Úr tölvupósti 21. júní sl. frá þaulreyndum leiðsögumanni:
„Svakalegt að koma að Gullfossi og Geysi, mannmergðin líkist helst þjóðflutningum. Ég taldi ca. 20 rútur á efra plani við Gullfoss í gær. Sem sagt:
40 (farþegar ) x 20 rútur plús einkabílar og nokkrar rútur á neðra plani, þ.e.a.s. 1000 - 1500 manns samtímis á svæðinu! Inn af veitingasal á Café Gullfoss eru 4 (!) pissoirs (þar af 1 bilað) fyrir allan skarann og vesalings kvenfólkið í langri biðröð út á gang.“
Við mat á áhrifum fáeinna milljóna ferðamanna á ári til landsins verður að flétta saman marga þætti. Telja má upp:
- áhrif á náttúruna
- áhrif á samfélög ólíkra landshluta og bæja eða sveita
- skiptingu hagnaðar af ferðaþjónustu
- áhrif á gengi annarra atvinnugreina og á nýsköpun innan þeirra
- kaup og kjör þeirra sem vinna við greinina, og innan annarra atvinnugreina
- framlegð greinarinnar og efnahagslegt framlag hennar til samfélagsins
... og áfram mætti telja
Allt rúmast þetta innan hugtaksins sjálfbær ferðaþjónusta. Hún er ekki sjálfbær hér og nú en fjölmargir stefna að sjálfbærni undir merkjum ábyrgrar ferðaþjónustu. Mat á sjálfbærni í ferðaþjónustu felst ekki í því einu að huga að umhverfi okkar (les náttúru) og kanna áhrif greinarinnar á það. Eitt er þó hafið yfir vafa: Án sjálfbærni í ferðaþjónustu til lengdar er vá fyrir dyrum.
Sjálfbærni er þríþætt
Við mat á áhrifum vaxandi fjölda ferðamanna verður að miða við þolmörk á öllum þremur stigum sjálfbærni: Umhverfismörk, samfélagsmörk og efnahagsmörk. Þau ákvarðast eftir rannsóknir og kannanir og geta breyst á mislöngu tímabili. Þolmörk eru ákvörðuð fyrir tiltekna staði (eða byggðir), stærri landsvæði (t.d. þjóðgarða og friðlýst svæði), stóra landshluta (þá miðað við, umhverfi, íbúafjölda og innviði) og loks mynda þolmörkin saman þolmörk landsins alls og samfélagsins í heild, með sína ríflega 330 þúsund einstaklinga. Pólitísk sýn fléttast óhjákvæmilega inn í ýmsar ákvarðanir um þolmörk, einkum afstaðan til skipulags samfélagsþjónustu, fjölbreytni atvinnulífs, til þess hvar hvar stór hluti hagnaðar lendir og loks til aðferða við innviðauppbyggingu og fjármögnun hennar.
Ferðaþjónusta er mjög opinn atvinnuvegur, þ.e. þjónusta sem kemur við mest allt daglegt líf í byggðum vegna þess að viðfangið er fólk en ekki hráefni eða smíði hluta eða forritun. Heimamenn hafa að sjálfsögðu ákveðnar skoðanir á flestum þáttum ferðaþjónustu, jafnt álagi á umhverfi sem álagi á samfélag þeirra. Skoðanirnar mynda enn einn pólinn í umræðum og stefnumótun.
Gætilegur samanburður
Samanburður á ferðaþjónustu hér og hvar um heiminn er lærdómsríkur en hann má ekki spegla beint og umyrðalítið yfir á Ísland. Það gildir til dæmis um stóra þjóðgarða með ítölu í Bandaríkjunum. Garðarnir eru yfirleitt í óbyggðum, ólíkir íslensku samfélagi. Það gildir enn fremur um Galapagos, lítinn eyjaklasa með 30.000 manna samfélagi og nánast enga atvinnu aðra en ítölubundna ferðaþjónustu. Það gildir einnig um landið Bútan, með sína ríkisreknu ítöluferðaþjónustu, um margt fornar hefðir og lágstemmdan landbúnað sem einu hefðbundnu atvinnugreinina. Til frekari upplýsingar bendi ég á bókina Veröld í vanda (Hið ísl. bókmenntafélag).
Í öllum þessum tilvikum er stýring í ferðaþjónustu ákveðin með hliðsjón af þarlendum þolmörkum. Hér á landi getum við lært af öðrum en greinum engu að síður íslenskt samfélag og náttúru sjálfstætt, og tökum ákvarðanir í því ljósi. Íslenskt samfélag byggir orðið á fjölbreyttu atvinnulífi, með fjölda fyrirtækja í stærstu greininni, nokkuð öflugri nýsköpun og flóknu kerfi skatta og gjalda. Við búum við kerfi þar sem opinberir aðilar sjá um marga þætti innviða og velferðar.
Hvað sem ólíkum stjórnmálastefnum líður er almennur vilji til þess að ein óstöðug atvinnugrein yfirtaki ekki of mikinn mannafla, fasteignir og rými eða vinnutíma í samfélaginu. Líka er almennur vilji til þess að ferðaþjónusta sem auðlindanýting lúti svipuðum takmörkunum og vísindalegum nálgunum og til dæmis sjávarútvegur. Þannig verður til fyrsti víði ramminn að mati á þolmörkum og um leið vegvísir að sjálfbærari ferðaþjónustu en nú tíðkast.
Aðgangsstýring?
Æ oftar heyrast raddir og skrif sjást þess efnis að ferðaþjónustunni verði að stýra með ýmsum háttum í átt til sjálfbærni. Við getum notað hugtakið aðgangsstýring um það. Og um slíka stýringu verður að vera almenn sátt ef hún á að komast í gagnið og vera árangursrík. Ýmsum aðferðum er beitt til að stýra straumi ferðamanna, kljúfa hann upp, og ákvarða og takmarka mismikið aðgengi að stöðum eða landsvæðum. Unnt er að nota auglýsingar og kynningar til þess að opna aðgengi að vannýttum stöðum og svæðum. Samtímis verður að hvetja til uppbyggingar innviða og afþreyingar, þar sem annars staðar. Önnur aðferð er að marka ítölu gesta per stund eða dag og stjórna aðgengi við innkomustað; telja höfuð. Enn ein aðferðin er að nýta mörkuð bílastæði fyrir rútur og smærri bíla sem meginleið inn á stað eða svæði. Þá er óheimilt að leggja annars staðar í grenndinni og t.d. aðkoma af sjó eða úr lofti ekki leyfð. Loks er hægt að nota gistiaðstöðu til að takmarka aðgengi. Víða má nota rafrænar leiðir til þess að miðla upplýsingum um laust aðgengi að stað eða svæði, eða að ítölu hafi verið náð hér og nú.
Þegar kemur að landinu sem heild má hugsa sér ítölu sem ákveðin er ár hvert í samræmi við greiningu á heildaráhrifum atvinnugreinarinnar og með hliðsjón af getu innviða hverju sinni til að taka sómasamlega við tilteknum fjölda. Hér er unnt að takmarka komu farþega loft- og sjóleiðis inn í landið, ef það er ákveðið.
Gjald fyrir inngöngu á friðlýst svæði og einkastaði, komu- eða brottfarargjöld, bílastæðagjöld og annað þess háttar eru ekki tæki til aðgangsstýringar. Hófleg, jafnvel há gjöld, flytja einungis til þungann í straumnum eftir efnahag gesta en stýra litlu sem engu. Ástæðan er sú að heildarfjöldi gesta hingað til lands, sem okkur þykir há tala miðað við samfélagið, er smástærð á ferðmannamarkaði. Milljónir vel borgandi ferðamanna eru tilbúnir að borga hátt verð. Hækkun meðalferðakostnaðar á viku (200-300 þúsund krónur á mann) um fáein prósent vegna gjaldtöku hér og hvar gerir ekki gæfumun í þeirra augum.
Aðrar leiðir?
Ýmsar mótbárur hafa komið fram við hugmyndum um ítölu eða aðgangsstýringu. Einhverjir telja rangt að hamla vexti ferðþjónustugreina vegna þess að af henni eru miklar og þarfar tekjur. Sú rökleiðsla nær skammt. Að endingu, með hægum eða hröðum vexti, gnæfir greinin öðrum yfir höfuð og álag á lítið samfélag í stóru landi verður óþolandi.
Aðrir telja að ferlar markaðarins muni sjá til þess að atvinnugreinin verði farsæl, einkum ef stjórnvöld stýra sem allra minnstu. Sú rökleiðsla er mjög ótrygg vegna þess að hún gengur í berhögg við markmið um sjálfbærni greinarinnar. Ferðaþjónustan hefur einmitt þróast að mestu eftir óskilgreindum og lítt stýrðum leiðum markaðshyggju og smám saman orðið ljóst að slík , "frjáls" auðlindanýting er ekki kleif til lengdar, rétt eins og óheftur landbúnaður eða takmarkalaus sjávarútvegur. Heyrst hefur að hátt gengi krónunnar og há verðlagning (fyrir tíma hágengis), auk breytinga á virðisaukaskatti, muni sjá til þess að hratt dragi úr vexti greinarinnar. Um það veit þó enginn fyrir víst og spádómar duga skammt þegar meginatvinnuvegur heillar þjóðar er í húfi. Samdráttur vegna ofurverða getur vissulega reynst á endanum allverulegur en fjöldi ferðamanna engu að síður orðið okkur ofviða. Á vinsælum ferðamannastað kosta, skv. mynd á Facebook af sjoppukassakvittun, tvær hálfslítra kókflöskur (450 kr. hver), sjö sams konar vatnsflöskur (380 kr. hver) og tvö sælgætisstykki (á ríflega 800 kr. hvort) samtals rúmlega fimm þúsund krónur. Innkaupsverð á drykkjunum er sennilega 60-90 kr. flaskan. Kalla má slíka verðlagningu í íslenskum krónum hvað sem er, gengisþróun og virðisaukaskattur eiga þarna lítinn hlut að máli. Hlutfallsleg fækkun ferðamanna getur líka stafað af öðrum orsökum, svo sem ófaglegri þjónustu, of mikilli mannþröng eða einhæfni í mörgu af því sem fram er borið fyrir fólkið.
Samstillts átaks er þörf
Mörg skref eru fram undan ef takast á að skipuleggja ferðaþjónustu í sátt við umhverfi og samfélag. Samtök og klasar tengdir ferðaþjónustu og umhverfismálum, stjórnmálaflokkar, sérfræðingar, ráðuneyti, Stjórnstöð ferðamála, Ferðamálastofa og fleiri ríkisstofnanir, almenningssamtök, landshlutasamtök, sveitarstjórnir... og fleiri aðilar verða að ná lágmarkssamkomulagi um endurbætur og stýringu í greininni. Verkstjórn við umbætur á að vera í fyrstu í höndum löggjafans og framkvæmdavaldsins en síðar á herðum samstarfshóps sem getur gegnt hlutverkinu. Eitt skref, vert að minnast á, er samantekt skýrslu, að mínu frumkvæði, á vegum ráðuneytis ferðamála. Sérfræðingar í ferðamálum draga þar saman meginefni sem til er um þolmörk á Íslandi og ólíkar leiðir til aðgangsstýringar. Fleira verður þar að finna. Skýrslan á að vera tilbúin fyrir árslok. Hún mun innihalda efni til að vinna með fram á leið.
Mikilvægt er að stjórnarþingmenn og stjórnarandstaða, jafnt sem ráðherrar (hvaða flokka sem vera skal), hafi samráð um öll helstu skref sem gera út um skipulag og takmarkanir ferðaþjónustu á næstu 1-2 árum. Það er ekki óraunhæf krafa. Nóg annað er til að bítast um í stjórnmálum sem tengist atvinnuþróun og efnahagsmálum, þótt fundið verði sæmilegt jafnvægi á milli nýtingarstefnu og verndarstefnu í ferðaþjónustu. Óheftur vöxtur, alfa og ómega kapítalisma, á ekki að vera í boði þar fremur en annars staðar. Enginn á að móðgast þó það sé staðhæft. Verum ósammála um margvísleg gildi og hugsjónir en sem mest sammála um nauðsyn sjálfbærrar ferðaþjónustu í núverandi hagkerfi.
Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi.