Furðu hljótt hefur verið um það að í fjármálastefnu ríkisins 2018-2022 sem nú er í umfjöllun Alþingis leynast áform um róttæka uppstokkun á barnabótum og fleiru sem snýr að kjörum barnafjölskyldna. Áform þessi eru, -þótt ótrúlegt kunni að virðast, -samkvæmt tillögum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og byggjast á þeirri meinlegu ranghugmynd að barnabætur eigi eingöngu og alfarið að vera framfærslustyrkur til fátækra barnafjölskyldna.
Fjármálaráðherra hefur kynnt fjármálastefnuna þannig að á næstu árum verði „sérstök áhersla á uppbyggingu innviða og eflingu velferðarkerfisins.“ Samt eiga „félagslegar tilfærslur til heimila,“ sem eru einkum barnabætur og vaxtabætur, að dragast mjög saman hlutfallslega samkvæmt áætluninni. Þannig er miðað við að „framlög til barnabóta haldist óbreytt að raunvirði yfir tímabilið ...“ og hækki þannig minna en önnur útgjöld og tekjur ríkisins. Á bls. 327 er svo upplýst hvað þarna býr að baki:
„Að mati sérfræðinga AGS er veruleg þörf á endurskoðun á barnabótakerfinu í átt til einföldunar, auk þess að beina bótunum í auknum mæli til lágtekjuheimila. Kemur þetta fram í niðurstöðum úttektar (...) sem unnin var af AGS árið 2015 að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra. Í því sambandi þarf að hefja heildstæða skoðun á stuðningi við barnafjölskyldur, þannig að hugsanlega komi ein tegund barnabóta í stað almennra barnabóta, barnalífeyris almannatrygginga, mæðralauna, barnabóta atvinnuleysistryggingakerfisins auk annarra bóta frá ríki til barnafjölskyldna.“
Athyglisvert er að ekki er að finna neina vísbendingu um þessi róttæku áform í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, og raunar hefur enginn íslenskur stjórnmálaflokkur haft breytingar í þessa veru á stefnuskrá sinni. AGS og fyrrverandi fjármálaráðherra eiga því einir höfundarréttinn að þessum hugmyndum, sem nú stendur til að láta Alþingi leggja blessun sína yfir án þess að nokkur umræða hafi farið fram um grundvallaratriði málsins. -Óhætt er að fullyrða að AGS hefði aldrei vogað sér að leggja það til við neitt annað af velferðarsamfélögunum í okkar heimshluta að almennum barnabótum skattkerfisins yrði breytt í hreina fátækrahjálp.
Á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og víðar ríkir allt annar skilningur á eðli og tilgangi barnabóta, sem reyndar eru hvergi kenndar við „bætur“ nema hjá okkur. Þar er litið á „barnapeninginn“ sem aðferð til að taka í skattlagningunni tillit til þyngri framfærslubyrðar hjá barnafólkinu, - með því að greiða foreldrum til baka hluta af skattinum sem áður hafði verið tekinn af þeim. Barnapeningurinn sé þannig hliðstæður við persónuafslátt hinna fullorðnu.
Tekist var á um þessa hluti fyrir dómstólum í Þýskaland fyrir rúmum aldarfjórðungi. Þá var við þar lýði tekjutenging „Kindergeldes,“ en fjölskyldufaðir nokkur sem fékk þess vegna lítið eða ekkert Kindergeld kærði skattlagningu sína og taldi ekki tekið sanngjarnt tillit til framfærslukostnaðar barnanna í álagningunni. Málið fór alla leið fyrir stjórnlagadómstól landsins sem úrskurðaði 29. maí 1990 að tekjutenging Kindergeldes væri brot á 3. og 6. greinum stjórnarskrárinnar. Af þeim leiddi að alltaf yrði að taka málefnalegt tillit til lágmarksframfærslukostnaðar barnanna í skattlagningunni, hvort sem tekjur foreldranna væru meiri eða minni.
Allar götur síðan hefur Kindergeld í Þýskalandi verið ótekjutengt og þar eru allir með það á hreinu að annað væri brot á stjórnarskránni. Á Norðurlöndum er barnapeningurinn líka óháður tekjum, eins og íslensku fjölskyldurnar sem flúðu nýlega hrun og kreppu til Noregs nutu góðs af. Hér á landi eru barnabæturnar hins vegar kirfilega tekjutengdar, skerðing þeirra byrjar við lágar tekjur foreldranna og þær eru í flestum tilvikum orðnar að nánast engu þegar meðaltekjum er náð. Þetta hefur stundum verið kallað fátæktargildra, en AGS og Bjarni Ben. vilja samt ganga enn lengra og skella fátæktargildrunni í lás.
Við eigum að sjálfsögðu að hafna alfarið þessum fráleitu tillögum AGS og BB. Miklu fremur ættum við að taka frændur okkar á Norðurlöndum og Þjóðverja til fyrirmyndar í þessu sem mörgu öðru og draga stórlega úr tekjutengingu barnabóta (og finna annað nafn á þær í leiðinni).
Það væri mikilvæg réttar- og kjarabót fyrir allan þorra barnafjölskyldna, og þá gætum við að þessu leyti borið okkur kinnroðalaust saman við nágrannaþjóðir okkar.
Höfundur er arkitekt.