Aukin umræða um tálmun á umgengni hefur orðið til þess að margir spyrja hvað það sé. Aðrir hafa ekki heyrt orðið ,,tálmun“ í tengslum við brot á umgengnissamingi sem foreldrar hafa gert með milligöngu sýslumannsembætta en það gerist þegar foreldrar ná ekki sáttum um umgengni. Hindri foreldri á einhvern hátt að lögbundinn úrskurður nái fram að ganga er það tálmun.
Tálmun á umgengni er þegar lögheimilisforeldrið kemur í veg fyrir, með ýmsum ráðum, að barn njóti ekki samvista við hitt foreldrið. Birtingarmyndin er að lögheimilisforeldrið lætur sig hverfa þegar sækja á barnið, þykist ekki vera heima, flytur í annað sveitarfélag þannig að barn eigi erfiðara um vik að vera með hinu foreldrinu og flytur jafnvel til útlanda. Allt of margir halda að tálmun sé þegar barnið fær ekki að vera hjá hinu foreldrinu, en svo er ekki. Komi lögheimilisforeldrið í veg fyrir að barn njóti samvista við hitt foreldrið, að hluta eða öllu leyti samkvæmt úrskurði, er um tálmun að ræða.
Það er viðurkennt að tálmun sé ofbeldi. Tálmun er andlegt ofbeldi og um það eru sérfræðingar sammála. Slíkt ofbeldi hefur áhrif á barn þegar til lengdar lætur. Fagmenn eru sammála um að oftast fylgi illt umtal um hitt foreldrið með ofbeldinu. Það er ekki lítið lagt á barn, notað sem vopn í baráttu fullorðna fólksins.
Því miður fylgir oft ákveðinn heilaþvottur á barni þegar tálmun á sér stað. Til að breiða yfir eigin breyskleika telur lögheimilisforeldrið barni sínum trú um að hitt foreldrið vilji ekki sjá það og það svert á allan hátt. Leikurinn er gerður til að fá barn upp á móti hinu foreldrinu. Stundum verður barn svo litað af heilaþvottinum að það tjáir óskir sínar gegn eigin vilja. Slíkur heilaþvottur er liður í baráttu fullorðna fólksins. Lögheimilisforeldrið hundsar alfarið velferð og rétt barnsins, er of upptekið í eigin hagsmunabaráttu. Velferð og réttur barnsins gleymist. Barn er gott vopn á því leikur enginn vafi en hefur slæmar afleiðingar fyrir það þegar fram í sækir. Slíkt má sjá í leik- grunn- og framhaldsskóla svo og skóla lífsins. Afleiðing tálmunar.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagði réttilega í eldhúsdagsumræðunni að börn við ákveðinn aldur finna til samkenndar og eru meðvirk. Þessi orð eiga líka við um börn sem búa við tálmum. Vona að hann hafi það hugfast og leggi sín lóð á vogarskálarnar til að koma þessum börnum til hjálpar.
Enginn ætti að líða andlegt ofbeldi á barni. Það stingur vissulega í stúf að löggjafinn leyfi þetta form ofbeldis, allavega er það birtingarmynd foreldra sem hafa reynslu af tálmun. Smá von kviknaði í brjósti þeirra sem bera hag barna í slíkum aðstæðum fyrir brjósti að ,,tálmunarfrumvarpið“ væri spor í rétta átt að gera tálmun refsiverða eins og annað ofbeldi. Að losa barn undan ánauð. En þingmenn VG og Pírata hafa gefið skýrt til kynna að ekki eigi að hugsa um hag barna heldur mæðra sem beita þessu ofbeldi eins og þeir sögðu sjálfir. Og nú má beita börn andlegu ofbeldi í skjóli femínista, eins og þingmaður VG sagði en hún sem femínisti getur ekki fallist á frumvarpið því það kemur ofbeldisforeldrinu illa. Nú hefur umboðsmaður barna stokkið á þann vagn og Félagsráðgjafafélag Íslands. Báðir aðilar virðast þekkja lítið til hvernig málum er háttað hjá Sýslumannsembættunum og aðhyllast mæðraveldið. Smán á íslensku samfélagi að mínu mati.
Engin virk úrræði eru til sem barnaverndarnefndir eða annað stjórnvald getur gripið til þegar tálmun á sér stað, því ber að fagna frumvarpi Brynjars Níelssonar o.fl. Það er von mín að frumvarpið fari í gegnum þingið og þingmenn sjái sóma sinn í að standa vörð um rétt barna, réttinn að umgangast báða foreldra sína.
Ég skora á þingmenn að veita frumvarpinu brautargengi þannig að hægt verði að koma í veg fyrir ofbeldi barna sem líða fyrir tálmun á umgengni. Börn vilja vera hjá báðum foreldrum sínum, það á ekki að nota þau sem vopn og löggjafinn að gera allt til að hindra það.