Mikil umræða hefur verið undanfarna daga og vikur vegna frumvarps sem kallað er tálmunarfrumvarpið. Fyrstu umræðu á Alþingi er lokið. Ætlun mín er að ræða ekki einstaka þætti frumvarpsins, hvort það muni skila árangri eða ekki, hvort það sé rétt að gera tálmun refsiverða í einhverri mynd eða ekki. Ég ætla mér eingöngu að tala um ummæli sem hafa birst opinberlega í kringum og eftir umræðuna á þinginu.
Langar mig að ræða Björn Leví hjá Pírötum og ummæli hans í fyrstu umræðu á Alþingi. Ég reyni að vitna sem mest í hann sjálfan vegna þess að mér blöskraði hluti af því sem hann sagði. Björn Leví kom tvívegis upp í ræðustól og svo til að svara spurningum. Hann heldur því fram að tálmun sé eingöngu beitt þegar umgengniforeldrið hafi gert eitthvað rangt og því sé tálmun réttlætanleg. Það sem sló mig út af laginu þegar hann stendur í pontu og segir orðrétt „Hver veit hérna hvaða ofbeldi?“. Þarna vísar hann í að þegar lögheimilsforeldrið tálmi sé það gert fyrir barnið. Og svo eigi að fangelsa fyrir ofbeldi sem umgengniforeldrið beiti lögheimilsforeldrið. Þetta skýrist betur þegar hann kemur í ræðustólinn í seinna skiptið en þá segir hann: „Ef afleiðingin af þessu framvarpi verði að eitt barn lendi í höndum ofbeldisaðila vegna hræðslu eða hótana um fangelsi vegna þess að ákvæðið er notað til að þvinga forsjáforeldri til að koma á umgengni af ofbeldisforeldri.“ Hann gengur svo langt að halda því fram að umgengniforeldrar, sem hafa mátt þola tálmun, séu ofbeldismenn og myndu misnota löggjöfina til að hræða og hóta með.
Þegar umsögnin frá Umboðsmanni barna er lesin má sjá svipað viðhorf og Björn Leví lýsti á þingi. Umboðsmaður barna segir; „Ekki er hægt að líta fram hjá því að í sumum tilvikum getur umgengni verið skaðleg fyrir barn.“ Hér vísar umboðsmaður í að umgengniforeldrið beiti ofbeldi eða sé í neyslu. Nokkrir þingmenn ásamt Birni Leví vitna til 9 tálmunarmála á jafnmörgum árum og vísar í tölur frá Umboðsmanni barna. Björn Leví sagði: „Tölurnar sem voru ræddar í andsvörum áðan ríma ágætlega við þær tölur sem fram koma í viðtali við umboðsmann barna.“ Í umsögn sinni segir hins vegar Umboðsmaður barna; „Umboðsmaður barna þekkir mörg dæmi þar sem umgengni er stöðvuð vegna þess að foreldri telur sig vera að vernda barnið“. Þarna grunar öðru foreldrinu eitthvað og kemur í veg fyrir umgengni sem er tálmun nema hægt sé að sanna að umgengni sé ekki góð fyrir barnið. Það er skoðað af þar til bærum yfirvöldum og á ekki að vera geðþótta ákvörðun lögheimilisforeldris.
Ég velti fyrir mér hvort skiptin séu 9 eða mörg? Annað hvort hefur umboðsmaður barna látið hljóma, fyrir þingmenn, að um færri tilvik eru að ræða heldur er raun ber vitni eða? Þegar menn eru tvísaga eru þeir ekki trúverðugir og nokkuð ljóst að umboðsmaður barna er ekki hlutlaus. Hún lagar sig að því sem best þykir til að hindra framgöngu frumvarpsins.
Einnig þegar skoðuð er umsögn Sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu þá kemur þar fram að 227 kröfur um dagsektir voru gerðar á árunum 2014-2016, af þeim voru eingöngu 13 úrskurðum hafnað en 11 úrskurðir þar sem lagðar voru á dagsektir. Þetta sýnir mjög skýrt að á þessum árum taldi sýslumaður án vafa að allavega ellefu ef þessum málum voru tálmun sem þurfti að reyna þvinga fram umgengi. Allt bendir þó til þess að 216 mál á þessum árum hafi verið tálmun átt sér stað í einhverri mynd. Þettu eru 90 mál á ári eða ný beiðni um dagssektir á 3 daga fresti.
Ég sný mér aftur að ummælum Björn Levís og leyfi mér að gagnrýna þau harðlega. Ég geng svo langt að segja, Björn Leví á að biðjast formlega afsökunar á ummælum sínum í garð þeirra sem lenda í ólögmætum tálmunum! Hann kallaði þá ofbeldismenn og gaf í skyn að þeir ættu það skilið að fá ekki að sjá börnin sín.
Þegar við skoðum ummæli hans segir hann að ég sem faðir sem fæ ekki að hitta börn mín sökum tálmunar geti bara kennt mér eða kynbræðrum mínum um. Við erum ofbeldismenn sem ættum ekki að fá að sjá börnin okkar. Það sé ég sem gerði eitthvað rangt og ætti að breyta minni hegðun og atferli. Björn Leví vill ekki að börn lendi í höndum ofbeldismanna en með orðalagi sínu ræðst hann gegn öllum umgengniforeldrum sem vilja sjá reglulega um uppeldi bara sinna, veita þeim ást og þá leiðsögn sem börn þurfa á að halda. Einhliða ákvörðun lögheimilisforeldris að stoppa umgengni sem hefur fengist staðfest af sýslumanni eða öðrum viðurkenndum aðila er ekki mér eða þeim sem lenda í því að kenna, það er gerandinn sem ber ábyrgð á verknaðinum ekki þolandinn.
Þessi orð ættu flestir að hafa heyrt í örðu samhengi, þetta er ekki þolandanum að kenna. Síðustu ár hefur umræðan verið mjög hávær í sambandi við annan gjörning. Alþjóð myndi harðlega gagnrýna slík ummæli sem Björn Leví lét úr úr sér, þar sem þolandinn hefur ekki vald yfir aðstæðum og ráðist er á hann andlega og líkamlega. Við fordæmum ummæli eins og „Hvað gerðir þú?“ „Bauðstu bara ekki upp á þetta?“. Ég sé ekki muninn á þessum ummælum til kvenna eða þegar Björn Leví og fleiri halda því fram að tálmun sé réttmæt ef aðili tekur einhliða ákvörðun um að koma í veg fyrir umgengni. Með þeirri ákvörðun veldur það umgengisforeldrinu svo miklum andlegum sársauka að ekki orð fá lýst. Þeir foreldrar sem hafa upplifað svona ofbeldi, sem tálmun er, vita hversu mikil áhrif það hefur á lífið og ekki síður líf barna þeirra. Orð Björn Levís um þennan hóp af foreldrum sem lenda í þessu og hafa ekkert gert til að verðskulda barnamissi, alveg sama í hvaða mynd það er, eru einfaldlega siðferðislega og samfélagslega röng!
Ég ber ekki ábyrgð á gjörðum barnsmóður minnar!