Það er vissulega krefjandi að viðhalda velferðarkerfinu okkar og tryggja framtíð þess. Til þess þarf bæði gott skipulag í samtímanum og skýra framtíðarsýn en ekki síst trausta fjármögnun. Þar eru skatttekjur mikilvægastar og að mati okkar Vinstri grænna ætti ekki að leita annað eftir fé til að greiða fyrir velferðarþjónustu. Við höfum ekki áhuga á að krefja sjúkt fólk um greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu eða ungmenni um skólagjöld en við ætlumst til þess að greiddir séu álagðir skattar af skattstofnum. Við gerum kröfu um að arður af náttúruauðlindum falli í hlut allra landsmanna en ekki fámennra hagsmunahópa. Við viljum að greiddur sé skattur af fjármagnstekjum og við höfum alls ekkert umburðarlyndi gagnvart þeim sem víkja sér undan skyldu sinni við samfélag sitt í þessum efnum.
Ríkisstjórnin býður upp á sögulega lága samneyslu í sinni framtíðarsýn sem birtist í ríkisfjármálaáætluninni sem samþykkt var á lokadögum þingsins og hún kemur svo sannarlega ekki til móts við það sem lofað var fyrir kosningar enda gaf fjármálaráð henni falleinkunn.
Þjóðin eldist en þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu í öldrunarþjónustu til að mæta þeirri brýnu þörf. Gert er ráð fyrir þyrlukaupum fyrir landhelgisgæsluna en ekki á að tryggja á þær mannskap. Við horfum fram á fækkun í lögreglunni af því að ekki er lagt nóg til. Það þarf að loka eða fækka hjá sýslumönnum vegna fjárskorts og líklega verður það ekki síst á landsbyggðinni. Það er gert ráð fyrir að fækka nemendum í skólum og svo væri lengi hægt að telja. Það er uppgangur í efnahagslífinu og af hverju eiga öryrkjar, eldri borgarar, börn og ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði ekki að njóta? Hvenær skyldi vera rétti tíminn til þess?
Munurinn á hægri og vinstri er skýr
Í tillögum meirihluta fjárlaganefndar við ríkisfjármálaáætlunina er eitt og annað lagt til en engar formlegar breytingar voru gerðar. En hver á að borga tillögurnar sem byggja á því að peningarnir fái að haldast í framhaldsskólunum, að háskólarnir njóti sambærilegra framlaga og á yfirstandandi ári? Það er ekkert skýrt, en það hlýtur að vera innan þess málasviðs þannig að ég velti fyrir mér hvort einhver málaflokkur innan málefnasviðs menntamálanna hafi borð fyrir báru. Það held ég ekki. Hvaða málaflokkur er svo feitur að hann geti séð af fjármunum í eitthvað annað?
Munurinn á hægri og vinstri stefnu er alltaf augljós þrátt fyrir að stundum sé öðru haldið fram. Það er aldrei erfitt að greina á milli félagshyggju og jafnaðarstefnu annars vegar og sérhyggju og kapítalisma hins vegar. Það er alltaf augljóst þegar réttur hinna sterkari og ríkari er meira virtur en réttur þeirra sem standa höllum fæti og hafa af litlu að taka. Þegar stjórnvöld hleypa afli auðmagnsins að stjórnartaumunum skapast það félagslega óréttlæti sem við sjáum hér. Það er það sem er að gerast og það er það sem ríkisfjármálaáætlun hægri flokkanna endurspeglar.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.