Hvalárvirkjun á Ströndum: Mikil og óafturkræf umhverfisáhrif

Fyrri grein af tveimur eftir formann Landverndar um Hvalárvirkjun á Ströndum.

Auglýsing

Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum sætir nú mati á umhverfisáhrifum og hefur verkfræðistofan Verkís skilað inn viðamikilli frummatsskýrsluHvalárvirkjun var skipað í orkunýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar á grunni verðmæta- og áhrifaeinkunna undir meðallagi. Þá sem nú lá fyrir að þessi virkjun væri óhagkvæm vegna mikils tengikostnaðar við flutningskerfi raforku, landsnetið. Ekki er útilokað að það hafi haft áhrif á mat faghópa. Nú liggur aftur á móti fyrir einbeittur vilji iðnaðarráðherra til að niðurgreiða flutning raforkunnar frá tengivirki á Nauteyri við Ísafjarðardjúp að Geiradal í Króksfirði. 

Við það verður Hvalárvirkjun skyndilega arðbær kostur fyrir einkaaðila að ráðast í. 

Í tveimur tengdum greinum verður gerð grein fyrir annars vegar miklum neikvæðum umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar og hins vegar áætlunum um tengingu hennar við landsnetið. Þar hyggst iðnaðarráðherra liðka fyrir með beinum ríkisstyrk sem skilar Vestfirðingum litlum sem engum ávinningi í bættu raforkuöryggi. 

Auglýsing

Hvalárvirkjun - verklýsing

Fyrirhuguð Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði virkjar afl þriggja vatnsfalla með upptök á Ófeigsfjarðarheiði, Rjúkanda, Hvalár og Eyvindarfjarðarár. Ófeigsfjarðarheiði er skilgreind sem óbyggt víðerni. Ánni Rjúkanda syðst á heiðinni verður veitt yfir í Vatnalautarvötn (sem verða Vatnalautarlón) á vatnasviði Hvalár. Þaðan er vatni veitt í miðlægt Hvalárlón í vatnsstæðum Efra- og Neðra Hvalárvatns. Í Hvalárlón er enn fremur fyrirhugað að veita vatni af vatnasviði Eyvindarfjarðarár á norðanverðri Ófeigsfjarðarheiði um miðlun í Neðra-Eyvindarfjarðarvatni (sem verður Eyvindarfjarðarlón). Frá Hvalárlóni er svo öllu þessu vatni beint að stöðvarhúsi neðanjarðar í Ófeigsfirði með frárennsli í ós Hvalár. Rjúkandi og Hvalá sameinast í Ófeigsfirði en Eyvindarfjarðará rennur í samnefndan fjörð. Báðir firðir eru komnir í eyði, þótt sumardvöl sé enn í Ófeigsfirði. 

Hvaða náttúruverðmæti eru í húfi?

Verðmæti óbyggðra víðerna og eyðibyggða á fyrirhuguðu virkjunarsvæði, og í raun á öllum austanverðum Vestfjarðarkjálkanum til og með Hornstrandafriðlandi, felast ekki síst í þeim áhrifum sem saga, fegurð og framandleiki eyðibyggða og lítt eða ósnortinnar náttúru hafa á fólk í sífellt manngerðri heimi. Þá á ég ekki bara við ferðamenn heldur okkur öll. Fá ef nokkur svæði á landinu skarta samspili eyðibyggða og víðerna af sama umfangi og er að finna á norðanverðum Ströndum. Við eigum að fyllast stolti yfir því að eiga slík svæði eftir til að njóta og ekki láta hvarfla að okkur að eyðileggja þau fyrir hagnað fárra. 

Á þessu svæði hefur nútíminn með sinni vélvæddu umferð, raflínum, skurðum, skógrækt, og verksmiðjum ýmist vart hafið innreið sína eða hörfað aftur inn í gamla tímann. Á þessu svæði er saga íslensks þjóðlífs og atvinnuhátta fyrri alda við hvert fótmál og þar fær náttúran að þróast eftir eigin höfði og birtast okkur eins og hún er, tær og ómenguð. Þarna væri auðveldlega hægt stofna stóran þjóðgarð – sem spannað gæti svæðið allt frá Ingólfsfirði að austanverðu og a.m.k. frá Kaldalóni ef ekki Langadalsströnd allri að vestanverðu, til og með Hornstranda – og byggja hann upp af miklum metnaði fyrir hluta af þeim ríkisstyrk sem fyrirhugaður er vegna Hvalárvirkjunar. 

Vatnafar

Eitt helsta aðdráttarafl og einkenni náttúru Ófeigsfjarðar og nágrennis eru hin miklu vatnsföll sem þar steypast til sjávar með tilheyrandi fossnið. Hvalárfoss í samnefndri á rétt ofan fjöruborðs í Ófeigsfirði er mikið náttúruvætti enda Hvalá vatnsmesta á Vestfjarða. Hvalá sameinast ánni Rjúkanda spölkorn fyrir ofan bæi í Ófeigsfirði en stór hluti vatnsins í Hvalá kemur úr þeirri á. Í Rjúkanda er samnefndur sjaldséður foss sem ekki sést nema gengið sé alveg að honum. Sama á við um fossinn Drynjanada í Hvalá. Hvalárfossarnir neðst í Hvalá eru mun þekktari enda sjást þeir langt að og göngubrúin yfir Hvalá er rétt ofan við fossana. Í næsta firði, Eyvindarfirði fellur Eyvindarfjarðará til sjávar í geysimiklum flúðum eða hávöðum rétt ofan sjávarmáls. Þar er brú fyrir göngumenn yfir illa vætt vatnsfallið. Engin byggð er í hinum fagra en hrjóstruga Eyvindarfirði og því upplifun af komunni að fossunum mjög sterk. Áin kemur úr samnefndum vötnum hátt á fjöllum uppi og margir fossar og flúðir í henni á þeirri leið sem bera ekki nöfn og fáir hafa séð að smalamönnum undanskildum.

Áform um Hvalárvirkjun munu gerbylta vatnafari á þessu landsvæði og ræna flesta fossa þess mikilfengleik sínum, fegurð og fossadyn, en fossar og næsta nágrenni þeirra njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013 (61. grein). Vatnsmagn í þessum fossum og flúðum verður aðeins svipur hjá sjón eftir virkjun miðað við náttúrlegt ástand, eða á bilinu 3–36% skv. frummatsskýrslu Verkís og eitthvað meira á yfirfalli. Á Ófeigsfjarðarheiðinni eru allmörg stöðuvötn sem ná þeim 1.000 m2 stærðarmörkum sem skilgreind eru í náttúruverndarlögum (61. grein) til að þau njóti sérstakrar verndar. Sjö þeirra verða eyðilögð og hverfa undir lón ef virkjun verður að veruleika. Þau eru: Syðra- og Nyrðra-Vatnalautarvatn, auk tveggja ónefndra vatna sem hverfa undir Vatnalautarlón, Efra- og Neðra-Hvalárvatn sem hverfa undir Hvalárlón og Neðra-Eyvindarfjarðavatn sem hverfur undir Eyvindarfjarðalón.  

Þar sem fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir stemma þrjár ósnortnar ár með þverám og lækjum að sama ósi og leggja undir sig sjö stöðuvötn sem njóta sérstakrar verndar, auk fjölmargra fossa, er einsýnt áhrif framkvæmdanna á vatnafar svæðisins í heild sinni verða óafturkræf og verulega neikvæð.

Landslag – víðerni

Ófeigsfjarðarheiðin er hluti af stærsta samfellda óbyggða víðerni Vestfjarða, alls um 1635 km2, sem nær suður frá Steingrímsfjarðarheiði um Drangajökul, allt norður um Hornstrandafriðland. Veitu- og vegaframkvæmdir á Ófeigsfjarðarheiði munu að mati Verkís skerða þetta víðerni um 14% en 21% þegar lína yfir Ófeigsfjarðarheiði niður að Nauteyri á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp er tekin með í dæmið. 

Prósentutölur eru í þessu tilviki villandi því virkjunarframkvæmdir ásamt línu yfir að Nauteyri við Ísafjarðardjúp munu brjóta ofangreint víðerni upp í tvo misstóra hluta. Syðri hlutinn sem eftir verður er það lítill að hann nær vart máli sem óbyggt víðerni. Því má vel rökstyðja að virkjunarframkvæmdir skerði víðerni á austanverðum Vestfjörðum um allt að 40%. Hvort sem rætt er um 21% eða 40% skerðingu víðerna á þessu svæði eru umhverfisáhrifin veruleg og óásættanleg.   

Samfélag/ferðamennska

Framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar er í Árneshreppi á Ströndum sem taldi 54 íbúa 1. janúar sl. Talið er líklegt að framkvæmdirnar dragi til sín vinnuafl og þjónustu af öllum Ströndum sem samanstanda, auk Árneshrepps, af Kaldrananeshreppi og Strandabyggð. Heildarfjöldi íbúa á Ströndum var 639 hinn 1. janúar sl. Stærsti byggðakjarninn er á Hólmavík þar sem ríflega helmingur íbúa svæðisins býr. 

Gert er ráð fyrir allt að 350 ársverkum á þriggja ára framkvæmdatíma við Hvalárvirkjun og að hluti þessara ársverka verði unnin af heimamönnum, en að sá hluti fari þó eftir almennu atvinnuástandi á virkjunartímanum. Þetta er gríðarleg atvinnuinnspýting fyrir svo lítið samfélag. Samkvæmt matsskýrslu Verkís er talið líklegt að þensluástand muni skapast á framkvæmdatíma en samt sem áður eru áhrif framkvæmdanna metin nokkuð jákvæð til skamms tíma vegna aukinna umsvifa og til langs tíma vegna aukinna tekna fyrir sveitarfélagið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að efnahagslegur ávinningur til skamms tíma er umtalsverður. Stærri spurning er hver langtímaávinningur verður eftir að framkvæmdum líkur þar sem ekki er gert ráð fyrir föstum störfum við virkjunina eftir að hún er risin.

Í matsskýrslu Verkís kemur fram að sérstaða Vestfjarða varðandi ferðamennsku sé m.a. hreinleiki, eyðibyggðir, fámenni, rólegheit og kyrrð. Aðdráttarafl virkjunarsvæðisins sé náttúran, fámenna landbúnaðarsamfélagið og sagan sem þar er að finna og gildi þess felist ekki síst í náttúruferðamennsku á mörkum Hornstrandafriðlands. Viðmælandi nefnir að „…stóra aðdráttaraflið sé þetta eyðibyggðaryfirbragð…“ (bls. 142). Þar sem talað er um viðhorf ferðaþjónustuaðila og annarra heimamanna, bls. 144, kemur fram að sumir telji að virkjun geti jafnvel aukið áhuga ferðamanna á svæðinu. Sjónarmið annars viðmælanda er hins vegar það að virkjunin muni breyta landslagi og tilteknum náttúrufyrirbærum, svo sem flúðum Eyvindarfjarðarár, á óásættanlegan hátt. 

Að mati þess sem hér heldur um penna mun sú sérstaða landsvæðisins sem nefnd er hér að framan hverfa að meira eða minna leyti þegar Hvalárvirkjun er risin með tilheyrandi veitum, uppistöðulónum og upphækkuðum vegum. Er framkvæmdin og ávinningur hennar þess virði? Það verður að teljast nokkur óskhyggja að ferðamenn fari alla leið norður á Strandir til að upplifa virkjun sem þeir geta auðveldlega skoðað á Suðurlandi í alls konar útgáfum í innan við 150 km radíus frá höfuðborginni. 

Heildarniðurstaða

Heildarniðurstaða Verkís er að umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar til langs tíma á samtals fjóra umhverfisþætti af átta (50%), vatnafar, vatnalíf, ásýnd lands og landslag, ferðamennsku og útivist, séu talsvert neikvæð. Áhrif á tvo þættisamfélag og ferðamennsku og útivist, eru metin nokkuð jákvæð. Eins og rökstutt er hér að framan telur undirritaður einsýnt að umhverfisáhrif á a.m.k. þrjá af þessum átta þáttum, vatnafar, ásýnd lands og landslag og ferðamennsku, séu vanmetin og þess vegna beri skilyrðislaust að hætta við þessa virkjun. Ekki er ásættanlegt að spilla varanlega svo einstakri óspilltri náttúru og fornri atvinnusögu á þeim hæpnu forsendum sem lagt er upp með (sjá næstu grein).

Orkustofnun og ýmsir virkjanaaðilar hafa ítrekað bent á að flokkun svæða í orkunýtingarflokk þýði ekki sjálfkrafa að þar verði virkjað þar sem eftir sé langt ferli umhverfismats og leyfisveitinga

Nú reynir á þessa varnagla og tækifæri til að hætta við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á grunni óásættanlegra umhverfisáhrifa. 

Höfundur er formaður Landverndar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar