Það er gömul saga og ný þegar hægrimenn eru við völd að opinbera kerfið er svelt, kallaðar eru fram kröfur um endurbætur og svo einkavætt í framhaldinu. Allt á kostnað opinbera kerfisins, sem við eigum saman, höfum áhrif á, stýrum eftir lýðræðislegum leiðum og þjónar öllum jafnt.
Nú er við völd á Íslandi afskaplega hægrisinnuð ríkisstjórn sem sannarlega hefur þau markmið að auka verulega hlut einkaaðila í almannaþjónustunni. Forsætisráðherra meira að segja lítur svo á að eðlilegt og jafnvel æskilegt sé að peningafólk geti fjárfest í henni til þess eins að hagnast og greiða sér arð út úr rekstrinum. Að einstaklingar verði beinlínis ríkir á því að sinna sjúklingum eða menntun ungs fólks. Ríkidæmi af þeim toga kemur aðeins til af því að almenna opinbera þjónustan er svelt og verður til að auka enn á þann vanda. Þannig verða einstaklingar ríkir af því að mismuna öðrum um sjálfsagða þjónustu á kostnað okkar allra.
Það standa yfir grundvallarátök í íslensku samfélagi. Átökin um almannaþjónustuna. Heilbrigðisráðherrann ypptir öxlum og getur ekki talað skýrt í þá veru að hann standi með opinbera kerfinu og menntamálaráðherrann segist ekki vera búinn að taka ákvörðun þótt fyrir liggi athugun á því að afhenda Fjölbraut í Ármúla einkaaðilum án allrar umræðu. Bæði kerfin, heilsugæslan og menntakerfið, eru svelt í tillögu að ríkisfjármálaáætlun. Vinnubrögðin eru forkastanleg, leyndin algjör og þinginu haldið utan við alla ferla.
Flokkar sem kenndu sig við ný vinnubrögð ganga í lið með Sjálfstæðisflokknum sem á langa sögu leyndarhyggju að baki. Það ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart þegar Viðreisn er annars vegar enda voru allir ráðherrar þess flokks á sínum tíma einmitt félagar í Sjálfstæðisflokknum. Hins vegar eru margir hugsi yfir Bjartri framtíð og hvernig sá flokkur ætlar að hjálpa til við blekkingar í heilbrigðismálum þar sem sveltistefnan heldur áfram, ætlar að láta sig hafa leyndarhyggjuna í menntamálum þar sem skólum er svipt úr höndum almennings og þeir afhentir einkaaðilum.
Björt framtíð tók þá ákvörðun á kosninganótt að gangast Viðreisn á hönd, að því er virðist án skilyrða. Metnaðarfullur umhverfisráðherra og gæðalegur heilbrigðisráðherra standa nú á tímamótum eða eigum við að kalla það þáttaskil? Þegar fjallað er um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til fimm ára koma álitamálin í ljós og staða flokkanna skýrist. Björt framtíð hefur val um að styðja áframhaldandi hægripólitík og sveltistefnu eða kanna aðra kosti fyrir umhverfis- og náttúruvernd, réttlátara samfélag, jöfnuð og almennt opinbert heilbrigðis- og menntakerfi fyrir alla.