Fyrir utan sama upphafsstaf þá eiga kólesteról og koltvísýringur lítið sameiginlegt. Skoðum samt tvær keimlíkar sögur af þessum efnum.
Kólesteról
Einu sinni var maður sem átti maka sem var læknir. Makinn mældi daglega kólesterólið hjá manninum og skráði niður. Það hafa löngum verið talin tengsl milli kólesteróls og hjartasjúkdóma þar sem blóðfita getur þrengt eða jafnvel stíflað æðar. En þetta er ekki einfalt. Líkaminn þarf smá kólesteról til að starfa rétt en ef það verður of mikið þá aukast líkurnar á alvarlegum hjartasjúkdómum. Í 20 ár höfðu gildin í mælingum mannsins sveiflast lítið en dag einn margfölduðust gildin. Auðvitað heimtaði læknirinn strax að makinn tæki sig á, færi að borða hollari mat og stunda reglulega líkamsrækt.
Koltvísýringur
Einu sinni var heimur sem var fullur af fólki. Vísindamenn mældu koltvísýring í andrúmslofti með beinum mælingum og í gegnum ískjarna í jöklum. Það hafa löngum verið talin tengsl milli koltvísýrings og lofthita þar sem kolefni í lofthjúpnum virkar sem einangrun þannig að hluti af hitageislum frá jörðu endurkastast. En þetta er ekki einfalt. Jörðin þarf smá koltvísýring svo ekki verði of kalt en ef hann verður of mikill þá aukast líkurnar á alvarlegum loftslagsbreytingum. Í 800.000 ár höfðu koltvísýringsgildin sveiflast á milli 200 og 250 en á nokkrum áratugum ruku þau yfir 400. Auðvitað heimtuðu margir að heimurinn tæki sig á og hætti að brenna þetta tiltölulega nýfundna jarðefnaeldsneyti og færi að nota hreinni orkugjafa.
Hvað ef?
Segjum sem svo að efasemdarmenn hefðu nú rétt fyrir sér í báðum tilvikum og nýjar rannsóknir myndu sýna að engin tengsl væru á milli kólesteróls og hjartasjúkdóma og engin tengsl milli koltvísýrings og hlýnunar jarðar. Aumingja eiginmaðurinn sæti þá upp með að vera miklu hraustari, kominn í frábært líkamlegt form og andlega heilsan betri eftir því. Aumingja heimurinn sæti þá uppi með hreinni orkugjafa, sjálfbærari orkunýtingu, minna sót og NOx mengun, meira orkuöryggi, hagkvæmari samgöngur og færri milliríkjadeilur vegna misskiptingu orkuauðlinda.
Það væri auðvitað skandall!
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.