Verðmæti fyrirtækja getur verið ýmsu háð, svo sem rekstrarlegri skilvirkni þeirra, þróun eftirspurnar, framtíðarsýn, mikilvægum ákvörðunum stjórnenda eða samkeppnisaðila og stefnu stjórnvalda. Við kaup eða sölu á hlutabréfum reyna fjárfestar eftir bestu getu að leggja mat á þetta virði, út frá upplýsingum sem eru í boði hverju sinni og væntingum um framtíðina. Það eru aftur á móti ákveðin atriði sem geta hreyft við hlutabréfaverði án þess að hafa í reynd áhrif á verðmæti fyrirtækjanna sjálfra, svo sem upplýsingar um framboð og eftirspurn eftir hlutabréfum þeirra.
Þegar aðili reynir að kaupa eða selja umtalsverðan hlut í félagi er nokkuð algengt að það hafi einhver áhrif á verð hlutabréf þess. Ef aðrir fjárfestar verða varir við mikinn kaup- eða söluáhuga getur verið að þau áhrif komi strax fram, þ.e. að hlutabréfaverð lækki vegna væntinga um sölu eða hækki vegna væntinga um kaup. Teljist viðskiptamagnið það hátt að það sé til þess fallið að hafa „marktæk áhrif“ á markaðsverð hlutabréfanna getur jafnvel verið um innherjaupplýsingar að ræða.
Það er því ráðlegt að fara gætilega með upplýsingar um umfangsmikil kaup- eða söluáform, þar sem það getur gengið gegn hagsmunum viðkomandi kaupenda eða seljenda að opinbera slíkan áhuga, auk þess sem viðskipti á grundvelli upplýsinganna, eða dreifing þeirra, geta talist til innherjasvika.
Að takmarka áhrif aukningar í framboði eða eftirspurn á verð
Fjárfestar geta beitt ákveðnum aðferðum til þess að takmarka áhrif aukningar í framboði eða eftirspurn á verð, sem byggja flestar á því að farið sé leynt með upplýsingarnar og sem fæstar vísbendingar veittar um kaup- eða söluáformin. Hér á landi er algengast að aðilar reyni að kanna áhuga valdra aðila „utan kauphallar“ og tilkynni svo opinberlega um viðskiptin að þeim frágengnum. Þetta getur aftur á móti verið vandasamt, þar sem aðilum sem koma að slíkum samningaumleitunum gæti verið óheimilt að eiga viðskipti með viðkomandi fjármálagerninga þar til viðræður eru yfirstaðnar. Stjórnvaldssektir sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt á markaðsaðila á síðastliðnum árum vegna viðskipta á grundvelli innherjaupplýsinga um framboð eða eftirspurn sýna svart á hvítu hversu vandmeðfarið þetta getur verið.
Með nýrri markaðssvikareglugerð (e. Market Abuse Regulation), sem tekið hefur gildi innan Evrópusambandsins en bíður innleiðingar hér á landi, verða lögfestar ákveðnar verklagsreglur í tengslum við viðræður um umfangsmikil viðskipti, svokallaðar markaðsþreifingar (e. market soundings), sem koma vonandi til með að draga úr líkum á innherjasvikum. Þetta er að sjálfsögðu afar jákvætt, en að sama skapi mun umsýslukostnaður vegna slíkra viðræðna hækka og fjárfestar gætu lent oftar í því en áður að vera óheimilt að eiga viðskipti á meðan á viðræðum stendur.
Tilkynnt viðskipti utan kauphallar algengust á Íslandi
Á sviði fjármálatækni (e. fintech) hafa einnig verið hannaðar lausnir sem gera aðilum kleift að eiga viðskipti með stóran eignarhlut í skráðum félögum án þess að gera þann áhuga opinberan eða hreyfa mikið við verðinu. Má þar m.a. nefna notkun falinna tilboða, miðverðsviðskipti og algrímsviðskipti (e. algorithmic trading), sem gera fjárfestum kleift að eiga viðskipti í smærri skömmtum yfir lengra tímabil, án beinnar aðkomu verðbréfamiðlara. Eru þessar lausnir m.a. í boði innan viðskiptakerfis Nasdaq Nordic.
Notkun fjármálatækni við framkvæmd viðskipta er nokkuð skammt á veg komin hér á landi en fjárfestar á erlendum mörkuðum hafa aftur á móti tekið slíkum aðferðum opnum örmum. Á árinu 2016 mátti t.a.m. rekja 45 – 65% allrar veltu með hlutabréf í Nasdaq kauphöllunum í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki til algrímsviðskipta. Engin algrímsviðskipti hafa verið framkvæmd í íslensku kauphöllinni. Þá er hlutfall tilkynntra hlutabréfaviðskipta sem eru framkvæmd utan kauphallar á Íslandi afar hátt í samanburði við nágrannakauphallir okkar, eða 63% hér á landi í samanburði við 5 – 12% í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki, og einungis 4% hlutabréfaviðskipta hér á landi voru framkvæmd án beinnar aðkomu verðbréfamiðlara, í samanburði við 69 – 80% í áðurnefndum kauphöllum.
Betri markaður með notkun tækninnar
Það hversu innlendi markaðurinn er stilltur inn á að eiga viðskipti utan kauphallar gerir það að verkum að reglur um meðferð innherjaupplýsinga um framboð og eftirspurn, og yfirvofandi reglur um markaðsþreifingar, eru í reynd meira íþyngjandi hér á landi heldur en víðast hvar erlendis, þar sem lægra hlutfall viðskipta er háð viðræðum í lokuðum hópum.
Aukin bein þátttaka fjárfesta í pöruðum viðskiptum gæti dregið úr þessum áhrifum og að auki fæli hún í sér svokölluð jákvæð netáhrif (e. network externalities). Með hækkandi hlutfalli paraðra viðskipta eykst seljanleiki, verðsveiflur minnka, verðmyndun verður eðlilegri og traust til markaðarins eykst. Hátt hlutfall paraðra viðskipta gerir markaðinn því ákjósanlegri, ekki síst fyrir erlenda fjárfesta, sem hætta sér síður inn á markaði þar sem 63% viðskipta eru í reynd háð aðgangi að þéttu tengslaneti innlendra fagaðila. Það er því til mikils að vinna með því að færa íslenska markaðinn í nútímalegra horf. Umgjörðin og tæknin er til staðar og þá er það bara fjárfesta að taka ákvörðun um að notfæra sér hana.
Höfundur er forstöðumaður eftirlitssviðs Nasdaq kauphallarinnar á Íslandi.