Á Samfylkingin að skipta um nafn? Nokkur umræða hefur skapast um þessa spurningu síðustu vikur og líklegt að málið verði rætt á landsfundi flokksins síðar í haust. Nafngiftir stjórnmálaflokka eru sjaldnast nein tilviljun, þó óneitanlega séu valkostirnir oft takmarkaðir. Björt framtíð og Viðreisn hefðu sjálfsagt frekar viljað bera nafnið Frjálslyndi flokkurinn, ef það nafn hefði ekki verið frátekið af flokki sem undir lokin var þekktur fyrir flest annað en frjálslyndi. Framsóknarflokkurinn er dæmi um vel heppnað nafn, en Bændaflokkurinn hefði eflaust verið nærtækara nafn við stofnun flokksins. Systurflokkar Framsóknarflokksins á Norðurlöndum kenndu sig margir við bændur, en þegar bændum fór fækkandi eftir miðja síðustu öld skiptu þeir um nafn og kenna sig nú við miðju stjórnmálanna. Flestir stjórnmálaflokkar sem lifað hafa áratugum saman voru stofnaðir utan um gildismat og hugmyndafræði, sem oft komu fram í nafni þeirra. Þannig höfum við íhaldsflokka, frjálslynda flokka og jafnaðarmannaflokka víða um lönd. Kommúnistaflokkar skiptu flestir um nafn eftir hrun Sovétríkjanna og kenna sig gjarnan við stöðu sína yst á vinstri vængnum. Áhugaverðustu dæmin um nafnaskipti rótgróinna flokka síðustu árin eru New-Labour á Bretlandi og Nya-Moderaterna í Svíþjóð, en nafngiftirnar voru hluti af hugmyndafræðilegri yfirhalningu þessara flokka.
Með stofnun Samfylkingarinnar átti að fylkja liði gegn Sjálfstæðisflokknum, skapa trúverðugan valkost við Sjálfstæðisflokkinn og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokk Davíðs Oddssonar (eins og kom á daginn).Miðað við umræðuna virðist sem áhuginn sé helst á því að fara frá Samfylkingunni til nafns sem vísi beint til hugmyndafræðinnar með nafngiftum á borð við Jafnaðarmannaflokkur Ísland (sem nú þegar er hluti af nafni flokksins), Jafnaðarmannaflokkurinn eða Jafnaðarflokkurinn. Nafnið Samfylking á rætur sínar í deilum kommúnista og jafnaðarmanna frá fjórða áratug tuttugustu aldar og vísaði þá til samfylkingar gegn fasisma. Síðan þá lifðu draumar – kannski draumórar – um sameiningu vinstri manna góðu lífi. Forsendur fyrir tilurð Samfylkingarinnar voru að minnsta kosti þrjár: Í fyrsta lagi lok kalda stríðsins og þeirra deilumála sem því fylgdu, í öðru lagi góður árangur Reykjavíkurlistans og í þriðja lagi slæmt gengi þeirra þriggja meginflokka sem mynduðu Samfylkinguna. Með stofnun Samfylkingarinnar átti að fylkja liði gegn Sjálfstæðisflokknum, skapa trúverðugan valkost við Sjálfstæðisflokkinn og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokk Davíðs Oddssonar (eins og kom á daginn). Nafnið Samfylking vísar þannig fyrst og fremst til þess gjörnings að sameina ólíka flokka, fremur en hugmyndafræði eða gildismat. Það þarf því ekki að koma á óvart að eftir því sem lengra líður frá upphaflegri samfylkingu ólíkra stjórnmálaflokka þá dofni áhuginn á nafninu.
Það sem vekur athygli mína og nokkra undrun er að samhliða umræðu um nafnbreytinguna þá er engin umræða um stefnu flokksins og hugmyndafræði. Eftir að hafa beðið afhroð í tveimur kosningum í röð, virðast forystufólk flokksins enn halda að um einhverskonar misskilning sé að ræða. Ef nafnbreyting á flokknum á að vera hluti af uppbyggingarstarfi eftir tvo ósigra í röð, verður að sjálfsögðu að taka til í stefnumálum og áherslum flokksins. Slík tiltekt fór ekki fram eftir ósigurinn mikla 2013 og ekkert bendir til að slík tiltekt sé í spilunum nú. Það blasir við að Samfylkingin er um margt hugmyndafræðilega staðnaður flokkur, einhverskonar daufleg útgáfa af Jóni Baldvin Hannibalssyni árgerð 1995. Samfylkingin virðist þannig halda að verðtrygging sé jafn mikilvæg jafnaðarstefnunni og almannatryggingar, þó mér vitanlega hafi enginn jafnaðar(manna)flokkur í heiminum verðtryggingu á stefnu sinni.
Tíu árum eftir bankahrun veit enginn hvaða stefnu Samfylkingin hefur í bankamálum, jafnvel þó flokknum þyki gaman að tala um þau mál, haldi jafnvel fundi með lærðum prófessorum um málið. Staða neytenda á fjármálamarkaði, ekki hækkar það mál blóðþrýstinginn hjá flokksmönnum. Mest af öllu óttast Samfylkingin popúlistastimpilinn, sem margt flokksfólk notar óspart á aðra. Margt flokksfólk dreymir um flokkinn sem einhverskonar bleika útgáfu af Viðreisn. Að hlusta á Viðreisn tala er raunar ekki svo ólíkt Samfylkingunni. Af því má draga sínar ályktanir: Því betur sem þjóðin kynnist Viðreisn, því minni er ánægjan. Samfylkingarfólk mætti hafa í huga að popúlismi dafnar best þar sem hefðbundin stjórnmál staðna og missa tengslin við kjósendur. Kosning Donalds Trump er ágætt dæmi um þetta. Á Íslandi er nóg af flokkum með popúlísk einkenni, stundum með ágætt fylgi. Þar á meðal eru Píratar, Flokkur fólksins, Dögun og Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs. Allir hafa þeir hirt fylgi af Samfylkingunni nokkuð auðveldlega. Vinstri græn hafa einnig fyrirhafnarlítið náð fylgi af Samfylkingunni, sem er athyglisvert í ljósi þess að margt flokksfólk telur vinstrivillu helsta mein Samfylkingarinnar.
Sjálfur hef ég ekki sterkar skoðanir á því hvort skipta eigi um nafn á Samfylkingunni. Það sem mælir með nafninu er auðvitað að enn er þörf fyrir samfylkingu gegn sterkri stöðu Sjálfstæðisflokksins. Í raun er hin pólitíska staða ekki svo ólík því sem hún var eftir kosningarnar 1995. Raunsætt mat segir okkur að Bjarni Benediktsson verði ekki aðeins forsætisráðherra út þetta kjörtímabil, heldur það næsta líka. Spurningin er bara með hverjum hann kýs að stjórna. Til þess að breyta þessu er nauðsynlegt að Samfylkingin fari að taka þátt í stjórnmálum að nýju, endurmeti stefnu sína og opni sig betur fyrir straumum tímans.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.