Styttist í fyrstu vindmyllugarðana

Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur, MBA og sérfræðingur í orkumálum, heldur áfram að skrifa um möguleika í virkjun vindsins.

Auglýsing

Mögu­lega er ein­ungis um ára­tugur í að nokkur hund­ruð mega­vött (MW) af vindafli verði nýtt til raf­orku­fram­leiðslu hér á Íslandi. Í þess­ari grein er sett upp sviðs­mynd um þessa þróun og for­sendur hennar útskýrð­ar. Einnig er hér hag­kvæmni þess að nýta vind­inn sett í sam­hengi við kostnað nýrra jarð­varma­virkjana. Slíkur sam­an­burður dregur vel fram hversu sam­keppn­is­hæf vind­orkan er að verða.

Í ljósi þessa er eðli­legt og skyn­sam­legt að nýt­ing á vind­orku verði ný stoð í íslenska raf­orku­kerf­inu. Þetta verður lítil stoð til að byrja með, en vegna þeirrar hag­kvæmni sem vind­orku­tækni hefur nú náð gæti sú nýja stoð vaxið nokkuð hratt. Nokkur helstu atriðin sem koma fram í grein­inni eru sem hér seg­ir:

-Íslensk vind­orka verði þriðja stöðin í raf­orku­fram­leiðsl­unni: Hröð þróun og aukin hag­kvæmni í nýt­ingu á vind­orku er farin að hafa geysi­lega mikil áhrif í raf­orku­geir­anum víða um heim. Algeng stærð nýrra vind­hverfla er yfir 3 MW og utan við strönd­ina er nú farið að nota 8 MW vind­myll­ur. Þessi tækni er orðin mjög þróuð og hag­kvæm og tíma­bært að Íslend­ingar fari að nýta vind­inn í auknum mæli til raf­orku­fram­leiðsu. Til fram­tíðar má búast við því að nýt­ing íslenskrar vind­orku geti orðið þriðja stoðin í raf­orku­fram­leiðsl­unni hér á landi.

Auglýsing

-Vind­orka er sam­keppn­is­hæf við jarð­varma: Vegna lækk­andi kostn­aðar í vind­orku­tækni und­an­farin árin er að verða ólík­legt að unnt verði að virkja umtals­vert meiri jarð­hita hér til raf­orku­fram­leiðslu með ódýr­ari hætti en vind. Til sam­an­burðar má nefna að Þeista­reykja­virkjun verður mögu­lega ámóta kostn­að­ar­söm eins og að virkja vind. Og fyrsti áfangi fyr­ir­hug­aðrar jarð­varma­virkj­unar í Barn­arflagi við Mývatn yrði senni­lega mun dýr­ari en sam­bæri­leg raf­orku­fram­leiðsla með vind­myll­um.

Nýt­ing vind­orku hefur óvenju lítil umhverf­is­á­hrif: Það er margt sem mælir með nýt­ingu íslenskrar vind­orku. Þar skiptir t.a.m. máli aft­ur­kræfni vind­myllu­verk­efna og lítil umhverf­is­á­hrif. Út frá sjón­ar­miðum um verndun mið­há­lend­is­ins er vind­orkan senni­lega skyn­sam­legri en t.d. fyr­ir­huguð Skrokköldu­virkjun inni á hálend­inu miðju. Og tak­marka má nei­kvæð sjón­ræn áhrif vind­mylla með því að vanda val á stað­setn­ingu.

- Um 2-3% raf­orku­fram­leiðsl­unnar eftir ára­tug gæti komið frá vindi: Horfur eru á að fyrir 2030 þurfi að auka raf­orku­fram­leiðslu hér á Íslandi sem nemi a.m.k. 2,500 GWst. Gera má ráð fyrir að þar af mundi vind­orka skila um fimmt­ungi aukn­ing­ar­inn­ar. Það gæti orðið í formi u.þ.b. þriggja vind­myllu­garða af hóg­værri stærð. Hver þeirra yrði um 10-25 vind­myll­ur, með afl á milli 30-60 MW. Raf­orku­fram­leiðsla fyrir til­stilli vinds­ins myndi þá verða um 2-3% af raf­orku­notkun á Íslandi.

- Um 5-6% raf­orku­fram­leiðsl­unnar eftir um 15 ár: Sé horft aðeins lengra fram í tím­ann, þ.e. upp úr 2030, virð­ist raun­hæft að íslenskir vind­myllu­garðar verði þá senn orðnir fimm til sex tals­ins og sam­tals um 300-400 MW. Raf­orku­fram­leiðsla þeirra sam­tals gæti verið á bil­inu 1.000-1.500 GWst árlega og myndi nema um 5-6% af raf­orku­notk­un­inni.

Vantar 2.500 GWst fyrir 2030

Ofan­greind sviðs­mynd eru háð veru­legri óvissu, enda er ekki unnt að spá af nákvæmni fyrir um það hversu hratt nýt­ing vind­orku komi til með að vaxa hér. Eitt óvissu­at­riðið er hversu hratt raf­orku­eft­ir­spurn á Íslandi mun í reynd vaxa á kom­andi árum. Þar er eðli­leg­ast að miða við opin­berar spár, þ.e. skýrslur Orku­spár­nefnd­ar. Þar kemur fram að raf­orku­notkun hér fram til 2030 muni fara úr núver­andi tæp­lega 19.000 GWst árlega í um 21.500 GWst. Aukn­ingin þarna er um 2.500 GWst. Senni­lega má telja þessa tölu algert lág­mark um hversu mikið þarf að auka hér raf­orku­fram­boð fram til 2030.

Þetta er það sem Lands­virkjun kallar „óval­kvæða“ aukn­ingu. Gangi þessi sýn eftir þarf sem sagt nauð­syn­lega að bæta um 2.500 GWst við núver­andi raf­orku­fram­leiðslu á rétt rúm­lega ára­tug. Og það bara til þess eins að mæta þeirri eft­ir­spurn sem álitin er nán­ast óhjá­kvæmi­leg. Þetta er veru­legt raf­orku­magn; jafn­gildir rúm­lega hálfri fram­leiðslu Kára­hnjúka­virkj­un­ar.

Mögu­lega eykst svo eft­ir­spurnin meira og hraðar og þá þyrfti vænt­an­lega ennþá fleiri nýjar virkj­an­ir. Í þessu sam­bandi má nefna að í nýlegri skýrslu á vegum Lands­nets (um kerf­is­á­ætlun 2016-2025 og aukna raf­orku­notkun í sam­göngum og fiski­mjöls­verk­smiðj­um) kemur fram að raf­orku­fram­boð hér þurfi mögu­lega að vaxa um rúm­lega 3.000 GWst fram til 2030. Og það án nokk­urrar nýrrar stór­iðju. Það að miða við 2.500 GWst má því senni­lega álíta hóg­væra spá.

Mun öll ný raf­orka koma frá Lands­virkj­un?

Enn er óvíst hvaða nýjar virkj­anir munu skila nauð­syn­legri aukn­ingu á raf­orku­fram­boði. Ýmis virkj­un­ar­á­form eru komin nokkuð vel áleið­is. Þar má fyrst nefna annan áfanga Þeista­reykja­virkj­unar (stækkun í 90 MW) og nýja virkjun við Búr­fell (100 MW)  sem nýtir vatn úr Bjarna­lóni ofan Búr­fells. Þá kann að verða ráð­ist í Hvamms­virkjun á sér­lega fal­legum stað við Þjórsá gegnt Heklu (90 MW) og einnig gæti Blöndu­veita (30 MW) verið góður kost­ur. Allar þessar fjórar virkj­anir eru/yrðu á vegum Lands­virkj­un­ar.

Aðrar virkj­anir sem virð­ast fram­ar­lega á dag­skrá eru t.a.m. önnur virkjun í neð­an­verðri Þjórsá, þ.e. Holta­virkjun (55 MW), og Skrokköldu­virkjun á miðju hálend­inu í nágrenni Hágöngu­lóns suð­vestan Von­ar­skarðs (35 MW). Báðar eru þær á vegum Lands­virkj­un­ar. Lands­virkjun er líka með auga­stað á Urriða­foss­virkjun (140 MW), en ræður ekki yfir vatns­rétt­ind­unum þar og óvíst hvort fyr­ir­tækið nái samn­ingum við eig­end­urna. Loks áformar Lands­virkjun virkj­anir í Bjarn­arflagi við Mývatn og við Kröflu (hvor um sig yrði u.þ.b. 45 MW en mögu­leiki er á tals­vert meira afli við Kröflu).

Tak­mörkuð virkj­un­ar­á­form ann­arra orku­fyr­ir­tækja

Önnur af stóru orku­fyr­ir­tækj­unum hér virð­ast skemmra á veg komin með ný virkj­un­ar­á­form. Þegar Lands­virkjun er frá talin er það helst HS Orka sem sýnt hefur við­leitni í þá átt að vilja reisa nýjar umtals­verðar virkj­anir hér. HS Orka hefur t.a.m. áform um aukna raf­orku­fram­leiðslu úr jarð­hita á Reykja­nesi og er með rann­sókna­leyfi vegna mögu­legrar virkj­unar við Eld­vörp. Sú virkjun yrði senni­lega um 50 MW, en sumar slíkar jarð­varma­virkj­anir gefa mögu­leika á stækk­un.

Í reynd verða þó nýjar jarð­varma­virkj­anir senni­lega ekki byggðar nema að nýir stór­iðju­not­endur kaupi raf­ork­una fyr­ir­fram. Vegna aukn­ingar á raf­orku­eft­ir­spurn á almenna mark­aðnum er eðli­legra og áhættu­m­inna að virkja í smærri skref­um. Og þar koma helst til greina hóf­lega stórar vatns­afls­virkj­anir og nettir vind­myllu­garð­ar.

Í þessu ljósi kemur ekki á óvart að HS Orka er áhuga­söm um nýja vatns­afls­virkjun við Haga­vatn (um 20 MW virkjun upp við Lang­jök­ul). Um ON (Orku­veitu Reykja­vík­ur) er aftur á móti það að segja að fyr­ir­tækið virð­ist nú aðal­lega ein­beita sér að við­brögðum við hnign­andi orku­fram­leiðslu Hell­is­heið­ar­virkj­unar (með nýjum bor­unum fyrir þá virkj­un). Og virð­ist sem ON/OR ætli að fara sér rólega á kom­andi árum í öðrum virkj­un­ar­fram­kvæmd­um.

Vind­orka verði þriðja stoðin í raf­orku­fram­leiðslu á Íslandi

Hversu hæg eða hröð upp­bygg­ing nýrra vatns­afls- og jarð­varma­virkj­ana verður á kom­andi árum og ára­tugum er erfitt að segja til um. Ástæða er til að minna á það við­horf Orku­spár­nefnd­ar, að raf­orku­verð hér muni að öllum lík­indum fara hækk­andi vegna þess að hag­kvæm­ustu virkj­un­ar­kost­irnir hafi verið nýttir og kostn­aður við nýjar vatns­afls- og jarð­varma­virkj­anir fari hækk­andi. Þetta er mik­il­vægur hvati til að huga að nýt­ingu vinds­ins til raf­orku­fram­leiðslu.

Hverjar svo sem næstu vatns­afls- og jarð­varma­virkj­anir hér verða, þá er lík­legt að umtals­verður hluti af nauð­syn­legu nýju raf­orku­fram­boði muni koma frá vind­myllu­görð­um. Vind­orku­tæknin er orðin það ódýr að hún getur keppt við ýmsa af þeim hefð­bundnu virkj­un­ar­kostum sem eru hér á dag­skrá. Þar að auki hefur virkjun vinds­ins minni umhverf­is­á­hrif og meiri aft­ur­kræfni en flestar hefð­bundnar virkj­an­ir. Þess vegna hefur vind­orkan góða mögu­leika til að verða þriðja stoðin í raf­orku­fram­leiðslu á Íslandi. Og með virkjun íslenskrar vind­orku verður minni þörf á nýjum vatns­afls- og jarð­varma­virkj­un­um.

Það orku­fyr­ir­tækj­anna hér sem hefur kynnt langstærstu áætl­an­irnar um virkjun vind­orku er Lands­virkj­un. Fyr­ir­tækið hefur áformað að setja upp alls um 300 MW af vindafli í formi s.k. Blöndu­lundar og Búr­fellslund­ar. Þarna er þó kannski skyn­sam­legra að fara aðeins hægar í upp­bygg­ingu þriðju stoð­ar­inn­ar. Einnig gæti þarna skipt máli, bæði gagn­vart vind­orku og annarri nýrri raf­orku­fram­leiðslu, að ekki er víst að allir fagni því að mark­aðs­hlut­deild Lands­virkj­unar á íslenskum raf­orku­mark­aði verði ennþá umfangs­meiri en orðið er.

Vind­orka gæti senn upp­fyllt um 5% af raf­orku­þörf Íslands

Stærstum hluta af vax­andi raf­orku­eft­ir­spurn hér á landi verður mætt með nýjum hefð­bundnum virkj­un­um, þ.e. vatns­afli og jarð­varma. Hér að framan voru nefndir nokkrir af þeim val­kostum eða verk­efnum sem þar kann að verða ráð­ist í. Sam­tals munu slíkar hefð­bundnar virkj­anir senni­lega mæta a.m.k. 70-80% af umræddri auk­inni eft­ir­spurn eftir raf­orku. M.ö.o. þá má hugsa sér að íslensk vind­orka mæti um 20-30% af auk­inni raf­orku­notkun fram til ca. 2030, þ.e. á bil­inu 500-750 GWst. Þar með myndi vind­orka skila nálægt 3% af raf­orku­fram­leiðslu á Íslandi.

Þegar litið er aðeins lengra fram í tím­ann er raun­hæft að ætla að vind­ur­inn hér muni mæta um 5-6% af raf­orku­þörf Íslands. Í slíkum áætl­unum gæti íslenska vindaflið hafa auk­ist um u.þ.b. helm­ing frá því sem segir hér að fram­an. Sem merkir að árs­fram­leiðsla íslenskra vind­mylla yrði þá á bil­inu 1.000-1.500 GWst og upp­sett vindafl þá sam­tals orðið um 300-400 MW. Senni­lega er a.m.k. vel yfir ára­tugur í að svo verði. Athuga ber að umræddar pró­sentu­tölur eru háðar veru­legum vik­mörkum og ráð­ast af því hversu hratt raf­orku­eft­ir­spurnin mun aukast.

Skyn­sam­legt að byrja á þremur u.þ.b. 50 MW vind­myllu­görð­um?

Í dag eru ein­ungis fram­leiddar rétt rúm­lega 10 GWst árlega með íslensku vindafli. Nær öll þessi fram­leiðsla kemur frá fjórum milli­stórum vind­myllum á Suð­ur­landi, en sam­an­lagt afl þeirra er um 3 MW. Þar hefur verið um eins konar til­rauna­verk­efni að ræða. Nú er orðið tíma­bært að taka næstu skref, sem um leið verður þá upp­hafið að alvöru nýt­ingu á íslenskum vindi til raf­orku­fram­leiðslu. Um leið er mik­il­vægt að þau skref verði tekin af var­færni.

Með hlið­sjón af þessu gæti verið raun­hæft að eftir um 5-10 ár verði starf­ræktir hér um þrír til fjórir vind­myllu­garðar af hóg­værri stærð. Hver þeirra gæti verið á bil­inu 30-60 MW og sam­tals gæti upp­sett afl íslenskrar vind­orku þá verið nálægt 150 MW. Athuga ber að nú er á vegum fyr­ir­tæk­is­ins Biokraft unnið að mati á umhverf­is­á­hrifum á allt að 45 MW vind­myllu­garði við byggð­ina í Þykkvabæ í Rangár­þingi ytra. Ekki liggur end­an­lega fyrir hvort þetta verk­efni verður að veru­leika.

150 MW innan tíu ára og 300-400 MW nokkrum árum síðar

Fyrstu vind­myllu­garð­arnir gætu hver um sig orðið 15-20 vind­myll­ur. Raf­orku­fram­leiðsla þessa vinda­fls (alls um 150 MW) yrði um eða rúm­lega 500 GWst á ári. Heild­ar­fjár­fest­ingin þar gæti orðið á bil­inu 20-25 millj­arðar króna. Sem er t.a.m. svipað eins og kostn­að­ur­inn við fyrsta áfanga Þeista­reykja­virkj­unar sem nú er verið að reisa. Sá fyrsti áfangi er 45 MW og mun fram­leiða ámóta raf­orku­magn eins og um 100 MW af vel stað­settu vindafli.

Tak­ist vel til með þessi fyrstu vind­orku­verk­efni er lík­legt að íslenskt vindafl myndi svo brátt tvö­fald­ast og jafn­vel rúm­lega það. Og þá verða sam­tals um 300-400 MW eftir rúman ára­tug og þá nema um 5-6% af raf­orku­fram­leiðslu á Íslandi, líkt og áður sagði. Kæmi til sæstrengs milli Íslands og Evr­ópu yrði upp­bygg­ing íslenskrar vind­orku­nýt­ingar mögu­lega hrað­ari; fram­an­greindar sviðs­myndir gera ekki ráð fyrir slíkum sæstreng enda er ennþá alls­endis óvíst um hvenær slíkur strengur verður að veru­leika.

Þeista­reykja­virkjun er á pari við vindafl

Ofan­greind þró­un, þ.e. vax­andi áhugi á íslenskri vind­orku, er eðli­leg vegna þess hversu hag­kvæmni vind­orku­tækn­innar hefur auk­ist hratt á síð­ustu árum. Fyrir vikið eru vind­myllu­garðar á Íslandi að verða a.m.k. álíka áhuga­verður virkj­un­ar­kostur eins og jarð­hiti. Fyrsti áfangi 45 MW jarð­hita­virkj­unar að Þeista­reykjum er t.a.m. dýr­ari en ef sam­bæri­legt vindafl væri nú virkj­að, þ.e. til að fram­leiða um 360 GWst árlega (líkt og  fyrsti áfang­inn á Þeista­reykjum á að ger­a).

Með því að stækka Þeista­reykja­virkjun í 90 MW mun nást fram meiri hag­kvæmni þar. Full­byggð verður kostn­aður Þeista­reykja­virkj­unar senni­lega ámóta eða eilítið minni en ef sam­bæri­legur vind­myllu­garður hefði verið reist­ur. Þá er miðað við árlega raf­orku­fram­leiðslu upp á um 720 GWst.

M.ö.o. þá væri vel stað­settur vind­myllu­garður á Íslandi sam­keppn­is­hæfur við Þeista­reykja­vikjun þegar ein­fald­lega er litið til kostn­að­ar­ins. Þarna hefur jarð­varma­virkj­unin aftur á móti það mik­il­væga for­skot að geta skilað jafn­ri, stöðugri og nokkuð fyr­ir­sjá­an­legri raf­orku­fram­leiðslu alla daga árs­ins árið um kring. Þess vegna er Þeista­reykja­virkjun (í fullri 90 MW stærð) vafa­lítið tölu­vert hag­kvæm­ari kostur en vind­orka. Að því gefnu að jarð­varma­auð­lind­inni á svæð­inu hnigni ekki hraðar en áætl­anir gera ráð fyr­ir!

Ódýr vind­orka boðar viss tíma­mót í íslenskri raf­orku­fram­leiðslu

Kostn­að­ur­inn við s.k. Búr­fellslund, sem er 200 MW vind­myllu­garður sem Lands­virkjun hefur áformað ofan Búr­fells við Þjórsá, yrði svip­aður eins og Þeista­reykja­virkjun (og hvor virkjun um sig myndi fram­leiða rúm­lega 700 GWst árlega). Þetta er athygl­is­vert í ljósi þess að skv. skýrslu sem unnin var nýlega fyrir Sam­orku er Þeista­reykja­virkjun ódýr­asti virkj­un­ar­kost­ur­inn í íslenskum jarð­hita. Þetta merkir að það að virkja íslenska vind­orku á stöðum sem bjóða upp á mjög góðar vind­að­stæð­ur, yrði stundum og jafn­vel oft ódýr­ari kostur en að virkja meiri jarð­varma hér. Framundan kunna því að vera viss tíma­mót í íslenskum raf­orku­mál­um, sem felst í því að vind­orka verður hag­kvæm sem þriðja stoðin í raf­orku­geir­anum hér.

Lágur kostn­aður en sveiflu­kennd raf­orku­fram­leiðsla

Helsti vand­inn eða tak­mörk­unin sem virkjun íslenskrar vind­orku stendur frammi fyrir er sú stað­reynd að hér er mest­öll raf­orkan fram­leidd fyrir stór­iðju. Af þeim sökum eru snöggar skamm­tíma­sveiflur í raf­orku­fram­boði óásætt­an­leg­ar. Í flestum öðrum vest­rænum löndum eru veru­legar sveiflur í raf­orku­fram­boði og raf­orku­eft­ir­spurn algeng­ar, bæði milli árs­tíða og innan hvers sól­ar­hrings. Enda síbreyti­legt hversu mikið raf­magn almenn­ingur og almenn fyr­ir­tæki eru að nota hverju sinni. Fyrir vikið eru for­send­urnar að baki upp­bygg­ingar raf­orku­vera þar tals­vert öðru­vísi en ger­ist hér á landi.

Þrátt fyrir lækk­andi kostnað vind­orku­tækn­innar verður sem sagt ekki litið fram­hjá því að slík verk­efni, þ.e. vind­myllu­garðar eins og t.a.m. Búr­fellslund­ur, henta ekki vel til að tryggja stór­iðju umsamda raf­orku allan sóla­hring­inn alla daga árs­ins. Það má m.ö.o. segja sem svo að óvenju mikið umfang stór­iðj­unnar hér dregur úr mögu­leik­unum á að nýta íslenska vind­orku. Um leið veldur þetta fyr­ir­komu­lag því sem nefna má offjár­fest­ingu í vatns­afli, þar sem miðl­un­ar­vatn er jafnan mjög mikið og í þessu sam­hengi svo mikið að það skapar vissa óhag­kvæmni.

Á móti kemur að stóru vatns­afls­virkj­an­irnar hér væru jú ekki til án stór­iðj­unn­ar. Mikið umfang stór­iðj­unnar hér er sem sagt jákvætt að því leyti að raf­orku­eft­ir­spurnin er þægi­lega stöðug og því unnt að fjár­magna stórar vatns­afls­virkj­anir með mik­illi miðl­un­ar­getu. Um leið hefur þetta þau nei­kvæðu áhrif að fjár­fest­ing í vatns­miðlun er það sem kalla mætti óþarf­lega mikil (því stór­iðjan þarf sína miklu raf­orku hvað sem líður vatns­bú­skapnum hverju sinn­i). Þetta er mjög svipuð staða eins og Norð­menn voru í fyrir nokkrum ára­tug­um, en þeir sjá nú tæki­færi í því að nýta mikla miðl­un­ar­getu sína í hag­kvæmu sam­spili við upp­bygg­ingu vinda­fls.

Vind­myllu­garðar gefa færi á hag­kvæmu sam­spili við vatns­afl

Þrátt fyrir óstöð­ug­leika vinds­ins og jafna raf­orku­þörf stór­iðj­unnar getur náðst góð hag­kvæmni með því að nýta íslenska vind­orku. Vatns­afl með miðl­un­ar­lónum er gríð­ar­lega stór hluti í íslenskri raf­orku­fram­leiðslu. Sam­spilið milli vinda­fls og vatns­afls er mik­il­vægur þáttur í hag­kvæmni vind­myllu­garða.  Um leið má nýta sam­spil vind­orku við mikla vatns­miðlun til að auka hag­kvæmni vatns­afls­kerf­is­ins. Þegar vindur blæs má spara vatn í miðl­un­ar­lónum og þegar vindur er lít­ill má auka streymið um vatns­hverflana.

Nýta má sam­spil af þessu tagi til að auka nýt­ingu á vatni í miðl­un­ar­lón­um. M.ö.o. þá skapar vindaflið tæki­færi til að tak­marka og jafn­vel koma í veg fyrir að vatn renni úr miðl­un­ar­lónum á yfir­falli (slíkt vatn fram­leiðir ekk­ert raf­magn) Um leið verður vatns­aflið ásamt miðl­un­ar­lónum í hlut­verki vara­afls fyrir vind­myllu­garða. Sam­spil af þessu tagi gæti stuðlað að auk­inni hag­kvæmni í íslenska raf­orku­geir­anum og um leið minnkað þörf­ina á að reisa sífellt fleiri hefð­bundnar og dýr­ari virkj­anir hér.

Íslensk vind­orka á eftir að verða ennþá sam­keppn­is­hæf­ari

Á svæðum þar sem vind­að­stæður eru góðar er íslensk vind­orka sem sagt orðin eða að verða hag­kvæm­ari en margar þeirra jarð­hita­virkj­ana sem nú eru í nýt­ing­ar­flokki Ramma­á­ætl­unar (a.m.k. að því gefnu að nóg verði um vara­afl frá vatns­miðl­un). Og kostn­að­ar­mun­ur­inn á vind­orku og jarð­varma gæti orðið til þess að senn fari að draga úr áhuga á bygg­ingu nýrra jarð­hita­virkj­ana. 

Vegna tækni­fram­fara í vind­orkunni á kostn­að­ar­bilið þarna mögu­lega eftir að breikka á næstu árum og gera vind­ork­una ennþá sam­keppn­is­hæf­ari. Til fram­tíðar litið er því útlit fyrir að vax­andi fjár­hags­legur hvati verði til að virkja íslenskan vind fremur en hit­ann í jörðu. Þarna eru áhuga­verð tæki­færi fyrir íslensk orku­fyr­ir­tæki og þessi staða hér er líka farin að vekja athygli meðal erlendra orku­fyr­ir­tækja sem sér­hæfa sig í vind­orku.

Aft­ur­kræfni vind­myllu­garða er mik­il­vægur eig­in­leiki

Stórar vind­myllur geta vissu­lega haft mjög nei­kvæð sjón­ræn áhrif í augum margra. Þess vegna er skyn­sam­legt að þær rísi úr sjón­færi við byggð eða séu a.m.k. ekki mjög nálægt byggð. Og vind­myllur geta valdið fugla­dauða. Þess vegna er mik­il­vægt að stað­setja þær ekki við mik­il­vægar far­leiðir fugla né í nágrenni við mik­il­vægar varp­stöðv­ar.

Það er aftur á móti afskap­lega jákvætt við þessa tækni að þegar vind­myllu­garður er tek­inn niður og fjar­lægð­ur, eftir um 25-30 ára rekstr­ar­tíma, er ein­falt að búa svo um hnút­ana að var­an­leg áhrif af starf­sem­inni verði svo til eng­in. Möstr­in, spaðar og hverflar ásamt öðru efni er allt fjar­lægt og und­ir­stöður sömu­leiðis (eða þær fjar­lægðar að hluta og að öðru leyti huldar jarð­vegi og gróðri). Að því búnu er líkt og landið hafi alls ekki verið notað þessa tvo til þrjá ára­tugi. Slík aft­ur­kræfni gagn­vart vatns­afls- og jarð­varma­virkj­unum er senni­lega nán­ast úti­lok­uð.

Tíma­bært og eðli­legt að nýta íslenska vind­orku

Það að nýta vind­inn til að umbreyta orku hans í raf­orku er því ekki aðeins hag­kvæm aðferð heldur líka óvenju umhverf­is­væn raf­orku­starf­semi. Fyrir land með mikið af óbyggðum svæðum og góðar vind­að­stæð­ur, líkt og Ísland, er eðli­legt og skyn­sam­legt að nýta vind­inn með þessum hætti. Það var því senni­lega fremur van­mælt en ofmælt hjá fram­kvæmda­stjóra þró­un­ar­sviðs Lands­virkj­unar þegar hann sagði nýverið að í dag sé vind­orkan orðin á pari við aðra virkj­un­ar­kosti.

Fyrir okkur Íslend­inga er um að ræða nýja teg­und af land­nýt­ingu og eðli­legt að fara þarna var­lega af stað. Þess vegna væri e.t.v. skyn­sam­legt að tak­marka stærð fyrstu vind­myllu­garð­anna. Þó er mik­il­vægt að hafa í huga að hag­kvæmni svona verk­efna getur mjög ráð­ist af stærð­inni og því rétt að var­ast að tak­marka afl vind­myllu­garða um of. Mik­il­væg­ast er að gæta þess að stað­setja vind­myllu­garða nokkuð utan byggðar og ekki á landi þar sem sjón­rænu áhrifin yrðu sér­lega mikil eða nei­kvæð, svo og að huga vel að því að stað­setn­ing taki til­lit til fugla­lífs.

Sum heið­ar­lönd og sjáv­ar­síðan áhuga­verð

Hálendi Íslands er um margt ákjós­an­legur staður fyrir vind­myllu­garða, bæði vegna góðra vind­skil­yrða og fjar­lægðar frá byggð. En vegna hinnar miklu sér­stöðu íslenska mið­há­lend­is­ins kann að vera skyn­sam­legt að bíða með að stað­setja vind­myllu­garða þar. Að auki yrði víða ansið dýrt, vegna mik­illar fjar­lægð­ar, að tengja vind­myllu­garða á hálend­inu við flutn­ings­kerfi raf­orku.

Heppi­legri stað­setn­ing fyrstu vind­myllu­garð­anna á Íslandi gæti verið á heið­ar­löndum á mörkum afrétta og byggðar og/eða við sjó­inn. Þ.e. að því gefnu að við­kom­andi svæði hafi góðar vind­að­stæður og mann­virkin trufli ekki byggð eða ferða­mennsku og séu ekki stað­sett við mik­il­vægar far­leiðir fugla. Einnig er ákjós­an­legt að fremur stutt sé í flutn­ings­mann­virki.

Grein­ar­höf­undur vinnur nú að und­ir­bún­ingi vind­orku­verk­efna í sam­starfi við nor­rænt orku­fyr­ir­tæki. Þar er m.a. horft til Mos­fells­heiðar og nokk­urra ann­arra svæða hér á landi. Eftir því sem þessum verk­efnum miðar áfram verður sagt nánar frá þeim, enda eðli­legt að orku­verk­efni af þessu tagi fái ítar­lega umfjöllun og umræðu. Gera má ráð fyrir að nán­ari upp­lýs­ingar um verk­efnin verði senn m.a. birt á vef­svæði grein­ar­höf­undar á vefnum Medi­um.com. Hér í lokin má sjá mynd frá vind­myllu­garði í Skand­in­av­íu, sem gefur hug­mynd um hvernig ásýnd svona mann­virkja gæti orðið hér á landi.

Vindmyllugarður í Noregi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar