Á dögunum lagði stafshópur skipaður af ráðherra fram stefnumótandi skýrslu um framtíð og fyrirkomulag fiskeldis á Íslandi. Þar eru ýmsar breytingar og áherslur lagðar til með það markmið að atvinnugreinin geti orðið sterk og öflug en jafnframt að starfsemin verði í sátt við náttúruna og hafi sjálfbærni að leiðarljósi. Megin innihald skýrslunnar fjallar um laxeldi, einkum kvíaeldi á laxi. Starfshópurinn leggur til að áhættumat Hafrannsóknarsofnunar (Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi) sé á hverjum tíma lagt til grundvallar við úthlutun rekstrarleyfa og heimilt framleiðslumagn. Því er áhættumatið augljóslega gríðarlega mikilvægt og hefur afgerandi áhrif á stefnumótunina. Áhugavert er að skoða það aðeins.
Við blasir að mjög flókið hlýtur að vera að gera slíkt áhættumat sem á að ná yfir mögulega atburði í flókinni og síbreytilegri náttúru hjá fisktegund með merkilegan en flókin lífsferil. Til hliðsjónar vinnu sinni við matið leggur Hafrannsóknarsofnunin til að „….nýtt yrði (verði) fyrirliggjandi þekking hérlendis og erlendis til að meta hversu mikið eldi á frjóum laxi í sjókvíum væri (er) óhætt að stunda án þess að óásættanleg áhætta væri (sé) tekin með náttúrulega laxastofna landsins“. Ýmislegt í þessari skýrslu finnst undirrituðum þó fremur óljóst og þarfnist nánari skýringa af hálfu höfunda áhættumatsins. Grundvöllur slíks áhættumats þarf að vera eins skýr og kostur er enda mjög margir sem láta sig varða málefni tengd Atlantshafslaxinum, hvort sem villtur lax eða eldislax á í hlut. Kappsfullar umræður eftir útkomu áhættumatsins og stefnumótunina benda eindregið til þess.
Nýlegar erfðagreiningar á laxastofnum í Noregi sýna óyggjandi að eldislax hefur náð að blandast við villtan lax í einhverjum mæli í sumum ám. En vandinn við gerð áhættumats, um líkindi þess hver áhrif eldislaxa sem sleppa út í náttúruna verða á villta laxastofna til langs tíma litið, er að þekkingin er fremur takmörkuð (Glover et al., 2017). Vitað er að lífshæfni eldisfisks í villtri náttúru er mjög skert í samanburði við villtan fisk, hrygningarárangur eldishrygna innan við þriðjungur af árangri villtra hrygna og árangur eldishænga aðeins 1-3%. Seiði sem eru afkvæmi eldisfiska eða blendingar milli eldisfiska og villtra fiska geta komist á legg í ánni og átt í samkeppni við hrein villt seiði. Gerðar hafa verið tilraunir, (hvar búnir voru til hrognahópar villtra, eldis og blendinga og hrognin grafin í ánni) sem sýna að afkvæmi eldisfiska og blendingar við villta fiska hafa skertar lífslíkur samanborið við villt seiði. Þau uxu hinsvegar alla jafna hraðar sem smáseiði en þau villtu og gátu þar með mögulega rutt þeim frá á uppvaxtarsvæðum. Ef uppvaxtarsvæði eru takmörkuð eða ef villtir stofnar standa veikt fyrir í ánni gæti það orðið til þess að færri villt seiði næðu sjógöngubúningi og gengju til sjávar en ella væri (McGinnity et al., 2003). Þar sem lifun gönguseiða af eldisuppruna í sjó (dvelja gjarnan meira en 1 ár í sjó) og ratvísi þeirra upp í heimaána eftir sjávardvöl er mjög skert er ályktað að náttúruleg framleiðslugeta árinnar minnki og þar með verði villti laxastofninn í hættu (McGinnity et al., 2003; Fleming et al., 2000). Það á þó einkum við ef kynþroska eldisfiskur berst ítrekað í miklum mæli upp í vatnasvæðið (Taranger et al., 2014). Sýnt hefur verið fram á að kynbættur eldislax hefur haft áhrif á aldur og kynþroskastærð í 62 villtum laxastofnum og þar með á lífssögulega mikilvæga þætti (Bolstad et al., 2017). Því er mikilvægt að fækka eldislöxum sem sleppa eins og framast er unnt og eða draga úr mögulegum áhrifum þeirra á villta laxastofna.
Hvað verður um lax sem sleppur? Talsverð þekking er til um afdrif eldislaxa sem sleppa úr kví, möguleikana til að komast af í villtri náttúru og þar með á líkindi þess að þeir gangi upp í ferskvatn til hrygningar (t.d. Skilbrei et al., 2015), sem er auðvitað forsenda þess að áður nefnd erfðablöndun eigi sér stað. Ef eldisfiskur sleppur eru líkurnar á að hann snúi til baka á sama svæði háðar mörgum þáttum, svo sem sleppistaðnum (utarlega / innarlega í firði), hvenær árs flóttinn varð, hvar fiskurinn var staddur í lífsferlinum (aldur, stærð) hvort fiskurinn var á leið í kynþroska, hvort vatnsfall er nálægt, og örugglega einnig öðrum landfræðilegum og vistfræðilegum aðstæðum (Taranger et al., 2014) ásamt árferði til lands og sjávar (Saloniemi, I. et al., 2004). Sloppinn eldisfiskur sem nær kynþroska hefur tilhneigingu til að ganga seinna á haustinu upp í ár til að hrygna samanborið við villtan kynþroska fisk (t.d. Fiske et al., 2001) og notar ekki endilega sömu hrygningarsvæði í ánni (Moe et al., 2016). Ef ár eru auðveldar uppgöngu (án fossa og flúða) virðist eldisfiskurinn hafa tilhneigingu til að ganga ofar eða á efri svæði vatnakerfa (Moe et al., 2016; Thorstad et al., 1998). Munur á æxlunarhegðun eldislaxa og villtra laxa í „tíma og rúmi“ til viðbótar við skerta hrygningarhæfni eldislaxa í náttúrunni gæti leitt til að hrygning eldisfiska og villtra fiska skaraðist ekki í sumum tilvikum, sem hefði áhrif á mögulega erfðablöndun og lifun afkvæmanna (Glover et al., 2017).
Við áhættumat Hafrannsóknarstofnunarinnar er útbúið nýtt verkfæri eða svokallað gagnvirkt áhættulíkan. Segir m.a. að tilgangur þess sé að gefa rétta mynd af fjölda stokufiska sem gætu tekið þátt í klaki í hverri á, enda sé sá fjöldi í beinu sambandi við áhættu á erfðablöndun. Lagt er upp með að þröskuldsgildi yfir hlutfall strokulaxa í laxastofni ár megi að hámark verða 4% en þá sé engin eða nær engin hætta á erfðablöndun við villta stofna. Því er ljóst að auk fjölda eldisfiska sem sleppa og líklegir eru til að ganga upp í tiltekna á (Kallað Fa- í líkaninu) er stærð villts laxastofns í viðkomandi á lykilþáttur (kallað Aa –í líkaninu). Til viðbótar þessum breytum eru a.m.k. 9 aðrar breytur í líkaninu sem hver og ein getur í mörgum tilfellum verið háð öðrum innbyggðum breytum. Við þær bætast allar þær breytilegu aðstæður sem finna má í sjó og í einstaka ám auk ástands og samsetningar (einnig stofnerfðafræðilegrar) laxastofna sem þær bera. Hér er því verið að gera tilraun til að lýsa gríðarlega flókinni náttúru með reiknilíkani, við mat á áhættu erfðablöndunar við kynbættan eldislax af norskum uppruna. Niðurstöður líkansins eru síðan notaðar til að meta hvar óhætt er að stunda laxeldi í kvíum án þess að of mikil áhætta sé tekin m.t.t. erfðablöndunar við villta stofna. Við slíka tilraun skiptir auðvitað megin máli hvaða forsendur menn gefa sér fyrir hverja og eina breytu og hvaða tölur eru settar inn í líkanið. Í skýrslunni er helstu breytum reiknilíkansins lýst, a.m.k. að nokkru leyti en undirritaður játar að eiga stundum í erfiðleikum með að átta sig á þeim til hlítar enda verið að beita stærðfræði á flókna líffræði. Ekki er ómögulegt að einhverjar áhrifabreytur hafi orðið útundan við líkanasmíðina. Kannski er rétt að skoða forsendurnar nánar en öðrum látið eftir að meta hversu mikil áhrif breyttar forsendur hafa á niðurstöður áhættumatsins.
1-2: Umfang eldis og fjöldi fiska
Umfang eldis (Fx) í firði x- mælt í tonnum á ári, og hlutfall þeirra fiska sem sleppa fyrir hvert tonn framleitt (S- mælt í fjölda fiska á hvert tonn framleitt).: Við þetta mat er stuðst við opinberar tölur frá Noregi og Skotlandi um fjölda strokulaxa. Talið er víst að opinberu tölurnar séu undirmat því ekki sé allt strok tilkynnt (Glover et al. 2017) og að það sjáist meðal annars á að samband tilkynnts magns og fjölda strokulaxa fylgist ekki að. Jafnframt er fullyrt að línulegt samband ætti að vera þar á milli.
Lang víðtækustu rannsóknir sem gerðar hafa verið um afdrif og endurheimtur stokulaxa voru framkvæmdar af norsku Hafrannsóknarsofnuninni (MRI), einkum á árabilinu 2005-2010 (Skilbrei, O. T. 2010a.; Skilbrei, O. T. 2010b.; Skilbrei, O. T. 2013.; Skilbrei,O.T. et al. 2013; Skilbrei,O.T., et al. 2009; Skilbrei, O. T., et al. 2010; Skilbrei,O.T. & Jørgensen,T.2010; Skilbrei, O. T., Skulstad, O. F., & Hansen, T. 2014.; Skilbrei, O. T. & Wennevik, V. 2006) og jafnframt voru þær niðurstöður notaðar til að þróa reikniaðfrerð (Monte Carlo) til að leggja mat á raunverulegt strok miðað við uppgefnar og skráðar tölur á tímabilinu 2005-2011 (Skilbrei, O.T., Heino, M., & Svåsand, T., 2015). Með öllum fyrirvörum sem settir eru við útreikningana komast höfundar að þeirri niðurstöðu að raunverulegt strok geti verið 2-4 sinnum hærra en uppgefnar tölur, en stuðullinn var metinn út frá uppgefnum fjölda tapaðra seiða á áður greindu árabili. Frávikið var einna líklegast talið stafa af því að ný- eða nýlega útsett gönguseiði sleppi út í mun meira mæli en menn geri sér grein fyrir og tilkynnt er. Misræmið var talið helgast einna helst af of stórum möskva í nótapokum (smug) miðað við stærð og stærðarbreytileika í hópum útsettra seiða á tímabilinu, enda lítið (ca 4%) um tilkynnt tilvik á töpuðum gönguseiðum (gönguseiði eru ýmist sett út á vorin, snemmsumars eða að hausti). Árið 2008 voru settar strangari reglur til að draga úr áhættu við fiskeldi í Noregi, þar á meðal krafa um áhættumat við meðhöndlun og flutning seiða í sjó og til að tryggja að möskvastærð passaði fiskstærðinni og breytileka innan hópsins (Regulation 2008-06-17 No. 822). Þessar starfsreglur virðast hafa þau áhrif að fjöldi laxa sem sleppur hefur minnkað á síðustu árum. Sé litið á síðustu 16 ár var meðaltalið rúmlega 0,5 laxar á hvert framleitt tonn, á síðustu 8 árum 0,2 laxar og á síðustu 5 árum 0,13 laxar á hvert framleitt tonn (unnið út frá tölum Statistisk sentralbyraa, wwwSSB.no). Þessi þróun hefur orðið á sama tíma og eldið hefur aukist verulega en jafnframt hafa auknar kröfur verið gerðar til alls búnaðar. Að auki hefur þróunin verið í átt að útsetningu stærri seiða hin síðari ár og því má búast við að færri smáfiskar smjúgi út um möskva. Þess má geta að það sem af er ári 2017 hafa 7000 laxar verið skráðir sloppnir úr laxeldi í Noregi, sem mun framleiða ríflega 1,3 milljónir tonna á árinu, en auðvitað er árið ekki liðið. Í áhættumati Hafrannsóknarsofnunarinnar er kosið að nota tölur frá tímabilinu 2009 og áfram stuðst við stuðulinn 4 til margföldunar þó flest bendi til að gönguseiðasmug um möskva hafi minnkað verulega. Gefur það þá rétta mynd af stöðu mála? Jafnframt er þess getið í skýrslunni að hlutfall stroks í Skotlandi sé 10 sinnum hærra en í Noregi. Ekki er getið um heimild en passar illa við uppgefnar tölur yfir skoskt fiskeldi.
Í lýsingu á notkun áhættulíkansins er gert ráð fyrir að 0,8 fiskar strjúki á hvert tonn framleitt enda öryggisstuðlinn 4 notaður til margfeldis við uppgefnar meðaltölur tapaðra fiska frá Noregi á árabilinu 2009-2016. Tekið er fram að miðað við stuðulinn 0,8 ættu u.þ.b. 9000 laxar að strjúka úr íslenskum sjókvíum á árinu 2017 og nefnt að það sé líklega mun hærra en rauntölur. Hvað verður veit enginn en sagt að stuðlinum sé einnig ætlað að ná yfir stórslysasleppingar sem gætu átt sér stað með löngu árabili. Það hlýtur að vera álitaefni hversu mikil erfðablöndunaráhrif stórslysaslepping með löngu millibili hefur, sérstaklega í ljósi þess að miklu máli skiptir á hvaða stigi eða aldri fiskurinn er þegar slíkt gerðist og á hvaða árstíma. Lífslíkur ólíkra stærða sloppins eldislax í sjó eru afar mismunandi og líklega má einnig búast við minni afkomumöguleikum þegar sleppingar verða t.d. að vetri en að vori. Síðan má einnig spyrja hvenær á að styðjast við rauntölur og hvenær ekki?
3-4. Hegðun og lifun gönguseiða
Hegðun ungra sjógönguseiða sem strjúka er önnur en eldri fiska sem sleppa. Þetta er lykilatriði fyrir allt áhættumatið og því er snemmbúið strok meðhöndlað sérstaklega. Aldur, stærð og árstími við flótta eldislaxa úr kvíum hefur afgerandi áhrif á afdrif þeirra í sjó (Skilbrei et al. 2015) og á líklega svipað við um náttúruleg gönguseiði. Alin gönguseiði til fiskræktar eru talin yfirgefa ána sem þeim er sleppt (yfirleitt þeirra heimaá) og halda tiltölulega hratt til sjávar. Villt gönguseiði fara til sjávar yfir lengri tíma, ferðast niður ána að næturlagi og verða smám saman virkari í dagsbirtu þegar hitastig hækkar og seltuþoli er náð (Thorpe et al., 1994). Mögulega á innprentun á upprunaá sér því stað allan þann tíma sem þau dvelja í ánni. Því virðist vera margvíslegur munur á atferli og lífsmöguleikum villtra gönguseiða og gönguseiða af villtum uppruna sem sleppt er í á í fiskræktarskyni, sem hefur áhrif á hversu vel þau rata og skila sér sem fullorðinn kynþroska fiskur á æskustöðvarnar til að hrygna (t.d. Jonsson et al., 2003,; Keffer, M.L. & Caudill, C.C., 2014). Almennt er álitið að eftir því sem laxinn hefur verið lengur við eldisaðstæður tapist ratvísi hans og afkomumöguleikar í villtri náttúru minnka. Íslenskur samanburður á endurheimtum villtra gönguseiðum og seiða sem framleidd eru með eldi (n= 750 þúsund seiði) en upprunnin úr sömu á sýnir að eldið hefur neikvæð áhrif og endurheimtur eru minni. Þannig voru heimtur örmerktra gönguseiða í fiskirækt á Íslandi á árabilinu 1986-1994 að meðaltali um 0,61% (Magnús Jóhannsson og Sigurður Guðjónsson, 1996 ). Endurheimtur eldisgönguseiða úr sleppingum í Laxá í Aðaldal hafa að meðaltali verið um 0,5% í veiði og svipaðar í Hofsá í Vopnafirði (Guðni Guðbergsson 2010; Þórólfur Antonsson og Ingi Rúnar Jónsson 2004). Því er ljóst að afföll seiða sem komið er á legg í eldiskerjum eru gríðarleg í hafi.
Þó endurheimtuhlutfall gönguseiða sé almennt mjög lágt felst ógnin af gönguseiðum sem tapast úr kvíum í miklum fjölda þeirra. Smolt (sjógönguseiði) og post-smolt (<230g) sem sleppa úr eldiskví eru talin ganga hratt út á opið haf (Jonsson, B. & Jonsson, N., 2006; Skilbrei, O. et al., 2009). Því er augljóslega afar erfitt að ætla sér að minnka skaðann með því að veiða þau í net eða gildrur nærri fiskeldisstöðinni (Skilbrei et al., 2015). Eldislax hefur verið kynbættur í 12+ kynslóðir og er því smám saman að verða ólíkari villtum laxi en meira húsdýr í gerðinni. Kynbæturnar miða m.a. að hröðum vexti en gegn snemmkynþroska. Líf við eldisaðstæður hefur einnig áhrif á atferli í náttúrunni, sem gerir fiskinn óhæfari til að komast af. Til dæmis hefur skoðun leitt í ljós að 60-96% eldisfisks sem veiddur er í náttúrunni er með tóman maga (t.d. Soto et al., 2001,; Abrantes et al., 2011; Hislop & Webb, 1992). Eldis-gönguseiði sem strjúka dvelja í 1-3 ár í sjó áður en kynþroska er náð og þau taka að leita uppi ferskvatn til hrygningar. Lengdur sjódvalartími hefur að sjálfsögðu áhif á lífslíkurnar. Endurheimtur flúinna eldisseiða úr hafi eru umtalsvert lakari en villtra seiða. Tvær megin rannsóknir hafa verið gerðar á samanburði á endurheimtum villtra gönguseiða og eldisseiða sem sleppt hefur verið í ár. Önnur er kennd við Burrishoole á Írlandi hvar lifun frá smolti að fullorðinsstigi eftir einn vetur í sjó var að meðaltali 8% (2,9-12,6%) hjá villta fiskinum en aðeins 2% (0,4-4,4%) hjá eldisfiskinum (Piggins & Mills, 1985).
Hin rannsóknin á endurheimtum gönguseiða fór fram í ánni Imsa í Noregi og stóð yfir í 14 ár. Þar voru meðal endurheimtur metnar 8,9% hjá villtum seiðum en 3,3% og 2,9% hjá 1+ og 2+ eldis-gönguseiðum sem sleppt var í ána (N. Jonsson et al., 2003). Í Eystrasaltinu var lifun villtra gönguseiða metin 4,5x meiri en eldisseiða (Saloniemi et al., 2004). Í umfangsmiklum sleppi- og endurheimtutilraunum norsku Hafrannsóknarstofnunarinnar, hvar eldisfiski var sleppt úr eldiskví, en var bæði endurheimtur með veiðum í sjó og í ferskvatni, var endurheimtuhlutfall gönguseiða sem sleppt var að vori eða fyrri part sumars (n= 64 þúsund, þyngd <230g) samtals 0,36% (Skilbrei et al. 2015). Þó hlutfallið sé lágt felst hættan við strok gönguseiða að vori einkum í að fjöldi þeirra getur verið mikill og þau eru einna líklegust til að rata aftur heim – eða í nærliggjandi á. Þau sem komast af hafa náð að lifa lengi af í villtri náttúru og aðlagst henni. Því er mest áríðandi að koma í veg fyrir strok slíkra seiða úr eldiskvíum, til að draga úr líkum á erfðablöndun.
Í umfjöllun um breytur fyrir snemmbúið strok í áhættumati Hafró (bls. 25) er tekið fram að stuðst er við niðurstöður á lífslíkum á sjávardvöl gönguseiða úr hafbeit í Rangánum til viðmiðunar og gert ráð fyrir að þær séu 5% fyrir villt seiði. Síðan er notuð niðurstaða frá Hindar (Hindar et al. 2006) um að lífshæfni eldis-sjógönguseiða sem sleppt er í á sé 37% af lífshæfni villtra seiða, sem gerir þá mat uppá 1,85% lifun eldisseiða sem sleppa. Hvaða tölur er rétt að miða við er erfitt að meta en altént kemur hér fram umtalsverður munur á mati lifunar eins og hún reiknast fyrir eldis-gönguseiði sleppt í á og eldis-gönguseiði sem sleppa úr kví, en það getur haft talsverð áhrif á niðurstöðu reiknilíkansins. Lægri endurheimtur seiða sem sleppa úr kví samanborið við seiði sem sleppt er í ár segir talsvert um skerta aðlögunarhæfni kvía-eldisfisksins í náttúrunni.
Tilraunir norsku hafrannsóknarstofnunarinnar (MRI) náðu einnig til sleppinga gönguseiða utan hefðbundins göngutíma (haustsmolt). Yfir 40% útsettra gönguseiða í norsku laxeldi eru svokölluð haustsmolt. Slík seiði eru framleidd með ljósastýringu sem er lykilþáttur við myndun seltuþols laxaseiða. Tilgangurinn er að stýra framleiðslu eldisstöðva þannig að framboð fisks sé jafnara og nýting búnaðar sé sem best, auk þess sem slík seiði taka jafnan mikinn vaxtarkipp eftir sjósetningu. Eftir einn vetur í sjó (að vori) eru þessi seiði orðin 5-8x þyngri en jafnaldrar þeirra sem aldir eru í ferskvatni yfir veturinn, jafnvel þrátt fyrir mun læga hitastig í sjónum. Þetta er því álitleg framleiðsluaðferð. Seiðaframleiðsla á laxi nýtir gjarnan hærra hitastig ferskvatns til að hvetja vöxtinn. Jarðhiti á Íslandi gefur einstök tækifæri til framleiðslu gönguseiða utan náttúrulegs tíma og ætti að vera lykil atriði til lækkunar kostnaðar og betri samkeppnisstöðu eldisfyrirtækja á Íslandi.
Í sleppi- og endurheimtutilraunum MRI á haustsmoltum (n=23 þúsund, þyngd <230g) skilaði aðeins einn fiskur sér til baka, eftir 3.ja ára sjávardvöl (0,004%). Líklega ganga seiðin hratt á haf út jafnvel þó þau sleppi að hausti en lifun þeirra virðist vera hverfandi lítil (Skilbrei, 2013). Stærri seiði (kringum 500g) sem hafa verið sumarlangt í sjó en sleppa að hausti eru staðbundnari og því mun meiri möguleiki til endurveiða í net (Olsen & Skilbrei, 2010; Skilbrei 2010). Í tilraununum tókst að endurheimta tæp 11% fljótlega eftir flóttann en samanlagðar endurheimtur eftir 1-3 ár í sjó voru 0,2% (Skilbrei et al. 2015). Haustseiði eða stærri seiði sem sleppa að hausti til (eftir að náttúruleg ljóslota tekur að styttast og göngur villtra seiða eru afstaðnar) eru því talin vera mun minni ógn og afar ólíkleg til að blandast við villta laxastofna samnborið við vorseiði (Skilbrei, 2013). Samanburður á lífslíkum haustsmolta og vorsmolta í hafi eru taldar vera 1:39 (Taranger et al. 2012). Jafnframt fundu Hansen & Jonson (1989; 1991) mikil áhrif útsetningatíma gönguseiða á endurheimtuhlutfall þeirra og lifun.
Merkilegt má telja að þessara umfangsmiklu rannsókna MRI og niðurstaðna um flótta gönguseiða eða stórseiða að hausti sé ekki getið sérstaklega né tillit tekið til þeirra í áhættumati Hafrannsóknarstofnunarinnar, við mat á líkindum til blöndunar við villta stofna ellegar í tillögum og mótvægisaðgerðum. Aðeins eru metin áhrif gönguseiðasleppinga (snemmbúið strok) en annar fiskur sem kynni að sleppa, óháð árstíma, settur í flokkinn síðbúið strok. Raunar er þess getið (bls. 21) að lax sem sleppur á öðrum æviskeiðum en sem vor-gönguseiði eða fullorðinn eigi minni möguleika og að lax sem sleppur að vetri drepist að lang stærstu leyti. Þessum staðreyndum hefði þurft að gefa betri gaum. Tækifæri íslensks laxeldis felast einmitt sérstaklega í notkun jarðhita og góðs aðgangs að hrognum árið um kring til framleiðslu haust-gönguseiða og í framleiðslu stórseiða á landi. Hvoru tveggja styttir framleiðslutíma í sjó og því ætti áhætta vegna erfðablöndunar við villta stofna að minnka stórlega.
5-6. Síðbúið strok, eldistími og kynþroskahlutfall
Stór lax (>900g) sem sleppur úr eldiskví hefur allt aðra og almennt staðbundnari hegðun en gönguseiði sem sleppa að vori. Stór hluti hans sveimar í vikur eða mánuði í yfirborðinu nærri eldisstaðnum (t.d. Solem et al., 2013; Chittenden et al., 2011), svipað og stór seiði (ca 500g) sem sleppa á hausti (Skilbrei et al. 2015). Þó kann fjarlægð frá opnu hafi og straumar að hafa þar áhrif, bæði á dreifingu fisksins og getu hans og eiginleika til að rata aftur upp í ferskvatn þegar líður að hrygningartíma (Hansen, 2006; Hansen & Yongson, 2010). Staðbundin hegðun gefur mun meiri tækifæri til að veiða upp sloppinn fisk samanborið við flúin gönguseiði, og búnaður til þess ætti og tilbúin viðbragðsáætlun ætti að vera sjálfsögð krafa í starfsleyfum kvíaeldisfyrirtækja. Í sleppitilraunum MRI (n= 8023, þyngd >900g) endurveiddust 23% , mest á fyrstu tveimur mánuðunum, en bæði var veitt í net og á stöng. Heildar endurveiðihlutfall eftir 1-3 ár í sjó datt niður í 0,09% (Skilbrei et al. 2015). Fall endurveiðihlutfallsins bendir sterklega til að sé fiskurinn ekki kynþroska eða á leið í kynþroska um haustið þegar hann sleppur séu lífslíkur hans til að lifa til næsta árs í villtri náttúru mjög litlar. Þessvegna er tíðni kynþroska eldisfisks á framleiðslutímanum, einkum að sumri og hausti mikilvægar upplýsingar því þær varða áhættuna af því að kynþroska stór lax gangi upp í ferskvatn.
Rannsóknir hafa sýnt að æxlunarárangur eldislaxa sem ganga upp í ár til hrygningar er umtalsvert minni en hjá villtum fiski (t.d. Fleming et al., 2000; Weir et al. 2004). Áður var nefnt að samanburður á hrygningarárangri villtra laxa og eldislaxa, í hálf-náttúrulegu umhverfi, sýndi að árangur eldishænga í æxlun var aðeins 1-3% af árangri villtra hænga. Árangur eldishrygna var um 30% af árangri villtra hrygna en þó breytilegri og líklega háðari umhverfisaðstæðu en hjá hængum (Fleming et al., 1996; Weir et al., 2004). Rannsóknir á hegðun og árangri hrygningar í villtri náttúru renna stoðum undir þessar niðurstöður og höfundar komast að þeirri niðurstöðu að kynþroska eldishængar tapi samkeppninni við villta hænga og taki því lítinn þátt í æxlun (Fleming et al., 2000). Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að æxlunarárangur stórra eldisfiska sé líklega einnig breytilegur eftir því á hvaða stigi lífsferilsins (stærð og á hvaða tíma) fiskurinn sleppur (Fleming et al., 1997). Kynbætur á eldislaxi hafa frá byrjun leitast við að draga úr tíðni kynþroska enda rýrir kynþroskinn gæði framleiðslunnar og dregur úr vexti fisksins. Jafnan eru meiri líkur á að hængar fyrr kynþroska en hrygnur í eldi, enda tengsl milli vaxtarhraða (stærðar) og kynþroska (t.d. Harmon et al., 2003). Auk heildar kynþroskatíðni í hópi stórra laxa sem sleppa úr eldiskví skiptir kynjahlutfall kynþroska fisksins og árstími því verulegu máli við mat á áhættu á erfðablöndun við villta stofna. Einnig er ljóst að þó hlutfall kynþroska eldisfiska sé t.d. metið 15% af heildarfjölda klakfiska í stofni ár (Í líkaninu er gert ráð fyrir að 15% sloppinna stórlaxa verði kynþroska og gengi upp í ár!) verður erfðafræðileg hlutdeild þeirra við nýliðunina mun minni, sérstaklega vegna vanhæfni hænganna. Í áhættumati Hafrannsóknarstofnunarinnar er ekki greinilegt eða augljóst hvernig þessar upplýsingar eru notaðar í líkaninu til að meta hættuna á erfðablöndun né við hvaða ætlaða æxlunarárangur hvors kyns er miðað. Ekki er heldur hægt að sjá í greinum Glovers sem hafðar eru til hliðsjónar (Glover et al. 2012, 2013) hvernig kynjahlutfall og æxlunarárangur kynþroska eldisfisks sem gengur í ár hefur áhrif á fylgni hlutfalls eldisfisks í stofni þegar þröskuldsgildi vegna erfðablöndunar eru metin.
Auk áður nefndra kynbóta hefur ljósastýring verið notuð um árabil til að örva vöxt en draga úr eða seinka kynþroska eldislaxa í kvíum (t.d. Taranger et al., 2010, Iversen et al., 2016). Í tilraunum með ljós og ljóslotur, hvort sem gönguseiði eru sett út á vorin eða haustin hefur komið fram að löng ljóslota eða stöðugt ljós í kvíum örvar vöxt og dregur úr kynþroska óháð vaxtartíma. Til dæmis var í tilraun Oppedals (Oppedal et al., 1999) kynþroskatíðni mjög lág (<1%), hjá Leclercq (Leclerec et al., 2011) var hún <2% og í tilraun Hansen með Led-ljós (Hansen et al., 2017) var kynþroskatíðni 0,0% en þó var lokaþyngd laxins 6-7 kg. Ekki eru til nein opinber gögn um kynþroska eldislax hér á landi en nefna má að þegar ljós voru tekin í notkun við laxeldi hjá Rifósi hf. féll kynþroskatíðni sláturfisks úr 25% í 3% og kynþroski á sláturfiski hjá Arnarlaxi hf. er metinn um 1% nú um stundir (munnl. uppl).
Í áhættulikani Harfrannsóknarstofnunarinnar er „hlutfall þeirra sem kynþroskast og leita upp í á“ ein breytistærðin yfir breytur fyrir síðbúið strok (stór fiskur) og er gert ráð fyrir að 15% fiskanna nái kynþroska og gangi upp í ár. Ekki kemur fram hvernig sú tala er valin eða við hvaða gögn hún styðst. Virðist þar vera um verulegt ofmat að ræða enda væri kynþroski gríðarlegt vandamál í laxeldi ef rétt væri. Það er hinsvegar ekki raunin.
Jafnt hlutfall snemmbúinna og síðbúinna stroka
Við útreikninga í áhættumatinu er gert ráð fyrir jöfnu hlutfalli (50:50) snemmbúinna og síðbúinna stroka. Af ástæðum sem nefndar eru hér að ofan er mikið álitaefni hvort hægt og skynsamlegt er að gefa sér það. Aldur fiska, árstími og stærð fiskanna þegar þeir sleppa úr kvíunum eru miklir áhrifavaldar á afdrif þeirra í sjó og þar með á líkur þess að þeir gangi upp í ár og valdi þar usla. Alvarlegustu tilfellin sem líklegust eru til að valda erfðablöndun við villtan fisk eru ef gönguseiði sleppa að vori eða snemmsumars. Eftir þann tíma virðist hættan af stroki fiska vera mun minni. Gönguseiði sem sett eru í kvíar í sumarlok eða að hausti virðast eiga sér litla lífsvon. Sama virðist gilda um stórseiði (500g) sem sett eru út á svipuðum tíma. Stórlax (>900g) er og verður ekki nema að litlu leyti kynþroska sumarið sem hann sleppur. Kynþroska lax sem sleppur skömmu fyrir hrygningu getur hinsvegar skilað sér í laxveiðiár og valdið usla. Því virðist alls ekki greinilegt að hætta á erfðablöndun náttúrulegra laxastofna í ám sé í línulegu sambandi við fjölda fiska sem strjúka.
Hér verður ekki fjallað um aðra þætti í áhættumatsskýrslunni. Þó er þar tekið fram að um lifandi plagg sé að ræða og áhættumatið verði endurskoðað eins oft og þurfa þykir. Það er ekki fráleit hugmynd. Tillögur áhættumatsskýrslunnar eru að banna eldi á kvíum í Ísafjarðardjúpi, Stöðvarfirði og takmarka eldi í Berufirði. Fróðlegt væri að skoða hver útkoma áhættumatslíkansins er ef skilyrði eru sett um að leyfilegur útsetningartími gönguseiða og stórseiða á þessum svæðum sé takmarkaður við lok sumars og haust, í ljósi upplýsinga um að þau eigi sér lítillar lífs von í náttúrunni ef þau sleppa. Jafnframt væri kveðið á um að fullnægjandi lýsing væri í kvíunum til að hindra kynþroska. Verspoor et al., (2006) telur að vel skilgreind eldissvæði með nægilegri fjarlægð frá laxveiðiám hvar eldið er stundað í traustum búnaði geti minnkað líkur á sleppingum eldisfiskska og áhrifum þeirra á villta laxastofna. Það finnst mér einnig líklegt.
Höfundur er lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum.
Heimildir
Abrantes,K.G.,Lyle,J.M.,Nichols,P.D.,andSemmens,J.M.2011.Do exotic salmonids feed on native fauna after escaping from aquaculture cages in Tasmania, Australia? Canadian Journal of Fisheries and Aquatic Sciences, 68: 1539–1551.
Bolstad, G. H., Kjetil Hindar, Grethe Robertsen, Bror Jonsson, Harald Sægrov, Ola H. Diserud, Peder Fiske, Arne J. Jensen, Kurt Urdal, Tor F. Næsje, Bjørn T. Barlaup, Bjørn Florø-Larsen, Håvard Lo, Eero Niemelä & Sten Karlsson. 2017. Gene flow from domesticated escapes alters the life history of wild Atlantic salmon. Nature Ecology & Evolution 1, Article number: 0124 (2017). doi:10.1038/s41559-017-0124
Chittenden CM, Rikardsen AH, Skilbrei OT, Davidsen JG, Halttunen E, Skardhamar J, Scott McKinley R (2011) An effective method for the recapture of escaped farmed salmon. Aquacult Environ Interact 1:215-224. https://doi.org/10.3354/aei0002
Fiske, P., Lund, R. A., Østborg, G. M., and Fløystad, L. 2001. Rømt oppdrettslaks i sjø- og elvefisket i a˚rene 1989-2000. NINA Oppdragsmelding, 704: 1-26.
Fleming, I. A., Hindar, K., Mjolnerod, I. B., Jonsson, B., Balstad, T., & Lamberg, A. (2000). Lifetime success and interactions of farm salmon invading a native population. Proceedings of the Royal Society of London Series B-Biological Sciences, 267, 1517–1523.
Fleming, I. A., Jonsson, B., Gross, M. R., & Lamberg, A. (1996). An experimental study of the reproductive behaviour and success of farmed and wild Atlantic salmon (Salmo salar). Journal of Applied Ecology, 33, 893–905.
Fleming, I. A., Lamberg, A., & Jonsson, B. (1997). Effects of early experience on the reproductive performance of Atlantic salmon. Behavioral Ecology, 8, 470–480.
Glover, K. A., Pertoldi, C., Besnier, F., Wennevik, V., Kent, M., and Skaala, Ø. (2013). Atlantic salmon
populations invaded by farmed escapees: quantifying genetic introgression with a Bayesian approach and SNPs. BMC Genetics, 14: 4.
Glover, K. A., Skaala, O., Sovik, A. G. E., & Helle, T. A. (2011). Genetic differentiation among Atlantic salmon reared in sea-cages reveals a nonrandom distribution of genetic material from a breeding programme to commercial production. Aquaculture Research, 42, 1323–1331.
Glover, K. A., Quintela, M.,Wennevik, V., Besnier, F., Sørvik, A.G.E., and Skaala, Ø. (2012). Three decades of farmed escapees in the wild: A spatio-temporal analysis of population genetic structure throughout Norway. PLoS ONE, 7: e43129.
Guðni Guðbergsson, Þórólfur Antonsson og Sigurður Már Einarsson. 2011, Fiskrækt með seiðasleppingum. Stefna Veiðimálastofnunar. Niðurstöður fagfunda, samantekt: VMST/11059 Desember 2011).
Hansen, L. P. 2006. Migration and survival of farmed Atlantic salmon (Salmo salar L.) released from two Norwegian fish farms. ICES Journal of Marine Science, 63: 1211–1217.
Hansen, L.P. and Jonsson, B. 1989. Salmon ranching experiments in the river Imsa: Effect of timing of Atlantic salmon (Salmo salar) smolt migration on survival to adults. Aquaculture 82:367-373.
Hansen, L.P. and Jonsson, B. 1991a. The timing of Atlantic salmon smolt and post-smolt release on the distribution of adult return. Aquaculture 98:61-71.
Hansen, L. P., and Youngson, A. F. 2010. Dispersal of large farmed Atlantic salmon, Salmo salar, from simulated escapes at fish farms in Norway and Scotland. Fisheries Management and Ecology, 17:
28–32.
Hansen, T. J. Per Gunnar Fjelldal, Ole Folkedal, Tone Vågseth, Frode Oppedal. 2017. Effects of light source and intensity on sexual maturation, growth and swimming behaviour of Atlantic salmon in sea cages. Aquacult Environ Interact. Vol. 9: 193–204,
Harmon, P.R., B.D. Glebe and R.H. Peterson. 2003. The effect of photoperiod on growth and maturation of Atlantic salmon (Salmo salar) in the Bay of Fundy. Project of the Aquaculture Collaborative Research and Development Program. Can. Tech. Rep. Fish. Aquat. Sci. 2458: iv + 16 p.
Hislop, J. R. G., and Webb, J. H. 1992. Escaped farmed Atlantic salmon, Salmo salar L., feeding in Scottish coastal waters. Aquaculture and Fishery Management, 23: 721–723.
Iversen, M., Myhr, A. I. & Wargelius A., 2016. Approaches for delaying sexual maturation in salmon and their possible ecological and ethical implications, Journal of Applied Aquaculture, Volume 28, Issue 4
Jonsson, B., and Jonsson, N. 2006. Cultured Atlantic salmon in nature: a review of their ecology and interaction with wild fish.ICESJourna lof Marine Science, 63: 1162–1181.
Jonsson, N., Jonsson, B., and Hansen, L. P. 2003. Marine survival and growth of wild and released hatchery-reared Atlantic salmon. Journal of Applied Ecology, 40: 900-911.
Keffer, M.L. & Caudill, C.C., 2014. Homing and straying by anadromous salmonids: a review of mechanisms and rates. Rev Fish Biol Fisheries, 24:333-368
Leclercq, E., J.F. Taylor, M. Sprague and H. Migaud. 2011. The potential of alternative lighting‐systems to suppress pre‐harvest sexual maturation of 1+ Atlantic salmon (Salmo salar) post‐smolts reared in commercial sea‐cages. Aquacultural Engineering, Volume 44, Issue 2, Pages 35‐47
Moe, K., Naesje, T. F., Haugen, T. O., Ulvan, E. M., Aronsen, T., Sandnes, T., & Thorstad, E. B. (2016). Area use and movement patterns of wild and escaped farmed Atlantic salmon before and during spawning in a large Norwegian river. Aquaculture Environment Interactions, 8, 77–88.
Piggins, D. J., and Mills, C. P. R. 1985. Comparative aspects of the biology of naturally produced and hatchery-reared Atlantic salmon smolts (Salmo salar L.). Aquaculture, 45: 321-333.
Magnús Jóhannsson og Sigurður Guðjónsson 1996. Fiskrækt. Freyr. 11:463-471.
Olsen, R. E., and Skilbrei, O. T. 2010. Feeding preference of recaptured Atlantic salmon Salmo salar following simulated escape from fish pens during autumn. Aquaculture Environment Interactions, 1: 167–174.
F. Oppedal, G. L. Taranger, J-E. Juell, T. Hansen., 1999. Growth, osmoregulation and sexual maturation of underyearling Atlantic salmon smolt Salmo salar L. exposed to different intensities of continuous light in sea cages Aquaculture research, 30 (7), 491-499
Saloniemi, I., Jokikokko, E., Kallio-Nybreg, I., Jutila, E., and Pasanen, P. 2004. Survival of reared and wild Atlantic salmon smolts: size matters more in bad years. ICES Journal of Marine
Science, 61: 782-787.
Skilbrei, O. T. 2010a. Reduced migratory performance of farmed Atlantic salmon post-smolts from a simulated escape during autumn. Aquaculture Environment Interactions, 1: 117–125.
Skilbrei, O. T. 2010b. Adult recaptures of farmed Atlantic salmon postsmolts allowedto escape during summer. AquacultureEnvironment Interactions, 1: 147–153.
Skilbrei, O. T. 2013. Migratory behaviour and ocean survival of escaped out-of-season smolts of farmed Atlantic salmon Salmo salar. Aquaculture Environment Interactions, 3: 213–221.
Skilbrei,O.T.,Finstad,B.,Urdal,K.,Bakke,G.,Kroglund,F.,andStrand, R. 2013. Impact of early salmon louse, Lepeophtheirus salmonis, infestation and differences in survival and marine growth of
sea-ranched Atlantic salmon, Salmo salar L., smolts 1997–2009. Journal of Fish Diseases, 36: 249–260.
Skilbrei, O.T., Heino, M., & Svåsand, T., 2015, Using simulated escape events to assess the annual numbers and destinies of escaped farmed Atlantic salmon of different life stages from farm sites in Norway, ICES Journal of Marine Science, 72(2), 670–685. doi:10.1093/icesjms/fsu133
Skilbrei,O.T.,Holst,J.C.,Asplin,L.,andHolm,M.2009.Verticalmovements of “escaped” farmed Atlantic salmon (Salmo salar) - a simulation study in a western Norwegian fjord. ICES Journal of Marine Sciences, 66: 278–288.
Skilbrei, O. T., Holst, J. C., Asplin, L., and Mortensen, S. 2010. Horizontal movements of simulated escaped farmed Atlantic salmon (Salmo salar) in a western Norwegian fjord. ICES Journal
of Marine Science, 67: 1206–1215.
Skilbrei,O.T.,andJørgensen,T.2010.Recaptureofculturedsalmonfollowing a large-scale escape experiment. Aquaculture Environment Interactions, 1: 107–115.
Skilbrei, O. T., Skulstad, O. F., and Hansen, T. 2014. The production regime influences the migratory behaviour of escaped farmed Atlantic salmon (Salmo salar L.). Aquaculture, 424–425: 146–150.
Skilbrei, O. T., and Wennevik, V. 2006. The use of catch statistics to monitor the abundance of escaped farmed Atlantic salmon and rainbow trout in the sea. ICES Journal of Marine Science, 63:
1190–1200.
Solem, Ø., Hedger, R. D., Urke, H. A., Kristensen, T., Økland, F., Ulvan, E. M., and Uglem, I. 2013. Movements and dispersal of farmed Atlantic salmon following a simulated-escape event.
Environmental Biology of Fishes, 96: 927–939.
Soto, D., Jara, F., and Moreno, C. 2001. Escaped salmon in the inner seas, southern Chile: facing ecological and social conflicts. Ecological Applications, 11: 1750-1762
Taranger, G.L., Svåsand, T., Kvamme B.O., Kristiansen T. S. and Boxaspen K.K. (2012). Risk assessment of Norwegian aquaculture [Risikovurdering norsk fiskeoppdrett] (In Norwegian). Fisken og havet, særnummer 2-2012. 131 pp.
Taranger, G.L., Svåsand, T., Kvamme, B.O., Kristiansen T.S., and Boxaspen, K. (Eds) (2014). Risk assessment of Norwegian aquaculture 2013 (in Norwegian). Fisken og Havet, Særnummer 2-2014.
Taranger, G.L., Manuel Carrillo, Rüdiger W. Schulz, Pascal Fontaine, Silvia Zanuy, Alicia Felip ,
Finn-Arne Weltzien, Sylvie Dufour, Ørjan Karlsen, Birgitta Norberg, Eva Andersson, Tom Hansen. 2010, Control of puberty in farmed fish, General and Comparative Endocrinology 165, 483–515
Thorpe, J. E., Metcalfe, N. B., and Fraser, N. H. C. 1994. Temperature dependence of the switch between nocturnal and diurnal smolt migration in Atlantic salmon. In High-Performance Fish,
pp. 83-86. Ed. by D. D. MacKinlay. Fish Physiology Association, Vancouver, Canada.
Thorstad, E. B., Heggberget, T. G., & Okland, F. (1998). Migratory behaviour of adult wild and escaped farmed Atlantic salmon, Salmo salar L., before, during and after spawning in a Norwegian river. Aquaculture Research, 29, 419–428.
VERSPOOR, E., DONAGHY, M. & KNOX, D. 2006. The disruption of small scale genetic structuring of Atlantic salmon within a river by farm escapes. Journal of Fish Biology, 69, 246-246.
Weir, L. K., Hutchings, J. A., Fleming, I. A., & Einum, S. (2004). Dominance relationships and behavioural correlates of individual spawning success in farmed and wild male Atlantic salmon, Salmo salar. Journal of Animal Ecology, 73, 1069–1079.