Eitt af því sem liggur í náttúru hlutanna er að þeir flokkar sem eru í minnihluta á hverjum tíma hljóta að sameinast um að koma ríkisstjórninni frá. Þeir ættu lítið erindi ef þeir hefðu ekki trú á að ríkisstjórn væri betri með þátttöku þeirra sjálfra en án. Ekkert er því eðlilegra en að þeir dragi fram veikleika ríkisstjórnarinnar í stjórnmálaumræðunni innan þings sem utan.
En minnihlutaflokkarnir verða líka dæmdir af þeim málefnalegu rökum sem þeir nota.
Eftir stjórnarmyndunina í janúar hafa minnihlutaflokkarnir sameinast um fremur einfalda staðhæfingu í þessum tilgangi: Viðreisn og Björt framtíð fórnuðu öllu fyrir ráðherrastólana; Sjálfstæðisflokkurinn ræður öllu; samstarfsflokkarnir eru bara gólftuskur hans.
Eftirtektarvert er að minnihlutaflokkarnir sameinast um þessa staðhæfingu hvort sem þeir eru fylgjandi þeim stefnumálum, sem þeir gagnrýna að hafi verið fórnað, eða eru þeim andvígir.
En aðalatriðið er að skoða hvort unnt er að færa gild rök fyrir þessum staðhæfingum.
Nokkuð mikil einföldun
Allt frá því að stjórnarsáttmálinn var birtur hafa nokkrir þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lýst andstöðu við einstök ákvæði hans. Þá hafa margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lýst andstöðu við niðurstöðu þeirrar ríkisfjármálaáætlunar sem ráðherrar flokksins sömdu um við ríkisstjórnarborðið. Og málefnalegur ágreiningur hefur verið opinberaður á ýmsum öðrum sviðum.
Spurningin er þessi: Er unnt að halda því fram með rökum að þessi óvenju mikla andstaða jafn margra þingmanna forystuflokks í ríkisstjórn við fjölda mála stafi af því að flokkur þeirra hafi fengið allt en samstarfsflokkarnir ekkert? Í fljótu bragði sýnist það vera nokkuð mikil einföldun á málavöxtum að halda slíku fram.
Breytt grundvallarsjónarmið
Þegar verkfall sjómanna var farið að bíta komu fram sterkar kröfur bæði frá þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að sjávarútvegsráðherra stöðvaði verkfallið með lögum. Getur einhver í því ljósi rökstutt að daufheyrst hafi verið við slíkum kröfum fyrir aðra sök en þá að það kom ný ríkisstjórn í janúar?
Sjávarútvegurinn gerði harða hríð að ríkisstjórninni í þeim tilgangi að knýja hana til að ákveða með lögum að skattborgararnir greiddu hluta af þeirri kjarabót sem ætlunin var að semja um við sjómenn. Þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG studdu þessa kröfu kröftuglega og höfðu í hótunum um að taka málið úr höndum ráðherra á Alþingi. Getur einhver leitt rök að því að í þessu falli hafi almannahagsmunir verið teknir fram yfir sérhagsmuni nema fyrir það að ný ríkisstjórn hafði tekið við völdum?
Þegar umræðan um uppsagnir hjá HB Granda stóð sem hæst komu fram kröfur frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar um að lækka skatta á útgerðina svo að hún gæti haldið starfsemi af þessu tagi áfram. Það liggur í augum uppi að sá tekjumissir ríkissjóðs hefði þýtt að fækka hefði þurft um jafn marga starfsmenn í velferðarþjónustu ríkisins. Getur einhver leitt rök að því að almannahagsmunir hefðu verið teknir fram yfir sérhagsmuni í þessu máli ef ekki hefði komið til stjórnarskipta?
Eins má spyrja hvort einhver geti sýnt fram á með rökum að jafnlaunavottun væri orðin að lögum fimm mánuðum eftir ríkisstjórnarmyndun án stjórnarþátttöku Viðreisnar og Bjartrar framtíðar?
Önnur sýn á þéttingu byggðar og almenningssamgöngur
Helsta kosningamál Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í komandi borgarstjórnarkosningum er að koma í veg fyrir sameiginleg áform allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að efla almenningssamgöngur meðal annars með léttvagnakerfi. Þrátt fyrir þetta er í sáttmála ríkisstjórnarinnar kveðið á um stuðning við þessi áform. Er með góðu móti unnt að færa rök fyrir því að það hefði gerst án stjórnarskipta?
Nýlega varð samkomulag um að ríkið léti sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu í té lóðir svo flýta mætti þéttingu byggðar og úthlutun lóða. Framsókn hefur bent á að þetta sé ekki ný hugmynd og því síður geti Viðreisn eignað sér hana. Tillögur um þetta hafi komið fram fyrir löngu en Sjálfstæðisflokkurinn hafi jafnan komið í veg fyrir að þær yrðu að veruleika.
Sjálfsagt er þessi athugasemd rétt. En getur þá einhver haldið því fram með rökum að þetta hafi náðst fram nú á vordögum nema vegna þess að það urðu stjórnarskipti fyrr á árinu? Bendir þetta til annars en að Viðreisn og Björt framtíð hafi einfaldlega verið öflugri í að knýja þetta mál fram en fyrri samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins?
Samtal milli meirihluta og minnihluta
Við þær fjölmörgu tilraunir til stjórnarmyndunar sem reyndar voru eftir kosningar töldu flestir flokkar ástæðu til meira samtals milli stjórnarmeirihluta og minnihluta í þinginu á hvern veg sem færi. Enginn lagði þó til að mynduð yrði þjóðstjórn allra flokka um öll mál.
Vissulega hefði ríkisstjórnin getað gert betur í nokkrum tilvikum að því er breytt vinnulag varðar. Þannig var það ekki í samræmi við þessi áform að neita minnihlutanum um lengri tíma til að skoða í þingnefnd tillögur um skipan dómara í Landsrétt.
Það er líka vert eftirtektar í þessu sambandi að minnihlutinn hefur látið nánast ógert að gagnrýna forsætisráðherra fyrir að skipa hagfræðing Samtaka atvinnulífsins í nefnd til að endurskoða peningastefnuna og gjaldmiðilsmálin en ekki hagfræðing Alþýðusambandsins. Slík gagnrýni hefði þó verið réttmæt.
En þrátt fyrir dæmi af þessu tagi hefur margt breyst.
Í ýmsum veigamiklum atriðum sjást þess glögg merki að vilji hefur birst í verki til meiri samvinnu en oftast nær áður. Þannig var forysta fyrir endurskoðun á jafn stóru og viðkvæmu máli eins og búvörusamningum falin fyrrum þingmanni eins af flokkunum í minnihlutanum og aðild neytenda og umhverfissjónarmiða styrkt frá því sem fyrri stjórn hafði ákveðið.
Forysta fyrir tryggingaráði sem ábyrgt er fyrir framkvæmd á viðamestu löggjöfinni á sviði velferðarmála var einnig falin fyrrverandi þingmanni úr flokki sem nú er í minnihluta. Í stærsta og eldfimasta pólitíska deilumáli samtímans, veiðigjaldamálinu, hafa fulltrúar allra flokka verið kallaðir að borði til þess að freista þess að ná breiðri samstöðu.
Þótt aðeins sé horft á þessi dæmi sést að þær staðhæfingar byggjast ekki á rökum að Viðreisn og Björt framtíð hafi gleymt öllum áformum í þessu efni. Benda má á að Morgunblaðið hefur svo þungar áhyggjur af þessu eðlilega samráði á nokkrum þýðingarmiklum sviðum að það telur alvarlega hættu á að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hyggi á sameiningu við Samfylkinguna. Blaðið telur að strax þurfi að bregðast við þeirri vá!
Ætli þessi aðvörun sé til vitnis um að Viðreisn og Björt framtíð hafi ekki gert neitt í því að efna fyrirheitin um breiðara samtal þvert á línuna sem greinir á milli meirihluta og minnihluta?
Málamiðlanir
Kosningaúrslitin kölluðu á meiri málamiðlanir en lengi hafa þekkst við stjórnarmyndun. Um það voru allir flokkar sammála.
Með hæfilegri einföldun má segja að við myndun þessarar stjórnar hafi Sjálfstæðisflokkurinn aðeins farið fram á skattalækkanir en óbreytt ástand að öðru leyti. Viðreisn og Björt framtíð vildu setja á dagskrá breytingar í landbúnaðarmálum, nýjar hugmyndir um veiðileyfagjöld, róttæka endurskipan á gjaldmiðils- og peningamálum og þjóðaratkvæði um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Allir flokkarnir voru sammála um að auka áherslu á heilbrigðismál.
Niðurstaðan var sú að engar skattalækkanir voru samþykktar. Meiri áhersla á heilbrigðismál byggðist á breyttri forgangsröðun en ekki skattahækkunum. Viðreisn og Björt framtíð töluðu fyrir kosningar um aukna tekjuöflun með umhverfissköttum og hærra veiðigjaldi. Þau lofuðu hins vegar aldrei þeim gríðarlegu skattahækkunum sem VG talaði um. Reyndar gekk enginn flokkur jafn langt í boðun skattahækkana fyrir kosningar eins og VG.
Umbreytingar í peningamálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum voru settar á dagskrá í sérstökum nefndum í misvíðtæku samráði út fyrir stjórnarflokkana.
Var þetta viðunandi fyrir flokka sem töluðu fyrir breytingum? Til þess að svara því þarf fyrst að líta til þess hvort líklegt má telja að meiri árangur hefði náðst í annars konar stjórnarmynstri. VG hefur vissulega gengið lengra en aðrir í tillögum um hækkun veiðigjalda. En að öðru leyti hafa VG og Framsókn staðið jafn fast eða jafnvel fastar gegn kerfisbreytingum en Sjálfstæðisflokkurinn.
Ekki hefur verið sýnt fram á að kostur hafi verið á að semja um meira á þessum þremur málasviðum í annars konar stjórnarmyndunarviðræðum.
Í annan stað þarf að hafa hugfast að jafnvel þótt stjórnarflokkarnir hefðu allir verið sammála í þessum efnum hefði verið óráð að ákveða breytingar án þess að leita hófanna um breiðara bakland bæði á Alþingi og utan þess. Nefndarskipan án fyrirframgefinnar niðurstöðu hlaut því alltaf að vera fyrsta skref.
Mál sem þarfnast breiðrar samstöðu
Minnihlutaflokkarnir koma með mismunandi hætti að endurskoðun sjávarútvegs- og landbúnaðarmálanna. En vinnulagið felur í sér áskorun og ábyrgð fyrir minnihlutaflokkana rétt eins og meirihlutaflokkana.
Núverandi skipan á hlutverki Seðlabankans var lögfest í byrjun aldarinnar á grundvelli þverpólitískrar samstöðu. Stjórnskipan Seðlabankans var hins vegar lögfest í ágreiningi eftir hrun.
Breytingar á þessu sviði nú munu tæpast skila tilætluðum árangri ef ekki næst um þær breið samstaða á Alþingi og á vinnumarkaðnum. Þess vegna voru það mistök að skipa jafn þrönga nefnd og raun ber vitni. En eftir sem áður er það svo að þegar niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir mun reyna á alla þingflokkana og aðila vinnumarkaðarins hvort grundvöllur er fyrir breytingum. Þarna var unnt að standa betur að verki en möguleikarnir eru ekki úr sögunni.
Evrópumálunum hefur verið skotið á frest fram til loka kjörtímabilsins. Þá verða stjórnarflokkarnir óbundnir af samstarfinu ef flutt verður tillaga um þjóðaratkvæði. Þegar þar að kemur mun á það reyna hvort annars konar meirihluti getur myndast um það einstaka mál. Í öðrum stjórnarmyndunarkostum sem reyndir voru hefði hugsanlega í einu tilviki mátt flýta þjóðaratkvæði um eitt til tvö ár en það hefði orðið jafn erfitt í öðrum.
Hvar liggja veikleikarnir?
Það sem helst sker í augu í þessu stjórnarsamstarfi eru kröftugar og ítrekaðar yfirlýsingar þingmanna og jafnvel ráðherra Sjálfstæðisflokksins um andstöðu við einstök atriði í stjórnarsáttmálanum og við ákvarðanir sem teknar hafa verið við ríkisstjórnarborðið. Þetta er veikleiki samstarfsins. Satt best að segja er fremur óvanalegt að sjá brotalamir af þessu tagi í forystuflokki í ríkisstjórnar.
Enn sem komið er hefur þetta ástand þó ekki leitt til þess að framgangur mála hafi stöðvast. Orðin hafa að því leyti verið tóm. En það getur vitaskuld breyst. Og ekkert er eðlilegra en minnihlutaflokkarnir bindi vonir við það.
Kjarni málsins er sá að ógerningur er að staðhæfa með rökum að ekki hafi orðið breyting við stjórnarskiptin. Það er ennfremur ómálefnalegt framlag til stjórnmálaumræðunnar að halda því fram að forystuflokkur ríkisstjórnarinnar hafi ráðið einn ferðinni þessa fyrstu mánuði. Ómálefnalegar og órökstuddar fullyrðingar af því tagi teljast varla alvöru framlag til nýrra umræðuhátta.
Það rétta er að á fimm mánuðum hefur margt breyst í þá veru sem Viðreisn og Björt framtíð töluðu fyrir. En eðli máls samkvæmt á eftir að koma í ljós hvort sá farvegur sem lagður hefur verið um samtal á breiðum grundvelli varðandi nokkur höfuðmál í íslenskum stjórnmálum leiðir til niðurstöðu.
Að svo komnu hafa Viðreisn og Björt framtíð því átt erindi í þetta stjórnarsamstarf. Mesta hættan fyrir þessa tvo flokka í framhaldinu er sú að í því breiða samtali sem lagt hefur verið upp með á nokkrum sviðum nái Sjálfstæðisflokkurinn saman með þeim tveimur flokkum í minnihlutanum sem mest eru á móti breytingum. Á næstu mánuðum eða misserum komast þeir flokkar tæpast hjá því að svara hvert hugur þeirra stefnir í þeim efnum.