Margt er mjög athugavert við að þingfundi hafi nú verið frestað til 12. september. Til að byrja með voru nokkur ókláruð mál afgreidd sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar í framtíðinni. Afleiðingarnar verða kannski ekki fjárhagslegar, eins og leiðréttingar á almannatryggingalögunum sem út af villu í lagagerðinni leiddi til aukins kostnaðar upp á 2,5 milljarða á mánuði. Þær gætu hins vegar orðið alvarlegar á annan hátt – vantraust.
Hér er um að ræða tvö mál, annars vegar jafnlaunavottunina svokölluðu og hins vegar skipan dómara. Í tilviki jafnlaunavottunarinnar þá höfðu umsagnaraðilar, sem annað hvort hafa farið í gegnum jafnlaunavottunarferlið eða skoðað það og ákveðið að nota annars konar aðferðir, um þá vottun að segja að hún væri í raun starfaflokkun. Staðallinn er um jafnlaunakerfi og setur upp aðferð fyrir fyrirtæki til þess að skilgreina þau störf sem er sinnt innan fyrirtækisins. Einn umsagnaraðili sagði að það gæti enginn utanaðkomandi komið og sagt að starf A, sem er aðallega unnið af karlmönnum innan fyrirtækisins, sé verðminna en starf B, sem er aðallega unnið af kvenmönnum. Störfin eru einfaldlega skilgreind og þeim skilgreiningum gefið ákveðið verðmætamat. Það sem kerfið tryggir er að karlar og konur fá sömu laun fyrir sama starf. Kerfið tryggir ekki sömu laun fyrir sambærilegt eða jafnverðmætt starf vegna þess að, eins og umsagnaraðilinn segir, það er enginn utanaðkomandi að koma að segja þeim að eitt starf sé í raun jafn verðmætt og eitthvað annað starf. Fyrirtæki geta þannig, ef þau vilja eða meira að segja ósjálfrátt, útskýrt sig frá launamun. Þess vegna er óútskýrður launamunur. Þau geta sagt, hérna erum við með starf A og starf B. Þau eru ekki jafnverðmæt fyrir fyrirtækið, þó þau séu það kannski í raun. Svo óheppilega vill til að annað starfið er nær eingöngu unnið af karlmönnum og hitt af kvenmönnum.
Jafnlaunavottunin er í raun ekkert nema starfaflokkunarkerfi. Því kerfi er hægt að stilla til á hvern þann hátt sem fólki dettur í hug til þess að útskýra launamun á milli starfa innan fyrirtækis og þannig mögulega á milli kynja. Þar sem jafnlaunavottunin er í raun ekki það sem orðið segir til um þá býr það til falskt öryggi.
Hitt málið er skipun dómara. Matsnefnd skilaði frá sér 15 tilnefningum og setti fram rúmlega 100 blaðsíðna rökstuðning á bak við að þær 15 tilnefningar væru hæfustu umsækjendurnir. Nú hefur það komið upp úr kafinu að Viðreisn setti sig upp á móti þeim tilnefningum, að því er virðist á jafnréttisgrundvelli. Allt gott og blessað með það og ekkert athugavert við það heldur. Vandamálið er hins vegar að dómsmálaráðherra skilaði þá öðrum 15 manna lista en matsnefndin, að því er virðist án rökstuðnings. Eitthvað var þar afritað úr áliti matsnefndar og komið með óljósar útskýringar um aukningu á dómarareynslu og lögfræðiþekkingar. Við þann lista sættist Viðreisn á, enda kynjahlutföll jafnari. Þetta geta þingmenn gert, skoðað rök – ómálefnaleg eða ekki – og tekið ákvörðun út frá eigin forsendum. Þar er bara við eigin sannfæringu þingmanna að etja. Ekkert að því. Ráðherra, hins vegar, verður að fara að lögum. Ráðherra verður að útvega rökstuðning fyrir því að sá 15 manna listi sem hún skilaði sé 15 manna listi hæfustu umsækjendanna. Það getur alveg verið út frá öðrum forsendum en matsnefndin notaði, þó það sé athugavert ef þær forsendur séu búnar til eftir á.
Málið um skipun dómara kemur til þingsins rétt fyrir áætluð þinglok og í staðinn fyrir að gefa þingmönnum röksemdafærslu fyrir nýjum lista og nægan tíma til þess að fara yfir þau rök þá átti að troða málinu í gegn að nóttu til. Sem betur fer náðist að færa þá umræðu inn í dagsljósið daginn eftir. Það lá hins vegar ekkert á því að samþykkja það mál samdægurs. Það þurfti ekki að gera fyrr en í síðasta lagi fyrir 1. júlí, mánuði seinna. Það var alveg nægur tími til þess að kalla eftir betri gögnum, fara yfir þau í nefnd og þegar málið væri tilbúið þaðan, kalla saman þingfund aftur til þess að kjósa um málið. Í staðinn þá var því troðið í gegn. Áður en fólk fer að spyrja um „af hverju ekki málþóf“ þá hefur stjórnin ýmis tæki þar á móti, til dæmis að setja þá bara fullt af málum á dagskrá. Áfengisfrumvarpið og rammaáætlun eru klassísk mál. Afleiðingin af þessu getur orðið vantraust á nýja dómstigið.
Þingið er umhverfi þar sem hótanir ganga fram og til baka. Beint og óbeint. Þingið er ofbeldisumhverfi þar sem þingstyrkur til þess að geta framfylgt hótunum skiptir öllu máli. Þar hefur meirihlutinn dagskrárvaldið sem er beittasta vopnið. Þessi meirihluti sem er með minnihluta atkvæða. Þessi meirihluti sem talaði um ný vinnubrögð. Þessi meirihluti sem virðist nú hafa farið í nákvæmlega sömu hrossakaup og alltaf.
Höfundur er þingmaður Pírata.