Það er óhætt að segja að drög að nýrri stjórnarskrá sem Stjórnlagaráð sendi til Alþingis fyrir rétt tæpum sex árum hafi vakið heimsathygli. Athyglin hafði raunar vaknað áður en Stjórnlagaráð lauk sinni vinnu, en það hefur ekki dregið úr henni síðan, nema síður sé, þrátt fyrir að Alþingi hafi svo gott sem hætt umfjöllun um frumvarpið vorið 2013 og aldrei lagt það fyrir þingið til atkvæðagreiðslu. Pattstaðan sem íslenska stjórnarskrármálið virðist komin í er sérstaklega bagaleg í ljósi þess að í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 lýstu 2/3 hlutar kjósenda því yfir ný stjórnarskrá skyldi sett sem grundvallaðist á drögum Stjórnlagaráðs.
Þann 3. júní síðastliðinn var haldin ráðstefna við Lagadeild Berkeley háskóla í Kaliforníu þar sem fjallað var um stjórnarskrána og tilurð hennar. Vigdís Finnbogadóttir flutti ávarp sem sýnt var í upphafi ráðstefnunnar þar sem hún benti á að vilji þjóðarinnar væri skýr eins og þjóðaratkvæðagreiðslan hefði staðfest. „Ég tel að íslenska þjóðin hafi beðið nógu lengi,“ sagði Vigdís meðal annars.
Óbreyttur áhugi í grasrót og háskólasamfélagi
Berkeley ráðstefnan er enn einn vitnisburðurinn um áhuga fræðimanna og aktívista í öðrum löndum á stjórnarskránni. Þátttakendur voru á annað hundrað og eyddu þeir fyrri hluta dagsins í umræður um hvernig mæta megi þörfum framtíðarsamfélaga á grundvelli lýðræðis, en í seinni hlutanum var sjónum beint sérstaklega að stjórnarskrárfrumvarpinu sjálfu, styrkleikum þess og veikleikum.
Þessi mikli alþjóðlegi áhugi á eflaust margar skýringar en það má nefna tvær sérstaklega:
Í fyrsta lagi var aðferðin sem beitt var til að skrifa stjórnarskrána nýstárleg og einstök. Þjóðfundur með 950 einstaklingum völdum af handahófi lagði fyrst til þau gildi sem höfð skyldu að leiðarljósi. Sérfræðinefnd tók að því loknu saman skýrslu með greinargóðum upplýsingum sem var afhent Stjórnlagaráði. Í Stjórnlagaráði sátu 25 ólíkir einstaklingar sem höfðu það eina markmið að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Ísland á fjórum mánuðum. Stjórnlagaráðið beitti opnara ferli en þekkst hefur áður við gerð stjórnarskráa. Almenningur gat komið að vinnu ráðsins á öllum stigum og hafði aðgang að umræðum og ákvörðunum ráðsins jafnóðum. Með tillögum og athugasemdum í gegnum Facebook komu almennir borgarar að vinnunni og höfðu áhrif á það hvernig drög að nýrri stjórnarskrá þróuðust. Að lokum samþykktu allir 25 einstaklingar Stjórnlagaráðs drög að nýrri stjórnarskrá einróma.
Í öðru lagi skilaði þetta ferli stjórnarskrárdrögum sem að mati fjölmargra viðurkenndra sérfræðinga eru í senn nútímaleg, framsækin, og fyllilega traust stjórnarskrá. Þannig sýndu Íslendingar í margra augum fram að stjórnarskrá er mögulegt að skapa í galopnu ferli með víðtækri og stöðugri aðkomu almennings.
Bein aðild almennings og trú á lýðræði
Árangur Stjórnlagaráðs og umræðurnar um eðli og hlutverk stjórnarskrár sem starf þess leiddi til varða grundvallarhugmyndir okkar um lýðræði. Sótt er að hinu hefðbundna fulltrúalýðræði úr mörgum áttum og trú fólks á flokkakerfi og leiðtogastjórnmál hefur dvínað – ekki síst í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Árangursríkt starf Stjórnlagaráðs gaf ástæðu til að ætla að bein aðild almennings að grunnstefnumótun samfélagsins gæti aukið trú fólks á lýðræðisleg stjórnmál, með öðrum orðum að besta leiðin til að bjarga lýðræðinu sé meira lýðræði: Meiri bein aðild almennings að ákvörðunum, meiri þátttaka, meiri takmarkanir á völdum kjörinna fulltrúa.
Í fyrri hluta ráðstefnunnar í Berkeley var reynt að beita þessu innsæi með því að láta þátttakendur fjalla um þá spurningu hvernig lýðræði þjóni best þörfum framtíðarinnar og með hvaða hætti stjórnarskrá geti tryggt það. 12 hópar mótuðu tillögur eða hugmyndir um þetta sem svo voru ræddar sameiginlega. Rauði þráðurinn í þeirri umræðu var sú spurning hvernig hönnun stjórnarskrár getur verið ráðandi um aukið lýðræði í samfélaginu. Margar hugmyndanna snerust því um hvers konar stjórnarskrárákvæði uppfylli annars vegar kröfuna um aukna aðkomu, hins vegar þörfina fyrir þekkingu eða visku fjöldans þegar stefna er mótuð eða lykilákvarðanir teknar.
Þekking samfélagsins virkjuð
Það er algeng mótbára við aðkomu almennings að ákvörðunum og stefnumótun að fólk sé upp til hópa ekki nægilega vel upplýst eða menntað til að geta myndað sér rökréttar skoðanir á stórum málum. En á sama tíma vitum við að úti í samfélaginu er í flestum tilfellum að finna miklu fjölbreytilegri þekkingu og skilning á öllum málum heldur en við er að búast í þröngum hópi embættismanna, sérvaldra sérfræðinga eða kjörinna fulltrúa. Almenningur er því í senn fáfróður, fjölfróður og sérfróður. Hvernig er best að takast á við þessa mótsögn?
Krafan um aukna þátttöku almennings snýst um að virkja þekkingu almennings frekar en að óttast fáfræði fólksins. Þegar haldnar eru kosningar þar sem flokkar og hagsmunahópar beita öllum meðulum til að hafa áhrif á almenning sér í hag er eðlilegt að áhyggjur vakni af því að hlustað sé á loddarana frekar en þá sem reyna að þjóna sannleikanum. En þegar almenningur er kallaður til þátttöku með skipulögðum hætti og áherslan beinist að rökræðum frekar en kappræðum og moldviðri, er líklegra að þekking fólks sé virkjuð en að niðurstöður mótist af vanþekkingu.
Rekum af okkur slyðruorðið
Við Íslendingar verðum seint talin miklir frumkvöðlar á sviði lýðræðisþróunar. Hvað löggjöf varðar er til að mynda algengast að við tökum lög upp eftir frændríkjum okkar og silumst þannig í humátt á eftir þeim sem brautina ryðja. Við eigum þó nokkrar stundir í sögunni sem við getum verið stolt af því að hafa fremur rutt en elt. Við hreykjum okkur af elsta þjóðþingi heims og við höfðum fyrst vit á því í heiminum að gera konu að lýðræðislega kjörnum forseta. Þar sýndum við hugrekki og framsýni. Með ferlinu sem átti sér stað á árunum 2009-2012 sýndi Ísland, fyrst allra þjóða, að hægt væri að skapa stjórnarskrá í gagnsæju ferli með aðkomu almennings.
Það er kominn tími til þess að Alþingi sinni þeirri skyldu sinni að fara að þjóðarvilja, taki frumvarpið sem byggt er á tillögu stjórnarskrár til umfjöllunar að nýju og samþykki nýja stjórnarskrá. Ekkert bendir til annars en að slíkt skref væri gæfuspor: Þótt sterkir hagsmunaaðilar innanlands hafi talað frumvarpið niður, bendir mat hlutlausra og sérfróðra aðila um allan heim til þess að stjórnarskrárfrumvarpið hafi alla helstu kosti sem prýtt geta nútímalega stjórnarskrá. Með nýju stjórnarskránni má sýna fram á að dýpkun lýðræðis sé ekki aðeins fagurgali á Íslandi heldur leiðin fram á veginn.