Á Alþingi liggur fyrir frumvarp þar sem lagt er til að tálmun sé gerð refsiverð og að refsingin geti verið allt að 5 ára fangelsisvist. Í frumvarpinu er ekki að finna skilgreiningu á því hvað felst í tálmun. Tálmun er í stuttu máli sagt að meina öðru foreldri frá því að hitta börnin sín. En tálmun getur verið flóknari en það.
Í opinberri umræðu hefur borið á því að orðið „tálmun“ er notað í mjög víðum skilningi. Allt frá því að komið sé í veg fyrir að umgengnisforeldri hitti barn sitt yfir margra mánaða tímabil niður í að skila barni klukkutíma of seint til umgengnisforeldris. Stundum er það notað þegar foreldri missir umgengnisrétt vegna dóms og jafnvel talað um að hér sé um grafalvarlegt ofbeldi að ræða sem sumir telja jafnast á við líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, sem réttlætir því notkun fangelsisrefsingar.
Ástæður tálmunar geta verið jafn margvíslegar og þær geta verið alvarlegar. Frumvarpið gerir samt ráð fyrir því að eingöngu sé um að ræða illvilja eða þvermóðsku þess sem tálmar umgengni. Ekki er gert ráð fyrir þeim möguleika að verið sé að vernda hagsmuni barnsins. Með frumvarpinu er engu síður lagt til að fangelsa foreldra fyrir eitthvað sem er lagalega óskilgreint.
Í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu má finna nokkrar órökstuddar fullyrðingar og staðhæfingar, auk orðalags á borð við að „alþekkt og nokkuð algengt er að“ tálmunum sé bara beitt sísona, án þess að vísa í neinar haldbærar heimildir þar að lútandi. Ekki er heldur litið til þess hvernig nágrannalönd okkar hafa valið að leysa mál af þessu tagi.
Því vissulega er vandi fyrir hendi. Það eru til foreldrar sem nota börn sín gegn fyrrum maka, sem er með öllu ömurleg framkoma við alla hlutaðeigandi. Langvinnar deilur á milli foreldra eru börnum ákaflega þungbærar og geta haft alvarlegar afleiðingar. Við því þarf að sporna
Það er margt í málaflokknum sem vel er gert og flest öll mál eru leyst farsællega. Engu að síður eru ýmsir þættir sem þarf nauðsynlega að bæta. Hér eru því nokkrar tillögur sem líklegri eru til árangurs frekar en fangelsun:
- Vandað til ákvörðunar: Tekið sé almennilega tillit til sakaskrár, ofbeldissögu og fíknar varðandi ákvörðun um umgengni og forræði. Barnið á að njóta vafans, öryggi þess og velferð á að vera í fyrirrúmi. Til eru dæmi um að ofbeldisfullu fólki sé veitt full umgengni. Taka þarf alvarlega á hæfismálum og beita umgengni undir eftirliti í ríkara mæli. Því barn sem á lítt hæfan einstakling sem foreldri á engu síður rétt á að þekkja það foreldri. En umgengni þarf að gerast í umhverfi og aðstæðum sem ógna ekki öryggi og velferð barnsins.
- Skjótari afgreiðslutími: Hraðari málsmeðferð hjá sýslumanni og hlutaðeigandi stofnunum. Það er fullkomlega óásættanlegt að þessi mál taki allt upp í ár eða lengur í afgreiðslu. Það er mjög langur tími í lífi barns og tengsl milli foreldris og barns bíða skaða af slíku. Hér þarf hreinlega að setja meira fjármagn í málaflokkinn og bæta við stöðugildum hjá þeim stofnunum sem skipta máli. Það á að vera forgangsmál að meðferðartími hvers máls sé ekki lengri en 3 mánuðir, nema um sérlega erfið mál sé að ræða.
- Sanngjarnt sáttaferli: Öflugri sáttameðferðir, ráðgjöf, sálfræði- og geðþjónusta. Því betur sem staðið er að sátt og ráðgjöf því meiri líkur eru á jákvæðri niðurstöðu og því þarf fleira fagfólk. Langflestir foreldrar vilja börnum sínum vel og átta sig á alvarleika málsins þegar gert er almennilega grein fyrir því að langvinnar og jafnvel harðvítugar deilur milli foreldra skaða barnið hvað mest. Þeir foreldrar sem nota þann leik að mæta ekki til lögboðaðra sáttameðferða eða ráðgjafa, og tefja málið með einum eða öðrum hætti, sæti dagsektum sem hið opinbera sér um að sækja.
- Réttindi barna: Börn fái sinn eigin lögfræðing í umgengis- og forræðisdeilum. Þetta er lykilatriði í barnavernd og barnarétti. Umgengnisréttur barnsins við foreldra er mikilvægasta breytan í þessu öllu og nauðsynlegt er að hlutlaus aðili gæti hagsmuna barnanna á meðan málsmeðferð foreldra stendur. Því hagsmunir foreldra geta sannarlega stangast á við hagsmuni barnsins. Sameiginlegt forræði og eins jöfn umgengni og aðstæður leyfa, á auðvitað að vera útgangspunkturinn.
- Dagsektir: Dagsektir verði innheimtar af yfirvöldum og af meiri festu. Dagsektir vegna tálmunar þykja ekki nægilega beitt úrræði, þar sem erfiðlega hefur gengið að innheimta þær. Með réttum laga- og reglugerðarbreytingum er hægt að fella dagsektir í þessum málum undir innheimtukerfi Innheimtustofnunar sem hreinlega hefur heimild til að láta draga af launum. Lengra verður ekki gengið.
- Sérstakar kringumstæður: Í erfiðustu málunum fari sveit sérfræðinga inn á heimili þar sem búið er að þrautreyna allar sáttaleiðir. Þriggja til fjögurra manna sveit fagaðila sem samanstandi meðal annars af sálfræðingum, félagsráðgjöfum og löglærðum. Með leyfi foreldra, eða með dómsúrskurði, er farið inn á bæði heimilin, aðstæður rannsakaðar eftir bestu getu og rætt verði við skólayfirvöld, ættingja og aðra sem að málum kunna að koma. Sú sveit skili síðan áliti sem vegi þungt í úrskurði um umgengni og forræði, sem verði fylgt fast eftir.
Lokaorð
Í mannlegri hegðun er flest til, og engum dettur í hug að afneita því að til séu forsjárforeldrar sem tálma umgengni barns og forsjárlauss foreldris af engri ástæðu annarri en til að þjóna eigin þótta. En í áðurnefndu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir öðrum möguleikum og verri.
Það er óásættanlegt að refsað sé með fangelsisvist fyrir eitthvað sem er svo illa skilgreint í lögum, líkt og tálmun er, hvað þá láta dómstóla um að túlka hvað flokkast sem tálmun og hvað ekki. Þetta þarf að vera sķýrt í lögum.
Það er sorgleg staðreynd að dómstólar eiga það til að dæma ofbeldisfólki og öðrum mishæfum foreldrum bæði forræði og eftirlitslausa umgengni. Það setur hitt foreldrið í vonlausa stöðu því það hefur í raun val milli tveggja lögbrota, að hindra barnið frá því að hitta aðilann sem beitir það ofbeldi eða gefa eftir og stefna þar með velferð barnsins í hættu. Á meðan dómstólar standa sig ekki betur en svo er tómt mál að tala um fangelsisvist fyrir að beita vissum neyðarúrræðum þegar allar löglegar leiðir eru meira og minna í biðstöðu, hvort sem það er vegna skorts á gögnum, slælegra vinnubragða eða vilhallra opinberra starfsmanna.
Það getur líka gerst að lögin eru einfaldlega óskýr, því er ekki sérstaklega við dómstóla og þartilgerð yfirvöld að sakast þegar Alþingi samþykkir óljós lög byggð á ónákvæmum heimildum og nær engum gögnum líkt og ofangreint frumvarp. Í þessum málaflokki þarf að vanda vel til verka. Þess vegna skora ég á þingheim að gefa þessu frumvarpi lítið vægi og þess þá heldur vinna almennilega heimavinnuna sína.
Barnaverndarstofa vinnur gott og ötult starf og starfsfólk þess er harðduglegt, vel menntað og vinnur sín verkefni af sóma. Ábendingarnar hér að ofan ber að skoða sem uppbyggilega og lausnamiðaða gagnrýni.
Stöndum saman að því að styrkja og bæta samband foreldra og barna með því að reyna að ná sátt og samlyndi öllum til hagsbóta. Styrkjum þá innviði sem við þegar höfum og óskum eftir auknum fjármunum og mannafla til að vinna betur úr þeim vandasömu málum sem um er rætt. Styðjum bætt vinnubrögð og hugmyndir til úrbóta sem fela ekki í sér frekari refsingu en algjör nauðsyn krefur, því það kemur verst niður á þeim viðkvæmustu og þau hafa þolað nóg.