#efnahagsmál#stjórnmál

Barnabætur: Almenn regla eða fátækrahjálp

Finnur Birgisson segir að afnema eigi tekjuskerðingu barnabóta hérlendis og líta fremur til Norðurlanda og Þýskalands í þessum efnum. Það yrði mikil réttar- og kjarabót fyrir allan þorra barnafjölskyldna.

Furðu hljótt hefur verið um það að í fjár­mála­stefnu rík­is­ins 2018-2022 sem nú er í umfjöllun Alþingis leyn­ast áform um rót­tæka upp­stokkun á barna­bótum og fleiru sem snýr að kjörum barna­fjöl­skyldna. Áform þessi eru, -þótt ótrú­legt kunni að virðast, -sam­kvæmt til­lögum frá Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðnum (AGS) og byggj­ast á þeirri mein­legu rang­hug­mynd að barna­bætur eigi ein­göngu og alfarið að vera fram­færslu­styrkur til fátækra barna­fjöl­­skyldna.

Fjár­mála­ráð­herra hefur kynnt fjár­mála­stefn­una þannig að á næstu árum verði „sér­stök áhersla á upp­bygg­ingu inn­viða og efl­ingu vel­ferð­ar­kerf­is­ins.“ Samt eiga „fé­lags­legar til­færslur til heim­ila,“ sem eru einkum barna­bætur og vaxta­bæt­ur, að drag­ast mjög saman hlut­falls­lega sam­kvæmt áætl­un­inni. Þannig er miðað við að „fram­lög til barna­bóta hald­ist óbreytt að raun­virði yfir tíma­bilið ...“ og hækki þannig minna en önnur útgjöld og tekjur rík­is­ins. Á bls. 327 er svo upp­lýst hvað þarna býr að baki: 

„Að mati sér­fræð­inga AGS er veru­leg þörf á end­ur­skoðun á barna­bóta­kerf­inu í átt til ein­föld­un­ar, auk þess að beina bót­unum í auknum mæli til lág­tekju­heim­ila. Kemur þetta fram í nið­ur­stöðum úttektar (...) sem unnin var af AGS árið 2015 að beiðni fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra. Í því sam­bandi þarf að hefja heild­stæða skoðun á stuðn­ingi við barna­­fjöl­skyld­ur, þannig að hugs­an­lega komi ein teg­und barna­bóta í stað almennra barna­bóta, barna­líf­eyris almanna­trygg­inga, mæðra­launa, barna­bóta atvinnu­leys­is­trygg­inga­kerf­is­ins auk ann­arra bóta frá ríki til barna­fjöl­skyldna.“

Auglýsing

Athygl­is­vert er að ekki er að finna neina vís­bend­ingu um þessi rót­tæku áform í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, og raunar hefur eng­inn íslenskur stjórn­mála­flokkur haft breyt­ingar í þessa veru á stefnu­skrá sinni. AGS og fyrr­ver­andi fjár­mála­ráð­herra eiga því einir höf­und­ar­rétt­inn að þessum hug­mynd­um, sem nú stendur til að láta Alþingi leggja blessun sína yfir án þess að nokkur umræða hafi farið fram um grund­vall­ar­at­riði máls­ins. -Óhætt er að full­yrða að AGS hefði aldrei vogað sér að leggja það til við neitt annað af vel­ferð­ar­sam­fé­lög­unum í okkar heims­hluta að almennum barna­bótum skatt­kerf­is­ins yrði breytt í hreina fátækra­hjálp. 

Á Norð­ur­lönd­un­um, í Þýska­landi og víðar ríkir allt annar skiln­ingur á eðli og til­gangi barna­bóta, sem reyndar eru hvergi kenndar við „bæt­ur“ nema hjá okk­ur. Þar er litið á „barna­pen­ing­inn“ sem aðferð til að taka í skatt­lagn­ing­unni til­lit til þyngri fram­færslu­byrðar hjá barna­fólk­inu, - með því að greiða for­eldrum til baka hluta af skatt­inum sem áður hafði verið tek­inn af þeim. Barna­pen­ing­ur­inn sé þannig hlið­stæður við per­sónu­af­slátt hinna full­orðn­u.   

Tek­ist var á um þessa hluti fyrir dóm­stólum í Þýska­land fyrir rúmum ald­ar­fjórð­ungi. Þá var við þar lýði tekju­teng­ing „Kind­erg­eldes,“ en fjöl­skyldu­faðir nokkur sem fékk þess vegna ­lítið eða ekk­ert Kind­erg­eld kærði skatt­lagn­ingu sína og taldi ekki tekið sann­gjarnt til­lit til fram­færslu­kostn­aðar barn­anna í álagn­ing­unni. Málið fór alla leið fyrir stjórn­laga­dóm­stól lands­ins sem úrskurð­aði 29. maí 1990 að tekju­teng­ing Kind­erg­eldes væri brot á 3. og 6. greinum stjórn­ar­skrár­inn­ar. Af þeim leiddi að alltaf yrði að taka mál­efna­legt til­lit til lág­marks­fram­færslu­kostn­aðar barn­anna í skatt­lagn­ing­unni, hvort sem tekjur for­eldr­anna væru meiri eða minn­i. 

Allar götur síðan hef­ur Kind­erg­eld í Þýska­landi verið ótekju­tengt og þar eru allir með það á hreinu að annað væri brot á stjórn­ar­skránni. Á Norð­ur­löndum er barna­pen­ing­ur­inn líka óháður tekj­um, eins og íslensku fjöl­skyld­urnar sem flúðu nýlega hrun og kreppu til Nor­egs nutu góðs af. Hér á landi eru barna­bæt­urn­ar hins veg­ar kirfi­lega tekju­tengd­ar, skerð­ing þeirra byrjar við lágar tekjur for­eldr­anna og þær eru í flestum til­vikum orðnar að nán­ast engu þegar með­al­tekjum er náð. Þetta hefur stundum verið kallað fátækt­ar­gildra, en AGS og Bjarni Ben. vilja samt ganga enn lengra og skella fátækt­ar­­gildrunni í lás.  

Við eigum að sjálf­sögðu að hafna alfarið þessum frá­leitu til­lögum AGS og BB. Miklu fremur ættum við að taka frændur okkar á Norð­ur­löndum og Þjóð­verja til fyr­ir­myndar í þessu sem mörgu öðru og draga stór­lega úr tekju­teng­ingu barna­bóta (og finna annað nafn á þær í leið­inn­i). 

Það væri mik­il­væg rétt­ar- og kjara­bót fyr­ir­ allan þorra barna­fjöl­skyldna, og þá gætum við að þessu leyti borið okkur kinn­roða­laust saman við nágranna­þjóðir okk­ar.

Höf­undur er arki­tekt.

Viltu styrkja sjálfstæða íslenska fjölmiðlun?
Lesendur Kjarnans geta kosið að greiða fast mánaðarlegt framlag til fjölmiðilsins til að efla starfsemi hans enn frekar. Markmiðið er upplýstari, gagnrýnni og málefnalegri umræða. Hjálpið okkur við að ná því markmiði með því að ganga til liðs við Kjarnasamfélagið.
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar