Þegar ég hef verið að útskýra rannsókn mína á framleiðni samanborið við Noreg, þar sem kemur í ljós að við stöndum frændum okkar langt að baki, þá eru nokkur atriði sem rannsókn mín tekur ekki tillit til. Þegar ég set fram mínar tölur þá geri ég ráð fyrir að húsnæði á Íslandi og í Noregi séu fullkomnar staðkvæmdarvörur enda fullnægir húsnæði sömu þörfum þar og hér, það er, sú grunnþörf að hafa þak yfir höfuðið.
Í niðurstöðum mínum vék ég að því hvað það er sem skýrir þennan mikla mun á framleiðni Norðmönnum í hag. Þar bendi ég til að mynda á óstöðugleika í hagkerfinu, mikla starfsmannaveltu, lengd vinnuviku, menntun og færni vinnuafls og síðast en ekki síst, kröfu íslenskra neytenda með tilliti til útlitsfrágangs. Nú hef ég verið iðnaðarmaður í nær 20 ár og hef upplifað margt á þeim tíma. Verkefnin eru annað hvort í ökkla eða eyra sem er mjög slæmt, því að mínu mati er sígandi lukka alltaf best. Þegar það er verkefnaskortur, til að mynda vegna þess að fjárfestingarumhverfi er mun næmara en sjálf hagsveiflan (hærra staðalfrávik), þá fer vinnuafl úr greininni sem alla jafna ætti að vera vinnuafl framtíðarinnar vegna þess að færni næst aðeins með æfingu. Þegar verkefnin eru of mörg og pressa á afhendingu eru líkurnar meiri á að frágangur verði ekki nógu góður og hraðinn verður of mikill. Ef hraði er of mikill þá aukast líkurnar á því vandamál skapist í framtíðinni vegna rakaskemmda eða myglusvepps, vegna þess að ef steypan og múrinn fær ekki sinn æskilega þurkunartíma þá mun rakinn síðar meir leyta út. Þegar hraðinn er of mikill eru líkurnar meiri á því að rakinn verði lokaður inni.
Nú er það þannig að við hagfræðingar erum sífellt tuðandi og með leiðindi eða eins og einn kennari minn sagði, þá er hagfræðin hin döpru fræði. Ég ætla því að halda áfram að tuða eins og enginn sé morgundagurinn og leggja fram nokkrar vangaveltur um hvað það er sem okkur skortir til þess að geta byggt ódýrt. Ég ætla að nefna þrjú mikilvæg atriði sem þarf að uppfylla ef þessar væntingar um ódýrar íbúðir eiga að geta staðist:
Minnka hagsveiflur. Fjármagnskostnaður verktaka er alltof hár og ef það kemur skellur í hagkerfið þá eru það fjárfestingaverkefnin sem stöðvast fyrst. Enginn verktaki getur borgað vexti af lánsfé til uppbyggingar ef það kemur mikill verðbólguskellur. Hár fjármagnskostnaður verktaka kemur einnig í veg fyrir það að verktakar geti byggt upp eigið fé til þess að fjármagna næstu verkefni. Því þurfa þeir að selja íbúðir í miðju byggingarferli til þess að fjármagna verkefnið til lokadags, en þetta dregur verulega úr framleiðni verkefnisins.
Vinnuaflið. Það þarf miklu meiri endurnýjun á vinnuafli í þessari grein. Vinnuaflið er mjög kvikt í þessari atvinnugrein sem segir okkur það að ef það kemur skellur í hagkerfið þá mun vinnuafl sem hingað til hefur fengið þjálfun og starfsreynslu leyta annað. Þetta er kallað spekileki. Viðhorf Íslendinga til iðngreina þarf að breytast. Þeir nemendur sem ekki eru góðir í bóknámi eru oft á tíðum mjög góðir í verknámi. Byggingariðnaður er eitthvað sem samfélagið getur ekki verið án og því þarf ákveðinn hvata til yngri kynslóðarinnar til þess að sækja í iðnnám. Meiri frameiðni hækkar laun í þessari grein svo ég nefni einn hvata. Eins þarf að skoða námið betur og kenna þessum krökkum rekstrar- og/eða verkefnastjórnun. Ég hef nefnilega verið að spyrja nema á vinnustað um námið og hvað það er í náminu sem þau vildu sjá betur gert.
Gæðakröfur neytenda! Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er sú að nú á að spýta í og byggja upp á einhverjum hraða sem ekki hefur þekkst áður í Íslandssögunni. En ef það á að takast þá þarf eitthvað að gefa eftir ef þessi áform eiga að nást. Samkvæmt minni rannsókn þá þurfum við 20% fleiri vinnustundir en Norðmenn að henda upp byggingunnni en við þurfum allt að 80% fleiri vinnustundir við lokafrágang íbúða! Þetta segir okkur samkvæmt hagfræðinni að Norðmenn hafi algera yfirburði á þessu sviði en við höfum hlutfallslega meiri yfirburði í því að henda upp byggingunni. Vandinn liggur því í lokafráganginum. Af hverju er það? Ég hef undanfarið verið að ræða við iðnaðarmenn sem hafa unnið í Noregi og þeir segja að Íslendingar geri mjög miklar kröfur til frágangs innanhúss og þá sérstaklega með tilliti til útlits innandyra. Getum við dregið úr þessum útlitskröfum innandyra? Ef við eigum að geta byggt ódýrt þá verður nefnilega eitthvað að gefa undan, annars munu þessi markmið ekki nást. Þeir iðnaðarmenn sem sjá um þennan lokafrágang hérlendis eru bara of fámennir. Þar liggur aðalvandinn!
Undirritaður hefur undanfarið verið að fjalla um þessa starfsgrein og vekja athygli á því hvað það er sem okkur skortir hér á landi.
Gleðilegt sumar!
Höfundur er iðnaðarmaður og hagfræðingur