„Íslenska loforðið“ (e. The Icelandic pledge) er átak þar sem ferðamenn er hvattir til að samþykkja átta loforð, þar á meðal að kúka ekki í íslenskri náttúru.
Kúkaumræðan er svo kjánaleg að hrollurinn við þessa frétt sveiflaðist á milli aula- og skammar. Eins og það sé ferðamönnum að kenna að íslensk stjórnvöld hafi látið hjá líða að byggja klósett. Önnur nýleg frétt fjallaði um það að Íslendingar væru að berja húsbíla að utan sem stæðu utan tjaldsvæða.
Betra væri að tala við þingmanninn sem viðkomandi kaus. Spyrja t.d. hvernig hann/hún ynni að framtíðarsýn og skipulagi í ferðaþjónustu.
Ekki bara að lemja eins og þurs á rúðu ferðamanna í dýrasta landi Evrópu.
Ég hef unnið sem leiðsögumaður á Íslandi í meira en 30 ár og hef ekki enn orðið vör við ábyrga framtíðarsýn (hegðun), og hvað þá stefnu, í ferðamálum. Kannski vantar stjórnvöld loforð? Átta loforð eins og ætlast er til að ferðamenn skrifi undir og Inspired by Iceland kallar „ábyrga ferðahegðun“ .
Ábyrg stjórn ferðamála væri kannski bara góð hugmynd.
Ef stjórnvöld skortir tillögur eru hér slíkar að átta loforðum fyrir ríkisstjórnina:
- Ég lofa að láta byggja klósett (mörg)
- Ég lofa að láta laga vegi
- Ég lofa að láta breikka brýr
- Ég lofa að láta búa til bílastæði og útskot með fram vegum
- Ég lofa að láta malbika hjólastíga með fram hringveginum
- Ég lofa að láta nýta rannsóknir til að SKIPULEGGJA FRAM Í TÍMANN
- Ég lofa að láta fjölga landvörðum/stækka þjóðgarða
- Ég lofa að láta banna gömlum leigubílstjórum að aka rútum
- Ég lofa að hætta að hygla fyrirtækjum vina og vandamanna
- Ég lofa að láta taka upp Evru
Höfundur er leiðsögumaður.