Fyrir aldarfjórðungi fór að bera á svonefndri „nýfrjálshyggju". Hinir ágætustu menn lentu í því að trúa ekki bara á rök sín og fóru að rökstyðja trú sína. Átrúnaðargoðin von Mises, von Hayek og Friedman voru hagfræðingar sem höfðu allir hallast að sömu hugmyndafræði. Henni má ekki rugla saman við hagfræði. Þeir glímdu við spurninguna um hvernig hámarka megi velsæld í hundruð milljóna manna samfélögum veraldarinnar, þar sem ekki er unnt að huga að velferð hvers og eins og jafnvel ekki til nein þjóðskrá. Þar geta menn ekki annað en hámarkað hagvöxt í von um að lágmarka fjölda þeirra sem þurfa að liggja á götum úti og „éta það sem úti frýs". Það hefur gengið eftir með hagvöxtinn, en ekki hið síðarnefnda, sem greinilega er talið skipta minna máli. „Brauðmolakenningin“ um að molarnir sem hrynji af borðum auðmanna nægi til að brauðfæða okkur hin, „hvolpana“, strandaði á því að molarnir hrundu alla leiðina niður í Karabíska hafið. Hugmyndafræði er til réttlætingar á stjórnmálastefnum. Sívaxandi samþjöppun auðs í veröldinni veldur hinum sanntrúuðu engum áhyggjum.
Tröllatrú
Nýfrjálshyggjunni var troðið upp á okkar litla, norræna velferðarsamfélag, sem hafði reyndar slegið öll met meðal vestrænna þjóða í hagvexti og velmegun og þurfti ekki á henni að halda. Hvergi á byggðu bóli var jöfnuður meiri: Læknar, flugstjórar og forstjórar létu sér nægja fimmföld lægstu laun. „Blandaða hagkerfið" norræna, sem best hefur reynst, var nú uppnefnt „moðið á miðjunni". Fall kommúnismans varð vatn á myllu nýfrjálshyggju hér eins og annars staðar. Áratugurinn 1990-2000 varð efnahagsleg sigurganga, ekki síst vegna hagræðingar sem framseljanlegur kvóti olli í útgerðinni. Forstjórarnir brutust úr samflotinu við lækna og flugstjóra, enda ráða þeir launum sínum sjálfir.
Tröllatrú á einkavæðingu, sem studd var rökum nýfrjálshyggju, olli því að allt bankakerfi þjóðarinnar var sett í hendurnar á mönnum sem ekki voru fagmenn, ekki „bankamenn". Það þarf sérstök réttindi til að stjórna bílum, skipum og flugvélum, en banka, með allt sparifé landsmanna innanborðs, má setja í hendurnar á hverjum sem er. Peningum fylgja völd. Mestu valdastofnanir efnahagslífsins komust í hendurnar á mönnum sem höfðu persónulega hagsmuni í fyrirrúmi, fundu ekki til þeirra ábyrgðar sem þarf til að fara með sparifé almennings og tóku það til eigin nota.
Hollenska veikin
Trúarbrögð eru erfið viðureignar, af því að sanntrúaðir eru eðli máls skv. ekki reiðubúnir að ganga af trú sinni. Það er guðsþakkarvert að nokkrir þeirra sem fylgdu nýfrjálshyggju og voru í mikilvægum embættum í október 2008, skyldu víkja frá trúarsetningunum og beita sér fyrir að gert væri þess í stað það sem var skynsamlegt. Reynt var að hnekkja Neyðarlögunum, en fjölskipaður dómur Hæstaréttar lét þau standa. Það segir svo sína sögu að engin mistök voru viðurkennd opinberlega, það má ekki gera í íslenskri pólitík, engri stefnu var því breytt. Þess vegna „veður á súðum“ á ný í efnahagslífinu þessi misserin. Hin svonefnda ,,Hollenska veiki" hrjáir hagkerfið, því uppgrip í ferðaþjónustu hafa styrkt krónuna svo mjög að nú þrengir að öðrum gjaldeyrisaflandi greinum. Tröllatrú á afskiptaleysi er enn ráðandi. M.a.s. vinstri meirihlutinn í Reykjavík hefur gengið nýfrjálshyggjunni á hönd með hirðuleysi um hagsmuni ungra borgarbúa í húsnæðismálum. Sem fyrr mun þó einhvern tíma slá í bakseglin. Vaki þeirra breytinga gæti komið utan frá. Enn á ný mun kaupmáttur rýrna og skuldugar fjölskyldur sem neyðst hafa til að kaupa íbúðarhúsnæði á háu verði missa heimili sín vegna lækkandi gengis og kaupmáttar og hækkandi vísitölubundinna lána. Hvenær veit enginn, en það mun gerast. Það á að vera sárt að læra ekki af reynslunni. Það er verst að sársaukinn kemur ekki alltaf í réttan stað niður.
Annarra manna fé
Upp úr miðjum Viðreisnar-áratugnum byrjaði Jónas Haralz að nota hugtakið „frjálshyggja". Ólafur Björnsson prófessor og alþm. var þá áhrifamestur um efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins, en Jónas varð arftaki hans þegar Ólafur dró sig í hlé frá stjórnmálum. Báðir lögðu þeir þunga áherslu á að ríkisfjármálum og peningamálum verði að stjórna. Annar þeirra sagði það m.a.s. jafn mikilvægt lögreglu. Eini sjáanlegi munurinn á „frjálshyggju" þeirra og „nýfrjálshyggju" síðari tíma er einmitt þessi: Það er ekki mögulegt að láta framboð og eftirspurn leita jafnvægis á markaði með peninga. Peningar eru ekki „vara“ sem spurn eftir dvínar þegar þörf fyrir hana hefur verið mætt. Þeir eru ávísun á hvaða verðmæti sem er. Ómetanleg sókn er í þá. Eftirspurnin er líka eftir ,,annarra manna fé". Henni er aldrei unnt að fullnægja. Margaret Thatcher var orðheppin og sagði vanda sósíalismans vera þann, að menn yrðu að lokum uppiskroppa með annarra manna fé. Hún slapp vel frá þessu því það er sama hver stefnan er, alltaf vilja margir komast í „annarra manna fé", eins og dæmin sanna. Hér á landi komst t.d. einn maður yfir 1.000 milljarða af „annarra manna fé“ fyrir „hrun“ fyrir framan nefið á afskiptalausum stjórnvöldum.
Lærum af reynslunni
Skylt er að læra af reynslunni. Að horfa aðgerðalaus á hagstjórnina fara úr böndum aðeins áratug eftir að hér varð hrun, mesta niðursveifla og harkalegasta brotlending í manna minnum, er algjörlega óásættanlegt. Nýfrjálshyggjan setur allt traust sitt á markaði. Talsmönnum hennar hugkvæmdist ekki að kanna hvort sæmilega virkir markaðir væru til staðar áður en henni var troðið upp á íslenska velferðarsamfélagið. Það eru helst markaðir með notaða bíla og notaðar fasteignir sem virka sæmilega. Flestir aðrir eru fákeppnismarkaðir, sumir með markaðsráðandi aðilum. Samkeppnisyfirvöldin eru vön að samþykkja góðfúslega sérhverja ósk um samruna og aukna fákeppni með skilyrðum sem fljótt gleymast. Þau hafa allar götur frá því að samkeppnislög tóku gildi vanrækt að gæta hagsmuna neytenda. Þau hafa brugðist. Fyrir bragðið eru nær allir helstu markaðir landsins illa verkandi fákeppnismarkaðir og sjálftaka eigenda og stjórnenda á fjármunum viðskiptavinanna, almennings, orðin meginregla.
Ég nefndi að menn hefðu borið gæfu til að hverfa frá trúarsetningunum og gera þess í stað það sem var skynsamlegt. Nú væri skynsamlegt að viðurkenna að tilrauninni um nýfrjálshyggjuna er lokið. Það ætti Sjálfstæðisflokkurinn að gera á næsta Landsfundi. Gamla sænska velferðarkerfið, blandaða hagkerfið og ,,moðið á miðjunni“ er þrátt fyrir alla sína galla það skásta sem við þekkjum.
Höfundur er viðskiptafræðingur.