Allt sem gerist á norðurslóðum varðar heimsbyggðina. Þessa setningu hafa menn stundum yfir til þess að leggja áherslu á hve stóran þátt umhverfisbreytingar norðan heimskautsbaugs eiga í loftslagsbreytingum. Í henni felst vissulega sannleikur. Stefna Íslands í málefnum norðurslóða er um margt ágæt en líka gagnrýnisverð. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti Alþingi lögboðna skýrslu um umhverfismál í vor. Í greininni fjalla ég lítillega um málefni norðurslóða út frá skýrslunni.
Mikilvægur málaflokkur, en…
Í skýrslunni segir um málefni norðurslóða að þau séu forgangsmál og tengjast landgrunns- og fullveldiskröfum Íslands. Mikilvægi málaflokksins er augljóst. Þátttaka okkar í allri vinnu landanna átta í Norðurskautsráðinu er ákaflega þýðingarmikil. Áhersla á þau er fyllilega réttmæt. Flest málefni norðurslóða hafa tvær hliðar. Önnur snýr að auðlindum norðurheimskautssvæðisins og nýtingu þeirra en hin að umhverfismálum og náttúruvernd. Þar fléttast inn hagsmunir um fjögurra milljón íbúa (þar af um 400 þúsund frumbyggja) og ýmis konar réttur, t.d. fullveldi, ákvarðanaréttur íbúa og jafnrétti. Fyrrgreindar landgrunnskröfur varða öll ríkin átta en með mismunandi hætti. Þær taka mið af jarðfræði á hafsbotni og snúast auðvitað um auðlindanytjar, aðallega olíu, jarðgas og málma, og hafa ákvarðast í samræmi við hafréttarsáttmála SÞ. Hingað til virðast rökfærður grunnur þessara krafna verið hafinn yfir umræður eða gagnrýni. Ég tel hann smám saman hafa orðið úreltan. Í stað krafna um auðlindarétt á úthafsbotni hundruð mílna á haf út með jarðsögulegum rökum verður að koma samábyrgð á velferð alls lífríkis í hafi. Þar með talið á hafsbotni, sem myndar heild með sjónum fyrir ofan hann. Samábyrgðin er lykill að velferð mannkyns.
Ísland rís upp af Norður- Atlantshafshryggnum. Þar með krefjumst við réttar á auðlindum vestur fyrir Bretlandseyjar að eigin mati og einnig norður úr, út fyrir efnahagslögsöguna. Rússland beitir skyldum jarðfræðilegum rökum til þess að eigna sér hafsbotnsrétt til norðurs, alla leið upp á Norðurpól. Stóra þríhyrningslaga sneið á landakorti. Fjögur önnur norðurslóðaríki, Kanada, Bandaríkin, Danmörk (Grænland) og Noregur leggja í sama leiðangur og krefjast yfirráða yfir sinni sneið norður á pólinn. Um þetta gerðu ríkin fimm með sér samkomulag án samráðs við Ísland, Svíþjóð og Finnland. Í raun réttri er þessi gleypigangur ekki í þágu mannkyns. Hafsbotninn í norðri, utan 200 mílna lögsögu hvers ríkis, ætti að vera sameiginlegt verndarsvæði allra þjóða og nýting lífríkis í úthafi háð alþjóðlegu samkomulagi. Ekki er þó útlit fyrir að svo verði í bráð og íslensk yfirvöld tala ekki með þessum hætti.
Vissulega hefur orðið árangur af samstarfi norðurslóðaríkjanna átta. Nægir að nefna regluverk um skip og siglingar á norðurslóðum, samstarf um björgun og viðbrögð við mengunarslysum, margvíslegt vísinda- og rannsóknasamstarf í samfélags- og náttúruvísindum og samstarf um menntun. Um þessar mundir er unnið að því að ná samkomulagi um fiskveiðar á hafsvæðum sem enn eru að mestu lokuð vegna hafíss. Er þá væntanlega stefnt að því að þær nytjar verði sem mest sjálfbærar. Loks má benda á þátttöku samtaka frumbyggja í Norðurskautsráðinu og stöðu ríkja utan heimskautasvæða, og allmarga samtaka, sem áheyrnaraðila á fundum ráðsins. Ísland tekur við formennsku þess 2019 og gegnir henni til 2021. Fram að því þarf ekki aðeins að undirbúa starfið vel heldur líka endurskoða stefnu landsins í málefnum norðurslóða eins og boðað hefur verið. Þá verður framsækni, nýsköpun, umhverfishyggja og samfélagsábyrgð á ráða mestu um megindrættina.
Náttúrunytjar og náttúruvernd vegast á
Nýting náttúruauðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi er annað þema í skýrslunni. Í þeim efnum er ekki allt sem sýnist. Allar þjóðir í Norðuskautsráðinu stefna að námuvinnslu norðan heimskautsbaugs, vinnslu kolefniseldsneytis og verðmætra jarðefna. Hvort tveggja er auðvitað ósjálfbærar náttúrunytjar. Lítt dugar að blekkja sjálfan sig og aðra með því að búa til orðaleppa á borð við þann sem kínverskur ræðumaður notaði á Arctic Circle 2015. Hann ræddi um "sjálfbæra vinnslu olíu og gass" á norðurslóðum. Önnur jarðefnavinnsla kann að vera nauðsynleg í norðrinu, vegna skorts á mikilvægum efnum, en hún verður þá að vera mjög varkár, undir sérstöku eftirliti og með þátttöku heimamanna.
Ráðstefnan Arctic Circle er stærsti samræðuvettvangur norðurslóða. Þar koma saman stjórnmálamenn, fjárfestar, fulltrúar ríkisstjórna, samtök áhugafólks, fulltrúar menningarstrauma og vísindamenn. Á ráðstefnunni fæst ágætt, árlegt yfirlit yfir stöðu umræðna og ákvarðana um sígilda mótsögn: Auðlindanytjar og hagnaður af þeim frammi fyrir náttúruvernd og andófi gegn hlýnun loftslags og afleiðingum þess. Á fyrstu ráðstefnu Arctic Circle yfirgnæfðu hugmyndir og stefnumál um hamslausar auðlindanytjar umhverfisverndina. Smám saman hefur staðan í umræðum og á sérfundum breyst, náttúruvernd og loftslagsmálum í hag. Enn er þó svo að tækifærin og gríðarlegur framtíðarhagnaður af vinnslu jarðefna, siglingum, fiskveiðum og mannvirkjagerð vegur miklu þyngra en umhyggjan fyrir náttúru og íbúum. Reyndar leggjast íbúa norðurslóða víða á sveif með auðmönnum og stórfyrirtækjum sem stefna í norður. Grænlendingar margir hverjir telja þessar auðlindanytjar lykil að sjálfstæði og frumbyggjahópar sjá þær sem leið til velsældar og aukinnar heimastjórnar. Einangrun Rússlands á alþjóðavísu ýtir undir sókn ráðamanna þar og stórfyrirtækja í jarðefnaeldsneyti á landi í Síberíu og á hafi úti.
Ef ekki á illa að fara verða allir að horfast í augu við staðreynd: Engar náttúrunytjar sem herða á hröðum og hættulegum loftslagsbreytingum af manna völdum mega í raun fara fram á norðurslóðum. Það sama á að gilda þar og annars staðar í heiminum: Sérhver aðgerð sem minnkar losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) á að ganga fyrir aukinni ásókn í jarðefni og mannvirkjagerð. Ósjálfbær orkuöflun (kol, olía og gas) í norðri má aðeins fara fram til þess að afla íbúunum nauðsynlegrar orku á meðan sú sjálfbæra er ekki í boði á nærliggjandi landsvæðum. Vinda verður ofan af ósjálfbærri orkuöflum í norðrinu eins fljótt og auðið er. Samtímis verður að tryggja næga orku og láta nýsköpun snúast um orkuöflun með vistvænum hætti: Vindi, sólgeislun, jarðvarma, vatnsafli og sjávarorku, t.d. ölduvirkjunum. Löngu er kunnugt að við náum hvergi nærri að draga úr hlýnun loftslags og snúa þróuninni við nema að leyfa 2/3 hlutum þekktra kolefnisauðlinda að liggja kyrrar.
Nefnd um norðurslóðamál
Eflaust kannast fáir lesendur þessa pistils við þá alþjóðanefnd þingsins sem oft gengur undir heitinu Þingmannanefnd um norðurslóðamál eða Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál. Í henni sitja jafnan þrír þingmenn. Nú eru það Njáll Trausti Friðbertsson (S), Óli Björn Kárason (S) og höfundur greinarinnar (VG) sem er formaður hennar. Nefndin á sér langa sögu og var stofnuð 1994. Á fyrstu árum sínum vann þingmannanefndin ötullega að stofnun Norðurskautsráðsins. Þarna varð um leið til samstarfsvettvangur þingmanna aðildarríkja Norðurskautsráðsins, auk Evrópuþingsins, og er hópnum ætlað að hafa áhrif á stefnu og störf Norðurskautsráðsins. Ráðið sjálft er skipað fulltrúum framkvæmdavaldsins og á æðsta stigi eru það þá utanríkisráðherrar landanna. Með þingmannastarfinu er augljóslega verið að brúa mærin á milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. Áheyrnarfulltrúar frá Norðurlandaráði og Vestnorræna ráðinu eru viðstaddir alla vinnufundi og ráðstefnur. Á þessu ári eru þar Steingrímur J. Sigfússon (VG) frá Norðurlandaráði og Bryndís Haraldsdóttir (S) frá Vestnorræna ráðinu.
Annað hvert ár (2017) hittast formenn landsnefnda og aðrir fulltrúar þrisvar sinnum sem stjórnarnefnd. Þá er farið yfir störf landsnefnda og mótuð stefna fyrir ráðstefnu sem haldin er annað hvert ár (næst 2018 í Finnlandi). Á ráðstefnuárinu hittist stjórnarnefndin a.m.k. tvisvar en meginþunginn er á ráðstefnu þar sem allar landsnefndir hittast sem og aðrir fulltrúar. Þá er gengið frá sameiginlegum ályktunum og samþykktum þingmanna landanna. Með þær fer formaður stjórnarnefndar á fund Norðurskautsráðsins og leggur fram til umfjöllunar og áhrifa. Nú er formaður stjórnarnefndarinnar norskur, Erik Sivertsen, og eins manns skrifstofa hennar er í Helsinki. Á ráðstefnuna mætir einnig hópur sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðursins varða. Helstu verkefni í samstarfi þingmannanefndanna lúta að sjálfbærri þróun og umhverfis- og náttúruvernd. Sérstök áhersla er einnig lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta íbúa norðursins, einkanlega frumbyggja, sem og á aukna efnahagslega og félagslega velferð í byggðum og bæjum. Ár hvert er lögð fram á Alþingi skýrsla þingmannanefndarinnar. Skýrslu fyrir árið 2016 má finna hér:. Þar koma fram áherslur okkar á liðnu ári, svo sem á sjávarnytjar, kynjajafnrétti og ferðaþjónustu. Á þessu ári hafa bæst við loftslagsmál og nýsköpun svo eitthvað sé nefnt. Ef marka má viðtöl mín við ýmsa erlenda þingmenn á árinu hafa áherslur þingmannaráðstefnunni hverju sinni skilað sér inn í stefnu Norðurskautsráðsins. Þá er vel af stað farið.