Tilgangur ríkisfjármálaáætlunar er meðal annars gegnsæi, festa í fjármálum og skilvirkni. Í 360 síðna plaggi sem lá fyrir Alþingi til umræðu eru slík markmið sett fram undir regnhlíf sjálfbærni og framsýni, svo að vitnað sé í tvö kjörorð ríkisstjórnarinnar. En því er í raun ekki að heilsa. Það mætti frekar nefna orðin ójöfnuð og misrétti ef miðað er við hag þorra fólks og velferð í ljósi þessarar áætlunar. Í henni eru mörg markmið en til þess að raungera flest þeirra þurfa ríkistekjur að ná vel fram úr tekjum í núverandi fjárlögum. Tekju- og gjaldarammi ríkisfjármálaáætlunar verður líka að vera skýr. Það er hann ekki, þegar kemur að fyrsta niðurbroti til málefna. Grunnurinn að áætluninni verður að vera traustur og í almannahag, en hann er í raun sprungum settur og í hag lítils minni hluta þjóðarinnar. Giska má á 10-20% þjóðarinnar, allt eftir efnahagsviðmiði.
Sveltistefna
Ríkisútgjöld til fimm ára, þ.e. rammann, sjáum við í gildandi fjárlögum 2017 og þeim viðbótum eða skerðingu, ár frá ári, sem hann setur. Upphæðir koma fram í einni línu, þ.e. fimm upphæðum sem skipt er á árin 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022. Með því að draga upphæð eins árs frá upphæð næsta árs, t.d. upphæð framlags 2017 frá upphæð framlags 2018, og þannig koll af kolli, fæst breytingin milli ára. Þannig hækkar eða lækkar framlag ríkisins til málsviðs miðað við næsta á undan og svo grunnupphæðina 2017. Ég hef kallað þetta töfralínuna í sérhverjum af 34 málefnaflokkum. Þessa línu eina verðum við nefnilega að nota til að meta ríkisfjármálaáætlun til fimm ára með hliðsjón af núverandi útgjöldum. Við fyrstu sýn blasa við fimm mögur ár í lykilflokkum og sú sýn styrkist við yfirferð þeirra allra. Af hverju er ríkisfjármálaáætlunin mögur? Jú, þarna er óaðgengilegt 41,5% útgjaldaþak miðað við verga landsframleiðslu. Þarna eiga framfarir í helstu málefnaflokkum að miðast við jákvæða eða neikvæða hagsveiflu eins og hún sé eitthvert náttúrulögmál sem stýra skal samneyslunni. Auðvitað er henni í raun stjórnað pólitískt. Talsmenn nýfrjálshyggju reyna þannig að mála stefnu sína í felulitum um leið og þeir ganga á hólm við velferðarkerfið í breiðum skilningi, við samgöngur og flesta aðra þætti samneyslunnar, jafnvel framhaldsskóla landsins og háskóla. Vanfjármögnunin er þar með orðin afsökun fyrir einkavæðingu í gervi Klíníkurinnar, sameiningar Tækniskóla og Ármúlaskóla og tilvonandi einkarekstrar samgöngumannvirkja með veggjöldum. Allt eru þetta skýr, sértæk og vilhöll pólitísk markmið; pólitísk hagfræði. Hún er áframhaldandi ávísun á aukinn ójöfnuð, meiri fátækt og andstæður þess: Aukið ríkidæmi í samfélagi, þar sem nægir aurar eru fyrir í efstu lögum samfélagsins.
Er til önnur leið?
Hvernig fitum við ríkisfjármálaáætlun á þann hátt sem væri til alvöruúrbóta fyrir flesta, með einhvers konar félagslegum aðferðum? Við hefjum fjáröflun meðal auðmanna, stóreignafólks, og stórra fyrirtækja sem nýta t.d. auðlindir í almannaeigu. Setja má á græn gjöld og nýta heimildir til gjalda fyrir þjónustu og aðgang að náttúrunni, m.a. í ferðaþjónustunni, til dæmis með komugjöldum. Við nýtum sem sagt skatta og gjaldakerfið til hins ýtrasta, ekki þó á þann hátt sem margir hægri menn reyna að kenna okkur hinum um, ekki með því að skattleggja heimili almennt, eða fyrirtæki almennt, eins og látið er í veðri vaka, nema t.d. með grænum gjöldum sem eru lágar upphæðir. Vinstri græn telja aftur á móti að unnt sé að ná 53–75 milljörðum á ári á ólíka vegu, þó aðallega í vasa velmegandi þegna og velmegandi fyrirtækja. Upphæðin fer stighækkandi milli ára. Til dæmis má ná inn nokkrum milljörðum króna með því að hækka fjarmagnstekjuskatt úr 20% í 30% á fáein efstu prósent þeirra sem slíkt greiða og eiga yfir helming alls fjármagns af þessu tagi. Það á einmitt að gera í stað þess að lækka skatta um 13 milljarða, eins og gert er um þessar mundir, og skapa sára fjárþörf um allt land. Auknar ríkistekjur eru ekki sjálfkrafa ávísun á þenslu ef fjármunir eru settir í valin velferðar-, mennta- og samgönguverkefni um land allt, m.a. á svokölluðum köldum svæðum. Og lækkun ríkisútgjalda nú, niðurgreiðsla til skulda á þessum tíma, á ekki að kosta alvarlegan vanda tugþúsunda manna. Það má hægja á skuldaskilum. Lítil breyting þar skilar miklu til samneyslunnar sem verður að bæta og auka. Nöldur um að skattahækkanir nemi einni milljón króna á mannsbarn á að fela staðreyndir um á hverja þeir leggjast. Þorri almennings bæri léttar, nýjar byrðar, ef nokkrar.
Skoðun á tveimur málefnasviðum
Í þessari Kjarnagein verður látið duga að spegla ríkisfjármálaáætlunina yfir á málefnaflokka Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, þar sem ég sit. Í samgöngu- og fjarskiptamálum tekur stjórnarmeirihlutinn undir allar aðhaldskröfur í fjármálum, þar sem vantar milljarða einungis í viðhald og úrbætur á vegum eins og þeir eru nú í grunninn. Áhersla er þar lögð á greiningarvinnu sem eigi að skoða þensluáhrif óvissra framlaga í stað þess að afla skattfjár til samgönguáætlunar sem búið var að samþykkja. En töfralausn stjórnarmeirihlutans er um leið ljós. Hann styður í sínu áliti í Umhverfis- og samgöngunefnd lausnir sem kallast samstarfsfjármögnun ríkis og einkaaðila (og samgönguráðherra hefur viðrað) um vegabætur á umferðaræðum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Stjórnvöld vilja sem sagt frekari einkavæðingu með veggjöldum sem sveitarfélög landsins eru mótfallin. Líkt og almennt gerist meðal allra flokka, eru stjórnarflokkarnir miklir vinir Parísarsamkomulagsins. Annað er ekki hægt með góðu móti. Enda stendur í nefndaráliti meirihlutans að málaflokkur umhverfismála fái aukið vægi á komandi árum og leggja beri áherslu á að fjármagn fylgi auknum áherslum ríkisstjórnarinnar, m.a. til að ná fram markmiðum í loftslagsmálum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Því er dapurlegt, og rangt í dagsins önn, að í ríkisfjármálaætluninni er nægilegt fjármagn til að standa við góðu orðin ekki í boði. Það er deginum ljósara að 1,6 milljarða króna viðbót á þremur af fimm árum áætlunarinnar, að frádregnum byggingarkostnaði vegna gestastofa og fleiri bygginga dugar hvergi nærri til. Í ofanálag á að skera niður framlög til umhverfismála um 300 milljón króna í tvö ár. Þarna er augljóslega neydd fram 2% aðhaldskrafa í stofnunum sem falla undir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Framlög til skógræktar og annarrar bindingar kolefnis eru ekki aukin, svo dæmi séu nefnd. Því miður verður að líta svo á að áætlunin, með sín ágætu markmið á köflum en sveltistefnu í raun, sé eins konar Gúmmí-Tarsan; lítur vel út með sína platvöðva en innra bærist lítið annað en gervistyrkur.
Að guma af litlu
Talsmenn ríkisstjórnarflokkana hafa farið mikinn með tölur á lofti og bent á um 81 milljarðs króna aukningu ríkisútgjalda á fimm árum, eins og þar færi mikið afrek. Þar er reyndar ranglega blandað saman fjárfestingum og rekstri, eins og gagnrýnt er úr mörgum hornum. Upphæðin er samtala allra 34 töfralínanna í áætluninni. Að meðaltali eru þetta 16 milljarðar á ári í fimm ár. En bíðum við, borið saman við stærðargráðu ríkisútgjalda eins árs upp á 700–800 milljarða, nemur viðbótin 2–2,3%. Þegar menn slá sér á brjóst yfir þessu, má spyrja: Er 2-2,3% árleg meðalviðbót ríkisins í góðæri til vanræktra innviðakerfa nógu stórt skref við að uppfylla kosningastefnu hægri flokka og Bjartrar framtíðar? Merkir viðbótin raunverulega framför? Er talan svarið við kröfu alls þorra landsmanna við vanræktum innviðum og afleiðingum efnahagskollsteypunnar nú, sjö árum síðar? Þegar þess er svo gætt hvernig landsframleiðslu er spáð þó nokkrum árlegum vexti, duga árleg viðbót ekki til þess, einmitt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Samneyslan á rétt og slétt að minnka. Það er kjarni pólitískrar hagfræði stjórnarinnar. Samtímis er rétt fram hönd til þeirra sem sjá sér hagnaðarvon í geira samfélagsþjónustunnar. Hana sjá 70-80% fullorðinna landsmanna besta rekna á opinberum vegum.
Skoðum aftur nokkur málefnasvið
Í umsögn okkar í minnihluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram að í samgöngumálum til fimm ára nemur hækkun samtals 5,6 milljörðum króna. Heldur vart máli út frá öryggissjónarmiðum einum. Í orkumálum er heildaraukning upp á 263 milljónir króna en niðurskurður 30 milljónir á einu ári af fimm. Í sveitarstjórnar- og byggðamálum sést 2,5 milljarða hækkun. Í umhverfismálum er hækkunin 1,6 milljarður en framlög eru líka lækkuð um 300 milljón krónur. Ef þessar tölur eru lagðar saman fást tæpir 10 milljarðar króna. Þeir eru þá hrein viðbót miðað við fjárlögin 2017, næstu 5 ár á eftir, til fyrrgreindra fjögurra málefnasviða af ríflega 30. Það teljum við Kolbeinn Óttarsson Proppé, fulltrúar VG í Umhverfs- og samgöngunefnd, víðs fjarri réttu lagi.
Þessu til viðbótar er réttmætt að líta til greina sem styðja við markmið á málaflokkum á borð við loftslagsmál og orkuskipti. Þar er einkum átt við framfarir á sviði rannsókna, nýsköpunar og þekkingargreina í einn stað og háskólastigið (sjö háskólar) í annan stað. Til fyrrnefnda flokksins má reikna um 120 millj. kr. viðbótarframlög á ári að meðaltali í fimm ár. Nú þegar eru settir verulegir fjármunir í þennan stóra málaflokk en það er viðbótin sem telur. Menn geta rétt ímyndað sér hvaða kröfur verða gerðar á fimm ára tímabili, við skulum segja í umhverfismálum, til nýsköpunar og rannsókna og þekkingar. Ef menn halda að 120 millj. kr. í ársviðbót dugi til þess þá fara þeir villur vegar. Til fyrrnefnda flokksins, þ.e. háskóla, má greina 660 milljón króna hækkun framlaga milli áranna 2017–2018.
Eftir það standa viðbótarframlögin í stað milli ára þar til hækkun kemur á síðasta árinu 2021–2022. Þetta er afsakað með því að háskólanemum sé (og væntanlega eigi!) að fækka. Sé tekið mið af Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem á meðal annars að sjá um rannsóknir á náttúruvá, eru tæki úrelt og ekki hægt að kaupa ný. Ekki hefur verið hægt að ráða í tvær lausar prófessorsstöður. Niðurskurður upp á tugi milljóna til kennslu og rannsóknarstarfsemi þessarar mikilvægu stofnunar hefur komið fram í upplýsingum þaðan.
Álíka er komið fyrir öðrum stofnunum, skóladeildum eða heilu skólunum á þessu stigi vítt og breitt um land. Inni í þessum háskólaupphæðum er t.d. viðbótarhúsnæði Háskóla Íslands. Í raun eru fjármunir innan beggja þessara málasviða til beins reksturs og verkefna mun lægri en kemur fram í töluliðum, svo að nemur samtals hundruðum milljóna króna.
Pólitísk hagfræði til hægri
Borið saman við helstu markmið ríkisfjármálaáætlunar og tilgang er ljóst að markmiðum hennar er ekki náð miðað við áætlaðar viðbótarfjárhæðir. Fullkomnar tölur á þeim fjórum málefnasviðum, sem hér er fjallað um, standast ekki lágmarkskröfur um aukin framlög á tímum örra loftslagsbreytinga, vanræktra innviða, vanfjármagnaðs velferðarkerfis og krafna um öfluga byggðaþróun. Í áætlunina vantar víðast hvar grunnupplýsingar um grófa skiptingu fjárframlaga milli málaflokka. Það vantar aðskilnað fjárfestinga og rekstrarkostnaðar og upplýsingar sem auðvelda gegnsæi svo að stíga megi sem farsælast skref til fjárlagagerðar. Við höfum engan annan kost en eina tölulínu í hverjum kafla til að meta hvort ágæt markmið, sem þarna eru mörg hver, megi teljast raunhæf, hvort þau nái að verða að veruleika á fimm árum eða ekki. Í reynd dugar hún aðeins hænufet í þá átt en samt nægilega langt til þess að afhjúpa galla áætlunarinnar.
Þessu til viðbótar sýna tölulínurnar gagnrýnisverða ráðstöfun fjármuna og varðstöðu um þá sem mest eiga. Niðurstaðan verður því þessi, eins og stendur í minnihlutaáliti frá Umhverfis- og samgöngunefnd: „Pólitísk hagfræði ríkisstjórnarflokkanna, undirstaða fjármálaáætlunar, er andsnúin jöfnuði, samfélagslegri velferð, sjálfbærri þróun og hagsæld þorra þjóðarinnar. Henni ber að hafna.“ Undir þinghlé var henni alls ekki hafnað. Það gat gerst í kraft eins manns meirihluta stjórnarflokkanna. Þar með verður að andæfa því sem af henni leiðir, styðja það sem kann þó að verða til bóta en leggja upp með baráttu fyrir annars konar pólitískri hagfræði.
Höfundur er þingmaður VG.