Það er virkilega gaman að fylgjast með því hvernig gamlir nemendur manns spjara sig í lífinu. Þú ert stjórnmálafræðingur og ég hef oft dáðst af greinum þínum um stjórnmál. Einstaka sinnum hefur mér samt fundist að þær séu of litaðar af því að þú ert Samfylkingarmaður. En það er auðvelt að horfa framhjá því, þegar þú færir góð rök fyrir máli þínu.
Ég hef nýlokið að lesa grein þína Að skipta um nafn eða að skipta um stefnu. Mér finnst greinin nokkuð góð. Ég er sammála þér um að stefna stjórnmálaflokks sé mikilvægari heldur en nafn hans – svo fremi að nafnið taki tillit til stefnumálanna í nútíð og fortíð.
En ég hnaut um setningar aftarlega í greininni – en þar skrifar þú:
„Mest af öllu óttast Samfylkingin popúlistastimpilinn, sem margt flokksfólk notar óspart á aðra.“
Ég get tekið undir með þér að fólk í stjórnmálum notar þennan stimpil óspart. Reyndar vil ég heldur segja að – sumt – fólk notar hann óspart. Nokkrum línum neðar skrifar þú:
Á Íslandi er nóg af flokkum með popúlísk einkenni, stundum með ágætt fylgi. Þar á meðal eru Píratar, Flokkur fólksins, Dögun og Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs.“
Hér finnst mér þú skipa þér í hóp þeirra sem stimpla aðra flokka óspart sem popúlíska. Fullyrðing þín um Dögun á illa við, en helstu stefnumál Dögunar fyrir síðustu kosningar voru:
- lýðræðisumbætur,
- uppstokkun á stjórn fiskveiða,
- afnám verðtryggingar ,
- stofnun samfélagsbanka,
- eitt sameinað lífeyriskerfi,
- viðunandi framfærsla fyrir alla,
- verðugt húsnæði fyrir alla – fjölga valkostum á húsnæðismarkaði með því að skapa rými fyrir húsnæðis- og leiguréttarsamvinnufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
- Uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá.
- Tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum.
- Endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.
- Efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku.
- Endurvekja traust og tækla spillingu.
Að segja að þessir stjórnmálaflokkar byggi á popúlisma er álíka ósanngjarnt og að segja að Samfylkingarmenn séu popúlistar.
Það fylgir því mikil ábyrgð að stimpla flokka sem popúlíska flokka. Sérstaklega þar sem við höfum svona stórkallaleg dæmi um popúlíska stjórnmálamenn eins og Donald Trump og Marine Le Pen.
Ég vil að lokum óska þér, Birgir, góðra greina í framtíðinni.