Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár hefur verið til umræðu á Alþingi undanfarnar vikur. Það er einsýnt eftir þá umræðu sem hefur farið fram í nefndum þingsins að áætlunin er stórgölluð. Hver ríkisstofnunin á fætur annarri upplýsir um samráðsleysi, upplýsingaskort og misvísandi leiðbeiningar, aðilar vinnumarkaðarins hafa í tugum umsagna lýst frati á fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar, og það er varla að stjórnarliðarnir sjálfir séu tilbúnir til að leggja nafn sitt við þá sorpbrennu sem áætlunin er.
Fjármálaáætlun byggir á fimm ára fjármálastefnu, sem leggur línurnar um hvernig skuldastaða ríkisins skuli vera. Ég benti á í umræðu um fjármálastefnuna að hún sjálf uppfyllti ekki ákvæði laga um opinber fjármál, þar sem í hana vantar stefnumótun um þróun útgjalda, um skatta og aðra tekjuöflun hins opinbera. Það eina sem er sagt um þessi atriði í stefnunni er að þróun útgjalda muni fylgja þróun vergrar landsframleiðslu (VLF). En ef út í það er farið má líka spyrja hvort lög um opinber fjármál uppfylli ákvæði stjórnarskrár, þar sem fjárveitingarvaldið er að miklu leyti tekið úr höndum Alþingis ─ en það er önnur ella.
Fyrsta atriðið sem ber á góma er einstaklega brothætt útgjaldaþak fjármálaáætlunarinnar. Lækkun útgjalda úr 42.3% af VLF í ár í 41.4% af VLF árið 2022 skilur eftir svigrúm miðað við útgjaldaþak fjármálastefnunnar upp á 0.1%, sem eru um 3 milljarðar á ári í dag, en gæti auðvitað breyst.
Ef hagvöxtur er minni en spáð er næst ekki skuldalækkunarmarkmiðið, og auk þess minnka ríkisútgjöld, sem gengi gegn forsendum fjármálastefnu. Ef verðbólga eykst umfram aukningu á vergri landsframleiðslu myndi það einnig ganga gegn forsendum fjármálastefnu. Og ef lækkun virðisaukaskatts eykur á þenslu, eins og fjölmargir hafa varað við, þá gæti sú þensla auðvitað líka valda aðstæðum þar sem forsendur fjármálastefnu bresta. Orðið „spennitreyja“ hefur líklega aldrei verið notað jafn oft í fastanefndum Alþingis.
Ekki er ljóst hvað ríkisstjórnin mun gera ef (og kannski þegar) forsendurnar bregðast, en aðeins er um tvennt að velja: að auka útgjöld umfram útgjaldaþakið, eða skera niður. Niðurskurður er nauðsynlegur samkvæmt fjármálastefnu, nema það sé almennur skilningur um að grundvallarforsendur séu brostnar eða „fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna“ (10. gr).
Spurningin er þá, hvað þarf brestur að vera mikill til að það teljist brestur á grundvallarforsendum? Svarið sem ég fékk var 0.5% af VLF. 15 milljarða mismunur á væntingum og raunveruleika hljómar eins og stór upphæð, en athugum að Vaðlaheiðargöng ein og sér hafa þegar leitt til 4.7 milljarða fráviks á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs, og ljóst þykir að áætlunin muni ekki stemma árið 2018.
Annað atriði sem skiptir máli er staða ríkisskulda. Gert ráð fyrir því að nýta 105 mia kr í niðurgreiðslu skulda á þessu ári (um 10% af öllum skuldum ríkissjóðs!), en það er ekki gert ráð fyrir því að vaxtabyrði ríkissjóðs minnki verulega vegna þessa (furðulítil breyting á vaxtabyrði miðað við hlutfall skulda).
Það kom í ljós við umræðu í þingsal að í mótsögn við áætlunina hafi þegar verið greitt upp eitt dýrasta skuldabréf ríkissjóðs, rándýrt dollaralán. Það er frábært, en vekur vissulega spurningar um hvort fimm ára áætlunin muni standast ágang raunveruleikans í fimm mínútur. Eftir stendur að skuldir ríkissjóðs eru í kringum 36% af VLF, og enn með töluvert miklum vaxtakostnaði.
Meginhluti vaxta á lánum ríkissjóðs eru fastir og breytast ekki með vaxtabreytingum á markaði; þetta gildir um 79% allra ríkisskulda. Það þýðir að jafnvel þótt vextir lækki eins og boðað hefur verið ítrekað að undanförnu án þess að við höfum séð nokkrar efndir, þá mun vaxtabyrði ríkissjóðs ekkert lækka nema með niðurgreiðslu skulda. Það ætti að vera forgangsmál í fjármálaáætlun að koma böndum á vaxtakostnað ríkissjóðs, því hvergi annarsstaðar í ríkisrekstrinum er jafn miklum peningum eytt án þess að almenningur njóti nokkurs góðs af.
Það eru ýmis fleiri atriði sem skipta máli. Gert er ráð fyrir umdeildum skattabreytingum, innviðauppbygging er í meiriháttar lamasessi, húsnæðisvandinn verður ekki lagaður samkvæmt þessari áætlun, og fleira til. Öll þessi atriði eru efni í sjálfstæðar greinar, en ljúkum þessari á einni athugasemd:
Þegar verið er að semja svona víðtækt skjal, sem hefur jafn víðtæk áhrif og fjármálaáætlun til næstu fimm ára hefur, þá er algjör nauðsyn að tryggja að vel sé unnið. Aðferðafræðilega fær fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar falleinkunn. Það vantar alveg sviðsmyndir, óvissugreiningu, öryggismörk á spám, og fleira sem telst grundvallaratriði. Á einum stað segir að það sé bara gengið út frá því að gengi krónunnar haldist stöðugt yfir spátímabilið ─ sama krónan og helst varla stöðug nógu lengi til að hægt sé að taka af henni mynd.
Svona vinnubrögð eru ekki boðleg.