Varkár ferðaþjónusta?

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, skrifar um ferðaþjónustu.

Auglýsing

Úr tölvu­pósti 21. júní sl. frá þaul­reyndum leið­sögu­manni:

„Svaka­legt að koma að Gull­fossi og Geysi, mann­mergðin lík­ist hel­st þjóð­flutn­ing­um. Ég tald­i ca. 20 rútur á efra plani við Gull­foss í gær. ­Sem sag­t: 

40 (far­þegar ) x 20 rútur plús einka­bílar og nokkrar rútur á neðra plani, þ.e.a.s. 1000  - 1500 manns sam­tímis á svæð­inu! Inn af veit­inga­sal á Café Gull­foss eru 4 (!) p­is­soir­s (þar af 1 bil­að) fyrir allan skar­ann og ves­al­ings kven­fólkið í langri bið­röð út á gang.“

Við mat á áhrifum fáeinna millj­óna ferða­manna á ári til lands­ins verður að flétta saman marga þætti. Telja má upp: 

  • áhrif á nátt­úr­una 

  • áhrif á sam­fé­lög ólíkra lands­hluta og bæja eða sveita 

  • skipt­ingu hagn­aðar af ferða­þjón­ustu 

  • áhrif á gengi ann­arra atvinnu­greina og á nýsköpun innan þeirra 

  • kaup og kjör þeirra sem vinna við grein­ina, og innan ann­arra atvinnu­greina

  • fram­legð grein­ar­innar og efna­hags­legt fram­lag hennar til sam­fé­lags­ins 

... og áfram mætti telja 

Allt rúm­ast þetta innan hug­taks­ins sjálf­bær ferða­þjón­usta. Hún er ekki sjálf­bær hér og nú en fjöl­margir stefna að sjálf­bærni undir merkjum ábyrgrar ferða­þjón­ustu. Mat á sjálf­bærni í ferða­þjón­ust­u ­felst ekki í því einu að huga að umhverfi okkar (les nátt­úru) og kanna áhrif grein­ar­innar á það. Eitt er þó hafið yfir vafa: Án sjálf­bærni í ferða­þjón­ustu til lengdar er vá fyrir dyr­um.

Auglýsing

Sjálf­bærni er þrí­þætt

Við mat á áhrifum vax­andi fjölda ­ferða­manna verður að miða við þol­mörk á öllum þremur stigum sjálf­bærni: Umhverf­is­mörk, sam­fé­lags­mörk og efna­hags­mörk. Þau ákvarð­ast eftir rann­sóknir og kann­anir og geta breyst á mislöngu tíma­bili. Þol­mörk eru ákvörðuð fyrir til­tekna staði (eða byggð­ir), stærri land­svæði (t.d. þjóð­garða og frið­lýst svæð­i), stóra lands­hluta (þá miðað við, umhverfi, íbúa­fjölda og inn­viði) og loks mynda þol­mörkin saman þol­mörk lands­ins alls og sam­fé­lags­ins í heild, með sína ríf­lega 330 þús­und ein­stak­linga. Póli­tísk sýn flétt­ast óhjá­kvæmi­lega inn í ýmsar ákvarð­anir um þol­mörk, einkum afstaðan til skipu­lags sam­fé­lags­þjón­ustu, fjöl­breytni atvinnu­lífs, til þess hvar hvar stór hluti hagn­aðar lendir og loks til aðferða við inn­viða­upp­bygg­ingu og fjár­mögnun henn­ar. 

Ferða­þjón­usta er mjög opinn atvinnu­veg­ur, þ.e. þjón­usta sem kemur við mest allt dag­legt líf í byggðum vegna þess að við­fangið er fólk en ekki hrá­efni eða smíði hluta  eða for­rit­un. Heima­menn hafa að sjálf­sögðu ákveðnar skoð­anir á flestum þáttum ferða­þjón­ustu, jafnt álagi á umhverfi sem álagi á sam­fé­lag þeirra. Skoð­an­irnar mynda enn einn pól­inn í umræðum og stefnu­mót­un.

Gæti­legur sam­an­burður

Sam­an­burður á ferða­þjón­ustu hér og hvar um heim­inn er lær­dóms­ríkur en hann má ekki spegla beint og umyrða­lítið yfir á Ísland. Það gildir til dæmis um stóra þjóð­garða með ítölu í Banda­ríkj­un­um. Garð­arnir eru yfir­leitt í óbyggð­um, ólíkir íslensku sam­fé­lagi. Það gildir enn fremur um Galapa­gos, lít­inn eyja­klasa með 30.000 manna sam­fé­lagi og nán­ast enga atvinnu aðra en ítölu­bundna ferða­þjón­ustu. Það gildir einnig um landið Bút­an, með sína rík­is­reknu ítölu­ferða­þjón­ustu, um margt fornar hefðir og lág­stemmdan land­búnað sem einu hefð­bundnu atvinnu­grein­ina. Til frek­ari upp­lýs­ingar bendi ég á bók­ina Ver­öld í vanda (Hið ísl. bók­mennta­fé­lag). 

Í öllum þessum til­vikum er stýr­ing í ferða­þjón­ustu ákveðin með hlið­sjón af þar­lendum þol­mörk­um. Hér á landi getum við lært af öðrum en greinum engu að síður íslenskt sam­fé­lag og nátt­úru sjálf­stætt, og tökum ákvarð­anir í því ljósi. Íslenskt sam­fé­lag byggir orðið á fjöl­breyttu atvinnu­lífi, með fjölda fyr­ir­tækja í stærstu grein­inni, nokkuð öfl­ugri nýsköpun og flóknu kerfi skatta og gjalda. Við búum við kerfi þar sem opin­berir aðilar sjá um marga þætti inn­viða og vel­ferð­ar.   

Hvað sem ólík­um stjórn­mála­stefnum líður er almennur vilji til þess að ein óstöðug atvinnu­grein yfir­taki ekki of mik­inn mann­afla, fast­eignir og rými eða vinnu­tíma í sam­fé­lag­inu. Líka er almennur vilji til þess að ferða­þjón­usta sem auð­linda­nýt­ing lúti svip­uðum tak­mörk­unum og vís­inda­leg­um nálg­unum og til dæmis sjáv­ar­út­veg­ur. Þannig verður til fyrsti víði ramm­inn að mati á þol­mörkum og um leið veg­vísir að sjálf­bær­ari ferða­þjón­ustu en nú tíðkast.

Aðgangs­stýr­ing?

Æ oftar heyr­ast raddir og skrif sjást þess efnis að ­ferða­þjón­ust­unn­i verði að stýra með ýmsum háttum í átt til sjálf­bærni. Við getum notað hug­takið aðgangs­stýr­ing um það. Og um slíka stýr­ingu verður að vera almenn sátt ef hún á að kom­ast í gagnið og vera árang­urs­rík. Ýmsum aðferðum er beitt til að stýra straumi ferða­manna, kljúfa hann upp, og ákvarða og tak­marka mis­mikið aðgengi að stöðum eða land­svæð­um. Unnt er að nota aug­lýs­ingar og kynn­ingar til þess að opna aðgengi að van­nýttum stöðum og svæð­um. Sam­tímis verður að hvetja til upp­bygg­ingar inn­viða og afþrey­ing­ar, þar sem ann­ars stað­ar. Önnur aðferð er að marka ítölu gesta per stund eða dag og stjórna aðgengi við inn­komu­stað; telja höf­uð. Enn ein aðferðin er að nýta mörkuð bíla­stæði fyrir rútur og smærri bíla sem meg­in­leið inn á stað eða svæði. Þá er óheim­ilt að leggja ann­ars staðar í grennd­inn­i og t.d. aðkoma af sjó eða úr lofti ekki leyfð. Loks er hægt að nota gisti­að­stöðu til að tak­marka aðgengi. Víða má nota raf­rænar leiðir til þess að miðla upp­lýs­ingum um laust aðgengi að stað eða svæði, eða að ítölu hafi verið náð hér og nú. 

Þegar kemur að land­inu sem heild má hugsa sér ítölu sem ákveðin er ár hvert í sam­ræmi við grein­ingu á heild­ar­á­hrifum atvinnu­grein­ar­inn­ar  og með hlið­sjón af getu inn­viða hverju sinni til að taka sóma­sam­lega við til­teknum fjölda. Hér er unnt að tak­marka komu far­þega loft- og sjó­leiðis inn í land­ið, ef það er ákveð­ið. 

Gjald fyrir inn­göngu á frið­lýst svæði og einka­staði, komu- eða brott­far­ar­gjöld, bíla­stæða­gjöld og annað þess háttar eru ekki tæki til aðgangs­stýr­ing­ar. Hóf­leg, jafn­vel há gjöld, flytja ein­ungis til þung­ann í straumnum eftir efna­hag gesta en stýra litlu sem engu. Ástæðan er sú að heild­ar­fjöldi gesta hingað til lands, sem okkur þykir há tala miðað við sam­fé­lag­ið, er smá­stærð á ferð­manna­mark­aði. Millj­ónir vel borg­andi ferða­manna eru til­búnir að borga hátt verð. Hækkun með­al­ferða­kostn­aðar á viku (200-300 þús­und krónur á mann) um fáein pró­sent vegna gjald­töku hér og hvar gerir ekki ­gæfumun í þeirra aug­um.  

Aðrar leið­ir?

Ýmsar mót­bárur hafa komið fram við hug­myndum um ítölu eða aðgangs­stýr­ingu. Ein­hverjir telja rangt að hamla vexti ferð­þjón­ustu­greina vegna þess að af henni eru miklar og þarfar tekj­ur. Sú rök­leiðsla nær skammt. Að end­ingu, með hægum eða hröðum vexti, gnæfir greinin öðrum yfir höfuð og álag á lítið sam­fé­lag í stóru landi verður óþol­and­i. 

Aðrir telja að ferlar mark­að­ar­ins muni sjá til þess að atvinnu­greinin verði far­sæl, einkum ef stjórn­völd stýra sem allra minnstu. Sú rök­leiðsla er mjög ótrygg vegna þess að hún gengur í ber­högg við mark­mið um sjálf­bærni grein­ar­inn­ar. Ferða­þjón­ustan hefur einmitt þró­ast að mestu eftir óskil­greindum og lítt stýrðum leiðum mark­aðs­hyggju og smám saman orðið ljóst að slík , "frjáls" auð­linda­nýt­ing er ekki kleif til lengd­ar, rétt eins og óheftur land­bún­aður eða tak­marka­laus sjáv­ar­út­veg­ur. Heyrst hefur að hátt gengi krón­unnar og há verð­lagn­ing (fyrir tíma hágeng­is), auk breyt­inga á virð­is­auka­skatti, muni sjá til þess að hratt dragi úr vexti grein­ar­inn­ar. Um það veit þó eng­inn fyrir víst og spá­dómar duga skammt þegar meg­in­atvinnu­vegur heillar þjóðar er í húfi. Sam­dráttur vegna ofur­verða getur vissu­lega reynst á end­anum all­veru­legur en fjöldi ferða­manna engu að síður orðið okkur ofviða. Á vin­sæl­u­m ­ferða­manna­stað ­kosta, skv. mynd á Face­book af sjoppu­kassa­kvitt­un, tvær hálf­slítra kók­flöskur (450 kr. hver), sjö sams konar vatns­flöskur (380 kr. hver) og tvö sæl­gæt­is­stykki (á ríf­lega 800 kr. hvort) sam­tals rúm­lega fimm þús­und krón­ur. Inn­kaups­verð á drykkj­unum er senni­lega 60-90 kr. flask­an. Kalla má slíka verð­lagn­ingu í íslenskum krónum hvað sem er, geng­is­þróun og virð­is­auka­skattur eiga þarna lít­inn hlut að máli. Hlut­falls­leg fækkun ferða­manna getur líka stafað af öðrum orsök­um, svo sem ófag­legri þjón­ustu, of mik­illi mann­þröng eða ein­hæfni í mörgu af því sem fram er borið fyrir fólk­ið.

Sam­stillts átaks er þörf

Mörg skref eru fram undan ef takast á að skipu­leggja ferða­þjón­ustu í sátt við umhverfi og sam­fé­lag. Sam­tök og klasar tengdir ferða­þjón­ustu og umhverf­is­mál­um, stjórn­mála­flokk­ar, sér­fræð­ing­ar, ráðu­neyti, Stjórn­stöð ferða­mála, Ferða­mála­stofa og fleiri rík­is­stofn­an­ir, almenn­ings­sam­tök, lands­hluta­sam­tök, sveit­ar­stjórn­ir... og fleiri aðilar verða að ná lág­marks­sam­komu­lagi um end­ur­bætur og stýr­ingu í grein­inni. Verk­stjórn við umbætur á að vera í fyrstu í höndum lög­gjafans og fram­kvæmda­valds­ins en síðar á herðum sam­starfs­hóps sem getur gegnt hlut­verk­inu. Eitt skref, vert að minn­ast á, er sam­an­tekt skýrslu, að mínu frum­kvæði, á vegum ráðu­neytis ferða­mála. Sér­fræð­ingar í ferða­málum draga þar saman meg­in­efni sem til er um þol­mörk á Íslandi og ólíkar leiðir til aðgangs­stýr­ing­ar. Fleira verður þar að finna. Skýrslan á að vera til­búin fyrir árs­lok. Hún mun inni­halda efni til að vinna með fram á leið.

Mik­il­vægt er að stjórn­ar­þing­menn og stjórn­ar­and­staða, jafnt sem ráð­herrar (hvaða flokka sem vera skal), hafi sam­ráð um öll helstu skref sem gera út um skipu­lag og tak­mark­anir ferða­þjón­ustu á næstu 1-2 árum. Það er ekki óraun­hæf krafa. Nóg annað er til að bít­ast um í stjórn­mál­u­m ­sem teng­ist atvinnu­þróun og efna­hags­mál­um, þótt fundið verði sæmi­legt jafn­vægi á milli nýt­ing­ar­stefnu og vernd­ar­stefnu í ferða­þjón­ustu. Óheftur vöxt­ur, alfa og ómega kap­ít­al­isma, á ekki að vera í boði þar fremur en ann­ars stað­ar. Eng­inn á að móðg­ast þó það sé stað­hæft. Verum ósam­mála um marg­vís­leg gildi og hug­sjónir en sem mest sam­mála um nauð­syn sjálf­bærrar ferða­þjón­ustu í núver­andi hag­kerfi.

Höf­undur er þing­mað­ur VG í Suð­ur­kjör­dæmi.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meiri áhugi virðist vera á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Fleiri kaupa utan Reykjavíkur
Talið er að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi komið í veg fyrir mikla niðursveiflu á íbúðamarkaðnum, sem tekið hefur við sér að nokkru leyti á síðustu mánuðum. Fleiri kjósa þó að kaupa íbúð utan höfuðborgarsvæðisins heldur en innan þess.
Kjarninn 12. júlí 2020
Trump stígur í vænginn við Færeyinga
Bandaríkjamenn hafa mikinn áhuga á aukinni samvinnu við Færeyinga. Þótt í orði kveðnu snúist sá áhugi ekki um hernaðarsamvinnu dylst engum hvað að baki býr.
Kjarninn 12. júlí 2020
Fé á leið til slátrunar.
Bændum á Íslandi heimilt að aflífa dýr utan sláturhúsa með ýmsum aðferðum
Yrði sláturhús á Íslandi óstarfhæft vegna hópsmits yrði fyrsti kosturinn sá að senda dýr til slátrunar í annað sláturhús. Ef aflífa þarf dýr utan sláturhúsa mega bændur beita til þess ýmsum aðferðum, m.a. gösun, höfuðhöggi og pinnabyssu.
Kjarninn 12. júlí 2020
Þriðjungsfjölgun í Siðmennt á rúmu einu og hálfu ári
Af trúfélögum bætti Stofnun múslima á Íslandi við sig hlutfallslega flestum meðlimum á síðustu mánuðum. Meðlimum þjóðkirkjunnar heldur áfram að fækka en hlutfallslega var mesta fækkunin hjá Zúistum.
Kjarninn 11. júlí 2020
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hveragerðis.
„Við þurfum fleiri ferðamenn“
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt að fleiri ferðamenn komi til Íslands sem fyrst og vill breytingar á fyrirkomulagi skimana á Keflavíkurflugvelli.
Kjarninn 11. júlí 2020
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Frekju og yfirgangi Ísraels engin takmörk sett
Kjarninn 11. júlí 2020
Sjávarútvegurinn hefur bætt við sig störfum á meðan hart hefur verið í ári hjá ferðaþjónustunni.
Ferðaþjónustan skreppur saman en sjávarútvegurinn er í sókn
Rúmlega helmingi færri störfuðu í ferðaþjónustu á síðasta ársfjórðungi miðað við árið á undan. Störfum í sjávarútvegi hefur hins vegar fjölgað um helming.
Kjarninn 11. júlí 2020
„Þegar dætrum mínum var ógnað, náðu þeir mér“
Þegar Guðrún Jónsdóttir gekk inn í Kvennaathvarfið árið 1988 til að taka sína fyrstu vakt mætti henni kasólétt kona með glóðarauga. Hún hafði gengið inn í heim sem hafði fram til þessa verið henni gjörsamlega hulinn. „Ég grét í heilan sólarhring.“
Kjarninn 11. júlí 2020
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar