Þegar Björt framtíð tók sæti í meirihluta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, var staðan um það bil sú að bæjarbúar greiddu, af meðallágum launum, há gjöld fyrir þjónustu sem var síst meiri en annars staðar, enda rekstur bæjarins í járnum. Þessu þurfti að breyta.
Ljóst var að fyrst yrði að laga fjármál bæjarins, annars myndi lítið gerast. Kraftur var settur í það verkefni, með góðum árangri. Meðferð bæjarins á skuldum hefur alveg snúist við. Eftir áratugi nýrra lána til að greiða þau eldri erum við loks raunverulega farin að grynnka á skuldum og tókum ekki eitt einasta nýtt lán árið 2016. Þetta var gert án þess að skerða þjónustu, hún hefur frekar batnað en hitt.
Við erum sem sagt komin vel á veg, en áfram er brýnt að halda vel á spöðum – og umfram allt halda haus – hvað sem annars líður kosningum og kjörtímabilum.
Tillaga að innkaupalista fyrir Hafnarfjörð
Björt framtíð í Hafnarfirði vill að gefnu tilefni minna stuttlega á ýmis skyldu- og grunnverkefni, sem setja þarf í forgang samfara bættum fjárhag bæjarins. Bara svona svo það gleymist ekki í hita leiksins.
-Húsnæðismál. Félagslegar íbúðir í Hafnarfirði eru um 2,5% af heild, en þyrftu að vera um 5%. Með öðrum orðum þarf að tvöfalda íbúðakostinn. Við erum byrjuð á þessu verkefni, en hvergi nærri búin.
-Önnur félagsþjónusta. Skoða þarf fjárhæðir og eðli félagslegrar aðstoðar með áherslu á virkan stuðning til sjálfsbjargar.
-Bætt þjónusta við elstu íbúa bæjarins. Endurskoða þarf bæði hvaða þjónusta er í boði og hvað hún kostar notendur. Fasteignagjöld eru þarna snar þáttur, sem hluti af stuðningi við sjálfstæða búsetu í eigin húsnæði. Heilsuefling eldri borgara er sérstakt markmið, að styðja fólk í að bæta lífi við árin en ekki bara árum við lífið.
-Áframhaldandi bætt þjónusta við barnafjölskyldur. Meðal annars efling tómstunda- og frístundastarfs skólabarna, frístundaakstur og almenn samþætting skóladags og tómstundaiðju. Niðurgreiðsla frístunda þarf að endurspegla þá staðreynd að börn eru ólík og löngu er orðið tímabært að bærinn styrki listiðju til jafns við aðrar tómstundir. Börn sem finna sín áhugamál og rækta þau eiga bjarta framtíð. Gjaldfrjáls leikskóli að hluta eða heild sem og gjaldfrjáls grunnskóli, án innkaupalista, eru líka á óskalista Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði.
-Hafnarfjörður verði áfram fyrirmyndarsveitarfélag í þjónustu við fatlað fólk. NPA, notendastýrða persónulega aðstoð, þarf að efla sem þjónustuform til að mæta ólíkum þörfum hvers og eins. Húsnæðis- og atvinnumál fatlaðs fólks eru brýn verkefni, með áherslu á sjálfstæði.
-Menningarlífið í bænum. Þar sem menning blómstrar dafnar heilbrigt samfélag. Fjármagn til menningarmála hefur verið mjög takmarkað undanfarinn áratug, hið minnsta, og tækifæri til eflingar fjölmörg, enda frjór og skapandi jarðvegur til staðar í bænum. Listnám barna, listastarfsemi, menningarhús, vaxandi tónlistarskóli, lifandi söfn – þetta eru bara nokkur stikkorð sem fela hvert um sig í sér mikla möguleika.
-Viðhald á eignum bæjarins. Þar má nefna skóla og skólalóðir, söfnin, eða bara almennt vinnuumhverfi starfsfólks bæjarins og þjónusturými bæjarbúa. Ytra umhverfið er ekki undanskilið, jafnt inni sem úti er uppsöfnuð þörf. Svo vorum við að kaupa eitt stykki spítala af ríkinu sem hressa þarf við.
-Umhverfismál. Það verður að viðurkennast að hér á Hafnarfjörður allmikið inni. Við getum betur. Stofnanir bæjarins eiga að vera í fararbroddi í umhverfisvænum vinnubrögðum og styðja þarf frumkvæði starfsfólks jafnt sem bæjarbúa almennt.
-Efling og útvíkkun atvinnulífs í bænum. Það er dýrmætt að eiga val á starfi við hæfi nálægt heimili, þá styttist ferðatími og auðveldara verður að samræma vinnu og einkalíf. Markaðsstofa Hafnarfjarðar er eins árs, hefur farið af stað af krafti og á helling inni enn. Þann samráðsvettvang atvinnulífs og stjórnsýslu þarf að byggja upp áfram.
-Ræktun á mannauði bæjarins, enda byggir þjónusta bæjarfélags að stærstum hluta á starfsfólkinu. Hluti þessa verkefnis felst í húsnæðismálunum sem tíunduð eru hér að ofan, en því til viðbótar þarf að skoða hið mannlega starfsumhverfi, svo sem álag, heilsu, líðan og vinnutíma. Tilraunir með styttingu vinnuviku hafa hvarvetna gefist vel þar sem ráðist hefur verið í þær og mun Björt framtíð beita sér fyrir slíku verkefni í Hafnarfirði.
-Samgöngumál. Öflugar almannasamgöngur, Borgarlína, frístundaakstur, hjólreiðastígar. Svo eitthvað sé nefnt. Enda verður besta kjarabót almennings næstu árin án efa fækkun þeirra bíla sem hvert heimili þarf að reka.
-Áframhaldandi ábyrg fjármálastjórn. Höldum áfram að létta á sandpokunum í loftbelgnum, svo notað sé líkingamál um skuldastöðu bæjarins. Frá aldamótum 2000 hefur Hafnarfjörður greitt yfir 30 milljarða í fjármagnsgjöld, sem er talsvert ofan á brauð. Hættum þessháttar fjáraustri og förum vel með framlög bæjarbúa.
Áfram veginn
Upptalningin hér að ofan er langt í frá tæmandi og ekki í neinni sérstakri röð. Hún er fyrst og fremst minnislisti um að þó svo bærinn sé aftur orðinn fjárhagslega sjálfstæður (húrra fyrir því!) þá er langhlaupinu ekki lokið.
Við höfum þegar sýnt að við getum rekið bæjarfélag á öflugan og skilvirkan hátt við erfiðan fjárhag. Næst á dagskrá er að sýna að hægt sé að gera hið sama þegar fjárhagurinn batnar. Það er ekki síður vandasamt, en við erum til í slaginn.
Höfundur er oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði og forseti bæjarstjórnar.