Nefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi hefur nú verið að störfum frá í vor undir stjórn Þorsteins Pálssonar. Flokkur Þorsteins og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í sínum málflutningi lagt áherslu á kerfisbreytingar í sjávarútvegi og hreina markaðsleið, þ.e. að allur afli verði settur á markað og verðið ráðist af markaðnum hverju sinni.
Nú gefur það auga leið að þverpólitísk nefnd mun ekki ná niðurstöðu um þá leið óbreytta og er þar afstaða Sjálfstæðisflokksins t.a.m. mjög skýr. Í viðtali á dögunum talar Haraldur Benediktsson fyrir því að lækka veiðigjöld strax í haust en ekkert um að breyta kerfinu. Þannig eru stóru átakalínurnar inni í ríkisstjórninni sjálfri og vandséð að nefnd Þorsteins Pálssonar geti stigið skref til breytinga. Formaður nefndarinnar skrifaði svo í sumar grein þar sem hann beindi spjótum að flokkum utan ríkisstjórnarinnar og lét að því liggja að vandinn lægi þar. Það er reyndar nýlunda að meirihlutinn kenni minnihlutanum um það þegar meirihlutinn getur ekki komið sér saman um stór mál. Ekki varð hjá því komist að svara þessari grein Þorsteins enda var engu líkara en að formaðurinn væri að reyna að koma sökinni fyrirfram á aðra flokka á því sem fyrirsjáanlegt væri, eða því að starf nefndarinnar myndi engu skila.
Aukin verðmæti til þjóðarinnar
Eftir þessi greinaskrif hef ég haldið því til haga í nefndinni að rétt væri að formaður hennar kæmi sjálfur fram með tillögu sem hann teldi að gæti verið grundvöll niðurstöðu. Það hefur enn ekki gerst en fulltrúi Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, hefur lagt fram tillögu þar sem ekkert er fjallað um þjóðareign á auðlindinni heldur byggt á þeirri nálgun að um verði að ræða samninga milli útgerðarinnar og ríkisins á einkaréttarlegum grunni. Sjálf hef ég lagt á það áherslu að ekki verði undan því vikist í þessari vinnu að skera úr um skilning okkar á eignarhaldinu á auðlindinni og að festa þurfi auðlindaákvæði í sessi í stjórnarskrá.Ráðgjafi nefndarinnar er hagfræðingurinn Daði Már Kristófersson en hann er einnig í stjórn Viðreisnar. Nú ber svo við að í viðtali við Daða Má í Fiskifréttum á dögunum segir hann meðal annars „veiðigjöld verða aldrei neinn meiriháttar tekjustofn fyrir ríkið“. Er þetta sem sé í annað skiptið sem fulltrúar frá Viðreisn gera því skóna að ekki sé eftir miklu að slægjast í því að ná meiri verðmætum til almennings fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Þessi sjónarmið eru ekki léttvæg, þvert á móti því þau koma út úr nefndinni – sem átti að leita sátta í málinu. Vinnubrögð formannsins og starfsmannsins benda ekki til þess að þeir vilji sættir í þessu stóra hagsmunamáli þjóðarinnar.
Það eru vonbrigði að svo virðist sem starfsemi nefndarinnar sé sjónarspil, fyrir fram sé búið að ákveða að ekkert komi út úr henni. Vinnan snúist í raun um að tryggja að sökin liggi annars staðar en hjá ríkisstjórnarflokkunum sjálfum sem ekki hafa leitt þessi mál til lykta með nokkru móti frekar en önnur stór mál á borði ríkisstjórnarinnar.
Auðlindaákvæði í stjórnarskrá er nauðsyn
Áherslur VG í sjávarútvegsmálum snúast fyrst og síðast um að auðlindin sé nýtt með sjálfbærum hætti, sé í eigu þjóðarinnar og að um það sé fjallað í stjórnarskrá. Einnig að umtalsvert svigrúm sé til þess að aukið fé renni í ríkissjóð úr sameiginlegri auðlind. Loks að huga þurfi sérstaklega að byggðasjónarmiðum við samsetningu kerfisins til að verja byggðirnar fyrir því að ákvarðanir eins fyrirtækis geti kippt stoðunum undan samfélögum út um land á einni nóttu.Til að hægt verði að ná sátt um næstu skref og einhvers konar niðurstöðu þarf að taka tillit til sjónarmiða fleiri en þeirra sem sitja við borðsendann. Að okkar mati er það frumforsenda að gerð verði úrslitatilraun til þess að ná samstöðu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem kveðið er með skýrum hætti á um þjóðareign á auðlindunum. Annars verða kerfisbreytingar byggðar á sandi.
Höfundur er þingflokksformaður Vinstri grænna.