hliðar. Annað þarf ekki og á ekki að vera á kostnað hins.
Aftur nýtt fólk við stýrið en áfram beygt til hægri
Og nú er enn komin ný áhöfn í Stjórnarráðið. Stefnan er að vísu meira og minna sú sama og síðast nema heldur hægri sinnaðri. Ekki vantaði fögur orð í aðdraganda kosninga sl. haust um vilja til að efla innviði og auka velferð. Engu að síður reynist metnaðurinn ekki meiri en svo þegar kemur að því að bæta fæðingarorlofskerfið, samanber fjármálaáætlun til fimm ára, að ekki stendur meira til en að lyfta þakinu úr 500 þúsund í 600 þúsund krónur í skrefum einhvern tímann á áætlunartímabilinu. Ekki orð um lengingu fæðingarorlofs þar að finna. Ekki orð um að taka skref til þess að brúa bilið, gjána, milli fæðingarorlofs og leikskóla. Spurningin æpir á alla viðkomandi. Hvenær ef ekki nú og á næstu misserum þegar svona vel árar á að taka hin metnaðarfullu skref?
Áherslur Vinstri grænna
Að mati okkar Vinstri grænna er meira en tímabært að lögfesta metnaðarfulla áætlun um þau skref sem stíga þarf til að ljúka uppbyggingu fæðingarorlofskerfis í fremstu röð á Íslandi. Engan minni metnað eigum við að hafa í þessum efnum. Eða hvenær á að gera það ef ekki nú? Við erum á sjöunda ári samfellds hagvaxtar, verðmætasköpun, landsframleiðsla, er meiri en nokkru sinni fyrr en fæðingartíðni er á hraðri niðurleið og við því þarf að bregðast.
Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang helst Íslandi ekki nógu vel á ungu fólki og flutningsjöfnuðurinn hvað það snertir er neikvæður ár eftir ár. Með öðrum orðum, okkur tekst ekki nógu vel að skapa barnvænt og fjölskylduvænt samfélag og þar á hin óbrúaða gjá milli fæðingaorlofs og inntöku á leikskóla örugglega sinn þátt. Þessa gjá viljum við Vinstri græn brúa og höfum reyndar fengið samþykkt á Alþingi að unnið skuli að því. Lenging fæðingarorlofsins er að sjálfsögðu liður í þessu öllu saman.
Og auðvitað þarf meira til en lengingu eina saman í eitt ár að minnsta kosti. Fæðingarstyrk til þeirra sem ekki njóta réttar í fæðingarorlofskerfinu þarf að hækka verulega og tryggja að allir sem eignast börn njóti réttar annað hvort til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks. Þá er að mati undirritaðs mikilvægara að tryggja nú að lágmarksgreiðsla fæðingarorlofs, gólfið, fylgi lægstu launum og fari í 300 þúsund krónur á næsta ári en að hækka þakið enn frekar. Fimm hundruð þúsund króna þak þýðir jú óskertar greiðslur þar til laun eru komin á sjöunda hundrað þúsund, sbr. 80% regluna. Samhliða lengingu er einnig mikilvægt að auka sveigjanleika til töku þannig að hægt sé að geyma og taka út með hléum einhvern hluta fæðingarorlofs allt til þess að barn kemst á grunnskólaaldur. Foreldrar geti þannig geymt einhvern hluta fæðingarorlofs og nýtt viku eða vikur t.d. þegar barn er í aðlögun á leikskóla og/eða að hefja grunnskólagöngu.
Þá þarf einnig að fara yfir hvort rýmka eigi í vel afmörkuðum tilvikum heimildir til yfirfærslu alls fæðingarorlofs til einstæðra foreldra þegar hinu foreldrinu er ekki til að dreifa í þeim skilningi að aðstæður leyfi skipta töku. Hér þarf þó að stíga mjög varlega til jarðar þannig að bit hins sjálfstæða réttar beggja foreldra í jafnréttiskilningi haldi sér.
Frumvarp Vinstri grænna tilbúið til afgreiðslu – notum færið
Nú vill svo vel til að í velferðarnefnd bíður fullbúið, og nánast fullrannsakað til afgreiðslu, frumvarp okkar Vinstri grænna um lengingu fæðingarlofs í eitt ár. Lögð er til samsvarandi hækkun á hlutdeild fæðingarorlofssjóðs í tryggingargjaldi, án þess að hækka tryggingargjald í heild, til að mæta útgjöldunum. Nú er eðlilegt og lýðræðislegt að reyni á hvar meirihlutavilji Alþingis liggur. Umsagnir um málið eru yfirgnæfandi jákvæðar og er ekki vilji allt sem þarf?
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna og situr í velferðarnefnd Alþingis.