Kveðjum svartolíuna

Umhverfis- og auðlindaráðherra vill að íslensk skip skipti út svartolíu fyrir minna megnandi eldsneyti. Það muni bæta loftgæði og ímynd Íslands.

Auglýsing

Að mati Umhverf­is­stofn­unar Evr­ópu eru loft­gæði á Íslandi ein þau bestu í Evr­ópu. Við viljum að sjálf­sögðu halda þeim og eigum ekki að láta heilsu­spill­andi loft­mengun í léttu rúmi liggja. Það gildir um mengun frá bíl­um, verk­smiðjum og jarð­hita­virkj­unum – og á að sjálf­sögðu einnig við um skip. 

Áhrif útblást­urs frá skipum á loft­gæði í þétt­býli hafa eflaust ekki verið skoðuð nægj­an­lega hingað til. Með fjölgun skemmti­ferða­skipa sem hafa við­komu í höfn­um víðs veg­ar um landið er tíma­bært að meta ítar­legar áhrif útblást­urs frá þeim, ekki síst á loft­gæði og heilsu­far íbúa í nágrenni hafna. Umhverf­is­stofnun hefur þegar til­kynnt að hún hygg­ist auka við mæl­ingar á loft­gæðum í nágrenni hafn­ar­svæða svo hægt sé að grípa til aðgerða ef nið­ur­stöður sýna að loft­mengun er umfram leyfi­leg við­mið. Ég mun styðja stofn­un­ina í að efla vöktun og við­brögð í þessum efn­um.

Það er ástæða til að taka fram að skip hafa ekki leyfi til að brenna svartolíu við bryggju heldur verða þau að nota olíu sem hefur 0,1% eða lægra brenni­steins­inni­hald eða tengj­ast land­raf­magni. Það breytir þó ekki þeirri stað­reynd að bruni þeirrar olíu veldur einnig mengun og útblástur frá risa­stórum skipum með marga reyk­háfa hefur slæm áhrif á loft­gæði í nærum­hverfi. Því þurfum við að breyta. Í aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­málum sem nú er í vinnslu er til dæmis verið að skoða hvernig megi raf­væða helstu hafnir lands­ins svo skip geti raf­tengst við bryggju. 

Auglýsing

Ég hyggst beita mér fyrir að notkun svartolíu í íslenskri lög­sögu verði hætt. Fyrir því liggja veiga­mikil rök. Losun brenni­steins og fleiri meng­un­ar­efna er meiri frá svartolíu en öðrum helstu gerðum elds­neyt­is. Lofts­lags­á­hrif olí­unnar eru talin vera meiri en af öðrum gerðum elds­neyt­is. Sót­mengun af völdum svartolíu eykur bráðnun íss og hreinsun svartolíu er sér­stak­lega erfið á köldum svæð­um. Alþjóða sigl­inga­mála­stofn­unin (IMO) setti þannig nýverið fram til­lögur um hertar reglur varð­andi notkun svartolíu á heim­skauta­svæð­unum og Ísland styður þær heils­hug­ar.

Sam­kvæmt skýrslu Umhverf­is­stofn­unar frá 2016 er um fjórð­ungur orku­notk­unar íslenskra skipa svart­ol­ía. Mark­mið okkar ætti að vera að íslensk skip skipti svartolíu út fyrir minna meng­andi elds­neyti og til lengri tíma að lofts­lagsvænir orku­gjafar séu nýttir í skip­um.

Fyrsta skref í átt að banni á brennslu svartolíu í íslenskri lög­sögu er full­gild­ing VI. við­auka MAR­POL-­samn­ings­ins sem gengur í gegn á næstu vik­um. Þá er hægt að leggja til strang­ari kröfur í íslenskri lög­sögu á vett­vangi IMO. Vert að þó að hafa í huga að það ferli mun taka nokkurn tíma. 

Minni mengun frá skipum bætir loft­gæði og ímynd okkar Íslend­inga sem þjóðar sem heimtir auð úr hreinu hafi. Hér eru starf­andi fyr­ir­tæki sem bjóða upp á lausnir sem draga úr elds­neyt­is­notkun og mengun skipa svo það er ekki eftir neinu að bíða með að gera enn bet­ur.

Höf­undur er umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra.

Meira úr sama flokkiAðsendar greinar