Ríkisstjórnin leggur nú áherslu á að hækka gjöld á ferðaþjónustuna án samráðs við greinina. Slíkt samráðsleysi virðist því miður vera orðin viðtekin venja fremur en undantekning þegar kemur að þessari stærstu útflutningsgrein landsins. Þó liggur fyrir fjöldi mála þar sem mikil þörf er á samstarfi og samráði, bæði um starfsumhverfi greinarinnar til framtíðar og úrlausn áskorana sem skynsamlegt væri að ríki og ferðaþjónustuaðilar kæmu sameiginlega að því að leysa. Þar er af mörgu að taka, og nefna má t.d. umhverfi bílaleiga, skipulagsmál vegna uppbyggingar gististaða, samgöngumál á landsbyggðinni og uppbyggingu aðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum. En önnur mál eru ekki í umræðu á hverjum degi en gætu þó hagnast mjög á slíku samráði.
Tækifæri í íslenskri matvælaframleiðslu
Eitt þeirra mála er lambakjötsfjallið. Ég er ákafur áhugamaður um sauðfjárrækt, alinn upp við hana og vil veg hennar sem mestan. En birgðasöfnunin sem nú stendur yfir er ekki skynsamleg. Sagt er að fjallið sé 6.300 tonn, 6,3 milljón kíló, Ef við gefum okkur að að helmingurinn af magninu fari til manneldis eru það rúm 3.150.tonn. Hvert kíló dugar fyrir c.a. 6 manns svo það gerir 18.900.000 máltíðir.
Það eru margar máltíðir hjá lítilli þjóð, en á hverjum degi eru matreiddar og snæddar um 500.000 máltíðir í landinu, þar af fer helmingurinn í maga erlendra ferðamanna. Í þessu ljósi eru þetta bara ekkert of miklar birgðir fram á haustið þegar kemur að næstu slátrun, það eru um 4.000 máltíðir á dag.
Það þarf að koma þessu kjöti í þann búning að veitingamenn þessa lands vilji kaupa það og selja áfram til sinna viðskiptavina.
Nú vilja ráðgjafar bænda flytja út þetta kjöt og fá til þess stuðning en ódýrasta leiðin til þess er að matreiða það ofan í gesti okkar. Þá dugir hins vegar ekki að skella á það 22,5% virðisaukaskatti að vanhugsuðu máli. Slík hækkun hjálpar ekki við markaðssetningu á íslenskri matvælaframleiðslu til erlendra gesta heldur skemmir fyrir henni. Samráð við þá sem raunverulega vinna við að selja máltíðirnar hefði leitt afleiðingarnar berlega í ljós.
Óþarflega strangt umhverfi tímabundins starfsfólks
Annað mál sem nauðsynlega þarf að taka upp í samtali milli ferðaþjónustunnar og ríkisvaldsins eru félags- og lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna. Það er í það minnsta umdeilanlegt hvort nauðsynlegt sé að spyrða 18 ára unglinga strax við stéttarfélög og lífeyrissjóði. Slíkt mætti sem best vera valkvætt en ekki skylda fyrr en að loknu einhverju námi eða til dæmis við 25 ára aldur. Hættan er að slík iðgjöld safnist bara í hítina og þessu unga fólki veitir ekki af aurunum, sérstaklega í því umhverfi sem nú ríkir á leigu- og húsnæðismarkaði.
Erlenda vinnuaflið er svo kapítuli útaf fyrir sig. Hér bunkast til landsins einstaklingar sem flytja hingað lögheimili sitt og fjölga íbúum hinna dreifðu byggða tímabundið. Þau borga líka öll full félagsgjöld í stéttarfélög þó þau noti sjaldnast neitt af þjónustu stéttarfélaganna nema launataxtana. Þau borga líka í lífeyrissjóði og atvinnurekendur mótframlög þó vitað sé að þau fái aldrei krónu af þessu til baka. Hverjar skyldu iðgjaldsgreiðslur útlendinga vera í lífeyriskerfi landsmanna og hvernig fara sjóðirnir með það fé? Það væri áhugavert að fá svör við því.
Það er hægt að leysa ýmsan vanda íslenskrar framleiðslu og þjónustustarfsemi í gegnum þjónustu við erlenda gesti okkar, það verður hins vegar aðeins gert ef stjórnvöld og aðrir viðkomandi aðilar fari að tala við fyrirtæki í greininni og láti af umvöndunum og illa ígrunduðum skoðunum á því hvað greininni sé fyrir bestu. Talið við okkur, ekki um okkur. Af nógu er að taka.
Höfundur er framkvæmdastjóri hjá Reynihlíð hf.