Alvarlegur fæðuskortur hrjáir a.m.k. fjögur lönd í heiminum í dag og þjakar og dregur fjölda barna og fullorðinna til dauða á hverjum degi. Þessi lönd eru Sómalía, Jemen, Nígería og Suður-Súdan. Fæðuskortur sem þessi er án fordæma og þess vegna verðum við og alþjóðasamfélagið að bregðast við núna strax og stórauka aðstoð frá þjóðum allsnægta til þeirra sem berjast við sult og yfirvofandi hungursneyðir vegna vopnaðra átaka og þurrka. Við sem byggjum Ísland og getum aðstoðað eigum ekki að láta okkar eftir liggja og um leið þrýsta á okkar eigin stjórnvöld að gera betur. En af hverju?
Jú, því Íslandssagan sýnir glöggt hvernig utanaðkomandi aðstoð og alþjóðleg samskipti og þar með fleiri tækifæri geta dregið heila þjóð úr örbirgð til bjargálna. Það þarf ekki að fara marga ættliði aftur til að finna einhvern sem fæddist í torfkofa eða hafði hvorki rennandi vatn né rafmagn. Slíku ástandi er hægt að breyta en til þess þarf samhent átak, samhent átak til að gera fólki kleyft að búa heima hjá sér.
Niðurstöður jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC) sem kynntar voru í gær sýna svart á hvítu að nauðsynlegt er að stjórnvöld bregðist við og auki framlög til þróunarsamvinnu. Undanfarin fimm ár hefur aðeins um 0,22% af vergri þjóðarframleiðslu verið varið til þróunarsamvinnu. Ísland hefur hins vegar lengi stutt markmið Sameinuðu þjóðanna um að sú tala yrði 0,7% og því er ljóst að við sem þjóð höfum ekki náð að uppfylla eigin markmið.
Nú er hins vegar lag að gera gott betur. Ef Ísland og önnur velmegandi ríki bregðast ekki strax við verður erfiðara að leysa vandann. Hundruð þúsunda og jafnvel milljónir manna eiga á hættu að verða hungurmorða. Enn fleiri munu bíða varanlegan skaða af. Lítil börn sem fæðast en ná ekki að komast til manns vegna vannæringar. Fyrir utan líkamlega og sálræna erfiðleika sem þetta hefur í för með sér þýðir það einnig færri vinnandi hendur og meiri samfélagslegur kostnaður. Börn og verðandi mæður eru auðvitað verst útsett fyrir vannæringu. Og fólk fer á flótta og reynir að finna betra líf annars staðar þar sem hægt er að lifa af. Hluti þeirra leitar að lokum skjóls á Íslandi.
Tökum höndum saman og gerum það sem við getum til þess að bjarga fólki frá hægum hungurdauða og til sjálfshjálpar. Fólk vill vera og búa á sínum heimaslóðum og saman getum við í senn bjargað lífi þess og uppfyllt drauma. Líka okkar eigin drauma um að láta gott af okkur leiða. Þrýstum á stjórnvöld að uppfylla markmið sín og verja hærri fjárhæðum til þróunarsamvinnu.
Höfundur er sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi.