Nýlega stigu vegamálastjóri og samgönguráðherra fram og sögðu að Reykvíkingar þyrftu að greiða 10 milljarða króna vegna þess að Vegagerðin fengi ekki að byggja landfyllingar og brú við Elliðaárósa til að leggja svokallaða Sundabraut. Til þess væri stoð í lögum. Þetta er sérkennilegur málflutningur að mörgu leyti. Í fyrsta lagi heyrist þessi krafa sjaldan, ef nokkurn tíma, frá Vegagerðinni þegar lagt er í dýrari samgönguframkvæmdir en ýtrasta þörf krefur víða um landið og ef svo væri myndu þingmenn kjördæmisins þagga snarlega niður í henni. Í öðru lagi var þetta dálítið undarlegt í ljósi málflutnings ráðherrans sjálfs um veggjöld og að notendur ættu að borga nýframkvæmdir; eða á hann við Reykvíkingar einir eigi að niðurgreiða slíkar einkaframkvæmdir af því þeir eru svo vondir að vilja byggja húsin sín þar sem þeir vilja í borginni, en ekki þar sem Vegagerðin vill það?
Sundabrautarmálið er reyndar gamalt. Árið 1984 var þessi leið yfir Elliðaárvoginn sett á aðalskipulag Reykjavíkur. Þá var Davíð Oddsson borgarstjóri. Ekki ætla ég honum þann kvikindisskap að vilja leggja stein í götu Vegagerðarinnar í því máli, en Sundabraut var þá teiknuð á svokallaða ytri leið þar sem hún er enn. Málið lá reyndar í láginni lengi eftir það, en komst á skrið þegar Síminn var seldur til einkaaðila. Þá var umræddur Davíð Oddsson reyndar orðinn forsætisráðherra og muni ég rétt áttu margir milljarðar, gott ef ekki heilir átta, að fara í Sundabraut og einhver hellingur í nýtt „hátæknisjúkrahús“. Þá var gaman að lifa fyrir þá sem vildu vinna vel í heilbrigðis- og samgöngumálum.
En Vegagerðin vildi síður hafa Sundabraut þar sem borgin vildi hafa hana og teiknaði upp nýja og „ódýrari“ leið innst inni í Elliðaárvogi með landfyllingum og brú. Til að tengja þá leið við samgöngumannvirki beggja vegna vogarins, í Grafarvogi og Vogahverfi, þurfti hins vegar að beina 50 til 60 þúsund bílum daglega inn á götur í grónum hverfum eða byggja mislæg gatnamót sem væru svo risavaxin að þeir í Los Angeles yrðu grænir af öfund. Íbúum í þessum hverfum leist illa á hugmyndina, enda efuðust þeir um að þetta væri miklu ódýrara en sá kostur að beina allri umferðinni þangað sem hún vildi í raun fara, suður Kringlumýrarbraut eða niður í bæ. Íbúar minntu því stjórnmálamenn sína í borginni á að þeir sæktu umboð sitt til þeirra á góðum fundi og viti menn, þeir fengu mikil og góð viðbrögð frá þeim. Efnt var til samráðs með íbúum, ríki (Vegagerðinni) og borg (framkvæmdasvið + stjórnmálamenn). Yfir málin var vandlega farið og allir kostir skoðaðir, íbúar voru alveg tilbúnir að skoða aðrar lausnir, sögðu ekki bara neinei.
Niðurstaðan var að bera saman jarðgöng á ytri leið aðalskipulags og innri leið Vegagerðarinnar, þótt ljóst mætti vera að hún myndi mæta meiri andstöðu en flestar framkvæmdir sem gerðar hafa verið í borginni. Í fyrstu virtist lítill verðmunur á þessum tveimur leiðum, brúin var eitthvað ódýrari, vissulega, en það var bitamunur en ekki fjár, ekki síst þegar litið er til þess að brúin yrði aldrei byggð hvað svo sem Vegargerðarmenn dreymdi um að gera. Þá brugðu þeir á það ráð skreppa til Svíþjóðar og skoða flottustu jarðgöng í heimi, Södra Lanka, og hækkaði verðið á Sundagöngum eftir það snarlega í verði og varð heilir 24 milljarðar króna, tala sem sumum fannst óhugsandi að leggja í vegabætur í Reykjavík, þær myndu jú taka kannski heil tíu ár til viðbótar að afskrifast.
En borgarstjórn Reykjavíkur stóð með þegnum sínum, ein sem öll, borgarstjórinn, Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, og allir fulltrúar flokkanna í borgarráði. 17. janúar 2008 samþykkti borgarráð einróma að Sundabraut yrði lögð í göngum á ytri leiðinni með venjulegum fyrirvara um umhverfismat. En svo kom hrunið svokallaða og Símapeningarnir hurfu að mestu leyti af reikningum Seðlabankans upp í „money heaven“ og hafa ekki sést síðan. Það vekur því furðu að heyra núna að Vegagerðin ætli að heimta tíu milljarða af Reykvíkingum af því borgin sé að‘ „þvælast fyrir“ Vegagerðinni. Það er kannski tímabærara að Vegagerðin hætti að þvælast fyrir Reykvíkingum, hún truflar þá ekki svo mikið með framkvæmdum hvort sem er.
Höfundur sat í samráðshópi um Sundabraut fyrir Íbúasamtök Laugardals.