Á veraldarvísu varð súrefnismeðferð algeng frá 1917 og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er súrefni talið til áhrifaríkustu og öruggustu lyfjameðferðar sem um getur. Á Íslandi hefur langtíma súrefnismeðferð verið stunduð í yfir 40 ár. Upphaflega var meðferðin einkum fyrir sjúklinga með langvinna lungnateppu (LLT) á vegum lækna Vífilsstaða sem datt það snjallræði í hug að semja við vinsæla blómaverslun um að koma súrefninu til skjólstæðinga spítalans enda sendi verslunin blóm út um allt og munaði því ekki mikið um að skutlast með súrefniskúta í leiðinni.
Eitthvað fannst stjórnendum Tryggingastofnunar, sem borguðu meðferðina, þetta þó kyndugt enda má segja að blómasala og súrefnismeðferð eigi fátt sameiginlegt. Því varð úr að lungnaendurhæfingin á Reykjalundi tók að sér meðferðina 1987 og sá um hana næsta áratuginn þar til þjónustan var flutt yfir á Landspítalann. Þá voru um 100 sjúklingar á landinu með súrefni í heimahúsum en eru nú um 530 talsins. Auk sjúklinga með LLT eru þar margir með hjartabilun, og hrörnunarsjúkdóma í vöðva eða taugakerfi auk þeirra sem bæði nota öndunarvélar og súrefni.
Fjölmargar nýjungar í súrefnismeðferðinni voru teknar upp á Reykjalundarárunum svo sem notkun rafknúinna súrefnissía sem sía súrefnið frá öðrum lofttegundum í andrúmsloftinu þannig að sjúklingarnir þurftu síður að treysta á eilífa kútaflutninga heim til sín. Tækið varð svo til þess að sjúklingar á landbyggðinni gátu fengið súrefnismeðferð í heimabyggð í stað þess að flytja á höfuðborgarsvæðið sem algengt var áður.
Fyrsta tækið var keypt til Reykjalundar 1983 löngu áður en slík tæki voru tekin í notkun annarstaðar á Norðurlöndum og skýrt „Steingerður“ eftir mikilli sómakonu sem fyrst notaði tækið. Þá voru teknir í notkun léttir álkútar ásamt með súrefnisskömmturum sem skammta súrefnið í byrjum innöndunar og spara þannig heilmikið súrefni auk þess sem sjúklingarnir komust af með léttari búnað og urðu mun hreyfanlegri. Þá fékkst leyfi frá dr. Heimlich í USA til að nota aðferð hans með súrefnisgjöf í gegnum barkann en Heimlich þessi var áður heimsfrægur fyrir að losa aðskotahluti úr öndunarveginum. Aðferðin gafst vel en er þó lítið notuð nú til dags. Tryggingastofnun útvegaði Reykjalundi svo bifreið til þjónustu við súrefnisþega um land allt.
Af seinni tíma nýjungum í súrefnismeðferðinni má svo nefna léttar ferða súrefnissíur sem ganga fyrir rafhlöðu og gera kútana nánast óþarfa. Því miður hafa sjúkratryggingar aðeins samþykkt takmarkaðan aðgang súrefnisþega að þessum sjálfsögðu hjálpartækjum sem samtök lungnasjúklinga hljóta að berjast fyrir að leiðrétta á tuttugu ára afmæli sínu.