Drögin að þessum pistli voru skrifuð árið 2008, rétt fyrir hrun. Svo kom hrunið og það var nokkuð ljóst að enginn hefði nennt að lesa hann í því ófremdarástandi sem þá ríkti. Ég gleymdi pistlinum þar til nú er ég heyri að ætlunin sé að planta niður enn einni virkjuninni, og í þetta skipti á eitt fallegasta og sérstæðasta svæði landsins: á Ströndum. Í þessum pistli verður hugað að sjálfsskilningi þjóðar. Hvers konar þjóð erum við og hvernig skiljum við landið sem við byggjum? Þá er ráð að líta á tækni í aðeins víðara samhengi.
Í Bretlandi er hnífanotkun ungmenna vaxandi vandamál. Unglingarnir bera fyrir sig að ástandið á götunum sé orðið það ógnandi að þeir neyðast til að bera vopn, sér til varnar. En lítum nú á hnífinn: Hann er ekki hættulegur í sjálfu sér. Eða hvað? Við komum hér auga á hina einfeldningslegu hugmynd um tækni: Að tækni sé í sjálfu sér hlutlaus og að það sé aðeins notkun hennar sem getur haft alvarlegar afleiðingar. Þeir sem aðhyllast hlutlausa tæknihyggju líta svo á að ef ásetningurinn er að drepa einhvern á annað borð, þá má gera það með berum höndum, en það sé öllu fljótlegra og skilvirkara að beita hníf í því skyni.
Þetta er hins vegar ekki svo einfalt, því allri tækni fylgir óskrifaður leiðarvísir. Hnífurinn felur í sér forskrift að því hvernig hann er notaður. Ungmenni sem tekur með sér hníf þegar það fer út er annað ungmenni en það sem skilur hnífinn eftir heima. Það er tilbúið til áskorunar og ef hún verður að veruleika, þá þarf bara að fylgja handritinu: nota hnífinn – stinga andstæðinginn.
En hvað hafa félagsleg vandamál í Lundúnum með virkjanir að gera? Íslendingar eru í svipaðri aðstöðu og unglingurinn í forstofunni sem íhugar hvort hann eigi að taka með sér hníf út í nóttina. Með því að velja að taka vissa tækni í notkun felst skilgreining á því hver við erum. Og myndin er að skýrast: Ísland er nú orðið að stóriðjulandi með ódýra orku fyrir erlendar verksmiðjur og fjárfesta sem stórlega auka hagnað sinn þar sem orkan okkar er hræódýr, umhverfisstaðlar lágir og þeim illa framfylgt. Frumstætt skattakerfi gerir þeim síðan kleift að borga ekki skatta heldur raka til sín hámarksgróða sem tekinn er úr landi.
Frumstætt skattakerfi gerir þeim síðan kleift að borga ekki skatta heldur raka til sín hámarksgróða sem tekinn er úr landi.En á kostnað hvers er þetta? Með því að taka ákvörðun um smíði virkjunar er ekki aðeins tekin ákvörðun um skilgreiningu landsins útávið, heldur einnig um þann skilning sem við sjálf viljum leggja í land okkar og þjóð. Og ekki erum við öll sátt við þá skilgreiningu.
Allir þekkja góðu rökin um náttúru, hugvit og sjálfbæra vistvæna orku – rök 21. aldarinnar. Á sama hátt og unglingurinn er forritaður til að nota hnífinn í mótstöðu fremur en að flýja af hólmi erum við nú að forma sýn þar sem við lítum á land okkar sem risastóra rafhlöðu (ónýtta orku) frekar en óspjallaða náttúru. Þetta snýst um sýn! Nú verður ef til vill ekki aftur snúið. Rétt eins og unglingurinn er dæmdur til að nota hnífinn þegar á hólminn er komið, þá munum við ekki geta skilgreint okkur upp á nýtt. Það er að verða of seint. Með þeim skilningi á Íslandi sem stóriðjuland (ekki „stóriðjuþjóð“ því mestur hagnaðurinn fer í erlenda vasa) breytist sýn okkar á náttúruna og hún verður fyrst og fremst auðlind orku en ekki fæðu, búsetu eða fegurðar. Hugsunin er sú að við skulum nú nota náttúruna fremur en að lifa með henni. Og með þeirri tækni sem verið er að innleiða erum við ekki að yrkja landið, heldur umbylta verund þess bæði hvað landið sjálft varðar og skilning okkar á því.
Þegar hin tæknilega hugsun um landið sem rafhlöðu er orðin viðurkennd og tæknin rótfest, þá höfum við ekki aðeins misst valdið til að velja heldur einnig möguleikann á að hugsa um landið á annan hátt. Við höfum þá lokað á ótal möguleika sem landið hefði annars upp á að bjóða. Sem dæmi má nefna nýlegar hugmyndir um þjóðgarð í Árneshreppi á Ströndum í stað Hvalárvirkjunar, þar sem leggja á rúman þriðjung af landi hreppsins, þar á meðal ósnortin öræfi, undir stóriðju. Spurningin sem ríður á okkur nú er hvort við sem þjóð höfum lagt af stað út í nóttina með hnífinn í jakkavasanum, eða hvort við séum enn stödd í anddyrinu að íhuga hvort við ættum að taka hann með. Eða ætlum við að láta stinga hnífnum inn á okkur án þess að fá nokkuð um það sagt?
Íslensk orka er ekki hrein orka. Það er ekkert hreint við það að eyðileggja okkar fagra land. Ímyndum okkur ef hvert sem við litum væru raflínur yfir heiðar, í hverju árgili túrbína og í hverjum firði spúandi virkjun. Eins og alkunnugt er koma ferðamenn til Íslands til þess að sjá ósnortna náttúru en ekki raflínur og virkjanir. Það sem er einnig óhreint við íslenska orku eru viðskiptahættirnir. Ef enginn hagnast af þessu nema kanadískir fjárfestar og portúgalskir verkamenn, til hvers er unnið?
Ólíkt þeirri kynslóð sem nú situr í stjórnkerfinu og sötraði þýskan Löwenbrau í bláum dósum á sínum yngri árum, mun brátt taka við kynslóð sem sem hugsar um gæði, framleiðsluhætti, siðleg gildi og estetík.Við lifum á 21. öld. Nýfrjálshyggjukapítalisminn er að syngja svanasöng sinn á heimsvísu, að mestu leyti vegna eigin ófara; Auðurinn hefur safnast á örfáar hendur og hnötturinn okkar stendur ekki undir nútíma neysluhyggju. Ungt fólk hefur hins vegar sterka réttlætiskennd, vistvænt sjónarhorn á náttúruna og tilfinningu fyrir sönnum gæðum. Ólíkt þeirri kynslóð sem nú situr í stjórnkerfinu og sötraði þýskan Löwenbrau í bláum dósum á sínum yngri árum, mun brátt taka við kynslóð sem sem hugsar um gæði, framleiðsluhætti, siðleg gildi og estetík. Það er kynslóð sem bruggar smátt.
Smátt er fallegt, segja þeir, bæði hagfræðingar og siðfræðingar, og benda á að slík hugsun sé eina mögulega framtíð jarðarinnar. Hvernig væri nú að hugsa um vindmyllur, virkja sjávarföllin, eða hreinlega að nýta bara landið með öðrum hætti? Við skuldum erlendum fjárfestum ekki að eyðileggja landið fyrir þeirra gróðabrask. Hver nennir að reikna út hvað virkjanir og ver hafa skilað þjóðarbúinu í skatttekjur miðað við ferðamannaiðnaðinn? Og hversu mörg störf hafa skapast í hvorum iðnaði fyrir sig? Því að þetta tvennt fer ekki saman. Við þurfum að velja.
Ef til vill er viðeigandi að enda þennan pistil með tilvitnun í Oppenheimer sem sagði eftir Hiroshima: „Þegar snilld tækninnar birtist manni, þá veður maður af stað og framkvæmir en spáir aðeins í afleiðingarnar eftir á. Þannig var það með atómsprengjuna.“
Hér hef ég skírskotað í heimspeki Heideggers. Hann skrifaði ritgerð um tæknilega hugsun árið 1954 þar sem hann benti á hættuna sem skapast við að líta á náttúruna sem ónýtta orku. Það er viðeigandi að vísa í svo gamlan texta því hjá íslenskum stjórnvöldum má greina hugarfar sem minnir sterklega á stóriðjuhugsunina í Evrópu eftir stríð. Við getum vonandi skrifað greinar í framtíðinni þar sem nútíma tækniheimspeki á við, en ekki texti frá miðri síðustu öld, en það veltur að miklu leyti á því hvenær stjórnvöld eru tilbúinn að fylgja okkur hinum inn í 21. öldina.