Samkvæmt fjölmiðlum er gert ráð fyrir að 1,2 milljarður manna ferðist frá eigin landi til annars lands á yfirstandandi ári. Árið 1968 nam fjöldi ferðamanna í heiminum öllum hins vegar 60 miljónir. Búast má við að af þessum ferðamönnum komi 2,2 miljónir ferðamanna til Íslands, lands með rétt ríflega 330 þúsund íbúa og mjög litla og veikbyggða innri uppbyggingu.
Þessi gífurlega fjölgun ferðamanna á síðustu hálfri öld hefur haft í för með sér varanlegar breytingar á mannlífið, umhverfið og ekki síst efnahagsmálin. Hryðjuverkamenn hafa séð sér leik á borði, sbr. hryðjuverkin í Frakklandi (Nice og París), Belgíu, Túnis, Egyptalandi og nú síðast í Barcelona.
Einnig má rekja til þessa uppgang allskyns þjóðernissinna og populista, sem kvarta yfir allt of miklum fjölda ferðamanna og bölva svokölluðum ferðaiðnaði. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að líkja þessu við heimsvaldastefnu og eru þá ferðamennirnir í hlutverki heimsvaldasinna. Mótmæli íbúa í Feneyjum, Dubrovnik og Barcelona eru til marks um það. Einnig má minna á umræðuna um flygildin í Central Park í New York og áhrif Airbnb á húsnæðismarkaðinn víða um heim. Hérlendis er slík umræða enn í mýflugumynd en það gæti breyst, stýri yfirvöld ekki atvinnugreininni landsmönnum og gestum þeirra til hagsbóta.
Gestur í eigin landi
Hvergi í heiminum hefur fjölgun ferðamanna verið eins mikil og hérlendis síðasta áratuginn. Ferðamenn voru að jafnaði um 470 þúsund á ári 2007–2010 en fóru í 1,8 miljón árið 2016. Ársfjölgun upp á 40 af hundraði. Á þessu ári er, eins og áður sagði, gert ráð fyrir 2,2 miljónum erlendra ferðamanna til landsins. Árið 2010 fóru 2,1 miljón farþega um Keflavíkurflugvöll en 6,8 miljónir árið 2016. Nú eru 12 ferðamenn á móti hverjum íbúa landsins, þ.e. 12:1.
Flestir ferðamennirnir koma frá Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi, en ferðamönnum frá Norðurlöndum og evrulöndunum hefur fækkað. Hins vegar hefur orðið talsverð fjölgun á Kínverjum, sem má gera ráð fyrir að haldi áfram. Þessi mikla fjölgun ferðamanna hefur haft mikil áhrif á efnahagslífið. Hlutfall ferðaþjónustunnar hefur vaxið úr 8 af hundraði á fyrsta tug aldarinnar í 25 af hundraði og ef flugfélögin eru talin með nema útflutningstekjur af ferðaþjónustunni 2/5 af heildarútflutningi, sem er meira en allar tekjur af útflutningi sjávarfangs, áls og kísils til samans. Árið 2016 námu tekjur af ferðaþjónustunni 12,1 af hundraði landsframleiðslunnar og samkvæmt World Travel & Tourism Council (WTTC) námu þær 34 af hundraði ef allt er talið með. Annars staðar í Evrópu vegur ferðaþjónustan á milli 7 og 8 af hundraði landsframleiðslunnar. Það er því ljóst, að hérlendis skiptir ferðaþjónustan verulegu máli út frá efnahagslegu sjónarmiði en helmingur allra starfa sem hafa skapast á Íslandi síðan 2010 tengjast ferðaþjónustu á einn eða annan hátt.
Árið 2016 markar ákveðin tímamót í greininni vegna offjárfestingar í bílaleigubílum og rútum og markviss stefnuleysis stjórnvalda. Komið er að endurskipulagningu og sameiningu fyrirtækja á meðan beðið er eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í greininni.
Hvað olli flóðbylgjunni?
Hver er drifkrafturinn á bak við þennan mikla vöxt ferðaþjónustunnar? Gosið í Eyjafjallajökli og fall krónunnar í kjölfar Hrunsins eiga vissulega mikinn þátt í því en segir samt ekki alla söguna því krónan hefur risið hratt á undanförnum mánuðum og fennt hefur yfir jökulinn. Verðlag hérlendis hefur einnig hækkað mikið á síðasta ári, einkum verðlag á veitingahúsum og gistingu, sem er tæplega 50 prósent hærra en í samanburðarlöndunum. Það sama verður sagt um aðra þjónustu, svo ekki sé minnst á áfengi sem er margfalt dýrara hérlendis. Markaðurinn hefur einnig breyst. Norðurljósin eru orðinn stór markaður en þar gætir mikillar samkeppni, einkum frá Tromsö í Noregi. Þar er mun meira myrkur og tímabilið lengra en hér Samkeppnishæfni Íslands gagnvart samkeppnislöndunum, einkum Skandinavíu og Kanada, hefur því versnað, en fyrrnefnd svæði hafa lagað til hjá sér með markvissri stefnu stjórnvalda.
Þau atriði sem einkum heyrast eru mikil markaðssetning stjórnvalda—Inspired by Iceland, sem og hinna tveggja íslensku flugfélaga—Icelandair og Wowair, einkum í Norður-Ameríku en einnig í Bretlandi og Frakklandi. Þá hefur flugfélögum fjölgað úr sjö árið 2009 í 26 árið 2017 og tíðni beins flugs hefur aukist í meira en 80 tengingar. Líklega hafa yfirstandandi framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli einnig haft sitt að segja. Þá má nefna hryðjuverkaógnina en ferðamenn spyrja gjarna um það hvar lögreglan sé eða hvort hér sé virkilega enginn her.
Hvert skal haldið?
Meiri breytingar hafa orðið á ferðamennskunni á þessu ári en almennt var spáð. Dvalartími ferðalanga hefur styst og eyðsla þeirra minnkað, en hverjar eru horfurnar og hvert skal haldið? Helsti vaxtarbroddurinn á heimsvísu er í ævintýra- og glæfraferðum. Þar stendur Ísland vel að vígi frá náttúrunnar hendi. Ekki verður lengur við það unað að stjórnvöld haldi að sér höndum og láti allt reka á reiðanum. Það þarf að marka stefnu og auka rannsóknir, sem er hlutverk stjórnvalda, annars er hætta á að ferðaþjónustan breytist í fjöldaferðamennsku. Margt bendir til að slíkt sé nú þegar orðið staðreynd. Það þarf að byggja upp þjónustu fyrir ferðamenn, víðar en í Reykjavík, og ekki síst að huga að innri uppbyggingu: laga vegi í nágrenni Reykjavíkur, útrýma einbreiðum brúm, setja upp heilsugæslu á fjölförnum ferðamannastöðum fjarri byggð, s.s. við Jökulsárlón, huga að hreinlætismálum og ekki síst að fjölga í lögreglunni og gera hana sýnilegri svo fátt eitt sé nefnt.
Ferðamenn eru misnæmir fyrir verðhækkunum og gefur auga leið að því tekjuhærri sem þeir eru því minna skiptir verð máli. Hins vegar eru ákveðnir þættir sem fer í taugarnar á mönnum, sama hversu efnaðir þeir eru, og það er okur. Víða eru t.d. samlokur og annar skyndibiti seldur á sama verði og réttir á fyrsta flokks veitingahúsi og svo eru það hreinlætismálin. Að hafa salerni sem tekjulind kemur flestum spánskt fyrir sjónir. Þrjá bandaríkjadali kostar að nota salernin á Þingvöllum og í Hörpu og hafa margir á orði að þetta séu dýrustu salerni sem þeir hafi notað. Hagnaðurinn við salerni er að þau séu notuð, einkum á viðkæmum stöðum eins og á Þingvöllum og ætti notkun þeirra að vera innfalin í bílastæðisgjöldunum. Ef stjórnendur Hörpu vilja ekki að ferðamenn noti salernin þá eiga þeir að loka þeim fyrir öðrum en gestum. Þetta má gera með öðru móti. Í Vík í Mýrdal hefur t.d. verið opnuð ný og glæsileg verslunarmiðstöð með góðri þjónustu fyrir ferðamenn, sem skilar sér í auknum tekjum fyrir verslunina, fleiri störfum í sveitarfélaginu og þar með auknum tekjum skatttekjum fyrir sveitarfélagið.
Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið að halda millilandaflugi og innanlandsflugi aðskildu og að fjölga bílaleigubílum sem mest. Samkvæmt greiningu Íslandsbanka er nú einn af hverjum tíu bílum í landinu bílaleigubíll. Þessi mikla fjölgun hefur kallað á fjölgun og stækkun bílastæða (Seljalandsfoss, Reynisfjara, Skógafoss, Djúpalónssandur ...). Gerð bílastæða kostar sitt og yfirleitt ómögulegt að rukka fyrir þau, þó ekki sé nema vegna staðhátta, en slíkt er einnig dýrt. Kostnaðurinn lendir því á útsvarsgreiðendum sveitarfélagsins, sem sjá ekkert nema aukinn kostnað við fjölgun ferðamanna. Þannig er kynt undir óánægju heimamanna. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum ferðaiðnaðarins hefur að auki fækkað ferðamönnum á helstu ferðamannastöðunum (Gullfoss, Geysir, Þingvellir) utan Reykjavíkur m.v. gullárið 2016 um a.m.k. 20 af hundraði og reikna má með að utan Gullna hringsins sé fækkunin enn meiri. Óbeinn kostnaður samfélagsins vegna þessarar stefnu er þá ótalin, s.s. aukið álag á náttúruna „v/lausagöngu“ ferðamanna, auk slysahættu sem að þeim steðjar, þyngri umferðar á þröngum vegum, sem kallar á aukna lögreglu og síðan álag á heilsugæslu o.s.frv.
Þetta snýst ekki um skattlagningu, heldur skipulag og markmið. Reglur um skattlagningu eru einfaldar og hafa lítið breyst frá því að Jean-Baptiste Colbert, Adam Smith, Lewis Carroll eða James Mirrlees rituðu sín höfuðrit. Þegar stefnuna vantar hins vegar skiptir í reynd litlu máli hvert farið er.
Höfundur er hagfræðingur og sagnfræðingur.