Þann 9. júní árið 2014 sigldi skipið Sea Dragon úr höfn á Bermúda með 14 manns innanborðs, bæði vísindamenn og sjálfboðaliða. Fram undan var 2600 km ferðalag yfir Norður-Atlantshafið sem myndi ljúka á Íslandi 3 vikum seinna. Markmiðið var að safna gögnum um plast í sjónum en þau gögn áttu svo eftir að mynda grunninn að fyrstu skýrslunni sem metur hnattrænt magn plasts í sjónum. Gögnin sem söfnuðust í leiðangrinum staðfestu það sem menn óttuðust – plast í sjónum er normið en ekki undantekningin og ekkert svæði er undanskilið. Nánar tiltekið þá er áætlað að meira en 5 billjón (5.000.000.000.000) plasteindir fljóti nú í hafinu og takið eftir að það er íhaldssöm tala. Plastið hefur áhrif á dýralíf í sjónum þegar dýrin flækjast í því eða innbyrða það. Þúsundir dýra deyja af þessum afleiðingum, til dæmis skjaldbökur sem éta plastpoka með þeim afleiðingum að meltingarvegurinn stíflast. Vísindamenn benda einnig á að plast í sjónum brotni niður í örsmáar einingar og er innbyrgt af lífverum neðarlega í fæðukeðjunni. Örplastið klifrar svo upp fæðukeðjuna og endar í dýrategundinni sem trónir sigursæl á toppnum. Komið hefur til dæmis upp úr krafsinu að þriðjungur fisks veiddur á Bretlandsströndum inniheldur plast. Það lítur út fyrir að nú þurfum við að fara að éta þetta ofan í okkur.
Þegar plast safnast upp í líkama dýra eða manna þá er hætta á vandræðum. Vísbendingar eru um að efni í plasti (bisphenol A og phthalates) geti haft slæm áhrif á innkirtlastarfssemi sem getur komið fram í þroskatruflunum, stækkuðum blöðruhálskirtli, ofvirkni, eða auknu viðnámi fyrir insúlíni (sem er helsta einkenni áunninnar sykursýki) Það er kominn tími á að hætta að líta á plast sem eðlilegan hluta af lífinu og líta á það sem skaðvald.
Rannsóknir hafa sýnt að átta af hverjum tíu börnum og nærri allir fullorðnir hafi mælanlegt magn phthalates í líkamanum og skv. rannsókn frá Bandaríkjunum mælast 93% fólks með mælanlegt magn af bisphenol A í þvagi. Frá því fjöldaframleiðsla á plasti hófst árið 1940 hefur heimurinn í sífelldu magni verið plastvæddur og nú er ljóst að líkami okkar er þar engin undantekning. Hversu gott dæmi um að við séum jú hluti af umhverfinu okkar!
Fyrst á litið vekur það furðu að með þessa þekkingu á reiðum höndum er lítið búið að breytast. Áætlað er að plastframleiðsla tvöfaldist á næstu 20 árum. Reyndar er jú á klakanum byrjað að bjóða upp á valmöguleika við plastpokann en sú staðreynd að maíspokinn sé dýrari minnir okkur grátlega á að það er fjárhagslega óábyrgt að hugsa um umhverfið. Plastpokarnir seljast áfram ágætlega sem heldur uppi gömlu góðu plastmenningunni. Ef þú kemur inn í stórmarkað þá er eitt efni allsráðandi: PLAST.
Þegar við hins vegar köfum aðeins dýpra inn í hugmyndaheim okkar þá kemur ekkert á óvart að við sjáum ekki að hegðun okkar hefur víðtæk áhrif, menningarleg, heilsufarsleg og hnattræn. Félagssálfræðingurinn Richard E. Nesbitt bendir í bók sinni The Geology of Thought á að fólk í hinum vestræna heimi fái í arf hugmyndafræði um eðli heimsins þar sem sjálfstæðir, einstaka hlutir fá meira vægi heldur en tengsl þeirra við umhverfi sitt. Við höfum því tilhneigingu til að sjá forgrunninn en hunsa bakgrunninn. Við sjáum tréð en ekki skóginn. Þessi hugmyndafræði hefur í för með sér að sú mynd sem dregin er upp af manneskjunni er að hún sé sjálfstæð eining, tiltölulega aðskilin sínu umhverfi. Hann lýsir þessari tilhneigingu í vestrænni menningu sem sjálf-styrkjandi kerfi sem leitast við að halda jafnvægi. Samfélagslega umgjörðin styrkir grunnhugmyndirnar, á meðan hugmyndafræðin stjórnar ásættanlegum hugsunarferlum sem aftur á móti réttlætir samfélagslegu umgjörðina og styður hugmyndafræðina.
Við erum því ekki æfð í því að sjá hegðun okkar í stóru samhengi og fáum litla þjálfun þegar til dæmis hagkerfið heldur uppi þeirri hugmynd að mannskepnan sé aðskilin umhverfinu. Ein af leikreglunum þar er til dæmis að það er hagkvæmara að virkja óspillt svæði og þannig búa til meiri pening til að stækka hagkerfið. Áhrifin sem þetta hefur á lífríki, fegurð eða líf komandi kynslóða er ytri kostnaður sem má sópa undir teppið. Þetta er ekki stórt vandamál þegar hugmyndafræðin ræður ríkjum um manninn sem aðskildan sínu umhverfi.
Önnur dæmi um þetta er hægt að sjá í íslenskum stórmörkuðum. Þar er boðið upp á papriku frá Hollandi sem er ódýrari en paprika frá Íslandi (þegar hollenska paprikan er í raun dýrari fyrir umhverfið – því hana þarf að flytja umtalsverða vegalengd í boði jarðefnaeldsneytis) og maíspokinn er dýrari en plastpokinn sem eitrar sjóinn okkar. Það er eitthvað öfugsnúið við það að það sé ódýrara að skaða náttúruna.
Að lokum má benda á fyrirbærið „hraða tísku“ þar sem tískufatnaður er framleiddur með litlum kostnaði (takk þróunarlönd) og seldur á svo lágu verði að fötin verða auðveldlega „úrelt“ og ný keypt. Þetta er orðið nokkuð samþykkt hegðun þrátt fyrir að slík fjöldaframleiðsla og sóun hafi mjög slæm áhrif á jörðina en tískuiðnaðurinn er nú mest mengandi iðnaðurinn á eftir olíu. Auðvelt reynist að sópa þessum „ytri” kostnaði undir teppið, sérstaklega þegar hann er skilgreindur sem eitthvað fyrir utan okkur. Leikreglur hagkerfisins endurspegla hugmyndina um að við séum jú víst aðskild og að hegðun okkar endurspegli fyrst og fremst vilja okkar til að hámarka eigin hagsmuni. En auðvitað kemur ekkert á óvart að slík hegðun verður áberandi þegar leikreglurnar ýta allar undir það! Við lærum að peningur sé náttúrulega af skornum skammti og að við séum frjáls, sjálfstæð og aðskilin. Frelsið er yndislegt ég geri það sem ég vil.
Gamla sagan um hinn aðskilda mann er hætt að gagnast okkur. Vísindin draga upp allt aðra og flóknari mynd af samtengslum. Allt sem við gerum hefur áhrif. Á fólkið í kringum okkur, á samfélagið, á heiminn. Þegar við notum plastpoka eða kaupum mat í plastumbúðum, eða sem framleiðendur pökkum vörum inn í plast, þá erum við að halda uppi ákveðinni menningu sem ekki bara eitrar sjóinn okkar heldur líka líkama okkar. Það virðist erfitt að breyta þessu, sérstaklega af því við burðumst um með hugmyndina um að við séum bara ein aðskilin manneskja, eitt tré. Þegar við hins vegar skiljum að plasteindirnar úr plastpokanum sem við keyptum í Bónus síðasta sumar eru nú komnar í maga fjölskyldunnar, þá fer eitthvað að gerast.