Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um jafnlaunastaðal. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er tekið fram að jafnrétti í víðtækri merkingu sé órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Þar vegur jafnrétti á vinnumarkaði þungt. Þess vegna hyggst ríkisstjórnin lögfesta jafnlaunastaðal og gera öllum fyrirtækjum með 25 starfsmenn eða fleiri skylt að sýna fram á að jöfn laun séu greidd óháð kyni.
Þrálátur kynbundinn launamunur
Launamunur kynjanna hefur verið þrálátt og óþolandi viðfangsefni í fjöldamörg ár. Ekkert land í heiminum getur státað af launajafnrétti. Hér á landi, og eflaust víðar, efast einhverjir um tilvist kynbundins launamunar, af óskiljanlegum ástæðum. Allar rannsóknir sýna fram á kynbundinn launamun, launamun sem er til staðar þegar búið er að leiðrétta fyrir ólíkum þáttum, svo sem vinnutíma, ábyrgð og fleiru. Þessi óútskýrði kynbundni launamunur hefur mælst á bilinu 5,6%-13,7% á Íslandi síðustu árin.
Ef málið er skoðað frá örlítið víðara sjónarhorni kemur svo í ljós mun meiri kynbundinn launamunur, sem á rætur að rekja til ýmissa atriða. Margar stórar kvennastéttir, t.d. í kennslu og umönnun, eru láglaunastéttir og fleiri konur vinna hlutastörf, m.a. vegna þess að fjölskylduábyrgð hvílir frekar á þeim, svo einhver atriði séu nefnd. Nýlegar fréttir af gríðarlegum mun á lífeyrisréttindum kynjanna komu svo eins og þungt högg í maga þeirra sem láta sig kjaramál og jafnrétti varða, en sá munur er vægast sagt sláandi.
Ef við horfum til heimsins alls blasir svo við enn dekkri mynd. Á heimsvísu leggja konur fram 66% vinnuframlagsins og framleiða 50% matvæla. Þær fá hins vegar aðeins 10% launanna og eiga 1% af eignum heimsins.
Það er tilgangslaust að rífast um tilvist kynbundins launamunar. Hann er til staðar, hvernig sem á málið er litið. Það er jákvætt að ríkisstjórnin hyggist leggja áherslu á jafnrétti og það er jákvætt að fá nýjar tillögur að borðinu. Það sem við höfum gert síðustu ár og áratugi hefur nefnilega ekki skilað nægilega góðum árangri.
Best í heimi að í að vera þokkaleg
Ég var svo heppin að sitja kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, CSW61, í mars síðastliðnum. Þar var nokkuð stór sendinefnd frá Íslandi og fremstur í flokki var jafnréttisráðherra, Þorsteinn Víglundsson. Ísland vakti töluverða athygli á ráðstefnunni, og má raunar segja að Þorsteinn hafi öðlast einhvers konar stjörnustatus þarna úti. Fólk dáðist að litla Íslandi og ekki síst af hugmyndum okkar um jafnlaunastaðalinn.
Þetta var merkileg upplifun. Kynbundinn launamunur er og hefur verið bannaður víðast hvar um áratugaskeið, bæði í löggjöf einstakra ríkja og í alþjóðasamningum. Samt eru þessi lög þverbrotin hvert sem litið er. Jafnlaunastaðallinn er í raun ekki annað en tæki til þess að gera fyrirtækjum og stofnunum auðveldara að fylgja þeim lögum sem þeim er nú þegar skylt að fylgja. Það er áhugavert að við fáum svona mikið hrós og mikla athygli fyrir að gera ágætlega það sem ekkert land gerir sérstaklega vel. Best í heimi í að vera þokkaleg.
Lögfestum jafnlaunavottun
En við erum allavega að reyna að því ber að fagna. Frumvarpið er ágætt. Einhverjar breytingar væri þó æskilegt að gera á því. Þar á meðal má nefna að það þarf að tryggja að ferli vottunar verði gagnsætt og aðgengilegt starfsmönnum sem starfa á einstökum vinnustöðum. Eins þarf að tryggja skilvirkt eftirlit með lögunum. Ég er líka handviss um að við þurfum að gera miklu fleira til þess að ná jafnrétti á vinnumarkaði á Íslandi. Jafnlaunavottun tekur eins og áður segir aðeins á hluta vandamálsins. Persónulega finnst mér t.d. að við ættum að afnema launaleynd algjörlega. Hún er reyndar bönnuð, en eins og með svo margar aðrar lagareglur sem varða jafnrétti kynjanna er handahófskennt hvort farið sé eftir þeim. Mér finnst að laun allra á vinnumarkaði ættu að vera aðgengileg í gagnagrunni á netinu, svo allir geti skoðað hvað hver og einn er með í laun. Þá er vinnumarkaður á Íslandi mjög kynskiptur og við þurfum bæði að finna leiðir til þess að breyta því og einnig að tryggja að störf kvennastétta séu ekki metin minna virði en karlastétta. Og fleira. Margt fleira.
Ég vona að lögfesting jafnlaunastaðals sé aðeins fyrsta skrefið í nýrri sókn í átt að jafnrétti á vinnumarkaði. Samþykkjum þetta frumvarp og förum svo strax að vinna að næstu skrefum. Ójafnrétti er nefnilega bannað með lögum og þess vegna ber okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að útrýma því.
Kjarajafnrétti strax!