Mögulega er einungis um áratugur í að nokkur hundruð megavött (MW) af vindafli verði nýtt til raforkuframleiðslu hér á Íslandi. Í þessari grein er sett upp sviðsmynd um þessa þróun og forsendur hennar útskýrðar. Einnig er hér hagkvæmni þess að nýta vindinn sett í samhengi við kostnað nýrra jarðvarmavirkjana. Slíkur samanburður dregur vel fram hversu samkeppnishæf vindorkan er að verða.
Í ljósi þessa er eðlilegt og skynsamlegt að nýting á vindorku verði ný stoð í íslenska raforkukerfinu. Þetta verður lítil stoð til að byrja með, en vegna þeirrar hagkvæmni sem vindorkutækni hefur nú náð gæti sú nýja stoð vaxið nokkuð hratt. Nokkur helstu atriðin sem koma fram í greininni eru sem hér segir:
-Íslensk vindorka verði þriðja stöðin í raforkuframleiðslunni: Hröð þróun og aukin hagkvæmni í nýtingu á vindorku er farin að hafa geysilega mikil áhrif í raforkugeiranum víða um heim. Algeng stærð nýrra vindhverfla er yfir 3 MW og utan við ströndina er nú farið að nota 8 MW vindmyllur. Þessi tækni er orðin mjög þróuð og hagkvæm og tímabært að Íslendingar fari að nýta vindinn í auknum mæli til raforkuframleiðsu. Til framtíðar má búast við því að nýting íslenskrar vindorku geti orðið þriðja stoðin í raforkuframleiðslunni hér á landi.
-Vindorka er samkeppnishæf við jarðvarma: Vegna lækkandi kostnaðar í vindorkutækni undanfarin árin er að verða ólíklegt að unnt verði að virkja umtalsvert meiri jarðhita hér til raforkuframleiðslu með ódýrari hætti en vind. Til samanburðar má nefna að Þeistareykjavirkjun verður mögulega ámóta kostnaðarsöm eins og að virkja vind. Og fyrsti áfangi fyrirhugaðrar jarðvarmavirkjunar í Barnarflagi við Mývatn yrði sennilega mun dýrari en sambærileg raforkuframleiðsla með vindmyllum.
- Nýting vindorku hefur óvenju lítil umhverfisáhrif: Það er margt sem mælir með nýtingu íslenskrar vindorku. Þar skiptir t.a.m. máli afturkræfni vindmylluverkefna og lítil umhverfisáhrif. Út frá sjónarmiðum um verndun miðhálendisins er vindorkan sennilega skynsamlegri en t.d. fyrirhuguð Skrokkölduvirkjun inni á hálendinu miðju. Og takmarka má neikvæð sjónræn áhrif vindmylla með því að vanda val á staðsetningu.
- Um 2-3% raforkuframleiðslunnar eftir áratug gæti komið frá vindi: Horfur eru á að fyrir 2030 þurfi að auka raforkuframleiðslu hér á Íslandi sem nemi a.m.k. 2,500 GWst. Gera má ráð fyrir að þar af mundi vindorka skila um fimmtungi aukningarinnar. Það gæti orðið í formi u.þ.b. þriggja vindmyllugarða af hógværri stærð. Hver þeirra yrði um 10-25 vindmyllur, með afl á milli 30-60 MW. Raforkuframleiðsla fyrir tilstilli vindsins myndi þá verða um 2-3% af raforkunotkun á Íslandi.
- Um 5-6% raforkuframleiðslunnar eftir um 15 ár: Sé horft aðeins lengra fram í tímann, þ.e. upp úr 2030, virðist raunhæft að íslenskir vindmyllugarðar verði þá senn orðnir fimm til sex talsins og samtals um 300-400 MW. Raforkuframleiðsla þeirra samtals gæti verið á bilinu 1.000-1.500 GWst árlega og myndi nema um 5-6% af raforkunotkuninni.
Vantar 2.500 GWst fyrir 2030
Ofangreind sviðsmynd eru háð verulegri óvissu, enda er ekki unnt að spá af nákvæmni fyrir um það hversu hratt nýting vindorku komi til með að vaxa hér. Eitt óvissuatriðið er hversu hratt raforkueftirspurn á Íslandi mun í reynd vaxa á komandi árum. Þar er eðlilegast að miða við opinberar spár, þ.e. skýrslur Orkuspárnefndar. Þar kemur fram að raforkunotkun hér fram til 2030 muni fara úr núverandi tæplega 19.000 GWst árlega í um 21.500 GWst. Aukningin þarna er um 2.500 GWst. Sennilega má telja þessa tölu algert lágmark um hversu mikið þarf að auka hér raforkuframboð fram til 2030.
Þetta er það sem Landsvirkjun kallar „óvalkvæða“ aukningu. Gangi þessi sýn eftir þarf sem sagt nauðsynlega að bæta um 2.500 GWst við núverandi raforkuframleiðslu á rétt rúmlega áratug. Og það bara til þess eins að mæta þeirri eftirspurn sem álitin er nánast óhjákvæmileg. Þetta er verulegt raforkumagn; jafngildir rúmlega hálfri framleiðslu Kárahnjúkavirkjunar.
Mögulega eykst svo eftirspurnin meira og hraðar og þá þyrfti væntanlega ennþá fleiri nýjar virkjanir. Í þessu sambandi má nefna að í nýlegri skýrslu á vegum Landsnets (um kerfisáætlun 2016-2025 og aukna raforkunotkun í samgöngum og fiskimjölsverksmiðjum) kemur fram að raforkuframboð hér þurfi mögulega að vaxa um rúmlega 3.000 GWst fram til 2030. Og það án nokkurrar nýrrar stóriðju. Það að miða við 2.500 GWst má því sennilega álíta hógværa spá.
Mun öll ný raforka koma frá Landsvirkjun?
Enn er óvíst hvaða nýjar virkjanir munu skila nauðsynlegri aukningu á raforkuframboði. Ýmis virkjunaráform eru komin nokkuð vel áleiðis. Þar má fyrst nefna annan áfanga Þeistareykjavirkjunar (stækkun í 90 MW) og nýja virkjun við Búrfell (100 MW) sem nýtir vatn úr Bjarnalóni ofan Búrfells. Þá kann að verða ráðist í Hvammsvirkjun á sérlega fallegum stað við Þjórsá gegnt Heklu (90 MW) og einnig gæti Blönduveita (30 MW) verið góður kostur. Allar þessar fjórar virkjanir eru/yrðu á vegum Landsvirkjunar.
Aðrar virkjanir sem virðast framarlega á dagskrá eru t.a.m. önnur virkjun í neðanverðri Þjórsá, þ.e. Holtavirkjun (55 MW), og Skrokkölduvirkjun á miðju hálendinu í nágrenni Hágöngulóns suðvestan Vonarskarðs (35 MW). Báðar eru þær á vegum Landsvirkjunar. Landsvirkjun er líka með augastað á Urriðafossvirkjun (140 MW), en ræður ekki yfir vatnsréttindunum þar og óvíst hvort fyrirtækið nái samningum við eigendurna. Loks áformar Landsvirkjun virkjanir í Bjarnarflagi við Mývatn og við Kröflu (hvor um sig yrði u.þ.b. 45 MW en möguleiki er á talsvert meira afli við Kröflu).
Takmörkuð virkjunaráform annarra orkufyrirtækja
Önnur af stóru orkufyrirtækjunum hér virðast skemmra á veg komin með ný virkjunaráform. Þegar Landsvirkjun er frá talin er það helst HS Orka sem sýnt hefur viðleitni í þá átt að vilja reisa nýjar umtalsverðar virkjanir hér. HS Orka hefur t.a.m. áform um aukna raforkuframleiðslu úr jarðhita á Reykjanesi og er með rannsóknaleyfi vegna mögulegrar virkjunar við Eldvörp. Sú virkjun yrði sennilega um 50 MW, en sumar slíkar jarðvarmavirkjanir gefa möguleika á stækkun.
Í reynd verða þó nýjar jarðvarmavirkjanir sennilega ekki byggðar nema að nýir stóriðjunotendur kaupi raforkuna fyrirfram. Vegna aukningar á raforkueftirspurn á almenna markaðnum er eðlilegra og áhættuminna að virkja í smærri skrefum. Og þar koma helst til greina hóflega stórar vatnsaflsvirkjanir og nettir vindmyllugarðar.
Í þessu ljósi kemur ekki á óvart að HS Orka er áhugasöm um nýja vatnsaflsvirkjun við Hagavatn (um 20 MW virkjun upp við Langjökul). Um ON (Orkuveitu Reykjavíkur) er aftur á móti það að segja að fyrirtækið virðist nú aðallega einbeita sér að viðbrögðum við hnignandi orkuframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar (með nýjum borunum fyrir þá virkjun). Og virðist sem ON/OR ætli að fara sér rólega á komandi árum í öðrum virkjunarframkvæmdum.
Vindorka verði þriðja stoðin í raforkuframleiðslu á Íslandi
Hversu hæg eða hröð uppbygging nýrra vatnsafls- og jarðvarmavirkjana verður á komandi árum og áratugum er erfitt að segja til um. Ástæða er til að minna á það viðhorf Orkuspárnefndar, að raforkuverð hér muni að öllum líkindum fara hækkandi vegna þess að hagkvæmustu virkjunarkostirnir hafi verið nýttir og kostnaður við nýjar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir fari hækkandi. Þetta er mikilvægur hvati til að huga að nýtingu vindsins til raforkuframleiðslu.
Hverjar svo sem næstu vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir hér verða, þá er líklegt að umtalsverður hluti af nauðsynlegu nýju raforkuframboði muni koma frá vindmyllugörðum. Vindorkutæknin er orðin það ódýr að hún getur keppt við ýmsa af þeim hefðbundnu virkjunarkostum sem eru hér á dagskrá. Þar að auki hefur virkjun vindsins minni umhverfisáhrif og meiri afturkræfni en flestar hefðbundnar virkjanir. Þess vegna hefur vindorkan góða möguleika til að verða þriðja stoðin í raforkuframleiðslu á Íslandi. Og með virkjun íslenskrar vindorku verður minni þörf á nýjum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum.
Það orkufyrirtækjanna hér sem hefur kynnt langstærstu áætlanirnar um virkjun vindorku er Landsvirkjun. Fyrirtækið hefur áformað að setja upp alls um 300 MW af vindafli í formi s.k. Blöndulundar og Búrfellslundar. Þarna er þó kannski skynsamlegra að fara aðeins hægar í uppbyggingu þriðju stoðarinnar. Einnig gæti þarna skipt máli, bæði gagnvart vindorku og annarri nýrri raforkuframleiðslu, að ekki er víst að allir fagni því að markaðshlutdeild Landsvirkjunar á íslenskum raforkumarkaði verði ennþá umfangsmeiri en orðið er.
Vindorka gæti senn uppfyllt um 5% af raforkuþörf Íslands
Stærstum hluta af vaxandi raforkueftirspurn hér á landi verður mætt með nýjum hefðbundnum virkjunum, þ.e. vatnsafli og jarðvarma. Hér að framan voru nefndir nokkrir af þeim valkostum eða verkefnum sem þar kann að verða ráðist í. Samtals munu slíkar hefðbundnar virkjanir sennilega mæta a.m.k. 70-80% af umræddri aukinni eftirspurn eftir raforku. M.ö.o. þá má hugsa sér að íslensk vindorka mæti um 20-30% af aukinni raforkunotkun fram til ca. 2030, þ.e. á bilinu 500-750 GWst. Þar með myndi vindorka skila nálægt 3% af raforkuframleiðslu á Íslandi.
Þegar litið er aðeins lengra fram í tímann er raunhæft að ætla að vindurinn hér muni mæta um 5-6% af raforkuþörf Íslands. Í slíkum áætlunum gæti íslenska vindaflið hafa aukist um u.þ.b. helming frá því sem segir hér að framan. Sem merkir að ársframleiðsla íslenskra vindmylla yrði þá á bilinu 1.000-1.500 GWst og uppsett vindafl þá samtals orðið um 300-400 MW. Sennilega er a.m.k. vel yfir áratugur í að svo verði. Athuga ber að umræddar prósentutölur eru háðar verulegum vikmörkum og ráðast af því hversu hratt raforkueftirspurnin mun aukast.
Skynsamlegt að byrja á þremur u.þ.b. 50 MW vindmyllugörðum?
Í dag eru einungis framleiddar rétt rúmlega 10 GWst árlega með íslensku vindafli. Nær öll þessi framleiðsla kemur frá fjórum millistórum vindmyllum á Suðurlandi, en samanlagt afl þeirra er um 3 MW. Þar hefur verið um eins konar tilraunaverkefni að ræða. Nú er orðið tímabært að taka næstu skref, sem um leið verður þá upphafið að alvöru nýtingu á íslenskum vindi til raforkuframleiðslu. Um leið er mikilvægt að þau skref verði tekin af varfærni.
Með hliðsjón af þessu gæti verið raunhæft að eftir um 5-10 ár verði starfræktir hér um þrír til fjórir vindmyllugarðar af hógværri stærð. Hver þeirra gæti verið á bilinu 30-60 MW og samtals gæti uppsett afl íslenskrar vindorku þá verið nálægt 150 MW. Athuga ber að nú er á vegum fyrirtækisins Biokraft unnið að mati á umhverfisáhrifum á allt að 45 MW vindmyllugarði við byggðina í Þykkvabæ í Rangárþingi ytra. Ekki liggur endanlega fyrir hvort þetta verkefni verður að veruleika.
150 MW innan tíu ára og 300-400 MW nokkrum árum síðar
Fyrstu vindmyllugarðarnir gætu hver um sig orðið 15-20 vindmyllur. Raforkuframleiðsla þessa vindafls (alls um 150 MW) yrði um eða rúmlega 500 GWst á ári. Heildarfjárfestingin þar gæti orðið á bilinu 20-25 milljarðar króna. Sem er t.a.m. svipað eins og kostnaðurinn við fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar sem nú er verið að reisa. Sá fyrsti áfangi er 45 MW og mun framleiða ámóta raforkumagn eins og um 100 MW af vel staðsettu vindafli.
Takist vel til með þessi fyrstu vindorkuverkefni er líklegt að íslenskt vindafl myndi svo brátt tvöfaldast og jafnvel rúmlega það. Og þá verða samtals um 300-400 MW eftir rúman áratug og þá nema um 5-6% af raforkuframleiðslu á Íslandi, líkt og áður sagði. Kæmi til sæstrengs milli Íslands og Evrópu yrði uppbygging íslenskrar vindorkunýtingar mögulega hraðari; framangreindar sviðsmyndir gera ekki ráð fyrir slíkum sæstreng enda er ennþá allsendis óvíst um hvenær slíkur strengur verður að veruleika.
Þeistareykjavirkjun er á pari við vindafl
Ofangreind þróun, þ.e. vaxandi áhugi á íslenskri vindorku, er eðlileg vegna þess hversu hagkvæmni vindorkutækninnar hefur aukist hratt á síðustu árum. Fyrir vikið eru vindmyllugarðar á Íslandi að verða a.m.k. álíka áhugaverður virkjunarkostur eins og jarðhiti. Fyrsti áfangi 45 MW jarðhitavirkjunar að Þeistareykjum er t.a.m. dýrari en ef sambærilegt vindafl væri nú virkjað, þ.e. til að framleiða um 360 GWst árlega (líkt og fyrsti áfanginn á Þeistareykjum á að gera).
Með því að stækka Þeistareykjavirkjun í 90 MW mun nást fram meiri hagkvæmni þar. Fullbyggð verður kostnaður Þeistareykjavirkjunar sennilega ámóta eða eilítið minni en ef sambærilegur vindmyllugarður hefði verið reistur. Þá er miðað við árlega raforkuframleiðslu upp á um 720 GWst.
M.ö.o. þá væri vel staðsettur vindmyllugarður á Íslandi samkeppnishæfur við Þeistareykjavikjun þegar einfaldlega er litið til kostnaðarins. Þarna hefur jarðvarmavirkjunin aftur á móti það mikilvæga forskot að geta skilað jafnri, stöðugri og nokkuð fyrirsjáanlegri raforkuframleiðslu alla daga ársins árið um kring. Þess vegna er Þeistareykjavirkjun (í fullri 90 MW stærð) vafalítið töluvert hagkvæmari kostur en vindorka. Að því gefnu að jarðvarmaauðlindinni á svæðinu hnigni ekki hraðar en áætlanir gera ráð fyrir!
Ódýr vindorka boðar viss tímamót í íslenskri raforkuframleiðslu
Kostnaðurinn við s.k. Búrfellslund, sem er 200 MW vindmyllugarður sem Landsvirkjun hefur áformað ofan Búrfells við Þjórsá, yrði svipaður eins og Þeistareykjavirkjun (og hvor virkjun um sig myndi framleiða rúmlega 700 GWst árlega). Þetta er athyglisvert í ljósi þess að skv. skýrslu sem unnin var nýlega fyrir Samorku er Þeistareykjavirkjun ódýrasti virkjunarkosturinn í íslenskum jarðhita. Þetta merkir að það að virkja íslenska vindorku á stöðum sem bjóða upp á mjög góðar vindaðstæður, yrði stundum og jafnvel oft ódýrari kostur en að virkja meiri jarðvarma hér. Framundan kunna því að vera viss tímamót í íslenskum raforkumálum, sem felst í því að vindorka verður hagkvæm sem þriðja stoðin í raforkugeiranum hér.
Lágur kostnaður en sveiflukennd raforkuframleiðsla
Helsti vandinn eða takmörkunin sem virkjun íslenskrar vindorku stendur frammi fyrir er sú staðreynd að hér er mestöll raforkan framleidd fyrir stóriðju. Af þeim sökum eru snöggar skammtímasveiflur í raforkuframboði óásættanlegar. Í flestum öðrum vestrænum löndum eru verulegar sveiflur í raforkuframboði og raforkueftirspurn algengar, bæði milli árstíða og innan hvers sólarhrings. Enda síbreytilegt hversu mikið rafmagn almenningur og almenn fyrirtæki eru að nota hverju sinni. Fyrir vikið eru forsendurnar að baki uppbyggingar raforkuvera þar talsvert öðruvísi en gerist hér á landi.
Þrátt fyrir lækkandi kostnað vindorkutækninnar verður sem sagt ekki litið framhjá því að slík verkefni, þ.e. vindmyllugarðar eins og t.a.m. Búrfellslundur, henta ekki vel til að tryggja stóriðju umsamda raforku allan sólahringinn alla daga ársins. Það má m.ö.o. segja sem svo að óvenju mikið umfang stóriðjunnar hér dregur úr möguleikunum á að nýta íslenska vindorku. Um leið veldur þetta fyrirkomulag því sem nefna má offjárfestingu í vatnsafli, þar sem miðlunarvatn er jafnan mjög mikið og í þessu samhengi svo mikið að það skapar vissa óhagkvæmni.
Á móti kemur að stóru vatnsaflsvirkjanirnar hér væru jú ekki til án stóriðjunnar. Mikið umfang stóriðjunnar hér er sem sagt jákvætt að því leyti að raforkueftirspurnin er þægilega stöðug og því unnt að fjármagna stórar vatnsaflsvirkjanir með mikilli miðlunargetu. Um leið hefur þetta þau neikvæðu áhrif að fjárfesting í vatnsmiðlun er það sem kalla mætti óþarflega mikil (því stóriðjan þarf sína miklu raforku hvað sem líður vatnsbúskapnum hverju sinni). Þetta er mjög svipuð staða eins og Norðmenn voru í fyrir nokkrum áratugum, en þeir sjá nú tækifæri í því að nýta mikla miðlunargetu sína í hagkvæmu samspili við uppbyggingu vindafls.
Vindmyllugarðar gefa færi á hagkvæmu samspili við vatnsafl
Þrátt fyrir óstöðugleika vindsins og jafna raforkuþörf stóriðjunnar getur náðst góð hagkvæmni með því að nýta íslenska vindorku. Vatnsafl með miðlunarlónum er gríðarlega stór hluti í íslenskri raforkuframleiðslu. Samspilið milli vindafls og vatnsafls er mikilvægur þáttur í hagkvæmni vindmyllugarða. Um leið má nýta samspil vindorku við mikla vatnsmiðlun til að auka hagkvæmni vatnsaflskerfisins. Þegar vindur blæs má spara vatn í miðlunarlónum og þegar vindur er lítill má auka streymið um vatnshverflana.
Nýta má samspil af þessu tagi til að auka nýtingu á vatni í miðlunarlónum. M.ö.o. þá skapar vindaflið tækifæri til að takmarka og jafnvel koma í veg fyrir að vatn renni úr miðlunarlónum á yfirfalli (slíkt vatn framleiðir ekkert rafmagn) Um leið verður vatnsaflið ásamt miðlunarlónum í hlutverki varaafls fyrir vindmyllugarða. Samspil af þessu tagi gæti stuðlað að aukinni hagkvæmni í íslenska raforkugeiranum og um leið minnkað þörfina á að reisa sífellt fleiri hefðbundnar og dýrari virkjanir hér.
Íslensk vindorka á eftir að verða ennþá samkeppnishæfari
Á svæðum þar sem vindaðstæður eru góðar er íslensk vindorka sem sagt orðin eða að verða hagkvæmari en margar þeirra jarðhitavirkjana sem nú eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar (a.m.k. að því gefnu að nóg verði um varaafl frá vatnsmiðlun). Og kostnaðarmunurinn á vindorku og jarðvarma gæti orðið til þess að senn fari að draga úr áhuga á byggingu nýrra jarðhitavirkjana.
Vegna tækniframfara í vindorkunni á kostnaðarbilið þarna mögulega eftir að breikka á næstu árum og gera vindorkuna ennþá samkeppnishæfari. Til framtíðar litið er því útlit fyrir að vaxandi fjárhagslegur hvati verði til að virkja íslenskan vind fremur en hitann í jörðu. Þarna eru áhugaverð tækifæri fyrir íslensk orkufyrirtæki og þessi staða hér er líka farin að vekja athygli meðal erlendra orkufyrirtækja sem sérhæfa sig í vindorku.
Afturkræfni vindmyllugarða er mikilvægur eiginleiki
Stórar vindmyllur geta vissulega haft mjög neikvæð sjónræn áhrif í augum margra. Þess vegna er skynsamlegt að þær rísi úr sjónfæri við byggð eða séu a.m.k. ekki mjög nálægt byggð. Og vindmyllur geta valdið fugladauða. Þess vegna er mikilvægt að staðsetja þær ekki við mikilvægar farleiðir fugla né í nágrenni við mikilvægar varpstöðvar.
Það er aftur á móti afskaplega jákvætt við þessa tækni að þegar vindmyllugarður er tekinn niður og fjarlægður, eftir um 25-30 ára rekstrartíma, er einfalt að búa svo um hnútana að varanleg áhrif af starfseminni verði svo til engin. Möstrin, spaðar og hverflar ásamt öðru efni er allt fjarlægt og undirstöður sömuleiðis (eða þær fjarlægðar að hluta og að öðru leyti huldar jarðvegi og gróðri). Að því búnu er líkt og landið hafi alls ekki verið notað þessa tvo til þrjá áratugi. Slík afturkræfni gagnvart vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum er sennilega nánast útilokuð.
Tímabært og eðlilegt að nýta íslenska vindorku
Það að nýta vindinn til að umbreyta orku hans í raforku er því ekki aðeins hagkvæm aðferð heldur líka óvenju umhverfisvæn raforkustarfsemi. Fyrir land með mikið af óbyggðum svæðum og góðar vindaðstæður, líkt og Ísland, er eðlilegt og skynsamlegt að nýta vindinn með þessum hætti. Það var því sennilega fremur vanmælt en ofmælt hjá framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar þegar hann sagði nýverið að í dag sé vindorkan orðin á pari við aðra virkjunarkosti.
Fyrir okkur Íslendinga er um að ræða nýja tegund af landnýtingu og eðlilegt að fara þarna varlega af stað. Þess vegna væri e.t.v. skynsamlegt að takmarka stærð fyrstu vindmyllugarðanna. Þó er mikilvægt að hafa í huga að hagkvæmni svona verkefna getur mjög ráðist af stærðinni og því rétt að varast að takmarka afl vindmyllugarða um of. Mikilvægast er að gæta þess að staðsetja vindmyllugarða nokkuð utan byggðar og ekki á landi þar sem sjónrænu áhrifin yrðu sérlega mikil eða neikvæð, svo og að huga vel að því að staðsetning taki tillit til fuglalífs.
Sum heiðarlönd og sjávarsíðan áhugaverð
Hálendi Íslands er um margt ákjósanlegur staður fyrir vindmyllugarða, bæði vegna góðra vindskilyrða og fjarlægðar frá byggð. En vegna hinnar miklu sérstöðu íslenska miðhálendisins kann að vera skynsamlegt að bíða með að staðsetja vindmyllugarða þar. Að auki yrði víða ansið dýrt, vegna mikillar fjarlægðar, að tengja vindmyllugarða á hálendinu við flutningskerfi raforku.
Heppilegri staðsetning fyrstu vindmyllugarðanna á Íslandi gæti verið á heiðarlöndum á mörkum afrétta og byggðar og/eða við sjóinn. Þ.e. að því gefnu að viðkomandi svæði hafi góðar vindaðstæður og mannvirkin trufli ekki byggð eða ferðamennsku og séu ekki staðsett við mikilvægar farleiðir fugla. Einnig er ákjósanlegt að fremur stutt sé í flutningsmannvirki.
Greinarhöfundur vinnur nú að undirbúningi vindorkuverkefna í samstarfi við norrænt orkufyrirtæki. Þar er m.a. horft til Mosfellsheiðar og nokkurra annarra svæða hér á landi. Eftir því sem þessum verkefnum miðar áfram verður sagt nánar frá þeim, enda eðlilegt að orkuverkefni af þessu tagi fái ítarlega umfjöllun og umræðu. Gera má ráð fyrir að nánari upplýsingar um verkefnin verði senn m.a. birt á vefsvæði greinarhöfundar á vefnum Medium.com. Hér í lokin má sjá mynd frá vindmyllugarði í Skandinavíu, sem gefur hugmynd um hvernig ásýnd svona mannvirkja gæti orðið hér á landi.