Áhættuhegðun fjármálaráðherrans

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, svarar grein Benedikts Jóhannessonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, um fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu.

Auglýsing

Óhjákvæmilegt er að gera athugasemdir við grein Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra í Kjarnanum 6. maí sl. Því miður ber víða á skilningsskorti gagnvart ferðaþjónustunni í grein fjármálaráðherra, eða hreinum og klárum rangfærslum.

Með greininni leitast fjármálaráðherra við að færa rök fyrir þeim áformum er koma fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022 um að ferðaþjónustan færist í efra þrep virðisaukaskatts á miðju næsta ári.

Gegnumgangandi rök fjármálaráðherra eru sem fyrr að „eðlilegt“ sé að virðisaukaskattur sé sá sami í ferðaþjónustu og í öðrum geirum hér innanlands. Hún hafi notið þess á undanförnum árum að vera í „undanþáguþrepi“ virðisaukaskattskerfisins.

Samtök ferðaþjónustunnar minna á að ferðaþjónustan er í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Hún keppir ekki um innlenda viðskiptavini heldur erlenda. Í langflestum samkeppnislöndum okkar er ferðaþjónustan í neðra þrepi virðisaukaskatts til að auka samkeppnishæfni hennar. Hækkun í efra þrep virðisaukaskatts færir ferðaþjónustuna því ekki í sama skattþrep og aðrar greinar, heldur í tvöfalt hærra skattþrep en samkeppnin.

Auglýsing

Afkoman versnar – batnar ekki

Fjármálaráðherra segir að afkoma fyrirtækja í ferðaþjónustu hafi færst í betra horf. Það átti vissulega við um nokkur stærri fyrirtæki í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2013-2015, en síður um fyrirtæki á landsbyggðinni. Á síðasta ári fór að halla verulega undan fæti hjá langflestum fyrirtækjum í ferðaþjónustu vegna styrkingar krónunnar, mikilla launahækkana og annarra íþyngjandi þátta. Upplýsingar SAF frá fjölda fyrirtækja benda til þess að EBITDA framlegð í öllum greinum ferðaþjónustu nema flugrekstri hafi lækkað töluvert frá 2015 til 2016. Aðalástæða þess er styrking krónunnar um 17-30% á síðasta ári. Flest fyrirtæki hafa þurft að taka á sig hluta eða heildaráhrif af sterkari krónu. Fyrir vikið hefur afkoma atvinnugreinarinnar versnað. Það er því ekki línulegt samband á milli fjölgunar ferðamanna og afkomu fyrirtækjanna.

Þá fullyrðir fjármálaráðherra að samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar hafi verð á ferðaþjónustu hækkað í íslenskum krónum um 11% umfram gengisþróun árið 2016 og gefur þannig í skin að arðsemi greinarinnar hljóti að vera með mesta móti. Rétt er að benda á að í ársbyrjun 2016 fór stór hluti ferðaþjónustufyrirtækja að innheimta 11% virðisaukaskatt í fyrsta skipti. Milli áranna 2015-2016 hækkuðu laun um 11,4% auk þess sem ferðaþjónustufyrirtæki fjárfestu mikið með tilheyrandi hækkun á fjármagnskostnaði. Það verður að teljast sérstakt að ráðherra velji að fjalla aðeins um aðra hlið málsins en taki ekki inn breytur kostnaðarmegin á sama tíma.

Rangfærslur um ívilnun

„Nú er svo komið að vöxtur í ferðaþjónustunni er orðinn mjög mikill,“ segir í grein fjármálaráðherra. „Á sama tíma nýtur þjónusta við ferðamenn skattalegrar ívilnunar gagnvart öðrum atvinnugreinum.“ Ráð hans er að hætta þessum „ívilnunum“ og færa ferðaþjónustuna í efra þrep virðisaukaskatts.

Þetta er rangt. Ferðaþjónustan nýtur ekki ívilnunar gagnvart öðrum innlendum atvinnugreinum, enda keppir hún ekki við þær um viðskiptavini. Íslensk ferðaþjónusta starfa á alþjóðlegum samkeppnismarkaði rétt eins og aðrar útflutningsatvinnugreinar; þar ríkir verðsamkeppni. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að atvinnugreinin standist samkeppni á þessum alþjóðlegu mörkuðum enda mikið í húfi fyrir þjóðina alla. Með því að vera í lægra þrepi virðisaukaskatts stendur hún jafnfætis samkeppninni á erlendri grundu. Þeir sem hins vegar njóta ívilnunar gagnvart virðisaukaskattskerfinu á Íslandi eru þær atvinnugreinar sem eru undanþegnar virðisaukaskatti með öllu og standa fyrir utan kerfi. Það verður að teljast afar mikilvægt að fjármálaráðherra átti sig á þessum grundvallarmun þ.e. hvort starfað sé á innanlandsmarkaði annars vegar eða alþjóðamarkaði hins vegar.

Rök illa ígrunduð

Í grein sinni segir fjármálaráðherra að vöxtur ferðaþjónustunnar sé farinn að hafa neikvæðar afleiðingar. Svo ör vöxtur geti leitt til efnahagslegs og umhverfislegs ófarnaðar. Ráðið sé að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna til að hægja á vexti hennar og draga um leið úr þrýstingi til hækkunar á gengi krónunnar.

Það er ljóst að fjármálaráðherra lítur svo á að íslensk ferðaþjónusta ein og sér beri ábyrgð á sífellt sterkara gengi krónunnar. Vissulega hefur ferðaþjónustan átt sinn þátt í því að styrkja gengi krónunnar, en því fer fjarri að hún hafi gert það ein og óstudd. Á árinu 2016 var innflæði vegna jákvæðs viðskiptajafnaðar 195 milljarðar króna, sem að stærstum hluta er ferðaþjónustunni að þakka, en á sama tíma var annars konar gjaldeyrisinnflæði 330 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands.

Mun áhrifaríkara og eðlilegra tæki til að létta þrýstingi á gengið er einmitt að lækka stýrivexti Seðlabankans og þar með taka burt hvata til vaxtamunarviðskipta sem er ört vaxandi áhrifaþáttur á styrkingu íslensku krónunnar. Slík ákvörðun myndi hafa bein áhrif á innflæði gjaldeyris, þátt sem viðheldur þrýstingi á gengi krónunnar til hækkunar.

Hvað varðar fjölgun ferðamanna og tilraun ráðherrans til að beita virðisaukaskattskerfinu til að draga úr fjölda þeirra eða fækka þeim þá telja Samtök ferðaþjónustunnar þá leið ekki vænlega. Mun eðlilegra og skilvirkara væri að horfa til sértækari aðgerða sem tryggja skipulag og álagsstýringu á mismunandi landssvæðum. Þá ættu greiningar hvað varðar eiginlegt álag eftir landsvæðum og árstímum að liggja fyrir.

Farið þá bara að gera eitthvað annað...

Samkvæmt orðum fjármálaráðherra er hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu ætlað að vera tæki til gengislækkunar eins og áður hefur komið fram. Ríkisvaldið áformar því að setja atvinnuuppbyggingu og fjárfestingu í ferðaþjónustu í uppnám til að aðstoða annars konar útflutningsfyrirtæki. Fjármálaráðherra er svo sem ekkert að leyna þessum áformum í grein sinni. Hann segir „Ferðaþjónusta er ekki eina greinin á landsbyggðinni. Þar eru útgerðarfyrirtæki sem berjast við hækkandi krónu og fyrirtæki sem selja vörur sínar í almennu þrepi virðisaukaskatts. Þau njóta góðs af breytingunum nái þær tilgangi sínum að sporna við styrkingu krónunnar.“ Þeir einstaklingar sem missa vinnuna eða fyrirtæki sín á landsbyggðinni vegna hækkunar virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna geta sem sagt bara farið að gera eitthvað annað. Allt virðist vera betra en ferðaþjónusta í huga ráðherrans.

Minna en hálfsannleikur

Fjármálaráðherra heldur því fram að ferðaþjónustan skili „tiltölulega litlum tekjum til að standa undir bæði kostnaði hins opinbera við hana og almennri samneyslu.“ Hann segir að atvinnugrein sem er yfir 8% af hagkerfinu skv. mælingum World Travel and Tourism Council (eðlilegra væri að íslensk mæling lægi fyrir) hafi aðeins skilað 3% af tekjum ríkisins af virðisaukaskatti á síðasta ári. Þetta er ekki einu sinni hálfsannleikur. Ferðaþjónustan mun skila 15% af heildar skatttekjum ríkisins á þessu ári, eins og skýrt kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins frá umræddum ráðherra. Ef ráðherrann ætlar að einangra greiningu sína við virðisaukaskattinn og ekkert annað, er rétt að benda honum á að taka með í reikninginn fjárfestingar greinarinnar síðustu missera og afleiddra áhrifa s.s. á verslun þegar litið er til VSK skila til framtíðar sem og þeirra miklu VSK tekna til ríkisins sem greinin skilar árlega í gegnum fasteignafélög þar sem flest hótel greiða leigu til þeirra í efra VSK þrepi.

Ekki einföldun, heldur aukið flækjustig

Enn einn rökstuðningur ráðherrans fyrir hækkun í efra skattþrep er að aðgerðin geri skattkerfið skilvirkara og einfaldara með því að fækka undanþágum. Þessi fullyrðing heldur ekki vatni. Fjármálaráðherra hyggst færa nokkrar atvinnugreinar í ferðaþjónustu úr 11% þrepi í 24% þrep seinni hluta ársins 2018 en 1. janúar 2019 eða sex mánuðum síðar niður í 22,5% þrep en áfram verða veitingar í 11% þrepi til samræmis við matvöru og áfengi.

Ljóst er að þessi aðgerð er eingöngu til þess fallin að auka flækjustig og það til muna fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, óskilvirkni eykst og þannig hvati til undanskota. Aftur á móti eru um 30% af öllum umsvifum í efnahagslífinu að fullu leyti undanþegin virðisaukaskatti, þar sem hvorki er greiddur útskattur né nýttur innskattur á móti, undanþágur sem mætti örugglega endurskoða, a.m.k. að hluta til á hverjum tíma.

Einföldun skattkerfisins er ekki einfaldari en svo að fjármálaráðherrann talar um markaðsaðgerðir og mótvægisaðgerðir til að mæta neikvæðum áhrifum hærri virðisaukaskatts á ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni.

Þá hverfa allar hugmyndir um einföldun og skilvirkni út um gluggann þegar haft er í huga að fjármálaráðherra áformar að hækkun virðisaukaskattsins komi til framkvæmda á miðju næsta ári, á háönn ferðaþjónustunnar. Flækjustigið er hærra en nokkur getur ímyndað sér. Bara þessi tímasetning er næg ástæða til að draga þessi áform til baka og hugsa málið betur.

Horft framhjá skynsamari leiðum

Taka má undir almenn viðvörunarorð fjármálaráðherra um að hinn öri vöxtur ferðaþjónustunnar er verkefni sem þarf að takast á við svo hann leiði ekki til ófarnaðar. Þörfin fyrir aðgerðir hefur reyndar legið fyrir nokkuð lengi án þess að stjórnvöld hafi tekið til hendinni. Það er helst í Stjórnstöð ferðamála, samstarfsvettvangi stjórnvalda og ferðaþjónustunnar, sem stefna hefur verið mörkuð um aðgerðir með Vegvísi í ferðaþjónustu. Þar er horft til bætts skipulags og álagsstýringar á mismunandi svæðum við úrlausn þessa áskorana. Ótrúleg uppgjöf felst í því af hálfu ríkisstjórnarinnar að ákveða að takast ekki á við verkefnið, heldur beita skattahækkun til að reyna að fækka ferðamönnum. Svona aðferðafræði getur ekki verið vænleg til árangurs.

Eru auknar álögur á ferðaþjónustuna lausn allra mála?

Fjármálaráðherra ber sig ekki aðeins aumlega vegna gengisstyrkingar krónunnar. Hann segir að gjaldeyrissöfnun Seðlabankans sé dýr, samkeppni sé um vinnuafl, innviðir þandir og þar á meðal húsnæðismarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. „Við bætast margra milljarða framúrkeyrslur á fjárlögum ófjármagnaðar og samgönguáætlun, að hluta ófjármögnuð,“ skrifar ráðherrann.

Er ekki framúrkeyrsla á fjárlögum sem og forgangsröðun verkefna alfarið á ábyrgð stjórnvalda sjálfra? Að stjórnvöld bregðist við með því að leggja 118% skattahækkun á eina atvinnugrein og stefna henni í hættu er hvorki ábyrgt né faglegt.

Vanmat á heildaráhrifunum

Í grein sinni gerir fjármálaráðherra lítið úr áhrifum hærri virðisaukaskatts. „Sé miðað við að breytingunni verði velt að fullu út í verðlagningu ferðaþjónustunnar þá er ljóst að hækkunin verður ekki umtalsverð. Útreikningar sýna að um 40% af neyslu ferðamanna er í þeim flokkum sem munu falla undir hærra skattþrep. Að meðaltali væri þá um að ræða tæplega 5% hækkun á heildarkostnaði við Íslandsferð,“ segir í greininni. Ef þetta væri eina hækkunin sem blasir við ferðamönnum á leið til Íslands þyrfti ekki að hafa áhyggjur og eins ef vænt hækkun myndi ekki hafa nein áhrif á neysluhegðun ferðamannsins né Íslendinga á ferðum sínum um landið. Af hverju láta menn eins og að þeir viti ekki af því að frá í janúar 2016 hefur gengi krónunnar styrkst um 17-30% eftir gjaldmiðlum. Laun hafa hækkað um 15% á þessu tímabili.

Ekki er heldur einu orði minnst á að um næstu áramót verður afsláttur af vörugjöldum á nýjum bílum fyrir bílaleigur felldur niður, ólíkt því sem gildir um önnur atvinnutæki. Kostnaður bílaleigufyrirtækjanna mun hækka um 4 milljarða króna á ári. Jafnframt er sneitt fram hjá því að nefna að gistináttagjaldið á að tvöfaldast frá og með 1. september nk. Tvöfalt hærri virðisaukaskattur ofan í þessar óviðráðanlegu verðhækkanir á greinina í heild sinni er sem olía á eld. Ferðamaðurinn þarf ekki að depla augum yfir 5% hækkun heildarkostnaðar frá því í byrjun síðasta árs, heldur á bilinu 30-40%. Ef fjármálaráðherra heldur að þetta hafi lítil eða engin áhrif á ferðahegðun þegar hingað er komið, þá undirstrikar það aðeins hvað þessi áform eru illa ígrunduð.

Samdrátturinn verður á landsbyggðinni

Mikil verðhækkun ferðaþjónustu hér innanlands leiðir einfaldlega til þess að ferðamaðurinn fær minna fyrir peninginn. Hann stoppar styttra og fer síður í lengri ferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið. Versnandi samkeppnishæfni bílaleiga dregur svo til viðbótar úr ferðum út á land, þannig að það verða ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni sem mest finna fyrir samdrætti.

Fjármálaráðherra bendir á það í grein sinni í Kjarnanum að mikil áhersla hafi verið lögð á gildi þess fyrir Ísland að byggja ekki upp ferðaþjónustu á fjöldanum heldur leggja áherslu á þá sem tilbúnir eru að eyða meira fé. „Líklegt er að þessi aðgerð [hækkun virðisaukaskattsins] stuðli einmitt að því að svo miklu leyti sem hún hefur áhrif á ákvörðun um kaup á ferðum,“ skrifar ráðherrann.

Það er mikill misskilningur hjá fjármálaráðherra að þeir sem „tilbúnir eru að eyða meira fé“ séu sólgnir í að borga meiri skatta en annars staðar. Og hvað sem ráðherrann heldur, þá er fjöldaferðaþjónusta enn fyrirferðarmikil hér á landi vegna þess að flugfargjöld hafa aldrei verið jafn lág. Það má meðal annars þakka viðskiptamódeli ríkisfyrirtækisins Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli.

Menn verða að kynna sér eðli og sérkenni þessarar nýju og sjálfsprottnu atvinnugreinar. Staðreyndin er sú að verð og gæði verða að fara saman. Ef ekki, munum við ekki standast væntingar ferðamannsins, óánægja eykst með tilheyrandi falli hvað varðar ímynd og orðstír. Eins og allir vita er ímynd og orðstír eitthvað sem menn ávinna sér á löngum tíma en geta misst á svipstundu.

Vegur að funda- og ráðstefnumarkaði

Þær samanlögðu verðhækkanir vegna gengisþróunar, launahækkana og tvöföldun virðisaukaskatts sem blasa við ferðaþjónustu á næstunni munu ekki síst koma þungt niður á þeim markaði sem dregur til sín best borgandi ferðamennina, þ.e. funda- og ráðstefnugesti. Þó svo að Ísland hafi áunnið sér vinsældir fyrir þann markað, þá er hann kröfuharður og mjög viðkvæmur fyrir verðlagningu vegna hinnar gríðarlegu samkeppni um þessa gesti um allan heim. Búið er að verja miklum fjármunum til að byggja þennan markað upp á undanförnum árum. Með hækkun á virðisaukaskatti er verið að vega að þessum mikilvæga markaði.

Fjármálaráðherra ver töluverðu plássi í grein sinni til að færa rök fyrir því að þrátt fyrir hærri virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna þá sé engin ástæða til að óttast að ferðamennirnir hverfi eins og síldin. „Sá þáttur sem hefur mest áhrif á fjölda ferðamanna í smærri ríkjum og eyjum frekar en breytingar á raungengi er tíðni og kostnaður flugferða til staðarins,“ skrifar hann. Rétt er að benda ráðherra á að flugfargjöld eru nú með hagstæðasta móti og hafa farið lækkandi vegna ytri aðstæðna, s.s. lækkunar á olíuverði, sem getur breyst í einum vettvangi eins og við vitum. Hér höfum við ekkert í hendi. Eitt er þó víst að breytingar hvað varðar flugsamgöngur og hækkanir á flugfargjöldum munu klárlega hafa mikil neikvæð áhrif á komur erlendra ferðamanna hingað til lands sem og ferðahegðun þeirra hér á landi.

„Greiningar benda til þess að áfram muni vöxtur ferðaþjónustu verða kröftugur“ segir í grein ráðherrans. Við getum tekið undir þessi orð hans sé horft til skamms tíma. Framtíð greinarinnar er hins vegar teflt í tvísýnu sér í lagi hvað varðar þá tegund ferðaþjónustu sem við viljum helst byggja upp. Afkoma fyrirtækjanna, bætt skipulag og álagsstýring er það sem þarf að tryggja ef ætlunin er að nýta þau tækifæri sem í ferðaþjónustunni felast til langrar framtíðar. Því miður miða áform fjármálaráðherra ekki að þessum markmiðum nema síður sé.

Skrúfum þá bara frá ferðamönnunum...

„Gangi þetta í hina áttina, og ferðaþjónustan dregst saman vegna skattkerfisbreytinganna, má benda á að þær eru afturkræfar. Skattinum er hægt að breyta aftur eða fara í aðrar aðgerðir til að styðja greinina,“ skrifar fjármálaráðherra - í fullri alvöru að því er virðist. Það ber ekki vott um djúpa þekkingu á ferðaþjónustunni að halda að það dugi að lækka skatt aftur eftir að hafa fælt ferðamennina í burtu og orðspor Íslands borið hnekki. Afstaðan sem kemur fram í þessum orðum vekur fremur óþægilega tilfinningu. Þarna er fjármálaráðherra að segja að honum þyki léttvægt að taka áhættu með atvinnugrein sem veitir 25 þúsund manns atvinnu og það um allt land, því þá megi bara reyna að spóla til baka.

Misskilningur um markaðsátak

Um hugsanleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni segist fjármálaráðherra vera með mótvægisaðgerðir í pípunum. „Meðal annars vegna þessa höfum við Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála og nýsköpunar rætt um að sérstaklega þurfi að skoða markaðsátak fyrir landsbyggðina og beina kröftum opinberra aðila meira í þá átt. Þar hefur margt verið vel gert en áfram þarf að halda á þeirri braut.“ Markaðsátak eða aðrar aðgerðir gera ekkert fyrir ferðamanninn sem hefur ekki efni á því að taka dýran bílaleigubíl og verja nokkrum dögum á landsbyggðinni í kjölfarið á 30-40% verðhækkana í hans eigin gjaldmiðli.

Þá sýnir það mikla vanþekkingu ráðherrans á alþjóðlegri markaðssetningu ef hann telur það lítið mál og án teljandi kostnaðar að hægt sé að koma á framfæri einstaka landshlutum Íslands úti í hinum stóra heimi í einni svipan. Þá má benda fjármálaráðherra á markaðsátakið „Ísland allt árið“ sem unnið hefur verið að, atvinnulífið og stjórnvöld í samstarfi, undanfarin ár með góðum árangri. Þar er markmiðið að fjölga ferðamönnum utan háannar og um allt land en vænt virðisaukaskattsbreyting mun koma verst við þá markhópa. Hér má því eðlilega velta fyrir sér hvort hljóð og mynd fari ekki saman við ríkisstjórnarborðið.

Of mikið er í húfi

Það er endalaust hægt að halda áfram en ég læt hér staðar numið. Það er ósk okkar hjá Samtökum ferðaþjónustunnar að stjórnvöld staldri við. Við getum ekki sætt okkur við að vanhugsaðar tillögur ríkisstjórnarinnar um aukna skattheimtu á greinina, sem nemur fjórum sinnum veiðileyfagjaldi, eða tæplega 20 milljörðum á ársgrundvelli, verði samþykktar án vel ígrundaðra greininga á áhrifum t.a.m. á fyrirtækin sem í ferðaþjónustunni starfa, á byggðarlögin í landinu og samkeppnishæfni til langrar framtíðar.

Það er of mikið í húfi fyrir þessa stærstu atvinnugrein landsins að ríkisvaldið láti skeika að sköpuðu í von um að kannski dragi úr styrkingu krónunnar. Önnur og áhrifaríkari ráð til þess blasa við. Síst af öllu er slík áhættuhegðun sæmandi gagnvart því harðduglega fólki sem hefur verið að byggja upp ferðaþjónustu á landsbyggðinni og glæða mannlífið í leiðinni.

Það sem ráðherra kaus að nefna ekki:

 • Að ekkert samráð var haft við greinina við áætlunargerðina.
 • Að gengið er þvert á stefnu stjórnvalda hvað varðar að efla ferðaþjónustu um allt land.
 • Að samkeppnishæfni landsins fer þegar versnandi.
 • Að VSK á ferðaþjónustu í samkeppnislöndum er almennt um 11%.
 • Að áhrif breytinganna á skuggahagkerfið er órannsakað.
 • Að erlend ferðaþjónustufyrirtæki eflast enn frekar á kostnað þeirra íslensku þar sem samkeppnishæfni þeirra innlendu veikist.
 • Að ætluðum heildartekjum ríkissjóðs af ferðaþjónustunni er stefnt í hættu.
 • Að upphæð ætlaðra tekna ríkissjóðs af skattahækkuninni nema tæplega 20 milljörðum króna á ári, hvorki meira né minna.
 • Að óskilvirkni skattkerfisins mun aukast til muna.
 • Að greininga er mjög ábótavant, sbr. kostnaðar- og ábatagreining svo eitthvað sé nefnt.
 • Að áætlaðar breytingar eiga að koma til framkvæmda á miðju næsta ári, á miðjum sumartíma í ferðaþjónustu.
 • Að sex mánuðum síðar eiga síðari breytingar virðisaukakerfisins að eiga sér stað gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjunum.
 • Að ferðaþjónustunni er einni ætlað að greiða fyrir allar breytingar í virðisaukaskattskerfinu í heild sinni.
 • Að tímasetningin sé út af fyrir sig afleit.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Drangaskörð eru stórkostleg náttúrusmíð.
Skipuleggja frístundabyggð við ysta haf
Kríuvarp, sóleyjar og jökull. Eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði Vestfjarða og þótt víðar væri leitað. Þúsund ára menningarsaga. Á landnámsjörðinni Dröngum er fyrirhugað að reisa frístundabyggð. Drangar eru sömuleiðis í friðlýsingarferli að ósk eigenda.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar